Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-46/2013 - Lánshæfi - lánshæfi leiklistarskóla í Danmörku

Úrskurður

Ár 2014, fimmtudaginn 13. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-46/2013:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 30. september 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. ágúst 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán með vísan til þess að þriggja ára nám í leiklist við Holberg Film and Theater School í Danmörku sé ekki lánshæft samkvæmt reglum sjóðsins. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. október 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 31. október 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 18. nóvember 2013. Viðbótarathugasemdir LÍN vegna gagna frá kæranda um skólann og starfsemi hans voru settar fram í bréfi til nefndarinnar dagsett 3. desember 2013 og svo athugasemdir kæranda við þeim í bréfi dagsettu 16. desember s.á. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá LÍN varðandi málið og barst svar LÍN í bréfi dagsettu 27. febrúar 2014. Upplýsingarnar voru sendar kæranda til kynningar og bárust athugasemdir hans 10. mars 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Leiklistarskólinn Holberg Film and Theater School (FTH) í Kaupmannahöfn hefur verið lánshæfur hjá LÍN um árabil. Kærandi sótti um námsvist í skólanum í byrjun árs 2013 og fór í inntökupróf til Kaupmannahafnar í lok mars 2013. Honum var boðin skólavist við skólann í byrjun apríl s.á. sem hann þáði en skólastarfið átti hefjast 2. september 2013. Vorið 2013 voru nokkrir stjórnendur FTH kærðir fyrir fjársvik og í framhaldi af því yfirgáfu helstu kennarar og flest allir nemendur skólann og lagðist kennsla við skólann að mestu af á vormisseri. Íslenskir stúdentar, sem skráðir voru í skólann veturinn 2012-2013, sendu LÍN bréf dagsett 5. apríl 2013 þar sem þeir lýstu vandræðum sínum vegna þessa máls hjá skólanum. Þann 9. maí 2013 fékk LÍN tölvupóst frá starfsmanni hjá Kultur- & Fritidsforvaltningen hjá Köbenhavns Kommune (Kaupmannahafnarborg) þar sem fram kemur að FTH og starfsfólk skólans hafi verið kært til lögreglunnar í Kaupmannahöfn vegna gruns um fjársvik í tengslum við styrki frá borginni. Starfsmaður LÍN sendi starfsmanni Kaupmannahafnarborgar tölvupóst 10. maí s.á. þar sem leitað var upplýsinga um hvort að skólanum hafi verið lokað á meðan á rannsókn stæði. Starfsmaður borgarinnar svarar í tölvupósti sama dag að FTH hafi verið lokað í nokkurn tíma en það sé einnig vegna þess að allir nemendur hafi hætt námi sínu þar ("FT Holberg has been closed for some time. But that¿s all so because of the students stopped their studies there."). Í kjölfarið var skólinn tekinn af skrá hjá LÍN sem lánshæfur skóli. Skólinn var þó ekki á þessum tíma, þ.e. vorið 2013 felldur brott af listanum sem birtur er á heimasíðu LÍN um lánshæfa skóla. Var það ekki gert fyrr en 31. október 2013. Þann 13. júlí 2013 sækir kærandi um námslán hjá LÍN vegna væntanlegs náms hans við FTH veturinn 2013-2014. Þann 6. júlí s.á. hafði kærandi sent LÍN fyrirspurn þar sem m.a. kemur fram að honum skiljist að skólinn sé búinn að vera í sambandi við LÍN því það séu búin að vera vandræði með skólann. Búið sé að taka skólann af skrá en honum hafi verið sagt að sækja um og þá myndi LÍN meta "nýja" skólann. Í tölvupóstum aðila í júlí s.á. kemur fram af hálfu LÍN að vafi sé um lánshæfi FTH og nauðsynlegt sé að fá frekari upplýsingar vegna málsins. Kemur m.a. frá í tölvupósti LÍN dagsettum 23. júlí 2013 að kærandi þurfi að afla staðfestingar danskra menntamálayfirvalda á viðurkenningu skólans. Þann 15. júlí 2013 sendi starfsmaður LÍN tölvupóst til starfsmanns Kaupmannahafnarborgar þar sem spurt var hvort FTH hafi einhverja viðurkenningu í Danmörku eftir hann hafi verið kærður. Í svari borgarinnar, dagsettu 1. ágúst 2013, segir: "The „old" FT Holberg is no longer recognized by the City of Copenhagen. The group of persons behind it is trying to start a new school with the same name but City of Copenhagen have informed the people behind the school that it will not be recognized." Þann 13. ágúst 2013 sendir kærandi LÍN erindi og mótmælir málsmeðferð málsins. Í ákvörðun LÍN frá 28. ágúst s.á. taldi sjóðurinn með hliðsjón af grein 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2013-2014 nám í leiklist við FTH skólann væri ekki lánshæft þar sem ekki lægi fyrir staðfesting á því að skólinn væri viðurkenndur af menntamálayfirvöldum í Danmörku eins og reglur gera kröfu um. Kærandi hóf nám sitt við FTH í byrjun september 2013.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að í erindi sínu til LÍN þann 8. ágúst sl. hafi hann óskað eftir að beiðni hans um námslán yrði endurskoðuð á þeim forsendum að breyting á lánshæfi skólans hafi verið gerð með of skömmum fyrirvara. Hann vísar til þess að skólinn hafi lengi verið á lista yfir lánshæfa skóla hjá LÍN og hafi reyndar verið á listanum á heimsíðu sjóðsins í ágúst þegar LÍN hafi fjallað um málið. Kærandi telur að ekki sé ljóst hvaða breytingar hafi orðið í umhverfi skólans eða í reglum LÍN sem réttlæti það að skólinn sé tekinn af lista yfir lánshæfa skóla. Hann vísar til þess að skilyrði fyrir inngöngu í skólann sé að standast inntökupróf hans. Þá sé einnig ljóst að skólinn hafi verið viðurkenndur af danska menntamálaráðuneytinu á árinu 1998 og að engar upplýsingar hafi legið fyrir að skólinn þyrfti að endurnýja þá viðurkenningu. Kærandi vísar til þess að hann hafi treyst þeim upplýsingum sem komi fram á heimasíðu LÍN og hann hafi sótt um skólavist í lánshæfu námi í byrjun árs 2013. Hann hafi farið í inntökupróf til Kaupmannahafnar í mars það ár, þáð skólavist við skólann í framhaldinu og að skólastarfið hafi hafist 2. september 2013. Beiðni hans um námslán hafi verið synjað hjá LÍN í lok júlí 2013 þar sem námið væri ekki lánshæft. Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við allar tímasetningar hjá LÍN í málinu. Það sé verulega íþyngjandi fyrir hann að LÍN skyldi breyta lánshæfi námsins um það leyti sem skólastarf hafi verið að hefjast. Það sé brýnt að námsmenn geti treyst upplýsingum á vef sjóðsins og geti gert sínar áætlanir í samræmi við þær með eðlilegum fyrirvara. Telur kærandi að upplýsingar um breytingar á lánshæfi skóla verði að liggja fyrir áður en umsóknarferli hefjist. Kærandi bendir á að hann hafi sótt um skólavist í þessum skóla vegna þess að hann hafi verið á lista hjá LÍN yfir lánshæfa skóla og hafi verið það a.m.k. fram í lok ágúst 2013. Á þeim forsendum hafi hann gert sínar ráðstafanir. Kærandi bendir á að hann hafi þurft að gangast undir miklar fjárhagslegar skuldbindingar vegna skólagjalda og húsnæðiskostnaðar og það hafi komið sér mjög illa fyrir hann að LÍN skuli ekki hafa afgreitt mál hans fyrr en í lok ágúst 2013. Hann vísar til þess að hann hafi hafið undirbúning að því að komast í umræddan skóla með löngum fyrirvara. Hann hafi fyrst farið í áheyrnarprufur hjá skólanum í mars 2012 en hafi þá ekki komist inn. Í framhaldi hafi hann sótt m.a. gítarkennslu og söngkennslu við Tónsmiðju Suðurlands á Selfossi og tvenn leiklistarnámskeið í Reykjavík til að undirbúa sig fyrir áheyrnarprufu skólans fyrir skólaárið 2013-2014. Hafi hún verið haldin í Kaupmannahöfn í lok mars 2013 og hafi hann fengið jákvætt svar um inngöngu þremur dögum seinna. Hann hafi strax hafið undirbúning fyrir nám á erlendri grundu haustið 2013 m.a. með því að sækja um húsnæði á stúdentagörðum í Kaupmannahöfn. Kærandi vísar til þess að þegar hann hafi svo sótt um námslán hjá LÍN í júlí 2013 hafi LÍN farið fram á að hann útvegaði frá skólanum viðurkenningu danskra menntamálayfirvalda á því að skólinn væri lánshæfur. Á þessum tíma hafi skólinn samt verið talinn lánshæfur hjá LÍN, bæði á heimasíðu sjóðsins og inn á "Mínu svæði" á heimabankanum. Þegar stjórn LÍN hafi loks tekið mál hans fyrir með formlegum hætti þ.e. 28. ágúst 2013 hafi hann fyrir löngu verið búinn að staðfesta inngöngu sína í skólann eins og reglur geri ráð fyrir og öllum undirbúningi til að hefja námið hafi verið lokið. Varðandi það að kæranda hafi í byrjun júlí 2013 verið kunnugt um þá stöðu sem skólinn væri í þá bendir hann á að á þessum tíma hafi hann vitað að FTH væri starfandi og ekki hafi orðið neitt rof í starfsemi skólans þrátt fyrir þann vanda sem upp hafi komið. Einnig að það hafi verið komin ný stjórn og stjórnendur í kjölfar fjársvikamáls fyrri skólastjóra og að nafn skólans væri óbreytt. Þá bendir hann á að núverandi stjórnendur skólans kannist ekki við að breyting hafi orðið á stöðu skólans gagnvart dönskum menntayfirvöldum og hafi upplýst að verið sé að vinna að því af hálfu skólans að fá styrkhæfisviðurkenning frá SU sem skólinn hafi aldrei haft. Kærandi hafi aldrei haft ástæðu til að ætla annað en að staða skólans væri óbreytt gagnvart LÍN. Kærandi telur að skólinn hafi nákvæmlega sömu stöðu gagnvart dönskum menntamálayfirvöldum og hann hafi haft á meðan hann taldist lánshæfur hjá LÍN. Vegna þess sem fram komi hjá LÍN um að engin tölvusamskipti hafi verið milli hans og sjóðsins fyrr en í júlí 2013, þá bendir hann á að ekki hafi verið nein ástæða til samskipta fyrr en þá. Skólinn hafi verið á lista LÍN yfir lánshæfa skóla sem sé kynntur á heimasíðu LÍN og þá hafi kæranda verið kunnugt um að íslenskir námsmenn stunduðu nám við skólann. Kærandi hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að staða skólans væri óbreytt. Hann hafi fyrst fengið upplýsingar um það í júlí að vafi léki á lánshæfi skólans en að hann hafi verið hvattur til að sækja um námslán og þá yrði staða skólans skoðuð.

Sjónarmið LÍN

LÍN byggir á því að í grein 1.3.2 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir skólaárið 2013-2014 segi um sérnám í útlöndum: "Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða viðurkenndan skóla af menntamálayfirvöldum í landinu, námið sé skipulagt sem a.m.k. eins árs nám og sé nægilega veigamikið að mati stjórnar sjóðsins hvað varðar eðli, uppbyggingu, inntökuskilyrði og starfsréttindi......" LÍN geti ekki fallist á að þriggja ára nám í leiklist við FTH í Danmörku uppfylli fyrrgreind skilyrði og sé lánshæft, þar sem ekki hafi borist staðfesting á því að skólinn sé viðurkenndur af menntamálayfirvöldum í Danmörku eins og framangreind regla geri kröfu um. LÍN vísar til þess að eftir að kærandi hafi haft samband í byrjun júlí 2013 hafi mál hans farið strax í undirbúning fyrir stjórnarfund. Hafi kæranda verið send beiðni um nánari upplýsingar og málið hafi verið rannsakað nánar af hálfu LÍN til þess að hægt væri að leggja það fyrir stjórn sjóðsins. LÍN bendir á að vegna tæknimistaka hafi verið hægt að fletta upp "gamla" skólanum á heimasíðu skólans undir „Lánshæfir skólar á skrá hjá LÍN“. Þrátt fyrir það sé alveg ljóst að kærandi vissi hver staða "nýja" skólans væri strax í byrjun júlí 2013 og því hafi hann ekki getað byggt réttmætar væntingar um að skólinn væri lánshæfur eingöngu af vef LÍN þegar hann vissi betur. LÍN hafnar því með öllu að sýnt hafi verið fram á að skólinn hafi fengið viðurkenningu danskra menntamálayfirvalda líkt og haldið sé fram. Vegna fullyrðinga kæranda um að ekki hafi orðið rof í skólastarfi í FTH þykir stjórn LÍN rétt að fram komi að samkvæmt upplýsingum sínum hafi hvorki kennsla né almennt skólastarf átt sér stað á vormisseri 2013. Fyrri stjórnendum og kennurum hafi verið sagt upp störfum í febrúar það ár og allir nemendur skólans fylgdu þeim í annan skóla. Eina virka starfsemin á vormisseri 2013 virðist hafa verið undirbúningur fyrir næsta skólaár eða 2013-2014. Málskotsnefnd óskaði eftir upplýsingum frá LÍN um hvenær sjóðnum hafi borist vitneskja um erfiðleika umrædds skóla og hvenær upplýsingar hafi borist um að skólinn hafi verið lagður niður. LÍN hefur upplýst að sjóðurinn hafi fyrst fengið upplýsingar um erfiðleika skólans með bréfi íslenskra námsmanna við skólann dagsett 5. apríl 2013. Þann 10. maí s.á. hafi LÍN fengið staðfestingu frá Kaupmannahafnarborg um að skólinn væri búinn að vera lokaður í einhvern tíma. Þá hefur LÍN upplýst að sjóðurinn hafi tekið upplýsingar um lánshæfi FTH af heimasíðu sinni þann 31. október 2013. Einnig hefur LÍN upplýst, vegna vísunar sjóðsins á fyrri stigum málsins til tæknimistaka varðandi uppfærslu heimasíðunnar, að réttara hafi verið að segja tæknilegra mistaka en ekki tæknimistaka. Tæknilegu mistökin hafi falist í því að ekki hafi verið farið eftir verkferli sem eigi að vinna eftir í kjölfar þess að skóla sé lokað á miðju misseri. Það hafi svo leitt til þess að það hafi farist fyrir að taka skólann af heimasíðu sjóðsins þegar staða hans hafi komið ljós. Málskotsnefndin óskaði einnig eftir upplýsingum frá LÍN um hvort það væri venja að námsmenn hafi samband við LÍN til að spyrjast fyrir um lánshæfi skóla áður en komið sé að því að sækja um námslán. LÍN upplýsti að það sé allur gangur á því hvernig námsmenn beri sig að áður en þeir sæki um lán hjá LÍN en algengt sé að þeir kanni lánshæfi þess skóla sem þeir hyggjast stunda nám við áður en þeir fari í námið og að það sé algengara hjá þeim sem hyggja á nám erlendis en þeim sem ætla í nám hérlendis. Sérstaklega aðspurt hvort fordæmi væri fyrir því að skóli sem hafi verið lánshæfur hjá LÍN til margra ára sé tekinn af skrá svo seint sem gerðist í þessu máli svaraði LÍN því játandi. Að skólar geti bæði verið teknir út af listanum og settir inn á listann yfir lánshæft nám svo seint. Þrátt fyrir tilraunir þar um hafi vegna skorts á fjármagni og mannafla ekki verið hægt að koma í veg fyrir það að skólar sem ekki séu lengur lánshæfir hangi inná þessum lista enda séu þar skráðir nokkur hundruð skóla sem erfitt sé að fylgjast með. Þá upplýsti LÍN að fyrir liggi hjá sjóðnum að yfirfara allt nám og skóla sem skráðir séu hjá LÍN. Í kjölfarið verði farið yfir skráð lánshæft nám hjá LÍN til samræmis við niðurstöðu þeirrar könnunar.

Niðurstaða

Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um sjóðinn að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Þá er lánasjóðnum heimilt samkvæmt 2. gr. laganna að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir framangreinda skilgreiningu enda stundi þeir sérnám og skal stjórn sjóðsins setja nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað. Hefur stjórn LÍN sett í úthlutunarreglur sínar reglur um lánshæft nám erlendis. Í grein 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2013-2014 er fjallað um sérnám erlendis og þar segir: "Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða viðurkenndan skóla af menntamálayfirvöldum í landinu, námið sé skipulagt sem a.m.k. eins árs nám og sé nægilega veigamikið að mati stjórnar sjóðsins hvað varðar eðli, uppbyggingu, inntökuskilyrði og starfsréttindi. Ekki er lánað til starfsnáms sem er launað skv. kjarasamningi umfram grunnframfærslu, sbr. gr. 3.1.2 og 3.2." Í grein 1.3.5. segir um upplýsingar um lánshæft nám erlendis: "Hjá sjóðnum liggja fyrir upplýsingar um skóla og námsbrautir sem lánað hefur verið til. Ef sótt er um lán í skóla eða námsbraut sem sjóðurinn hefur ekki lánað til þarf stjórn sjóðsins að fjalla um málið. Námsmaður þarf þá að útvega ítarlegar upplýsingar um námið." Allir lánshæfir skólar á Íslandi eru upptaldir í úthlutunarreglunum og fylgiskjölum með þeim reglum. Á heimasíðu LÍN er hægt að fletta upp þeim skólum og námsbrautum erlendis sem lánað hefur verið til og teljast lánshæf samkvæmt reglum LÍN. Framangreint skilyrði í grein 1.3.2 um að skóli verði að hafa viðurkenningu menntamálayfirvalda í umræddu landi var bætt við greinina með úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2011-2012. Fyrir þann tíma var ákvæðið svohljóðandi: "Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám sem talist getur nægilega veigamikið, að því er varðar eðli þess, uppbyggingu og starfsréttindi, að mati stjórnar sjóðsins. Ekki er lánað til starfsnáms sem er launað skv. kjarasamningi umfram grunnframfærslu, sbr. grein 3.1.2 og grein 3.2." Í málinu liggur fyrir að FTH hefur verið metinn lánshæfur hjá LÍN um árabil og var á lista yfir lánshæfa skóla erlendis á heimasíðu LÍN þar til 31. október 2013. Í ákvörðun sinni frá 28. ágúst 2013 komst LÍN að þeirri niðurstöðu að nám við FTH væri ekki lánshæft með vísan til greinar 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN þar sem skólinn njóti ekki viðurkenningar menntamálayfirvalda í Danmörku. Gögn málsins bera með sér að í byrjun árs 2013 áttu sér stað innanhússátök innan FTH sem enduðu með því að tveir kennarar svo og stór hluti nemenda yfirgáfu skólann. Kennararnir stofnuðu nýjan leiklistarskóla, Copenhagen International School of Performing Arts (CISPA) og hófu flestir fyrrum nemendur FTH nám við þennan nýja skóla. Þá liggur fyrir að fyrrum skólastjórnandi og starfsmenn skólans voru kærðir til lögreglu vegna gruns um fjársvik í tengslum við styrkveitingar frá Kaupmannahafnarborg. Einnig liggur fyrir að skipt var um stjórn FTH og nýir starfsmenn ráðnir til skólans á vorönn 2013. Skipulag náms hjá skólanum er óbreytt og þá hefur skólinn sent málskotsnefndinni upplýsingar um verkefnastyrki sem aðilar tengdir skólanum hafa fengið úthlutað sl. ár og svo upplýsingar um að skólinn njóti styrks frá Menningarsjóði Danmerkur (Statens Kunstfond). Forráðamenn FTH hafa mótmælt því með öllu að skólanum hafi verið lokað eða að hann hafi verið lagður niður. Vísar skólinn m.a. til þess að áheyrnarprufur fóru fram í mars 2013 þar sem nýir nemar voru valdir í skólann fyrir veturinn 2013-2014, þ.m.t. kærandi þessa máls og þá hafi skólaárið 2013-2014 verið undirbúið. Af gögnum málsins má sjá að LÍN fékk fyrst vitneskju um framangreind vandamál FTH með bréfi fyrrum nemenda skólans og bréfi fyrirsvarsmanns CISPA dagsettu 5. apríl 2013. Óskuðu nemendurnir, sem voru lántakendur hjá LÍN vegna náms síns við FTH, eftir því að sjóðurinn tæki tillit til aðstæðna þeirra og samþykkti þennan nýja skóla [þ.e. CISPA] sem lánshæfan enda ætti hann að uppfylla allar kröfur sjóðsins. Eftir þetta á LÍN í tölvupóstsamskiptum við starfsmann Kaupmannahafnarborgar 9. og 10. maí 2013. Þar er upplýst að FTH og starfsfólk skólans hafi verið kært til lögreglunnar í Kaupmannahöfn vegna gruns um fjársvik sem tengist styrkjum frá borginni. Einnig upplýsir umræddur starfsmaður, sérstaklega aðspurður, að skólinn hafi verið lokaður í nokkurn tíma en að það sé einnig vegna þess að allir nemendur hafi hætt námi sínu þar eða orðrétt „FTH has been closed for some time. But that¿s all so because of the students stopped their studies there.“ LÍN tók FTH af skrá yfir lánshæfa skóla í framhaldi af þessum samskiptum en vegna mistaka hjá LÍN var skólinn ekki tekinn af listanum á heimasíðu sjóðsins fyrr en 31. október 2013. Þegar kærandi setti sig samband við LÍN í byrjun júlí 2013 til að undirbúa lánsumsókn sína til LÍN óskaði sjóðurinn eftir gögnum frá honum m.a. viðurkenningu danskra menntamálayfirvalda á FTH. Að mati málskotsnefndar liggur ekki fyrir í málinu að FTH hafi verið lagður niður og að starfseminni hafi verið hætt. Þvert á móti styðja gögn málsins að skólinn hafi lent í innri átökum eins og lýst hefur verið og starfsemi hans nánast lamast á vormisseri 2013 vegna þeirra. Þrátt fyrir það voru haldin inntökupróf á vormisserinu, nemar teknir inn og starfsemin hélt áfram haustið 2013 undir nýrri stjórn og með nýjum kennurum en með sama námsskipulagi. Skólinn var samþykktur af LÍN á sínum tíma sem lánshæfur skóli og þá væntanlega á grundvelli eldri úthlutunarreglna sjóðsins. Málskotsnefndin telur að ekkert í málinu styðji það eða bendi til að skólinn sé nýr í skilningi úthlutunarreglna LÍN. Sjóðurinn hafi því sett málið í rangan farveg með því að meta skólann eins og um skóla væri að ræða sem LÍN hafi aldrei lánað til áður og leggja það á kæranda að útvega ítarlegar upplýsingar um námið og skólann. Málskotsnefndin telur einnig að í málinu liggi ekki fyrir fullnægjandi gögn eða rök sem styðji það að FTH hafi af einhverjum öðrum ástæðum misst lánshæfi sitt hjá LÍN. Enda byggir hin kærða ákvörðun á því að um nýjan skóla sé að ræða sem meta þurfi á grundvelli gildandi úthlutunarreglna en ekki á því að verið sé að endurskoða lánshæfi skóla sem hefur notið viðurkenningar LÍN um árabil. Þá kemur til skoðunar hvort að aðstæður í máli kæranda hafi gefið honum réttmætar væntingar til þess að ætla að FTH byði uppá lánshæft nám hjá LÍN og að hann gæti fengið námslán hjá LÍN að uppfylltum öðrum skilyrðum sjóðsins. Í álitum umboðsmanns Alþingis og í dómaframkvæmd hefur almennt verið viðurkennt að játa beri stjórnvöldum svigrúm til að gera breytingar á stjórnsýsluframkvæmd enda séu þær innan marka laga og byggðar á málefnalegum sjónarmiðum. Séu slíkar breytingar íþyngjandi gagnvart borgurunum með tilliti til fyrri stjórnsýsluframkvæmdar verði stjórnvöld þó almennt að kynna breytinguna fyrirfram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hafi raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd. Eigi þetta sérstaklega við ef hin breytta framkvæmd leiði til þess að breytt sé verulega með íþyngjandi hætti skilyrðum fyrir því að njóta tiltekinnar fyrirgreiðslu eða réttinda samkvæmt þeim reglum og framkvæmd sem stjórnvald hafi viðhaft eða slík fyrirgreiðsla eða réttindi yrðu alfarið felld niður. Þá hefur verið talið að þegar stjórnsýsluframkvæmd sé breytt verði almennt á grundvelli vandaðra stjórnsýsluhátta að kynna breytinguna fyrirfram þannig að þeir aðilar sem málið snerti geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna. Ef stjórnvöld geri ekki reka að slíkri kynningu hefur verið talið að það kynni að hafa þau áhrif að fremur yrði lagt til grundvallar við mat á einstökum tilvikum að ekki hafi verið rétt að láta hinar breyttu reglur gilda um eldri tilvik, a.m.k. þegar ganga yrði út frá því að viðkomandi hafi haft málefnalegar og eðlilegar væntingar til þess að leyst yrði úr máli hans á grundvelli hinnar eldri reglu. Í þessu sambandi sé horft til þess að borgararnir hafa réttmætar væntingar um að njóta fyrirgreiðslu eða réttinda í samræmi við þekkta og gildandi stjórnsýsluframkvæmd og slíkt sé einnig í samræmi við jafnræði og samræmi sem stjórnvöldum beri að fylgja við afgreiðslu á málum þeirra sem séu að lögum í sambærilegri stöðu. Framangreind sjónarmið koma m.a. fram í dómi Hæstaréttar nr. 151/2010, í álitum umboðsmanns Alþingis nr. 3307/2001 og 6109/2010 og nú síðast í dómi héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-2932/2013. Kærandi sótti um og þreytti inntökupróf við FTH í mars 2013 og fékk inngöngu í skólann í byrjun apríl sama ár. Hann hóf þegar undirbúning að flutningi til Kaupmannahafnar en skólastarfið átti að hefjast 2. september 2013. FTH var á lista yfir lánshæfa skóla hjá LÍN og hafði verið það um árabil og var það forsenda þess að kærandi valdi nám við FTH. Í júlí 2013 lá fyrir að LÍN taldi vafa á lánshæfi skólans og þann 28. ágúst 2013 tók stjórn sjóðsins hina kærðu ákvörðun um að nám kæranda við FTH teldist ekki lánshæft. Sú ákvörðun var kynnt kæranda í bréfi, dagsettu 2. september 2013, eða sama dag og kærandi hóf nám sitt við skólann. Málskotsnefnd telur að þegar LÍN ákvað 28. ágúst 2013 að FTH byði ekki uppá lánshæft nám hafi verið um að ræða breytingu gagnvart kæranda sem var verulega íþyngjandi miðað við fyrri framkvæmd og fyrirvarinn með þeim hætti að kærandi hafði ekki raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir og bregðast við breyttri framkvæmd. Kærandi hafi með réttu mátt vænta þess að ekki yrði gerð slík íþyngjandi breyting og hér um ræðir á lánshæfi skóla sem hafði verið viðurkenndur hjá LÍN um nokkurra ára skeið. Breytingin var til þess fallin að valda röskun á áætlunum kæranda varðandi nám sitt og fjárhag á skólaárinu. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða málskotsnefndar að LÍN hafi hvorki lagt fullnægjandi grundvöll að málinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, né lagt málið í réttan farveg samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins, áður en LÍN tók hina kærðu ákvörðun. Þá er fallist á það með kæranda að hann hafi haft réttmætar væntingar um að FTH væri lánshæfur og að hann ætti rétt á námsláni frá LÍN vegna náms síns við FTH að öðrum skilyrðum uppfylltum. Er því hin kærða ákvörðun felld úr gildi og er lagt fyrir LÍN að taka umsókn kæranda um námslán til afgreiðslu með hefðbundnum hætti.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 28. ágúst 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi. 

Til baka