Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-42/2013 - Framfærsla - framfærsla vegna fjarnáms

Úrskurður

 

Ár 2014, föstudaginn 21. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-42/2013:

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 29. júlí 2013 kærði kærandi úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. og 9. júlí 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda varðandi framfærsluviðmið við veitingu námsláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 31. júlí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 10. september 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 11. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Þann 10. október 2013 bárust málskotsnefnd frekari athugasemdir frá kæranda. Með bréfi dagsettu 23. janúar 2014 fór málskotsnefnd þess á leit við Háskóla Íslands að hann veitti nánari upplýsingar um skráningu náms kæranda í opinberri stjórnsýslu á vorönn 2013 og hvernig hagað var skipulagi námsins í kennsluskrá. Svör Háskóla Íslands bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 27. janúar 2014 og var stjórn LÍN gefinn kostur á að tjá sig um svör háskólans. LÍN sendi málskotsnefnd viðbótarathugasemdir sínar með bréfi dagsettu 29. janúar 2014. Kæranda var gefið færi á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi þær, sem hann gerði með bréfi dagsettu 7. febrúar 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar MPA nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Haustið 2012 flutti hann ásamt fjölskyldu til Ítalíu þar sem eiginkona hans stundar nám. Kærandi kveður eiginkonu sína hafa kannað lánsrétt hans hjá LÍN áður en ákvörðun var tekin um flutning til Ítalía og hafi hún í tvígang fengið þær upplýsingar frá starfsmönnum sjóðsins að hann ætti sem fjarnámsnemi rétt á framfærsluláni sem tæki mið af framfærslukostnaði í búsetulandinu. Kærandi fékk framfærslulán miðað við búsetu á haustönn 2012 þar sem hann var skráður í skipulagt fjarnám, en var synjað á vorönn 2013 þar sem LÍN taldi að hann hafi ekki verið í skipulögðu fjarnámi þá önn. Stjórn LÍN úrskurðaði upphaflega í máli kæranda 3. júlí 2013 og synjaði beiðni hans um framfærslu eins og hún var á Ítalíu á vorönn 2013. Með bréfi dagsettu 5. júlí 2013 óskaði kærandi eftir því að stjórn LÍN endurskoðaði ákvörðun sína. Stjórn LÍN tók mál kæranda fyrir að nýju á fundi 9. júlí 2013, en hafnaði því að taka það til efnislegrar meðferðar þar sem ekki þótti sýnt fram á að niðurstaðan frá 3. júlí 2013 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Var málinu því vísað frá stjórn sjóðsins.

Sjónarmið kæranda

Eins og fyrr greinir kveður kærandi eiginkonu sína í tvígang hafa fengið þær upplýsingar frá LÍN að hann myndi eiga rétt á námsláni er miðaðist við framfærslu í búsetulandinu. Með þær upplýsingar hafi þau tekið ákvörðun um að flytja til Ítalíu með þrjú börn á grunnskólaaldri, sem þau hefðu ekki gert ella. Þau hafi gert fjárhagsáætlun út frá þeim forsendum að námslán kæranda miðaðist við framfærslu í búsetulandinu og gangi það ekki eftir þurfi þau að flytja heim aftur án þess að eiginkona nái að klára nám sitt. Afleiðingarnar af synjun LÍN séu þær að þau séu komin í skuld vegna húsaleigu, geti ekki framfleytt fjölskyldunni og séu komin í vanefnd við Umboðsmann skuldara vegna samnings sem þau gerðu við hann. Ennfremur eigi þau á hætt að missa hús sitt á Íslandi. Í athugasemdum sem kærandi sendi málskotsnefnd 10. október 2013 ítrekar hann að málið hafi haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag fjölskyldunnar og enn séu ógreiddar skuldir á Ítalíu eftir námsdvölina þar. Óskar kærandi undanþágu frá úthlutunarreglum LÍN vegna þeirra röngu upplýsinga sem að eiginkonu hans voru gefnar um lánsrétt hans hjá LÍN. Í viðbótarathugasemdum sem kærandi sendi málskotsnefnd kemur fram að hann telur þá túlkun stjórnar LÍN, að hann eigi ekki rétt á framfærsluláni miðað við búsetulandið þar sem nám hans hafi verið skipulagt sem staðnám en ekki fjarnám, ekki í samræmi við tilgang og markmið þeirra ákvæða úthlutunarreglna LÍN sem fjalli um framfærslu námsmanna. Grein 3.1.4 í úthlutunarreglunum beri að túlka með hliðsjón af eðli máls og því markmiði ákvæðisins að taka tillit til námsmanna sem búi í einu landi en stundi fjarnám í öðru. Engu máli geti skipt hvort námið sé „skipulagt fjarnám skv. kennsluskrᓠeða ekki, ef boðið sé upp á þann möguleika að stunda námið frá öðru landi og námsmaður nýti sér hann. Engin málefnaleg sjónarmið eða önnur frambærileg rök geti leitt til annarrar niðurstöðu, enda sé það í eðli sínu órökrétt og ósanngjarnt að nota framfærsluviðmið í landi sem námsmaður og fjölskylda hans búi ekki í. Loks bendir kærandi á að í ljósi framþróunar í kennsluháttum sé eðlilegt að líta svo á að aðstæður hans megi með lögjöfnun eða rýmkandi skýringu fella undir „skipulagt fjarnám skv. kennsluskrᓠí skilningi greinar 3.1.4.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurðir hennar frá 3. og 9. júlí 2013 verði staðfestir. Forsögu málsins kveður stjórn LÍN vera þá að kærandi hafi hafið nám í opinberri stjórnsýslu til diplómagráðu á haustönn 2012 við Háskóla Íslands. Hann hafi þá fengið framfærslulán miðað við búsetu á Ítalíu þar sem hann hafi verið skráður í skipulagt fjarnám, sbr. grein 3.1.4 í úthlutunarreglum LÍN. Á vorönn 2013 hafi kærandi verið skráður í MPA-nám í opinberri stjórnsýslu og óskað eftir að fá áfram framfærslu miðað við búsetuland, en verið hafnað þar sem kærandi hafi ekki getað sýnt fram á að um væri að ræða skipulagt fjarnám sem uppfyllti skilyrði greinar 3.1.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Fram kemur hjá stjórn LÍN að ekki sé að finna hjá sjóðnum nein skráð símtöl við eiginkonu kæranda. Hvað varðar þá fullyrðingu að eiginkona kæranda hans hafi tvívegis fengið þær upplýsingar frá LÍN, að kærandi ætti rétt á framfærsluláni miðað við ítölsk viðmið, þá megi gera ráð fyrir, að áliti stjórnar LÍN, að fyrirspurnin hafi beinst að því námi sem kærandi hugðist leggja stund á haustið 2012. Miðað við þær forsendur hafi ekki verið um rangar upplýsingar að ræða enda hafi starfsmaður LÍN ekki getað vitað að kærandi áformaði MPA-nám á vorönn 2013. Af hálfu stjórnar LÍN er bent á að þrátt fyrir beiðni hafi kærandi ekki langt fram nein gögn þess efnis að nám hans á vorönn 2013 væri skipulagt sem fjarnám í samræmi við grein 3.1.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn sjóðsins hafi því synjað erindi hans með úrskurði 3. júlí 2013. Að beiðni kæranda hafi mál hans verið tekið fyrir að nýju á fundi 9. júlí 2013, þar sem kærandi hafi lagt fram frekari skýringar í máli sínu. Hann hafi hins vegar ekki að mati stjórnar LÍN lagt fram ný gögn í málinu sem sýndi fram á að fyrri niðurstaða stjórnar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum eða að atvik hefðu breyst verulega frá því að stjórnin fjallaði um málið. Af þeirri ástæðu hafi málið ekki verið tekið til efnislegrar meðferðar að nýju og verið vísað frá stjórn sjóðsins. Stjórn LÍN kveður niðurstöðu sína í máli kæranda í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og fer fram á staðfestingu hennar.

Niðurstaða

 

Í 3. gr. laga um LÍN segir eftirfarandi:

Miða skal við að námslán samkvæmt lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns. Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns. Stjórn sjóðsins setur nánari ákvæði um úthlutun námslána.

Kærandi var búsettur á Ítalíu og stundaði fjarnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands skólaárið 2012-2013. Það er óumdeilt í málinu að haustönnina var hann í skipulögðu fjarnámi til diplómagráðu samkvæmt kennsluskrá Háskóla Íslands og fékk hann framfærslulán miðað við búsetulandið, sbr. grein 3.1.4 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN hafnaði því að miða framfærslu hans á vorönn við búsetulandið þar sem kærandi hafi þá verið skráður í meistaranám í opinberri stjórnsýslu, sem hann hafi ekki sýnt fram á að væri skipulagt sem fjarnám og uppfyllti því ekki skilyrði greinar 3.1.4. Í gögnum málsins er ekki að finna neitt sem staðfestir þá fullyrðingu kæranda að hann hafi haustið 2012 fengið þær upplýsingar frá LÍN, að hann ætti á vorönn 2013 rétt á framfærsluláni er miðaðist við búsetulandið. Verður niðurstaða þessa máls því ekki byggð á því að LÍN hafi gefið kæranda slíkt loforð um námsaðstoð. Kemur þá til skoðunar hvaða framfærslurétt kærandi hafi átt rétt á samkvæmt úthlutunarreglum LÍN. Kærandi lagði fyrir stjórn LÍN svohljóðandi yfirlýsingu deildastjóra stjórnmálafræðideildar við Háskóla Íslands, dagsett 17. maí 2013: Það staðfestist hér með að XXX, kt. XXXXXX_XXXX var skráður í meistaranám í opinberri stjórnsýslu vormisseri 2013 og lauk eftirfarandi námskeiðum sem öll voru kennd í stað- og fjarnámi:  OSS217F Rafræn stjórnsýsla á upplýsingaöld (6e), OSS209F Starfsumhverfi og stjórnun sveitarfélaga (6e),  OSS203F Stjórntæki hins opinbera (6e). 

