Úrskurður
Ár 2014, föstudaginn 21. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-37/2013:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 15. júlí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli hans frá 3. júlí 2013 þar sem beiðni hans um undanþágu frá gjalddaga 1. mars 2013 var synjað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. júlí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 31. júlí 2013 og var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um þær með bréfi dagsettu 22. ágúst s.á. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Í janúar 2013 sótti kærandi um undanþágu frá fastri afborgun 1.
mars 2013 sökum fjárhagserfiðleika en hann hafði þá misst vinnuna. Kærandi sem
er einstæður faðir hafði einnig verið atvinnulaus í sex mánuði á árinu 2012. Með
úrskurði 3. júlí 2013 synjaði stjórn LÍN kæranda um undanþágu frá afborgun með
vísan til þess að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga nr.
21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kom fram í forsendum stjórnar LÍN að
kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði verið atvinnulaus og í virkri
atvinnuleit í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Hefði honum verið sent bréf
þar sem honum var gefinn kostur á að leggja fram gögn um verulega
fjárhagsörðugleika en hann hafi ekki lagt fram slík gögn. Í umræddu bréfi LÍN
dagsettu 4. apríl 2013 kom fram að kæranda var gefinn kostur á að leggja fram
yfirlýsingu frá viðskiptabanka sínum og/eða Umboðsmanni skuldara sem staðfestu
verulega fjárhagsörðugleika og að kærandi væri að nýta sér
greiðsluerfiðleikaúrræði hjá umræddum stofnunum. Kom fram að bærust gögnin ekki
innan 14 daga yrði umsókn kæranda um undanþágu hafnað.
Sjónarmið
kæranda.
Kærandi vísar til þess að krafan um fjögurra mánaða
atvinnuleysi sé ekki í samræmi við raunveruleikann. Hann hafi ekki fengið
fullnægjandi skýringar á þessu skilyrði frá LÍN. Hann hafi átt við atvinnuleysi
að stríða og hafi ekki greiðslugetu til að borga af láninu. Hann sé einstæður
faðir og hafi aðeins 150.000 krónur í tekjur á mánuði.
Sjónarmið
stjórnar LÍN.
Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að sjóðurinn
hafi synjað honum um undanþágu þar sem hann hafi ekki sýnt fram á atvinnuleysi í
fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Hafi kærandi misst vinnuna í lok janúar og því
aðeins sýnt fram á atvinnuleysi og skertar tekjur hluta af janúar og febrúar,
eða í rúmlega ein mánuð fyrir gjalddaga. Hafi kæranda verið sent bréf þann 4.
apríl þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að sýna fram á verulega
fjárhagserfiðleika en þar sem engin gögn hafi borist hafi honum verið synjað með
bréfi dagsettu 22. apríl 2013.
Niðurstaða
Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 koma fram eftirfarandi
skilyrði um undanþágu frá afborgunum námsláns:
Stjórn sjóðsins er
heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða
öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d.
ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna
ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur
heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi,
veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum
fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
Stjórn LÍN
hefur sett nánari skilyrði fyrir beitingu undanþágunnar í grein 7.5.1 í
úthlutunarreglum LÍN sem er svohljóðandi:
Sjóðsstjórn er heimilt að
veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni
vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar
sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Óvinnufær
vegna veikinda telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv. skilgreiningu
Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda
örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.
Málskotsnefnd telur að við mat á því hvort fjárhagserfiðleikar séu fyrir
hendi sé málefnalegt að miða að jafnaði við að erfiðleikarnir hafi varað í
a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Málskotsnefnd hefur þó talið að LÍN sé rétt
að líta á heildarmynd aðstæðna greiðenda hverju sinni og víkja frá beitingu
slíkra meðaltalsreglna þegar fyrir liggi eigi að síður að aðstæður greiðenda séu
með þeim hætti að verulegir fjárhagserfiðleikar verði að teljast vera fyrir
hendi, s.s. eins og aðstæður voru í máli L-32/2009 þegar árstekjur kæranda voru
afar lágar. Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram að kærandi hafi verið atvinnulaus
fyrri hluta árs 2012 en síðan haft atvinnu í sjö mánuði þar til hann missti
vinnuna aftur í janúar 2013. Árstekjur kæranda 2012 voru 3,3 milljónir króna. Að
frádreginni staðgreiðslu og lífeyrisiðgjöldum hafði kærandi um 2,5 milljónir
króna til ráðstöfunar á því ári. Í janúar hafði hann um 450 þúsund krónur í
tekjur en að frádreginni staðgreiðslu og lífeyrisiðgjöldum hafði kærandi 269
þúsund krónur til ráðstöfunar. Til ráðstöfunar í febrúar 2013 hafði kærandi svo
um 170 þúsund krónur. Að mati málskotsnefndar verður ekki hjá því komist í þessu
máli að líta til þess að kærandi hafði átt við endurtekið atvinnuleysi að stríða
og af þeim sökum voru fjárhagsörðugleikar kæranda langvarandi. Tekjur nýliðins
árs voru vel undir þeim 4 milljón króna mörkum sem LÍN hefur miðað við að
teljist vera merki um fjárhagsörðugleika, sbr. m.a. úrskurð í máli nr.
L-43/2012. Kærandi hafði síðan aftur misst atvinnu sína og m.v. upplýsingar í
kæru til málskotsnefndar var kærandi enn atvinnulaus er stjórn LÍN úrskurðaði í
máli hans í júlí 2013. Þrátt fyrir að kærandi hefði aðeins nýverið misst
atvinnuna þegar hann sótti um undanþágu frá afborgun verður að mati
málskotsnefndar einnig að líta til þess að hann hafði aðeins haft þá vinnu í
stuttan tíma. Að mati málskotsnefndar lágu því fyrir fullnægjandi upplýsingar
sem gáfu til kynna endurtekið atvinnuleysi og viðvarandi og verulega
fjárhagsörðugleika kæranda. Kröfur LÍN um að sýnt væri fram á verulega
fjárhagsörðugleika með gögnum frá viðskiptabanka eða Umboðsmanni skuldara hefðu
því ekki skipt máli í þessu sambandi. Ekki hefur verið byggt á því í málinu af
hálfu LÍN að kærandi kunni að hafa haft aðrar tekjur eða eignir sér til
viðurværis. Að mati málskotsnefndar verður því að ekki annað séð m.v.
fyrirliggjandi gögn en að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga nr.
21/1992 um undanþágu frá afborgun námsláns. Af þeim sökum ber að ógilda úrskurð
stjórnar LÍN í máli kæranda.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 3. júlí 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi.