Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-64/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun Umsókn um sumarlán 2013

Úrskurður

 

Ár 2014, föstudaginn 21. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-64/2013.

 

Kæruefni

 

Með bréfi dagsettu 3. desember 2013 sem barst málskotsnefnd 10. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. október 2013 þar sem synjað var beiðni kæranda um endurskoðun á ákvörðun LÍN um að synja henni um námslán. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 10. desember 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 6. janúar 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Svarbréf barst frá kæranda dagsett 20. janúar 2014.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Þann 4. september 2013 sendi kærandi tölvupóst til LÍN þar sem hún innti eftir því hvenær hún fengi greitt út námslán vegna umsóknar er hún hafi sent um sumarlán 2013. Í svarpósti LÍN 17. september s.á. segir að engin umsókn frá kæranda liggi fyrir hjá sjóðnum vegna sumarláns 2013 en að kærandi eigi umsókn vegna haustláns 2013. Segir í svari LÍN að umsóknarfrestur sé löngu liðinn og því sé ekki hægt að verða við beiðni kæranda um að fá afgreitt sumarlán. Í svarpósti 1. október 2013 segir kærandi að hún hafi bæði sent rafræna umsókn og á pappír. Hún hafi nú lokið 30 einingum og vilji fá lán í samræmi við það. Í bréfi dagsettu sama dag til LÍN útskýrir kærandi að hún hafi reynt að senda inn umsókn fyrir sumarlán í febrúar 2013 en ekki tekist þar sem ekki hafi verið búið að opna fyrir umsóknir í tölvukerfi LÍN. Hafi hún þá gripið til þess ráðs að prenta út umsóknareyðublað sem hún hafi sent sjóðnum. Hún hafi síðan farið að spyrjast fyrir um lánið þegar námsárangur hennar hafi legið fyrir en þá fengið þau svör að engin umsókn hefði borist. Kærandi útskýrir jafnframt að hún sé öryrki með tvö fötluð börn auk þess sem faðir barnanna eigi við alvarleg veikindi að stríða. Eigi hún ekki í önnur hús að venda og séu foreldrar hennar látnir. Kveðst hún hafa skuldsett sig fyrir láninu og lendi í miklum vandræðum fáist málið ekki í gegn. Þann 17. október 2013 úrskurðaði stjórn LÍN í máli kæranda. Kemur fram í úrskurðinum að ekki sé hægt að fallast á beiðni kæranda um lán vegna sumarannar þar sem engin umsókn hafi borist frá henni. Þann 22. október 2013 sendir kærandi LÍN útprentun af umsókn er hún kveðst hafa sent sjóðnum. Er um að ræða bréf sem dagsett er 14. apríl 2013 með yfirskriftinni „Sumarlán vegna námsloka við Háskólann á Bifröst.“ Í bréfinu er sótt er um lán vegna 30 eininga meistararitgerðar sem kærandi muni ljúka sumarið 2013. 

Sjónarmið kæranda 

Í kærunni er byggt á því að kærandi hafi sótt um lán með formlegum hætti og er vísað í því efni til bréfs sem dagsett er 14. apríl 2013 er kærandi hafi póstsent til LÍN. Hafi umsóknin verið send með almennum pósti og kunni að hafa misfarist. Einnig kunni umsóknin að hafa misfarist hjá skrifstofu LÍN. Um sé að ræða mistök sem í öllu tilvikum beri að leiðrétta en ekki láta einn aðila gjalda þeirra og þá síst þann sem líði mestan skaða af þessum mistökum. Hafi kærandi áður reynt að sækja um lán með rafrænum hætti en sú umsókn hafi ekki náð í gegn en hún ætti að sjást í tölvukerfi LÍN. Einnig er þess farið á leit að meðferð máls kæranda verði hraðað þar sem hún sé öryrki með tvö fötluð börn á framfæri. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að enga umsókn frá kæranda um námslán vegna 2012-2013 sé að finna hjá LÍN. Kærandi haldi því fram að hún hafi sent bréflega umsókn dagsetta 14. apríl 2013 en þrátt fyrir ítarlega leit, m.a. í dagsmöppum frá 15. – 22. apríl 2013 er geymi innkomin bréf hafi ekki fundist nein umsókn frá kæranda. Þá hafi engin umsókn fundist í tölvukerfi sjóðsins vegna 2012-2013. Engin samskipti séu skráð við kæranda frá því hún hafi sent inn læknisvottorð þann 9. apríl 2013 og þar til 4. september s.á. er hún hafi sent fyrirspurn með tölvupósti um námslán sín. Í athugasemdum stjórnar LÍN er einnig upplýst að fram komi í tölvukerfi sjóðsins að kærandi hafi farið inn á umsókn um vorlán í byrjun febrúar 2013 en ekki klárað umsóknarferlið. Næstu hreyfingar í tölvukerfinu komi svo fram 27. ágúst 2013 er kærandi hafi sótt um námslán vegna 2013-2014.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og skal í auglýsingunni m.a. koma fram hvenær umsóknarfrestur rennur út. Í grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2012-2013 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsókn vegna náms sumarið 2013 skuli hafa borist sjóðnum fyrir 1. júlí 2013. Engar undanþágur er að finna frá reglum um umsóknarfresti. Málskotsnefnd hefur þó talið að samþykkja beri umsóknir er berist eftir tilskilinn frest ef fyrir liggur að óviðráðanlegar orsakir hafi valdið því að námsmaður sótti ekki um fyrr en eftir tilskilinn frest eða að mistök hafi verið gerð af hálfu sjóðsins. Í máli þessu hefur kærandi haldið því fram hún hafi bæði reynt að senda umsókn í gegnum tölvukerfi og einnig að hún hafi sent bréflega umsókn er hafi sökum mistaka glatast í pósti eða hjá lánasjóðnum. Í gögnum þeim sem stjórn LÍN hefur lagt fram í málinu kemur fram að kærandi byrjaði umsókn um námslán vegna vorláns 2013 í febrúar 2013. Ekki verða bornar brigður á þau orð kæranda að í þessu tilviki hafi hún reynt að sækja um sumarlán 2013. Kærandi lauk hins vegar ekki þessu umsóknarferli og kemur fram í kæru hennar að hún hafi þá gert sér grein fyrir að ekki væri búið að opna fyrir umsóknir um sumarlán í kerfi LÍN. Kærandi lýsir því einnig í bréfi sínu til LÍN þann 1. október 2013 að þegar hún hafi gert sér grein fyrir því að ekki væri hægt að senda rafræna umsókn hafi hún prentað út umsóknareyðublaðið og sent LÍN í bréfpósti. Í tölvupósti til LÍN þann 22. október 2013 lýsir kærandi því hins vegar að hún hafi þann 14. apríl 2013 ritað bréf til LÍN þar sem hún hafi sótt um námslán og fylgir afrit bréfsins erindi kæranda. Kveðst kærandi hafa sent það í bréfpósti. Stjórnvaldi er ekki skylt að taka til meðferðar umsóknir sem ekki berast fyrir tilskilinn frest og verður að telja að þar undir falli umsóknir sem ekki er sannað að hafi borist viðkomandi stjórnvaldi. Málskotsnefnd bendir á að þó ekki sé hægt að útiloka að umsókn kunni að hafa misfarist hljóti það að vera á ábyrgð umsækjanda í slíku umsóknarferli þar sem sækja þarf um fyrir tiltekinn frest að fylgjast með hvort umsókn hans hafi borist. Er honum það kleift bæði með því að senda rafræna umsókn og fylgjast með stöðu umsóknar sinnar á "Mínum síðum". Þá á umsækjandi þess einnig kost að hafa samband við sjóðinn og kanna meðferð umsóknar sinnar. Þau gögn sem fyrir liggja í málinu nægja ekki að mati málskotsnefndar til að renna stoðum undir þá fullyrðingu kæranda að umsókn frá henni hafi misfarist. Við þær aðstæður sem hér er lýst að framan er því að mati málskotsnefndar ekki heldur hægt að byggja á því að umsókn frá kæranda hafi í reynd borist sjóðnum. Þá eru engar undanþágur fyrir hendi í lögum eða reglum sem um sjóðinn gilda sem heimila LÍN að veita undanþágu þrátt fyrir þær sérstöku aðstæður sem kærandi lýsir í kæru sinni. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 17. október 2013 er staðfestur.

 
Til baka