Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-39/2013 - Námslengd - réttur til láns á meistarastigi búinn

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 18. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-39/2013.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 22. júlí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 19. apríl 2013, þar sem kæranda var synjað um námslán vegna náms á vorönn 2013 þar sem hún hefði tæmt rétt sinn til námsláns á meistarastigi. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. júlí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 3. september 2013. Með bréfi dagsettu 9. september 2013 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 10. október 2013 og voru þær framsendar LÍN 17. október s.á.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar meistaranám við Zürich Hochschule der Künste sem nefnist Master of Arts in Specialized Music Performance (MASP) – Liedgestaltung/ Kammermusik. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN þann 8. apríl 2013 þar sem hún fór þess á leit að umsókn hennar um 30 ECTS eininga námslán á vorönn 2013 yrði samþykkt og að henni yrði gert kleift að ljúka námi sínu vorið 2014 með því að fá að nýta þær einingar sem í úthlutunarreglunum er ætlaðar til doktorsnáms. Vísaði kærandi til þess í erindinu að umrætt nám væri framhald af Master of Arts in Music Performance og væri meistarapróf inntökuskilyrði. MASP væri hæsta prófgráða sem hægt væri að öðlast í svissneskum tónlistarháskólum og væri sambærileg doktorsgráðu. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði sínum 19. apríl 2013 sem tilkynntur var kæranda með bréfi dagsettu 23. sama mánaðar. Vísaði stjórn LÍN til þess að kærandi hefði fullnýtt svigrúm sitt til láns vegna meistaranáms, sbr. grein 2.3.1 í úthlutunarreglum LÍN.

Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir í fyrsta lagi ákvörðun stjórnar LÍN um að hafna umsókn hennar um námslán á vorönn 2013. Í öðru lagi kveðst kærandi vera ósátt við að hafa einungis fengið lán vegna 18 eininga á haustönn 2012 þar sem hún hafi lokið 30 einingum á þeirri önn sem og á vorönn 2013. Kærandi lýsir því að hún hafi tafist í námi vegna álagsmeiðsla í hendi og af þeim sökum ekki getað lokið meistaranámi sínu í píanóleik í Basel vorið 2011 eins og hún hafi áætlað. Hafi námstíminn lengst um eitt ár samkvæmt læknisráði. Hafi hún á þessum tíma stundað fullt nám í Basel og fengið námslán fyrir 108 einingum. Haustið 2012 hafi hún hafið framhaldsnám MASP í Zürich, sem væri hæsta námsgráða sem væri veitt fyrir tónlistarflutning í Sviss. Doktorsnám væri í boði en einungis í tónvísindum. Aðeins í undantekningartilfellum væri hægt að hefja nám í MASP án þess að hafa lokið Master of Music Performance (MAP) eða Master of Music Pedagogy (MA MP). Lýsir kærandi því að í evrópskum tónlistarháskólum séu víðast þrjár námsbrautir í hljóðfæranámi á meistarastigi, sem þó séu ekki allar jafngildar, heldur framhald hver af annarri. Sé mikill munur á þeim kröfum sem gerðar væru til nema í MA MP og MASP hvað varðaði hæfni í hljóðfæraleik. Að mati kæranda er MASP gráða sem hún stundar frekar sambærileg doktorsnámi í hljóðfæragreinum. Í ljósi þessa telur kærandi sig uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til lánshæfni og kærir því ákvörðun stjórnar LÍN um að hafna umsókn hennar um námslán á vorönn 2013 og skerðingar á námsláni á haustönn 2012.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Stjórn LÍN vísar til greinar 2.3. í úthlutunarreglum LÍN námsárið 2012-2013 þar sem komi fram að námsmaður eigi rétt á láni fyrir 180 ECTS einingum í grunnnámi, 120 ECTS einingum í meistaranámi, 120 ECTS einingum í grunn- eða meistaranámi að eigin vali og 180 einingum í doktorsnámi, samanlagt þó aldrei umfram 600 ECTS einingar. Vísar stjórn LÍN til þess að kærandi hafi þegar nýtt sér aðstoð LÍN fyrir 180 ECTS einingar í grunnnám, 120 ECTS einingar í meistaranám og 146 ECTS einingar í sameiginlegt svigrúm sem sé umfram þann lánsrétt sem hún eigi samkvæmt úthlutunarreglunum. Stjórn LÍN tekur fram að lánsréttur námsmanna fari eftir tegund þeirrar námsgráðu sem námsmaður leggi stund á. Það hafi ekki áhrif á lánsrétt kæranda hvort doktorsnám sé í boði í hljóðfæraleik. Stjórn LÍN fer ennfremur fram á að kærunni verði vísað frá að því er lýtur að lánsrétti vegna haustannar 2013. Það mál hafi ekki verið borið undir stjórn LÍN.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 2/1992 um LÍN er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Kemur fram í 3. gr. laganna að heimilt sé að taka tillit til ýmissa þátta við ákvörðun láns, s.s. fjölskyldustærðar, búsetu o.fl. Í 6. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur fram að námsmaður eigi að hámarki rétt á námsláni sem svari til samtals 600 ECTS eininga vegna grunnháskólanáms, sérnáms og framhaldsháskólanáms. Þar kemur einnig fram að stjórn sjóðsins setji nánari reglur um hámark einingafjölda í lánshæfu námi. Í 3. mgr. 3. gr. kemur fram að stjórn sjóðsins sé falið að setja nánari ákvæði um úthlutun námslána. Í 2. mgr. 16. gr. kemur síðan fram að sjóðsstjórn setji reglur um önnur þau atriði en tilgreind eru í lögum og reglugerð. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013, sem settar eru af stjórn LÍN með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992, hefur stjórnin sett reglur um hámarkslán í lánshæfu námi í grein 2.3. Þar segir eftirfarandi:

