Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-54/2013 - Leiðrétting námslána - málinu vísað frá

Úrskurður

Ár 2013, fimmtudaginn 18. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um frávísun máls nr. L-54/2013:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 15. október 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. janúar 2013 sem tilkynntur var henni með bréfi dagsettu 28. janúar, þar sem beiðni kæranda um leiðréttingu á útreikningi námsláns var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. október 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust með bréfi dagsettu 13. nóvember 2013 þar sem þess var farið á leit að kærunni yrði vísað frá sem of seint fram kominni, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi dagsettu 14. nóvember voru kæranda sendar athugasemdir stjórnar LÍN og gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 1. desember 2013 sem barst málskotsnefnd 10. desember sl. Segir kærandi að hún hafi talið sig hafa sótt um endurupptöku máls síns hjá stjórn LÍN í lok júní sl. Hefði hún beðið um það símleiðis og talið beiðnina hafa gengið eftir. Sendi kærandi meðfylgjandi afrit tölvupósta þar sem hún fer þess á leit við LÍN að hún fái aðstoð við að leysa mál sitt á sanngjarnan hátt. Fær hún þau svör að stjórn LÍN hafi þegar fjallað um mál hennar og er henni bent á að hafa samband við lögmannsstofu sem hafi innheimtu hins ofgreidda námsláns með höndum. Einnig eru afrit af tölvupóstum kæranda til innheimtufyrirtækisins og svarpóstum fyrirtækisins þar sem kæranda er bent á að hún verði að bera mál sitt undir starfsmenn LÍN og stjórn LÍN.

Niðurstaða

Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir ennfremur að kæra teljist "nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn". Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega til aðila, þá skuli miða upphaf kærufrests við ""þann dag þegar ákvörðunin er komin til aðila". Verður því upphaf kærufrests í máli þessu miðað við þann dag þegar ákvörðun stjórnar LÍN var komin til kæranda. Í máli þessu liggur fyrir að LÍN tilkynnti kæranda um ákvörðun sína með bréfi dagsettu 28. janúar 2013. Var henni leiðbeint um að kærufrestur til málskotsnefndar væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins. Kærufrestur í málinu er samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga þrír mánuðir frá því kæranda barst fyrrgreint bréf stjórnar LÍN. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 15. október 2013 of seint fram borin og ber að vísa henni frá skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema "afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr“ eða „veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Var kæranda með bréfi þann 14. nóvember 2013 gefinn kostur á að tjá sig frekar um þennan þátt málsins eða aðrar þær afsökunarástæður er kynnu að vera fyrir hendi samkvæmt ákvæðum 27. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi veitti engar þær skýringar í málinu sem gáfu til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran barst svo seint. Þær skýringar kæranda að hún hafi talið sig hafa beðið um endurupptöku í júní sl. skipta ekki máli varðandi kærufrest þeirrar ákvörðunar sem stjórn LÍN tók í máli kæranda þann 24. janúar sl. Hins vegar er rétt að benda kæranda á í þessu sambandi að samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi, þ.e. ef:

"1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin."

Það kemur fram í 24. gr. stjórsýslulaga að mögulegt er að fá endurupptöku máls hjá stjórnvaldi, í þessu tilviki stjórn LÍN, þó liðnir séu meira en þrír mánuðir þrír frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða kæranda var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun í máli hans var byggð á, að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Samkvæmt 24. gr. verður mál þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Hefur kærandi því enn möguleika á að freista þess að fá mál sitt endurupptekið hjá stjórn LÍN ef hún telur að skilyrði þau endurupptöku sem tilgreind eru 24. gr. stjórnsýslulaga og vísað er til hér að framan séu fyrir hendi. Í úrskurði stjórnar LÍN í máli kæranda er fjallað um skyldu hennar til að endurgreiða ofgreitt námslán vegna 30 ECTS eininga. Ekki verður fallist á að veigamiklar ástæður teljist vera fyrir hendi er réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti í tilviki kæranda. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda frá málskotsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru kæranda í máli nr. L-54/2013 er vísað frá málskotsnefnd LÍN.

Til baka