Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-26/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun Sein skil á námsárangri

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 27. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-26/2013.

 

Kæruefni

 

Hinn 20. maí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 1. mars 2013 þar sem synjað var beiðni kæranda um námslán skólaárið 2011-2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. maí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 18. júní 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefið færi á að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust málsskotsnefnd með ódagsettu bréfi í ágúst 2013.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði meistaranám við við erlendan háskóla frá ágúst 2010 og var vorönn 2012 hin síðasta í námi hans. Hann hóf vinnu við lokaverkefni sitt í náminu í febrúar 2012 og var það umfangsmeira en verkefni almennt, þ.e. til 35 ECTS-eininga í stað 30 ECTS-eininga. Af þeirri ástæðu ákvað aðalleiðbeinandi kæranda í náminu að skilafrestur verkefnisins skyldi vera til 31. desember 2012. Kærandi skilaði verkefninu 15. desember 2012 og fór meistaravörn þess fram 15. janúar 2013. Kærandi fékk samdægurs einkunn fyrir lokaverkefnið og var hún birt í tölvukerfi skólans daginn eftir, 16. janúar 2013, og þá samtímis send LÍN með tölvupósti. Með úrskurði stjórn LÍN þann 1. mars 2012 var erindi kæranda um afgreiðslu námsláns vegna námsársins 2011-2012 hafnað. Í röksemdum sínum vísar stjórn LÍN til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2011-2012 komi skýrt fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2013 og eftir þann tíma séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi bendir á að námsframvinda hans hafi verið í eðlilegum farvegi og í samræmi við skipulag skólans og hann hafi ekki búist við öðru en að námsárangur hans myndi skila sér til LÍN á réttum tíma. Leiðbeinandi hans í náminu hafi ákveðið að vegna umfangs lokaverkefnisins skyldi skilafrestur þess vera til 31. desember 2012. Kærandi hafi skilað verkefninu af sér 15. desember 2012, eða 16 dögum fyrir lok skilafrests. Leiðbeinandi hans og prófdómari verkefnisins hafi þá ákveðið að meistaravörn færi fram 15. janúar 2013. Að henni lokinni hafi kærandi sérstaklega beðið um að einkunnin fyrir verkefnið yrði strax sett inn í tölvukerfi skólans, en hún hafi ekki birst þar fyrr en árla 16. janúar 2013 og þá samstundis verið send LÍN með tölvubréfi. Kærandi kveðst enga stjórn hafa haft á framangreindri atburðarrás og allar tímasetningar verið ákveðnar af aðalleiðbeinanda hans og settum prófdómara, eins og staðfest er af fyrirliggjandi yfirlýsingu þeirra í málinu. Kærandi bendir á að hann hafi fengið einkunnina að vörn lokinni 15. janúar 2013, en tölvukerfi skólans hafi ekki boðið upp á annað en birtingu hennar daginn eftir. Þessi ómöguleiki, sem leiddi til þess að námsárangur barst ekki LÍN fyrr en nokkrum klukkustundum of seint, sé ekki á ábyrgð kæranda, sem hafi gert allt sem í hans valdi stóð til þess að flýta fyrir verkefnaskilum og að koma námsárangri til LÍN á tilætluðum tíma. Þannig hafi kærandi reynt að flýta fyrir einkunnargjöf með því að skila verkefninu 16 dögum fyrir uppgefinn tímafrest og með því sérstaklega að óska eftir að einkunn yrði sem fyrst birt í tölvukerfi skólans. Kærandi vísar til þess að LÍN starfi samkvæmt lögum nr. 21/1992 og á grundvelli reglugerðar nr. 478/2011. Í 1. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um að námslán skuli aldrei veita fyrr en námsmaður hafi skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur og í 4. mgr. sömu lagagreinar segi að námslán skuli ekki veita nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Af þessum ákvæðum leiði að námsmenn geti ekki fengið námlán fyrr en gögnum um námsárangur hafi verið skilað til LÍN. Ákvæði greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN sé því í ákveðinni mótsögn við fyrrgreind lagaákvæði þar sem það sé ekki í öllum tilvikum í valdi nemenda að skila námsárangri innan tilskilins tímafrests þó að skólasókn, námsárangur og námsframvinda sé í eðlilegum farvegi. Kærandi telur að hvorki í lögum um LÍN né reglugerð sé að finna heimild fyrir stjórn LÍN að setja námsmönnum svo þröng og ófrávíkjanleg skilyrði sem grein 5.2.1 mælir fyrir um og í raun sé hvergi að finna ákvæði sem takmarki þann tímaramma sem nemendur hafi til að skila einkunnum. Með vísan til hlutverks LÍN, eins og það sé skilgreint í 1. gr. laga um sjóðinn og anda laganna að styðja við námsmenn, sé ljóst að mati kæranda að grein 5.2.1 sé ekki í samræmi við þau lög, þ.m.t. reglugerð, sem sjóðurinn starfi eftir. Kærandi byggir á því að af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins leiði að ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla verði að vera í samræmi við lög og eigi það sérstaklega við ef ákvarðanir á grundvelli þeirra eru íþyngjandi fyrir borgarana, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Að sama skapi beri að skýra stjórnsýslufyrirmæli með hliðsjón af almennum lögskýringarsjónarmiðum. Það verði ekki ráðið af ákvæðum laga um LÍN, greinargerð með frumvarpi til laganna eða öðrum lögskýringargögnum, að það hafi verið ætlun löggjafans að setja námsmönnum jafn þröngar skorður og leiðir af grein 5.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Hafi það verið áform löggjafans að setja námsmönnum þau ófrávíkjanlegu tímamörk til að skila inn gögnum um námsárangur sem leiðir af fyrrgreindu ákvæði hefði það þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða að minnsta kosti í reglugerð settri með stoð í lögunum. Kærandi bendir á að af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga leiði að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu sjónarmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti og skuli þess þá gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Það sé ljóst að í máli kæranda hafi verið tekin ákvörðun sem sé mest íþyngjandi fyrir hann og ekki hugað að öðrum og vægari úrræðum, eins og borið hafi að gera. Þá sé vafamál hvort hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN hafi stefnt að lögmætu markmiði þar sem hvorki lögin um LÍN né reglugerð mæli fyrir um ákveðna tímafresti vegna skila á námsárangri, eins og áður er rakið. Kærandi fellst á að það sé mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum séu settir, en á móti komi að það séu hvorki eðlilegir né góðir stjórnsýsluhættir að veita engar undanþágur frá þeim. Meta verði málsatvik hverju sinni og í tilviki kæranda hafi gögnum um námsárangur verið skilað aðeins nokkrum klukkustundum eftir tilsettan tímafrest af ástæðum sem kærandi gat engin áhrif haft á. Málskostsnefnd LÍN hafi fallist á að í undantekningartilvikum megi víkja frá ákvæði úthlutunarreglna LÍN um tímafrest, sbr. úrskurð þess í málinu nr. L-24/2012 og á grundvelli jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga eigi mál hans að fá sömu niðurstöðu, enda málsatvik sambærileg. Kærandi andmælir því sjónarmiði stjórnar LÍN að niðurstaða hennar sé í samræmi við úrskurði málskotsnefndar í sambærilegum málum. Bendir kærandi sérstaklega á að úrskurðir málskotnefndar í málunum nr. L-39/2012 og L-41/2012 séu ekki hliðstæðir máli hans, þar sem hann hafi ekki verið í þeirri aðstöðu að geta neinu um það ráðið hvenær námsárangur hans barst LÍN. Vegna þess sjónarmiðs stjórnar LÍN að kærandi hafi með tölvubréfi 5. nóvember 2012 verið minntur á tímafresti varðandi lánsumsókn og skil á námsárangri bendir kærandi á að fyrirsögn þess erindis hafi verið „framhaldsumsókn“ sem snerti allt annað og óskylt efni en tölvubréfið reyndist síðan innihalda. Af leiðbeiningaskyldu stjórnvalda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga leiði að gera verði þá kröfu til stjórnvalda að þau setji erindi og ábendingar sínar fram á skýran og viðeigandi hátt, en þess hafi LÍN ekki gætt. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

LÍN vísar til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánveitingum vegna námsársins 2011-2012 skuli lokið fyrir 15. janúar 2012 og að eftir það séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Þar sem upplýsingar um námsárangur kæranda vegna vorannar 2012 bárust ekki sjóðnum fyrr en fresturinn var runninn út eða 16. janúar 2013 hafi stjórn sjóðsins synjað erindum kærenda. LÍN bendir á að sjóðurinn hafi sent kæranda tölvubréf þann 5. nóvember 2012 um umsóknarfresti á skólaárinu 2012-2013. Þar hafi komið fram að frestur til að sækja um lán vegna náms á haustönn 2012 væri til 1. desember 2012 og eftir það væri ekki hægt að sækja um lán fyrir námsönnina. Einnig hafi verið vakin athygli hans á því að skila þyrfti gögnum vegna námsársins 2011-2012 fyrir 15. janúar 2013, en eftir það væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Kærandi hafi ekkert samband haft við sjóðinn fyrr en 16. janúar 2013 þegar hann sendi einkunn sína vegna vorannar 2012, en þar á undan hafi hann síðast haft samband við sjóðinn 2. apríl 2012. Hvað varðar þau fordæmi, sem kærandi vísar til um að málskotsnefnd hafi í úrskurðum fallist á að víkja frá kröfum um skilafrest einkunna vegna afgreiðslu lána, bendir LÍN á að í þeim tilvikum hafi námsmenn fyrir frestlok verið í sambandi við sjóðinn og upplýst að seinkun yrði á skilum námsárangurs. Það hafi kærandi ekki gert og því séu málin ekki sambærileg. Í því sambandi vísar LÍN sérstaklega til niðurstöðu úrskurðar málskotsnefndar í málinu nr. L-24/2012, þar sem m.a. segi að námsmanni beri að tilkynna til LÍN ef breytingar verði á högum hans eftir að umsókn hefur verið lögð fram, ef ætla megi að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán og fyrirmæli um prófskil. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins sé ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar upplýsingar sem LÍN hafi óskað eftir sé liðinn. Stjórn LÍN telur að niðurstaða sín í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotnefndar.

 

Niðurstaða

 

Kærandi hóf meistaranám í ágúst 2010. Hann sótti um námslán vegna skólaársins 2011-2012 og á óafgreitt lán fyrir vorönn 2012 vegna lokaverkefnis, sem nemur 35 ECTS-einingum. Kærandi skilaði lokaverkefni sínu 15. desember 2012, þreytti meistaravörn 15. janúar 2013 og fékk einkunn samdægurs, sem barst LÍN 16. janúar 2013 eða sólarhring eftir að fresti til að skila námsárangri lauk, samkvæmt úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2011-2012. Kærandi sótti ekki um námslán á haustönn 2012, en frestur til þess rann út 1. desember 2012. Mál þetta snýst því um það hvort kærandi hafi misst rétt sinn til námsláns á vorönn 2012 þar sem námsárangur hans barst LÍN eftir 15. janúar 2013. Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í 2., 3 og 4. mgr. segir eftirfarandi: 

Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána vegna haustannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda vorannar hefst í byrjun janúar 2012 til þeirra sem uppfylla skilyrði sjóðsins um lágmarksframvindu á önninni, sbr. gr. 2.2. Með sömu framangreindum skilyrðum hefst útborgun framfærslu- og bókalána vegna vorannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda sumarannar í lok apríl 2012. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun, eða skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins 2011-2012 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2012, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins

Kærandi byggir meðal annars á því að skilyrði greinar 5.2.1 um að eftir 15. janúar 2012 séu ekki afgreidd lán vegna námsársins 2011-2012 hafi ekki lagastoð, þar sem í lögum um LÍN nr. 21/1992, frumvarpi til þeirra laga eða reglugerð um LÍN nr. 478/2011, sé ekki að finna ráðagerð um það að setja megi svo þröng og ófrávíkjanleg tímamörk. Málskotsnefnd bendir á að lagastoð fyrir úthlutunarreglum LÍN er að finna í 2. mgr. 16. laga um LÍN, en þar segir að stjórn LÍN setji reglur um önnur atriði er greinir í lögunum og reglugerð samkvæmt 1. mgr. lagaákvæðisins, og skulu þær samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Í 3. mgr. 3. gr. laganna segir ennfremur að stjórn sjóðsins setji nánari ákvæði um úthlutun námslána og í 4. tl. 5. gr. laganna segir að hlutverk sjóðsstjórnar sé að setja reglur um úthlutun námslána. Af framangreindu er ljóst að löggjafinn hefur falið stjórn LÍN að ákveða nánar efni reglna um úthlutun námslána, en þær verða að samrýmast þeim lögum sem kunna að eiga við á því sviði. Er ákvæði greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN um tímamörk afgreiðslu lána í senn málefnalegt og í fullu samræmi við heimild sjóðsstjórnar til að setja reglur um úthlutun námslána. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er kveðið á um í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN og í úthlutunarreglum LÍN. Þar kemur m.a. fram að námsmanni ber að tilkynna til sjóðsins verði breytingar á högum hans eftir að umsókn hefur verið lögð fram ef ætla má að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán. Samkvæmt upplýsingum kæranda skilaði hann lokaverkefni og þreytti meistaravörn sína á réttum tíma samkvæmt skipulagi skólans. Málskotsnefnd getur fallist á að umrædd skil hafi rúmast innan reglna skólans. Málskotsnefnd bendir hins vegar á að kærandi var í fjögurra anna námi sem hófst haustið 2010 og m.v. upplýsingar á heimasíðu skólans var miðað við að nám það sem kærandi stundaði lyki á vorönn 2012. Umsókn kæranda var því um námslán vegna vorannar 2012. Kemur þar einnig fram að nemendur geti valið hvort þeir skili 30 ECTS eða 35 ECTS eininga lokaverkefni og að miðað sé við að slíkt verkefni taki 5 mánuði. Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi frestaði útskrift sinni fram á haustönn 2012. Upplýsingar um lokaeinkunn og að hann hafi staðist námskröfur fékk hann ekki fyrr en að meistaravörn lokinni 15. janúar 2013 og tilkynning þar um barst LÍN ekki fyrr en 16. sama mánaðar, eins og áður greinir. Af gögnum málsins verður einnig ráðið að sú breyting sem varð á fyrirkomulagi náms kæranda lá fyrir þegar hann ákvað að ljúka 35 eininga lokaverkefni sínu, eða a.m.k. áður en frestur til að sækja um námslán vegna haustannar 2012 rann út, þ.e. 30. nóvember 2012. Þegar þessar dagsetningar lágu fyrir mátti kæranda því vera ljóst að brugðið gæti til beggja vona um að upplýsingar skólans um námsárangur hans myndi berast sjóðnum innan þess frests sem LÍN hefur samkvæmt grein 5.2.1, þ.e. í síðasta lagi 15. janúar 2013. Kærandi fékk ennfremur í nóvember 2012 sérstaka tilkynningu frá LÍN um að frá 15. janúar 2013 yrði ekki afgreidd námslán vegna námsársins 2011-2012. Þegar LÍN barst staðfesting frá skóla kæranda um námsárangur hafði stjórn LÍN lokað á afgreiðslu allra námslána vegna umrædds námsárs. Það er álit málskotsnefndar að af fyrrnefndri grein úthlutunarreglna LÍN leiði að ekki geti komið til lánveitinga vegna umsókna sem berast eftir að lokið er afgreiðslu námslána vegna námsársins og að málsatvik séu ekki með þeim hætti í málinu að það eigi að leiða til undantekningar frá framangreindri reglu. Þá ber að líta til þess að kærandi gerði LÍN ekki grein fyrir breyttum aðstæðum sínum, þ.e. að hann myndi ekki skila lokaverkefni fyrr en í lok árs 2012 og óvíst væri að námsárangur myndi berast LÍN áður en lokað yrði á afgreiðslu námslána. Það kemur fram í greinum 5.1.6 og 5.5.1 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. og 2. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna, að námsmanni ber að láta LÍN vita ef breytingar verða á högum hans sem áhrif geta haft á námsaðstoð og ef upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar lánsáætlun reynast rangar. Málskotsnefnd tekur fram að í máli kæranda eru aðrar aðstæður en voru í máli kærenda í máli L-24/2012. Í því máli máttu kærendur búast við að fá einkunnir töluvert innan þess frests sem tilgreindur var í úthlutunarreglum LÍN. Sökum ófyrirsjánlegra atvika sem komu til eftir að umsóknarfrestur um námlán haustannar var liðinn og kærendur gátu ekki haft nein áhrif á bárust einkunnir kærenda þó of seint. Er því ólíku saman að jafna þar sem kærandi vissi með löngum fyrirvara að einkunnum hans yrði skilað svo seint að brugðið gæti til beggja vona með að þær gætu yfirleitt borist tímanlega til LÍN. Hefði honum þá eins og áður segir borið að gera grein fyrir breyttum aðstæðum sínum og óska leiðbeininga frá LÍN vegna þessa. Með vísan til þessa getur málskotsnefnd ekki fallist á að afgreiðsla stjórnar LÍN í máli kæranda hafi falið í sér brot á reglum um meðalhóf. Með skírskotun til framanritaðs og fyrri úrskurða stjórnar LÍN og málskotsnefndar við meðferð samskonar mála er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda og með henni hafi kæranda ekki verið mismunað. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 1. mars 2012 er staðfestur.

Til baka