2.3.1 Grunn- og meistaranám

Námsmaður á rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi. Með grunnnámi er átt við sérnám, grunnháskólanám og einkanám í tónlist. Námsmaður á rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum í meistaranámi eða sambærilegu námi að loknu þriggja ára háskólanámi skv. skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Auk þess er átt við háskólanám eftir þrjú ár skv. skipulagi skóla, á námsbrautum sem eru skipulagðar sem lengra nám en þrjú ár. Í bandarískum háskólum er þó miðað við nám eftir fjögur ár. Allt að eins árs starfstengt viðbótarháskólanám, sem ekki lýkur með æðri prófgráðu, t.d. kennslufræði til kennsluréttinda, félagsráðgjöf, listnám og námsráðgjöf, getur talist vera nám á meistarastigi. Að auki á hver námsmaður rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum til viðbótar á grunn- og meistarastigi að eigin vali. Heimilt er að veita námsmanni undanþágu frá ofangreindum hámörkum og veita lán fyrir allt að 60 ECTS-einingum til viðbótar uppfylli námsmaður eitt eftirfarandi skilyrða: a) Hann hefur áður staðist lokapróf í lánshæfu námi og á ólokið 60 ECTS-einingum eða færri til lokaprófs í öðru lánshæfu námi. Með lokaprófi er átt við próf til staðfestingar starfs- eða háskólagráðu, en ekki undirbúnings-, fornáms- eða frumgreinapróf. b) Hann hefur áður a.m.k. í þrjú aðstoðarár á námstíma fengið undanþágu frá almennum skilyrðum um námsframvindu skv. gr. 2.4.5 vegna örorku eða lesblindu. Heildarsvigrúm til þess að ljúka tiltekinni námsbraut getur þó aldrei verið meira en 600 ECTS-einingar. 2.3.2 Doktorsnám Námsmaður í doktorsnámi á rétt á láni fyrir 180 eða 240 ECTS-einingum eftir uppbyggingu náms, þó geta lán hans hjá sjóðnum aldrei farið umfram 600 ECTS-einingar.


Fyrir liggur í málinu að kærandi hefur fengið námslán vegna eftirfarandi náms:

BA nám 180 ECTS einingar Cand. Mus 120 ECTS einingar Þýskunám 10 ECTS einingar MSP 108 ECTS einingar MS MP 18 ECTS einingar Samtals: 446 ECTS einingar Samkvæmt framansögðu hefur kærandi tæmt lánsrétt sinn í grunnnámi, meistaranámi og sameiginlegu svigrúmi en sá lánsréttur samsvarar samtals 420 ECTS einingum. Það er að mati málskotsnefndar málefnalegt af hálfu LÍN að miða mat sitt á lánshæfi náms á þeirri skilgreiningu sem viðkomandi háskóli hefur sett fram á umræddu námi. Málskotsnefnd fellst á það með stjórn LÍN að sú staðreynd að doktorsnám í hljóðfæraleik standi almennt ekki til boða í evrópskum háskólum geti ekki haft áhrif á lánsrétt kæranda. Með vísan til framangreindra atriða er það mat málskotsnefndar að úrskurður stjórnar LÍN frá 19. apríl 2013 sé í samræmi við lög og reglur LÍN og er hann því staðfestur með vísan til forsendna hans. Kærandi kærði ekki meðferð umsóknar um haustlán til stjórnar LÍN og er kærunni til málskotsnefndar um afgreiðslu þess láns því vísað frá málskotsnefnd.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 19. apríl 2013 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka