Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-38/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun Beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti hafnað

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 18. desember 2013, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-38/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 15. júlí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. júlí 2013 þar sem hafnað var beiðni hennar um undanþágu frá umsóknarfresti vegna umsóknar um námslán á vorönn 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. júlí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 31. júlí 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 22. ágúst 2013, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar nám í við Háskólann í Reykjavík. Hún sótti um námslán til LÍN 13. nóvember 2012 í gegnum einkasvæði sitt á heimasíðu LÍN, svokallað „mitt svæði“. Kærandi segist bæði hafa sótt um námslán vegna haustannar 2012 og vorannar 2013. Þann 21. maí 2013 sendi kærandi stjórn LÍN bréf þar sem hún óskaði aðstoðar og leiðréttingar á lánsumsókn sinni þar sem í ljós hafi komið að ekki væri að til staðar umsókn frá henni vegna vorannar 2013, sem hlyti að vera vegna bilunar eða kerfisvillu hjá LÍN. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda 3. júlí 2013 og synjaði beiðni kæranda um lán á vorönn 2013 þar sem umsókn hennar hafði þurft að berast sjóðnum fyrir 1. maí 2013, sbr. grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2012-2013. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi kveðst á haustmánuðum 2012 hafa sótt um námslán til LÍN bæði vegna haustannar 2012 og vorannar 2013 í sömu umsókninni. Umsóknina hafi hún fyllt út í gegnum einkasvæði sitt á heimasíðu LÍN og þar hakað við báðar annirnar. Hún hafi með aðstoð móður sinnar skráð inn umbeðnar upplýsingar fyrir báðar annirnar. Um mánaðarmótin apríl/maí 2013 hafi kærandi verið í samskiptum við starfsmann LÍN og þá fengið þær upplýsingar að ekki lægi fyrir hjá LÍN umsókn frá henni um lán á vorönn 2013. Hafi þá verið liðnir tveir dagar frá því að lokað var fyrir lánsumsóknir hjá sjóðnum umrædda önn. Kærandi kveðst standa föstum fótum á því að hún hafi réttilega sótt um lán fyrir báðar annirnar í umsókn sinni haustið 2012. Því hljóti að hafa átt sér stað bilun eða kerfisvilla hjá LÍN í bókun umsóknar hennar. Þrátt fyrir það hafi sjóðurinn ekkert viljað fyrir hana gera, sem komi sér mjög illa fyrir hana þar sem námslán sé forsenda þess að hún geti greitt úr fjármálum sínum og fjármagnað nám sitt. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 3. júlí 2013 verði staðfestur. Samkvæmt tölvukerfi LÍN hafi kærandi sótt um námslán 13. nóvember 2012 og þá aðeins fyrir haustönn 2012. Engin samskipti séu skráð á milli kæranda og sjóðsins í samskiptakerfi LÍN og bendir sjóðurinn sérstaklega á að skólaárið 2012-2013 hafi kærandi fengið átta lánsáætlanir inn á heimasvæði sitt og þar hafi aldrei verið gert ráð fyrir láni á vorönn 2013. Lánsumsókn kæranda í nóvember 2012 hafi því aðeins gilt fyrir haustönn það ár. Samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN hafi umsóknarfrestur vegna vorannar verið til 1. maí 2013 og þar sem umsókn kæranda af borist eftir þann tíma hafi henni verið hafnað og gæti stjórn LÍN ekki fallist á að veita undanþágu frá umsóknarfrestinum.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013 þarf lánsumsókn vegna náms haustið 2012 að berast fyrir 1. desember 2012 og fyrir 1. maí 2013 vegna náms á vorönn það ár. Í samræmi við fyrirmæli 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna eru úthlutunarreglur LÍN birtar í Stjórnartíðindum. Umsóknarfresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN, auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Kærandi sótti um námslán 13. nóvember 2012, en ágreiningur er um það hvort hún hafi þá eingöngu sótt um vegna haustannar 2012 eða einnig vegna vorannar 2013. LÍN fullyrðir að í nóvember 2012 hafi kærandi eingöngu sótt um lán vegna haustannar og að umsókn hennar vegna vorannar 2013 hafi fyrst komið fram með bréfi hennar 21. maí 2013, þremur vikur eftir að frestur til umsóknar rann út, og því verið hafnað. Stjórn LÍN hefur lagt fram í málinu yfirlit um lánsumsókn kæranda, dagsett 13. nóvember 2012. Þar kemur fram að sótt sé um aðstoð vegna hausts 2012, 30 ECTS einingar, en það svarar til einnar annar náms samkvæmt reglum LÍN. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að bilun í tölvukerfi LÍN, eða annað sem kann að vera á ábyrgð LÍN, hafi orðið þess valdandi að umsókn kærandi haustið 2012 hafi verið með þeim hætti sem að framan greinir. Verður því við það að miða að umsókn kæranda um lán á vorönn 2013 hafi fyrst borist LÍN 21. maí 2013. Kemur þá til skoðunar hvort LÍN hafi borið að veita kæranda undanþágu frá auglýstum umsóknarfresti. Það er álit málskotsnefndar að almennt verði að ganga út frá því sem meginreglu, að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Hins vegar hafa stjórnvöld oft heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar, hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um innan tilskilins frests. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til þess að atvik sem ekki fékkst ráðið við eða handvömm af hálfu starfsmanna LÍN hafi valdið því að kærandi sótti ekki um innan frests. Er því fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við reglur sem um sjóðinn gilda. Þá er einnig vísað til þess að málskotsnefnd hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 3. júlí 2013 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka