Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-45/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun Umsóknarfrestur um sumarlán 2013

Úrskurður

 

Ár 2014, föstudaginn 21. febrúar 2014 kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-45/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 12. september 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. ágúst 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fresti vegna umsóknar um námslán á sumarönn 2013. Í kærunni kemur fram að kærandi óskar eftir flýtimeðferð þar sem hann ahfi farið utan án þess að hafa fengi framfærslulán eða skólagjöld fyrir sumarönn og að málið hafi dregist talsvert hjá LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 12. september 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 10. október 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 14. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Kærandi sendi viðbótarathugasemdir sínar með bréfi dagsettu 24. október 2013. Hvorki eru í stjórnsýslulögum, lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna, né öðrum þeim reglum sem um málsmeðferð málskotsnefndar gilda að finna ákvæði er heimila nefndinni að grípa til flýtimeðferðar mála. Málskotsnefnd telur að almennt beri að miða við þá meginreglu að afgreiða skuli mál í þeirri tímaröð sem þau berist nefndinni. Frá þessari reglu er síðan vikið þegar meðferð einstakra mála kann að dragast sökum þess að afla þarf frekari gagna eða þau eru umfangsmikil eða flókin. Þau mál sem nefndin fær helst til úrlausnar varða kærur námsmanna sem synjað hefur verið um námslán að öllu leyti eða hluta, beiðni um undanþágur frá afborgunum frá greiðendum námslána sem eru í greiðsluerfiðleikum og álitamál er varða gjaldfellingu námslána gagnvart greiðendum og ábyrgðarmönnum. Hjá nefndinni bíða nú úrskurðar m.a. mál sambærileg máli kæranda þar sem námsmönnum hefur verið synjað um námslán. Eins og rakið er að framan varða flest þau mál er málskotsnefndin fæst við mikilvæga persónulega og fjárhagslega hagsmuni kærenda og er mál kæranda því engin undantekning þar á. Af þeim sökum telur málskotsnefnd að ekki séu forsendur til að heimila flýtimeðferð í máli kæranda. Að því leyti sem rúmast innan framangreindra viðmiða hefur málskotsnefnd þó leitast við að hraða meðferð máls kæranda eftir því sem kostur er.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar nám í Bandaríkjunum. Með umsókn dagsettri 13. júlí 2013, sem barst LÍN 23. sama mánaðar, sótti kærandi um námslán til 26 eininga á sumarönn 2013. Umsókn hans var hafnað af LÍN með vísan til þess að umsóknarfrestur hafi runnið út þann 1. júlí það ár, samanber grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN 2012-2013. Í málinu kemur fram að kærandi sendi ráðgjafa LÍN fyrirspurn í tölvupósti 6. maí 2013 þar sem hann kvaðst byrja í doktorsnámi "Núna næsta quarter". Óskaði kærandi upplýsinga frá LÍN um hvað sjóðurinn þyrfti að fá frá honum vegna fyrirhugaðs náms. Í svarpósti starfsmanns LÍN, dagsettur 7. maí 2013, segir orðrétt: 

Þú þarft að byrja á því að sækja um í þetta nám ef þú ert að skipta um námsgráðu og síðan þarft þú að senda innritunarvottorð í þetta nýja nám ásamt reikning vegna skólagjalda ef þú ert að sækja um lán vegna þeirra. Ég vil vekja athygli þína á því að sjóðurinn viðurkennir ekki doktorsnám í hnykklækningum sem Ph.D. nám heldur myndir þú sækja um meistaranám í hnykklækningum. 

Hinn 4. júlí 2013 sendi kærandi LÍN tölvupóst þar sem sagði að sumarnám hans myndi hefjast 14. þess mánaðar og fylgdu póstinum gögn frá skólanum. LÍN svaraði kæranda með tölvupósti þann 11. júlí 2013 þar sem honum var bent á að hann væri ekki með neina umsókn um lán á sumarönn og að frestur til lánsumsóknar hafi runnið út þann 1. þess mánaðar. Fram kom í tölvupóstsamskiptum kæranda og LÍN í kjölfarið að of seint væri fyrir kæranda að sækja um námslánið þar sem strangt væri tekið á umsóknarfrestum hjá sjóðnum. Kærandi skilaði engu að síður inn lánsumsókn þann 23. júlí 2013, sem LÍN hafnaði. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda 28. ágúst 2013 og synjaði beiðni hans um undanþágu, eins og áður er rakið. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi telur að LÍN hafi ekki veitt honum nægilega greinargóðar upplýsingar þegar hann í maí 2013 óskaði upplýsinga frá sjóðnum um hvað hann vildi fá frá honum vegna fyrirhugaðs sumarnáms. Kærandi bendir á að af tölvupósti ráðgjafa LÍN frá 7. maí 2013 hafi hann mátt ætla að lánsfyrirgreiðsla vegna sumarnámsins 2013 væri aðeins háð því að hann myndi sækja um hið fyrirhugaða nám í viðkomandi skóla og síðan senda LÍN innritunarvottorðið, ásamt reikningi vegna skólagjalda ef sótt væri um lán vegna þeirra. Hann hafi farið eftir upplýsingum starfsmannsins og því ekki haft samband við sjóðinn að nýju fyrr en umrædd gögn lágu fyrir. Leiðbeiningar LÍN hafi því verið ófullnægjandi og beinlínis valdið því að hann sótti ekki um lán innan frests. Kærandi bendir sérstaklega á að athygli hans hafi ekki verið vakin á því hver umsóknarfrestur fyrir sumarönn væri, sem sé talsvert þrengri en umsóknarfrestur vegna haust- eða vorannar. Kærandi áréttar að einstaklingur sem leitar til sérfræðistofnunar eða stjórnvalds megi treysta því að honum séu veittar réttar upplýsingar og eigi ekki að þurfa að staðreyna þær, t.d. með því að fara inn á heimasíðu viðkomandi stofnunar. Kærandi bendir á að samkvæmt almennum reglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þjónustustefnu LÍN hafi sjóðnum borið að gæta að leiðbeininga- og upplýsingaskyldu sinni, sem og að gæta meðalhófs þegar kom að ákvörðun. Vanræksla LÍN hvað þetta varði hafi orðið til þess að kærandi hafi þurft að stunda sumarnámið án þess að eiga fyrir skólagjöldum eða framfærslu. Það samrýmist ekki því grunnmarkmiði laga um LÍN að tryggja námsmönnum, sem undir lögin falla, tækifæri til náms án tillits til efnahags, að mati kæranda. Af hálfu kæranda er einnig vísað til þess að þegar LÍN hafi auglýst á heimasíðu sinni um opnun fyrir umsóknir sumarlána þann 15. apríl 2013 hafi frestur til lánsumsóknar ekki verið tilgreindur og þá hafi LÍN ekki heldur minnt kæranda á umsóknarfrestinn í tölvupósti. Þá bendir kærandi á að vorönn hans hafi ekki lokið fyrr en um miðjan júní og sumarönn ekki hafist fyrr en 15. júlí, þ.e. eftir að frestur til að sækja um sumarlán var liðinn. Með því sé ekki hugað nægilega vel að jafnrétti námsmanna sem hér stunda nám og hinna sem stunda nám erlendis. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 28. ágúst 2013 verði staðfestur. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánsumsókn vegna náms sumarið 2013 hafi þurft að berast fyrir 1. júlí 2013 og gildi sami umsóknarfrestur fyrir alla námsmenn sem sæki um lán hjá LÍN hvort sem þeir séu í námi á Íslandi eða í útlöndum. Nemendur beri sjálfir ábyrgð á því að sækja um námslán á réttum tíma, en umsókn kæranda hafi ekki borist fyrr en 23. júlí 2013 (dagsett 13. júlí 2013). Um samskipti kæranda við lánasjóðinn bendir stjórn LÍN á að honum hafi verið bent á í tölvupósti 7. maí 2013 að hann þyrfti að byrja á því að senda inn umsókn, en þrátt fyrir það hafi hann ekki haft samband við sjóðinn að nýju fyrr en tveimur mánuðum síðar, eftir að umsóknarfrestur rann út. Þann 15. apríl 2013 hafi verið auglýst á heimasíðu LÍN að búið væri að opna fyrir sumarumsóknir. Á sama stað hafi þann 19. júní 2013 verið auglýst hvenær frestur til að sækja um lán vegna náms á sumarönn 2013 rynni út. Þá komi umsóknarfrestir vegna námslána skýrt fram í úthlutunarreglum sjóðsins, sem m.a. séu birtar á heimasíðu hans og beri öllum námsmönnum skylda til að kynna sér þær. Stjórn LÍN bendir á að hún og málskotsnefnd hafi í úrskurðum sínum margítrekað mikilvægi þess að festa ríkti um þá fresti sem námsmönnum séu settir. Í máli kæranda hafi stjórnin framkvæmt mat á því hvort óviðráðanleg atvik eða mistök starfsmanns LÍN hafi valdið því að lánsumsókn hafi ekki verið skilað innan frests. Hvorugt eigi við í málinu. Fyrirspurn kæranda í maí 2013 hafi verið svarað þannig að væri hann að skipta um námsgráðu, eins og fyrirspurnin hafi borið með sér, þyrfti hann að byrja á því að sækja um námið og síðan að skila innritunarvottorði ásamt reikningi vegna skólagjalda, ef hann ætlaði að sækja um lán vegna þeirra. Þá hafi honum verið bent á að LÍN viðurkenndi ekki hnykklækningar sem doktorsnám heldur þyrfti hann að sækja um námið sem meistaranám. Hafi leiðbeiningar starfsmanns verið í fullu samræmi við fyrirspurn kæranda. Þá bendir stjórn LÍN á að allir umsóknarfrestir séu tryggilega auglýstir og námsmenn verið sjálfir að bera ábyrgð á því að sækja um á réttum tíma. Þrátt fyrir upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu stjórnvalda geri námsmenn ekki varpað ábyrgð sinni yfir á sjóðinn.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 skal stjórn LÍN setja reglur um úthlutun námslána. Þá er kveðið á um umsóknarfrest vegna námslána í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um LÍN þar sem m.a. segir að LÍN skuli auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og að sækja skuli sérstaklega um fyrir hvert námsár. Umsóknarfresturinn er birtur árlega í úthlutunarreglum LÍN sem eru auglýstar í Stjórnartíðindum. Fresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Ljóst er að umsóknarfrestur var tryggilega auglýstur. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013 er kveðið á um að lánsumsókn vegna náms sumarið 2013 þurfi að berast fyrir 1. júlí það ár. Kærandi sótti um lán vegna náms sumarið 2013 með umsókn sem barst LÍN þann 23. júlí 2013, eða röskum þremur vikum eftir að fresturinn til þess rann út. Í eldri úrskurðum málskotsnefndar hefur ítrekað komið fram að almennt verði að ganga út frá því sem meginreglu, að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Hins vegar hafa stjórnvöld oft heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um innan tilskilins frests. Í þessu máli er því ekki haldið fram, né bendir neitt til þess, að atvik sem ekki fékkst ráðið við hafi valdið því að umsókn kæranda barst of seint. Um það er hins vegar deilt hvort stjórn LÍN hafi borið að veita kæranda undanþágu frá umsóknarfrestinum þar sem ófullnægjandi leiðbeiningar frá ráðagjafa LÍN hafi orðið þess valdandi að umsókn hans barst ekki innan frest. Í margnefndum tölvupósti kæranda til ráðgjafa LÍN þann 6. maí 2013 kemur fram að kærandi muni á næsta ársfjórðungi (quarter) hefja doktorsnám eftir að hafa lokið nauðsynlegu grunnnámi til að uppfylla inntökuskilyrði. Síðan segir hann. „Hvað er það sem þið viljið þá frá sent frá mér núna fyrir næsta quarter?“ Ráðgjafi LÍN svarar því til að hann þurfi að byrja á því að sækja um í námið, sé hann að skipta um námsgráðu, síðan að senda sjóðnum innritunarvottorð um þetta nýja nám ásamt reikningi skólagjalda hyggist hann sækja um lán vegna þeirra. Loks bendir ráðgjafinn kærandi á að LÍN viðurkenni ekki doktorsnám í hnykklækningum til Ph.D. gráðu og því verði hann að sækja um námið sem meistaranám. Af framansögðu er ljóst að kærandi fær þá ráðgjöf að hann verði að sækja um til sjóðsins fyrir meistaranám, þótt þess sé ekki getið hvenær LÍN opni fyrir umsóknir eða fyrir hvaða tíma umsókn þurfi að berast sjóðnum. Að áliti málskotsnefndar er ekki hægt að fallast á það með kæranda að leiðbeiningar starfsmanns LÍN hafi verið rangar eða ófullnægjandi og þannig komið í veg fyrir að hann sótti um innan frests. Þvert á móti hafi þær verið í samræmi við fyrirspurn kæranda og ekki verður lögð ríkari skylda á stjórnvaldið til leiðbeininga en fyrirspurn gaf tilefni til. Eins og áður er nefnt eru reglur LÍN um umsóknarfresti tryggilega auglýstar og birtar og jafnframt verður að gera þá kröfu til námsmanna að þeir kynni sér reglur sjóðsins um lánveitingar og fresti. Var það því á ábyrgð kæranda að umsókn hans barst ekki LÍN innan tilskilins frests. Með vísan til laga um LÍN, reglugerðar og úthlutunarreglna sjóðsins, svo og fyrri úrlausna stjórnar LÍN við meðferð samskonar mála svo og meðferð þessa máls, fellst málskotsnefnd á það með stjórn LÍN að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti og að jafnræðis hafi verið gætt af hálfu LÍN við afgreiðslu málsins. Þá er einnig vísað til þess að málskotsnefnd hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum samanber hér fyrr. Er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 28. ágúst 2013 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka