Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-43/2013 - Endurgreiðsla námslána - synjun um endurútreikning á tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 5. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-43/2013:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 21. ágúst 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. júlí 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um endurútreikning á tekjutengdri afborgun ársins 2012 og beiðni hans um að LÍN hlutist til um niðurfellingu á innheimtukostnaði og dráttarvöxtum hjá innheimtaðila vegna vanskila hans og konu hans. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. ágúst 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 23. september 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi nefndinni athugasemdir sínar í tölvupósti dagsettum 23. október 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fékk sendan greiðsluseðil frá LÍN í byrjun september 2012 vegna tekjutengdrar afborgunar á námsláni sínu hjá LÍN. Fjárhæð afborgunarinnar, sem kæranda var gert að greiða, byggði á áætluðum skattstofni hans hjá Ríkisskattstjóra (RSK) vegna tekna hans á árinu 2011. Kærandi óskaði eftir endurútreikningi á afborguninni með tölvupósti til LÍN þann 29. október 2012. Þar kemur m.a. fram:

"Er að reyna að sækja formlega um að afborgun 1.9.2012 verði reiknaður upp á nýtt samkvæmt nýjum skattaútreikningi en hann var áætlaður. Ég gat ekki fundið neitt inn á LIN.is sem ég gat notað annað en að senda ykkur þennan rafpóst. Ég geri mér grein fyrir að á morgun rennur út hinn heillagi 60 daga frestur þannig að ég auðmjúklega bið um leiðbeiningar til að sækja ““formlega““ um nýjan útreikning."

LÍN svaraði kæranda í tölvupósti þann 31. október 2012 með eftirfarandi hætti:

"Þú þarft að senda framtal 2012 sem sýnir tekjur 2011 í því landi sem þú varst í 2011. Við fengum frá RSK í sumar rafrænt ísl. framtalstekjur 9.418.750.00. Ef þær eru ekki réttar þarft þú að hafa samb. Við RSK og fá kæruúrskurð og senda LÍN."

Kærandi hefur næst samband við sjóðinn þann 29. maí 2013 og óskar eftir því að tekjutengda afborgun ársins 2012 verði endurútreiknuð, að LÍN hlutaðist til um niðurfellingu á innheimtukostnaði hjá lögmönnum og um niðurfellingu á dráttarvöxtum hjá honum og konu hans. Meðfylgjandi erindinu sendi kærandi óstaðfest skattframtal 2012. Staðfesting um kæru kæranda til RSK eða um niðurstöðu skattyfirvalda í málinu liggur ekki fyrir. Ákvörðun stjórnar LÍN vegna erindis kæranda þann 29. maí 2013 lá fyrir 3. júlí sama ár og var niðurstaðan sú að beiðni hans um endurútreikning var hafnað með vísan til greinar 7.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn sjóðsins féllst á, að yrðu vanskil við sjóðinn gerð að fullu upp við innheimtulögmenn sjóðsins, þá félli helmingur ógreiddra áfallinna dráttarvaxta niður. Þá lagði stjórn sjóðsins til, með sömu skilmálum, að innheimtulögmenn sjóðsins gæfu allt að 20% afslátt af ógreiddum innheimtukostnaði við uppgjör vanskila. Kærandi kærði ákvörðunina til málskotsnefndar með kæru dagsettri 21. ágúst 2013.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að hann hafi sótt um frest til LÍN vegna ofáætlunar tekna sinna fyrir árið 2011 innan tilskilins tíma haustið 2012 og hafi réttur útreikningur samkvæmt skattstjóra borist þann 1. október 2012 til LÍN. Hann vísar til þess að hann hafi hvorki fengið tilkynningu né aðvörun frá LÍN haustið 2012 vegna þessara ofreiknuðu tekna sem lagðar voru til grundvallar fjárhæð tekjutengdu afborgunarinnar. Hann telur þessa málsmeðferð ekki vera í samræmi við þær upplýsingar sem gefnar séu á heimasíðu lánasjóðsins um áætlaðar tekjur, þ.e. að miða eigi við meðaltekjur. Stétt sjúkraþjálfara, sem hann tilheyri, sé ekki með milli níu og tíu milljónir í meðalárslaun. Kærandi telur að LÍN hafi ekki viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti í málinu og að ekki hafi verið gætt að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þá bendir kærandi á að innheimtukostnaður lögmanna sé orðinn 481.623 kr. hjá sér og konu sinni. Hann vísar til þess að það sé LÍN sem hafi ákvörðunarvaldið um framgang innheimtunnar og sjóðurinn setji innheimtuaðilum sínum fyrirmæli um hvernig staðið skuli að innheimtunni. Einnig bendir hann á að fyrir liggi tilmæli ríkisstjórnarinnar um að LÍN beiti vægum innheimtuaðgerðum gagnvart lántakendum sínum. Með vísan til þess hafi hann farið fram á að LÍN hlutist til um niðurfellingu þess innheimtukostnaðar sem fallið hafi á hann og konu hans vegna þessa máls. Þá óskar kærandi einnig eftir niðurfellingu þeirra dráttarvaxta sem fallið hafi á hann og konu hans vegna málsins. Kærandi bendir á að hann hafi nýtt þá viðbótarfresti sem séu í boði hjá skattyfirvöldum til að skila skattframtölum sínum eftir þörfum hverju sinni og sé ekkert athugavert við það. Einnig að kærandi hafi farið til innheimtuaðila LÍN fyrripart árs 2013. Þar hafi honum verið boðið að ganga frá skuldabréfi vegna vanskilanna ef hann gæti útvegað ábyrgðarmenn á það. Kærandi vísar til þess að hann og kona hans séu í vinnu, séu fasteignaeigendur og ekki á vanskilaskrá. Hvers vegna krafist hafi verið ábyrgðarmanna til viðbótar þeirra persónulegu ábyrgð á skuldabréfinu viti hann ekki og sé ósáttur við það. Þá mótmælir hann því að honum hafi verið boðið þetta úrræði margsinnis eins og LÍN haldi fram. Staðreyndin sé sú að honum hafi verið boðinn þessi frágangur einu sinni.

Sjónarmið LÍN

LÍN vísar til þess að samkvæmt grein 7.1 í úthlutunarreglum sjóðsins skulu fylgiskjöl vegna umsókna berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Sjóðurinn bendir á þegar sá frestur hafi runnið út höfðu engin gögn borist frá kæranda sem staðfestu að tekjur hans hafi verið aðrar en upplýsingar frá RSK gáfu tilefni til. Með vísan til þess hafi beiðni hans um endurútreikning á tekjutengdu afborgun ársins 2012 verið synjað. Varðandi vísun kæranda í leiðbeiningar á heimasíðu LÍN um áætlun tekna greiðanda erlendis þá eigi það ekki við í þessu máli þar sem það sé RSK sem hafi áætlað á hann tekjur sem síðan hafi borist með álagningarskrá skattyfirvalda til sjóðsins. LÍN telur að með boði sínu til kæranda um frágang vanskila hans við sjóðinn hafi sjóðurinn fylgt boðum stjórnvalda um hvernig rétt sé fyrir LÍN að standa að innheimtu vanskila við sjóðinn. Þá bendir LÍN á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem kærandi sæki um endurútreikning á tekjutengdri afborgun en í janúar 2011 hafi hann sent erindi til LÍN og óskað eftir endurútreikningi vegna tekjutengdrar afborgunar fyrir árið 2010. Því erindi hafi verið synjað þar sem hann hafði ekki sótt um innan 60 daga frá gjalddaga. Einnig að vanskil kæranda við sjóðinn nái aftur til 1. september 2011 og vanskil maka hans aftur til 1. mars 2012. Kæranda hafi margoft verið boðið af hálfu innheimtuaðila sjóðsins að gera upp vanskil sín með útgáfu skuldabréfs þannig að hann geti komið láni sínu í skil en því hafi ekki verið sinnt.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í 3. mgr. 8. gr. laganna segir að viðbótargreiðslan miðist við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. Hundraðshluti þessi er 3,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni dregst svo fastagreiðslan. Í 10. gr. laganna kemur fram að þegar tekjur eru skattskyldar á Íslandi er með tekjustofni átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Einnig kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að sé lánþega áætlaður skattstofn skuli miða við hann. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir síðan:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2012-2013 sem eiga við í þessu máli er í kafla VII fjallað um lánskjör. Segir þar m.a. eftirfarandi:

7.1. Endurgreiðslur námslána Endurgreiðslur námslána taka mið af ákvæðum hvers skuldabréfs og þeim lögum sem í gildi voru þegar lánin voru tekin. Að öðru leyti gilda samþykktar úthlutunarreglur hverju sinni. Fylgiskjöl vegna umsókna eiga að berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út.

Í grein 7.4 í úthlutunarreglunum er síðan fjallað um umsókn um endurútreikning með eftirfarandi hætti:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Endurútreikningur fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar upplýsingar um tekjurnar liggja fyrir skulu þær senda sjóðnum og endurútreikningur skoðaður til samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.

Á heimasíðu LÍN kemur fram að sjóðurinn afli upplýsinga um tekjur lánþega hjá RSK og ef tekjur eru áætlaðar á lánþega af hálfu skattsins ber sjóðnum að nota áætlunina við útreikning tekjutengdrar afborgunar. Þar kemur einnig fram að lánþega ber að standa skil á þessari greiðslu þó hann telji hana ekki taka mið af réttum tekjum hans en að hann getur sótt um endurútreikning í allt að 60 daga eftir gjalddaga og fengið afborguninni breytt þegar nauðsynleg gögn hafa borist sjóðnum. Í málinu liggur ekki annað fyrir en að kærandi hafi verið að fullu skattskyldur á Íslandi á árinu 2011, sbr. m.a. óstaðfest skattframtal kæranda sem liggur fyrir í málinu. Í samræmi við lagafyrirmæli byggði LÍN útreikning sinn á tekjutengdri afborgun kæranda fyrir árið 2011 á tekjuupplýsingum frá RSK þar sem tekjur kæranda voru áætlaðar. Var gjalddagi þeirrar afborgunar 1. september 2012 og rann hinn lögákveðni 60 daga frestur til að sækja um endurútreikning út 1. nóvember 2012. Kærandi sótti um endurútreikning til LÍN 29. október 2012 og LÍN svaraði kæranda 31. október s.á. og leiðbeindi honum um að senda LÍN framtal 2012 vegna tekna ársins 2011 og að hafa samband við RSK og fá kæruúrskurð hjá skattyfirvöldum og senda LÍN. Það sem kemur fyrst og fremst til skoðunar hjá málskotsnefndinni er hvort LÍN sé heimilt vísan til greinar 7.1 í úthlutunarreglunum að synja beiðni kæranda um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar fyrir árið 2011 þar sem kærandi skilaði ekki upplýsingum eða fylgiskjölum með umsókn sinni um endurútreikning innan tveggja mánaða frá því að 60 daga fresturinn rann út. Málskotsnefnd bendir á að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 skal sækja um endurútreikning eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja svo fyrir sjóðinn „bestu fáanlegar upplýsingar“ um tekjur. Í lögunum er ekki gefinn neinn frestur til að koma þessum upplýsingum að en í úthlutunarreglum LÍN, grein 7.1, er gefinn tveggja mánaða frestur eftir að umsóknarfrestur rennur út til að koma að fylgiskjölum. Var þessi frestur settur í úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2012-2013. Í fyrri framkvæmd LÍN var frestur tilgreindur eftir atvikum hverju sinni en þó alltaf þannig að gerð var krafa um að fylgigögnum eða upplýsingum væri komið til sjóðsins í eðlilegu framhaldi af því að umsókn um endurútreikning hafði verið sett fram. Í grein 7.1 í úthlutunarreglunum hefur LÍN sett sér viðmið sem lánþegar geta kynnt sér fyrirfram og gefur sjóðnum tækifæri á að gæta samræmis og jafnræðis í meðferð mála sinna gagnvart lánþegum. Málskotsnefnd telur að kæranda hafi mátt vera ljóst frá því í byrjun september 2012 að útreikningur afborgunarinnar byggði á áætlun RSK. Kærandi sendi umsókn sína um endurútreikning til LÍN innan 60 daga frestsins og í svörum starfsmanns LÍN sem send voru kæranda strax að móttekinni umsókn hans er þess óskað að kærandi leggi fram staðfestar upplýsingar um tekjur sínar. Kærandi hafði frest fram að áramótum, sbr. 3. mgr. greinar 7.4, sbr. 2. mgr. grein 7.1, til að koma að fullnægjandi fylgiskjölum með staðfestum upplýsingum um tekjur sínar á árinu 2011 þannig að endurútreikna mætti afborgunina. Kærandi hafði þó ekki samband aftur við LÍN fyrr en með erindi sínu þann 31. maí 2013 og þá lagði hann fram óstaðfest afrit af skattskýrslu fyrir árið 2011 en engin önnur gögn. Voru þá eins og áður greinir liðnir 7 mánuðir frá því LÍN bað hann um gögnin. Rétt er að geta þess að kærandi segir í kæru sinni að réttur útreikningur skattstjóra á tekjum hans hafi legið fyrir þegar þann 1. október 2012. Í málinu liggur ekkert fyrir um slíkar upplýsingar eða staðfestingu frá RSK um að slíkur endurútreikningur hafi farið fram, enda á ábyrgð kæranda eins og áður greinir að leggja fram þau gögn sem LÍN hafði óskað eftir í samskiptum sínum við hann þann 31. október 2012. Málskotsnefnd telur það vera á ábyrgð kæranda að skila inn fullnægjandi gögnum með sannanlegum hætti til stuðnings beiðni sinni um endurútreikning og að það hefði hann þurft að gera innan þess frests sem tilgreindur er í úthlutunarreglum LÍN nema að honum hafi verið það ómögulegt. Enda verður það að teljast eðlilegt framhald eftir að hafa óskað eftir endurútreikningi innan lögmælts frests. Þá er það mat málskotsnefndar að miðað við rúmt orðalag 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur, núgildandi staðgreiðslukerfi og svo hraða í stjórnsýslu skattamála hér á landi, þá eru fyrrgreindir frestir ekki óyfirstíganlegir né ósanngjarnir fyrir lántakendur LÍN. Málskotsnefndin vísar til þess að nefndin hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Málskotsnefndin telur hvorugt eigi við í þessu máli. Málskotsnefnd telur með vísan til framangreinds og svo til þeirra almennu fresta sem gefnir eru í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 verður að telja framlagningu umbeðinna gagna of seint fram komna. Kærandi hefur vísað til þess að LÍN beri að miða við meðaltekjur sjúkraþjálfara eins og gert er þegar greiðendur búsettir erlendis skila ekki inn upplýsingum um tekjur. Af þessu tilefni tekur málskotsnefnd fram að kveðið er á um það í 3. mgr. 10 gr. laga um LÍN að ef staðfesting á skattskyldum tekjum lánþega liggja ekki fyrir beri að miða við áætlun skattyfirvalda hér á landi. LÍN er einungis heimilt að áætla tekjur erlendra greiðenda þegar fyrir liggur að íslensk skattyfirvöld hafa ekki áætlað á þá sökum þess að þeir eru ekki skattskyldir hér á landi. Í því tilviki miðar LÍN við meðaltekjur erlendra greiðenda sem ekki eru þær sömu og meðaltekjur sjúkraþjálfara á Íslandi sem kærandi hefur vísað til. Er því ekki hægt að fallast á þessar röksemdir kæranda. Málskotsnefnd fellst ekki á það með kæranda að LÍN hafi við meðferð þessa máls brotið gegn meginreglum stjórnsýslulaga. Nefndin telur þó að það hefði verið vandaðri stjórnsýsla að LÍN vekti athygli lántakanda á 2 mánaða frestinum skv. 2. mgr. greinar 7.1 í úthlutunarreglunum í tölvupósti sínum þann 31. október 2013 og beinir því til LÍN að endurskoða verklag sitt að þessu leyti og einnig að umræddur frestur sé kynntur með skýrum hætti í leiðbeiningum á heimasíðu LÍN. Þá telur málskotsnefnd að LÍN hafi með boði sínu frá 3. júlí 2013 um frágang á áföllnum innheimtukostnaði og dráttarvöxtum á vanskilum kæranda og konu hans við sjóðinn komið til móts við þau með sanngjörnum hætti. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar stjórnar LÍN er því staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun frá 3. júlí 2013 í máli kæranda er staðfest.  

Til baka