Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-32/2013 - Námsframvinda - námsmaður í hálfu námi

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 27. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-32/2013.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 3. júní 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 5. mars 2013 þar sem beiðni kæranda um námslán á vorönn 2013 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 5. júní 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. júlí 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur stundað nám í öðru landi frá árinu 2007. Hann fékk vegna veikinda á haustönn 2012 samþykkta undanþágu frá námsárangri á grundvelli greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN 2012-2013. Á haustönn 2012 lauk kærandi 7,5 ECTS-einingum í námi sínu, en fékk á önninni á grundvelli undanþágunnar námslán sem samsvarar 18 ECTS-einingum. Sökum veikinda náði kærandi ekki að ljúka 50% námsárangri á önninni haustið 2012 og af þeim sökum hefur skólinn þar sem hann stundar nám ekki heimilað honum að taka nema tvo áfanga af fjórum á vorönn 2013, auk þess að gera það sem skilyrði að hann sé með a.m.k. 80% mætingu á misserinu. Kærandi fór þess á leit við LÍN með umsókn þar að lútandi 25. janúar 2013 að honum yrði veitt aukið svigrúm vegna veikinda og örorku á vorönn 2013. Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð dagsett 18. janúar 2013 þar sem fram kom að kærandi þjáðist af kvíða, þunglyndi og áfengismisnotkun og af þeim sökum hafi hann ekki getað stundað nám sitt sem skyldi næstliðna 3-4 mánuði. Kom fram að kærandi þyrfti á lyfjum að halda og væri í göngudeildarmeðferð og ætti að geta lagt stund á námið með fullnægjandi hætti á næsta skólaári. Meðfylgjandi var einnig bréf frá háskólanum þar sem fram kom að sökum ófullnægjandi námsárangurs hefðu skólayfirvöld sett kæranda tiltekin skilyrði fyrir því að hann mætti halda áfram námi sínu. Þann 18. febrúar 2013 óskaði kærandi eftir því við stjórn LÍN að sjóðurinn tæki tillit til aðstæðna hans og veitti honum fullt lán, 30 ECTS-einingar, á vorönn 2013 þrátt fyrir að hann væri einungis skráður í 50% nám eða til 15 ECTS-eininga. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með úrskurði sínum þann 5. mars 2013 með vísan til greinar 2.2 í úthlutunarreglum LÍN 2012-2013.

Sjónarmið kæranda

Í upphaflegu erindi sínu til LÍN benti kærandi á að sú reglna LÍN að lána ekki fyrir 50% námi geri stöðu hans mjög erfiða. Skóli hans hafi tekið þá ákvörðun að takmarka nám hans við tvö fög á vorönn 2013, en sú aðstaða breyti því ekki að hann þurfi eftir sem áður á fullu framfærsluláni að halda til að ljúka önninni. Þörf hans vegna framfærslu og húsaleigu minnki ekki við þessa breytingu á náminu. Í kæru sinni til málskotsnefndar kemur eingöngu fram það sjónarmið kæranda að synjun stjórnar LÍN sé að hans mati mjög óréttlát. Kærandi hefur ekki tjáð sig frekar í málinu þrátt fyrir að hafa verið gefinn kostur á því.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN er námsferill kæranda í viðkomandi námi rakinn og tekið er fram að sjóðnum sé ekki heimilt að taka tillit til aðstæðna hans á vorönn 2013 vegna fyrirmæla greinar 2.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Þar komi fram að til þess að eiga rétt á námsláni þurfi námsmaður að ljúka að lágmarki 18 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverri önn. Þar sem kærandi sé einungis í hálfu námi til 15 ECTS-eininga uppfylli hann ekki kröfur um lágmarksnámsárangur og því hefði stjórn LÍN synjað erindi hans.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í þessu skyni hefur stjórnin kveðið á um að námsmaður þurfi að öðru jöfnu að vera í fullu lánshæfu námi, til þess yfirleitt að eiga rétt m.a. á framfærsluláni. Nánari útfærsla á þessu skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum en samkvæmt þeim telst nám lánshæft þegar það er 60 ETCS einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Sérregla gildir um sumarnám og er lánað að hámarki vegna 20 ECTS eininga, sbr. grein 2.1.1 í úthlutunarreglunum. Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um lágmarksnámsframvindu í grein 2.2, en þar segir að námsmaður þurfi að ljúka að lágmarki 18 ECTS einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri í einum eða fleiri námsferlum til að eiga rétt á námsláni. Nám kæranda á vorönn 2013 til 15 ECTS-eininga uppfyllir ekki skilyrði úthlutunarreglna sjóðsins 2012-2013 um lágmarksnámsframvindu samkvæmt grein 2.2. Á kærandi því ekki rétt á námsláni á vorönn 2013 enda er ekki að finna undanþágu frá fyrrgreindu skilyrði í reglum sjóðsins. Í úrskurði sínum tók stjórn LÍN ekki afstöðu til þess hvort kærandi kynni eigi að síður að eiga rétt á námsaðstoð sökum veikinda. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu hefur háskólinn bundið rétt kæranda til áframhaldandi náms tilteknum skilyrðum, m.a. kveðið á um að honum sé ekki heimilt að stunda fullt nám. Fyrir liggur einnig í málinu að kærandi hefur á haustönn 2012 og skólaárið 2010-2011 fengið aukið svigrúm vegna veikinda. Kemur fram að kærandi hafi aðeins lokið einum áfanga af fjórum á haustönn 2012 og fengið 18 eininga veikindalán hjá LÍN vegna þess. Samkvæmt 5. mgr. greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN vegna 2012-2013 á námsmaður sem fengið hefur veikindaundanþágu en skilað minna en 12 ECTS einingum ekki rétt á að tekið sé tillit til veikinda að nýju fyrr en hann hefur skilað námsárangri sem hann vantaði til að ljúka framangreindum 12 einingum. Kærandi lauk aðeins 7,5 ECTS-einingum á haustönn 2012 og gæti því ekki átt rétt á veikindaundanþágu á vorönn 2013 samkvæmt fyrrgreindu ákvæði úthlutnarreglnanna. Með vísan til ofanritaðs er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 5. mars 2013 er staðfestur.

Til baka