Málskotsnefnd kallaði eftir ítarlegri upplýsingum frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands um skráningu kæranda á vorönn 2013, hvort hann hafi verið skráður sem fjarnámsnemandi á þeirri önn og hvort þau námskeið sem hann lagði stund á og lauk um vorið 2013 hafi verið skipulögð sem fjarnám í kennsluskrá og ennfremur hvort eitthvað hafi verið því til fyrirstöðu að kærandi legði stund á umrædd námskeið í fjarnámi sem hluta af meistaranámi sínu í opinberri stjórnsýslu. Í svarbréfi Háskóla Íslands segir að meistaranámið sé skipulagt sem staðnám, en flest námskeið í náminu séu kennd sem stað- eða fjarnámskeið. Fram komi í kennsluskrá hvers skólaárs hvaða námskeið séu kennd í fjarnámi hverju sinni og að nemendur teljist fjarnemar ef þeir skrá sig í námskeið þar sem fjarnám sé í boði. Í bréfi háskólans er framkvæmd fjarnámsins síðan lýst, sem m.a. fellst í því fyrirlestar og annað efni er sett upp á Uglu, vef háskólans. Loks segir í bréfi háskólans að kærandi hafi verið skráður fjarnámsnemandi í þeim þremur námskeiðum sem hann lauk á vorönn 2013 og þau öll hafi verið kennd í fjarnámi og skráð sem slík í kennsluskrá Háskóla Íslands. Stjórn LÍN telur að framangreindar upplýsingar staðfesti að meistaranám kæranda í opinberri stjórnsýslu sé ekki skipulagt sem fjarnám samkvæmt kennsluskrá Háskóla Íslands. Ekki sé nægilegt að nemanda standi til boða að taka tiltekin námskeið í fjarnámi ef námið sem slíkt sé ekki skipulagt sem fjarnám. Námslán eru félagsleg réttindi sem almennt eru bundin við búsetu í viðkomandi ríki sem veitir aðstoðina og er þá miðað við framfærslu í því ríki. Í kafla 3.1 í úthlutunarreglum LÍN 2012-2013 er fjallað um aðstoð LÍN til framfærslu námsmanna á námstíma. Í grein 3.1.1 segir að hún miðist við grunnframfærslu á Íslandi 140.600 kr. eða 21.090 kr. fyrir hverja ECTS-einingu sem námsmaður lýkur. Þá leiða málefnaleg sjónarmið einnig til þess að miða skuli við framfærslu í öðru ríki þegar námsmaður er þar búsettur til að stunda þar nám. Um grunnframfærslu í útlöndum segir í grein 3.1.2 að hún sé ákveðið hlutfall af grunnframfærslu á Íslandi og geti verið mismunandi eftir löndum og borgum, en miðist við landið eða borgina þar sem skólinn er staðsettur. Um framfærslu nema í skiptinámi er fjallað í grein 3.1.3, sem geta óskað eftir því að framfærsla taki mið af því landi þar sem skiptinámið er stundað. Um framfærslu fjarnámsnema er fjallað í grein 3.1.4 og segir þar að hún miðist við framfærslu í búsetulandinu og að námsmaður verði að sýna fram á skráningu í skipulagt fjarnám samkvæmt kennsluskrá skóla með staðfestum gögnum og búsetu erlendis ef við á. Er þetta eina ákvæði úthlutunarreglna LÍN sem fjallar um fjarnám og framfærslulánsrétt fjarnámsnema. Af framansögðu er ljóst að aðalreglan er sú að framfærsla námanna erlendis miðast við borgina eða landið þar sem skólinn sem nemandi stundar nám í er staðsettur. Frá því er gerð undantekning hvað varðar nemendur í skiptinámi og nemendur í fjarnámi, en þeir síðarnefndu verða m.a. að sýna fram á skráningu í skipulagt fjarnám samkvæmt kennsluskrá skóla. Eins og fram kemur í 3. gr. laga um LÍN er stjórn sjóðsins falið að setja nánari skilyrði um úthlutun námslána. Er stjórninni í þessu sambandi heimilt að taka mið af búsetu námsmanns. Stjórn LÍN hefur ákveðið að taka skuli mið af búsetu við ákvörðun framfærslu í þeim tilvikum sem vísað er til í úthlutunarreglunum, þ.e. að miða skuli við það land sem nám er stundað í og að takmarka undanþágur þar frá við skipulagt fjarnám. Málskotsnefnd telur umræddar takmarkanir bæði forsvaranlegar og lögmætar þar sem um er að ræða undanþágu frá þeirri aðalreglu að framfærsla miði við það land sem nám er stundað í. Fram er komið í málinu að meistaranám kæranda á vorönn 2013 var ekki skipulagt sem fjarnám heldur staðnám, þótt mörg námskeið í náminu, þ.á m. þau sem kærandi lagði stund á, séu einnig kennd sem fjarnámskeið. Þar sem meistaranám kæranda var ekki sem slíkt skipulagt sem fjarnám í kennsluskrá Háskóla Íslands átti kærandi ekki rétt á því að framfærsla hans á vorönn 2013 miðaðist við búsetulandið samkvæmt grein 3.1.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Fær það ekki breytt niðurstöðu málskotsnefndar þótt námskeiðin sem kæranda sótti hafi verið kennd í fjarnámi.

Úrskurðarorð

 

Hinir kærðu úrskurðir frá 3. og 9. júlí 2013 í máli kæranda eru staðfestir.

Til baka