Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-56/2013 - ábyrgðarmenn - ábyrgð á námslánum

Úrskurður

 

Ár 2014, miðvikudaginn 2. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-56/2013.

Kæruefni

Með kæru, dagsettri 5. nóvember 2013, kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 2. október 2013 þar sem synjað var kröfu kæranda um að viðurkennt yrði að ábyrgð hans vegna láns sem auðkennt er sem lán S-xxx væri niður fallin. Gerir kærandi þær kröfur fyrir nefndinni að hin kærða ákvörðun verði úr gildi felld og jafnframt að viðurkennt verði að ábyrgð hans á ofangreindu láni sé niður fallin. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. nóvember 2013 og var jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. desember 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 20. janúar 2014. Voru athugasemdirnar framsendar LÍN sem sendi viðbótarathugasemdir þann 27. janúar 2014. Kærandi sendi síðan viðbótarandmæli vegna athugasemda LÍN með bréfi dagsettu 11. febrúar 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er ábyrgðarmaður á 18 námslánum sem lántaki tók á tímabilinu febrúar 1988 til september 1991. Er vísað til lánanna með einu númeri S-xxx í skráningu hjá LÍN. Um er að ræða námslán sem tekin voru í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Undirritaði kærandi yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á skuldabréf sem gefin voru út vegna lánanna. Þann 4. júní 2013 sendi kærandi bréf til LÍN þar sem hann krafðist þess að innheimtuaðgerðum vegna umræddra lána yrði hætt gagnvart sér þar sem skuldin væri fyrnd samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda er í gildi hafi verið þegar skuldabréfin voru undirrituð. Vísaði kærandi máli sínu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í máli nr. 242/2010. Í svarbréfi LÍN dagsettu 14. júní 2013 kvað sjóðurinn umrædd lán vera í skilum hjá sjóðnum. Síðasta greiðsla hafi verið innt af hendi þann 1. mars 2013. Lántaki hafi fengið undanþágu frá afborgunum á árunum 2001-2008 á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1991 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þegar lántaki fengi undanþágu frá afborgun teldist hann vera í skilum við sjóðinn. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 25. júní 2013 þar sem hann ítrekaði fyrri afstöðu sína um að skuldin væri niður falli sökum fyrningar og að LÍN léti af frekari innheimtuaðgerðum gagnvart honum. Þar vísaði kærandi til þess að vanskil hafi verið á greiðslu afborgana frá gjalddaganum 1. september 2000, eða í síðasta lagi frá gjalddaganum 1. mars 2001, þegar föst ársgreiðsla hafi verið á gjalddaga. Hafi skuldin því fallið niður sökum fyrningar í síðasta lagi 1. mars 2005. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar væri því ábyrgðarskuldbindingin einnig fyrnd, sbr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með ákvörðun sinni dagsettri 2. október 2013. Vísaði stjórnin til þess að lántaki hefði fengið undanþágur frá afborgunum á því tímabili sem kærandi hefði vísað til og teldist námslánið því hafa verið í skilum.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi byggir á því að krafa LÍN samkvæmt umræddum skuldabréfum sé fallin niður. Í hinni kærðu ákvörðun stjórnar LÍN sé byggt á því að aðalskuldari hafi greitt afborganir af lánum frá 1. mars 1995 til og með gjalddaga þann 1. mars 2000. Síðan hafi hann sótt um og fengið undanþágur frá afborgunum vegna áranna 2001 til og með 2008. Undanþágu frá afborgun 1. mars 2009 hafi hins vegar verið hafnað en greiðslum hafi verið dreift á fjóra gjalddaga sem kærandi sem ábyrgðarmaður hafi greitt í einu lagi 29. júlí 2009. Beri hin kærða ákvörðun með sé að lántaki hafi eftir þetta ekki greitt frekar af skuldum sínum heldur hafi hann ýmist fengið undanþágur eða kærandi innt af hendi greiðslur sem ábyrgðarmaður í kjölfar innheimtubréfa sem ýmist hafi verið send af LÍN eða innheimtufyrirtækinu Motus. Kærandi lýsir því að lántaki virðist hafa fengið undanþágur frá afborgunum hjá LÍN á grundvelli heimildar í lögum nr. 72/1982 er heimili undanþágu ef "skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára." Að mati kæranda var LÍN óheimilt að veita lántaka slíkar undanþágur án þess að tilkynna slíkt til kæranda og fá samþykki hans og lengja þannig í endurgreiðsluferli og auka við skuldbindingar kæranda sem ábyrgðarmanns. Þá dregur kærandi jafnframt í efa að hagir lántaka hafi verið þannig til fleiri ára að þær falli undir það sem geti talist "skyndilegar og verulegar breytingar" milli ára í skilningi ákvæða skuldabréfanna. Kærandi bendir á í þessu sambandi að ekki hafi verið tilefni til að byggja á þessum rökum fyrr en í kæru til málskotsnefndar þar sem LÍN hafi ekki veitt nánari upplýsingar um hvernig staðið hafi verið að undanþágunum fyrr en eftir að afstaða stjórnarinnar lá fyrir í máli kæranda. Þá vísar kærandi einnig til þess að málsforræðisreglan gildi ekki við meðferð kærumála í stjórnsýslunni heldur rannsóknarreglan. Hafi kærandi því víðtækar heimildir til að koma að nýjum kröfum, málsástæðum og upplýsingum um málsatvik. Kærandi vísar einnig til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn en þar komi m.a. fram að lánveitandi geti ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings ábyrgðarmanni í óhag, en telja verði undanþágu frá greiðslum, sem ekki sé veitt í samræmi við skilmálana, til einhliða skilmálabreytinga af hálfu LÍN. Kærandi bendir á að líta verði svo á að krafa LÍN hafi í raun fallið í gjalddaga 1. mars 2001, eða við vangreiðslu gjalddaga næstu þrjú til fjögur ár þar á eftir þar sem ekki yrði litið svo á að hagir lántaka gætu lengur talist í samræmi við það sem lýst er í undanþáguheimildum. Kærandi telur leiða af þessu að krafa LÍN á hendur lántaka sé í raun fallin niður sökum fyrningar eða í öllu falli með stoð í ógildingarreglum samningaréttarins, einkum 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga. Verði ekki fallist á þetta byggir kærandi á því að krafa LÍN hafi fallið í gjalddaga í síðasta lagi 1. mars 2009. Hafi skuldari ekki greitt á gjalddaga 1. mars 2009 og hafi því skuldin öll fallið í gjalddaga samkvæmt skilmálum skuldabréfsins og því fyrnst fjórum árum síðar sbr. lög nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 242/2010. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar falli ábyrgðarkrafa niður um leið og aðalkrafa, sbr. bæði 2. mgr. 25. gr. núgildandi laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sem og 4. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905. Í tilefni af kröfu LÍN um frávísun málsins bendir kærandi á í fyrsta lagi að hlutverk málskotsnefndar sé að skera úr um hvort úrskurðir stjórnar LÍN séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og því sé ljóst að málið falli undir valdsvið nefndarinnar. Þá bendir kærandi á í öðru lagi að samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga skuli tryggt að mál séu nægjanlega vel upplýst og því sé ekki tilefni til að vísa frá nefndinni röksemdum kæranda vegna veitingu undanþága frá afborgunum.

Sjónarmið LÍN

Stjórn LÍN fer þess á leit að málinu verði vísað frá málskotsnefnd á grundvelli 5. gr. a laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 79/1998. Þar komi fram að hlutverk málskotsnefndar sé að úrskurða hvort ákvarðanir stjórnar LÍN séu í samræmi við lög, reglugerðir og reglur um sjóðinn sem staðfestar hafa verið af menntamálaráðherra. Efni þessa máls snúi að túlkun á lögum um fyrningu og heyri því ekki undir starfssvið nefndarinnar. Í athugasemdum LÍN kemur fram að afborganir hafi verið greiddar af umræddu láni frá gjalddaga 1. mars 1995 til og með gjalddaga 1. mars 2000. Síðan hafi lántaki sótt um og fengið undanþágur frá afborgunum vegna áranna 2001 til og með 2008 á grundvelli ákvæða í skuldabréfunum og lögum nr. 72/1982 er um lánið giltu, sbr. nú lög nr. 21/1992. Einnig hafi lántaki sótt um en verið synjað um undanþágu frá afborgun með gjalddaga 1. mars 2009. Hann hafi síðan sótt um greiðsludreifingu 3. mars 2009 og hafi LÍN samþykkt að dreifa greiðslum á 6. hvers mánaðar frá mars til og með júlí s.á. Hafi ábyrgðarmaður síðan greitt fjárhæðina í heild sinni 29. júlí 2009. Síðan hafi lántaki sótt um og fengið samþykkta undanþágu frá gjalddaga 1. september 2009. Þá hafi lántaki einnig sótt um undanþágu vegna gjalddaga 1. mars 2010 en þegar samþykki hafi verið veitt 14. júní s.á. hafi ábyrgðarmaður verið búinn að greiða afborgunina. Hafi andvirði undanþágunnar þá verið ráðstafað til greiðslu inn á lánið til lækkunar þess. Síðan hafi lántaki sótt um undanþágu og fengið vegna gjalddaga 1. september 2010 til og með gjalddaga 1. mars 2012. Afborgun gjaldaga 1. september 2012 hafi síðan verið greidd 16. nóvember 2012 og afborgun 1. mars 2013 hafi verið greidd á gjalddaga. LÍN vísar til þess að lánið hafi verið veitt í gildistíð eldri laga um fyrningu nr. 14/1905. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. laganna sé fyrningarfrestur ábyrgðarskuldbindinga fjögur ár óháð því hver fyrningarfrestur aðalkröfu sé. Miðist upphaf fyrningarfrests við þann tíma er krafa verði gjaldkræf, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Ábyrgðarkrafa ábyrgðarmanns verði virk og gjaldkræf þegar lántaki hafi vanefnt skuldbindingu sína. Að mati LÍN liggi fyrir að greitt hafi verið inn á kröfuna og gildi hennar þar með viðurkennt, sbr. m.a. 6. gr. laga nr. 14/1905. Þá hafi lántaki sótt um og fengið undanþágur frá afborgunum skuldabréfanna. Tekur LÍN sérstaklega fram að þeir greiðslufrestir sem lántaki hafi verið veittir byggi á skilmálum skuldabréfanna sem ábyrgðarmaður hafi samþykkt þannig fyrir sitt leyti. Verði ábyrgðarmaður þannig talinn bundinn af þeim. LÍN tekur fram að gjaldfellingarákvæði skuldabréfa séu sett til hagsbóta fyrir kröfuhafa. Væri það óeðlileg niðurstaða að hægt væri að greiða af kröfunni en halda því síðan fram að skuldin væri fyrnd sökum þess að umrædd afborgun hafi verið greidd of seint. Þá verði að telja að þó svo að fram komi í skuldabréfunum að lánið gjaldfalli án uppsagnar verði kröfuhafi að hafa svigrúm til þess að ákveða hvort lánið verið innheimt með þeim hætti. Önnur niðurstaða myndi leiða til þess að LÍN yrði að ganga mun harðar fram bæði gegn skuldurum og ábyrgðarmönnum og svigrúm til að sækja um undanþágu eða semja um greiðslur yrði lítið sem ekkert. Þó svo að talið yrði að komið hafi til slíkrar gjaldfellingar á árinu 2009 þá hafi krafan verið viðurkennd með innborgun sem og með umsóknum um undanþágur frá afborgunum. Að mati LÍN á tilvitnaður dómur Hæstaréttar í máli nr. 242/2010 ekki við í málinu. Þá vísar LÍN einnig til þess að mótmæli kæranda við veitingu undanþága hafi ekki verið borin undir stjórn LÍN og því beri að vísa þeim frá málskotsnefnd.

Niðurstaða

Niðurstaða um valdsvið málskotsnefndar. Í 2. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992 segir eftirfarandi um hlutverk málskotsnefndar: Nefndin sker úr um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Þá segir einnig í 2. mgr. i.f. að ráðherra setji nefndinni starfsreglur. Í 1. gr. reglugerðar nr. 79/1998 um starfsreglur málskotsnefndar segir eftirfarandi um hlutverk nefndarinnar:

Málskotsnefnd gefur álit um hvort úrskurðir stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og reglna um sjóðinn sem staðfestar hafa verið af menntamálaráðherra.

Málskotsnefnd telur ofangreint ákvæði 2. mgr. 5. gr. a laga nr. 21/1992 fela í sér að valdsvið nefndarinnar er víðtækt og í samræmi við viðtekin sjónarmið í stjórnsýslurétti um eftirlits - og réttaröryggishlutverk stjórnsýslunefnda sem ætlað er að taka ákvarðanir í stað æðra stjórnvalds. Ákvæði um málskotsnefndina voru færð í lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna að tillögu meirihluta menntamálanefndar Alþingis með lögum nr. 67/1997 og þá til breytinga á þeirri tillögu fyrirliggjandi lagafrumvarps um að úrskurðir stjórnar LÍN um vafamál er vörðuðu einstaka lánþega væru endanlegir og yrðu ekki kærðir til æðra stjórnvalds. Málskotsnefndinni er því ætlað að sinna því eftirlits- og réttaröryggishlutverki vegna mála sem kærð eru til hennar sem að jafnaði er í höndum æðra stjórnvalds. Þegar nefndinni berst kæra vegna tiltekinnar ákvörðunar eða úrskurðar stjórnar LÍN leiðir af hlutverki nefndarinnar að hún þarf að gæta að því hvort LÍN hafi, almennt og í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga, lagt réttan grundvöll að því máli sem skotið hefur verið til nefndarinnar og þá í samræmi við þær reglur sem gilda um starfsemi LÍN. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu, þ. á m. við ákvarðanir um afborganir námslána og ábyrgða veittum vegna námslána, að fylgja þeim sérstöku lagareglum sem gilda um stjórnsýslu ríkisins, bæði settum og óskráðum grundvallarreglum, og vönduðum stjórnsýsluháttum. Kærandi hefur kært ákvörðun stjórnar LÍN um að synja honum um að ábyrgð hans á námsláni sé niður fallin. Hefur hann í því sambandi vísað til ákvæða laga um LÍN sem og laga um fyrningu kröfuréttinda. Málskotsnefnd bendir á að það ræður úrslitum hér á hvaða lagagrundvelli umrædd lánveiting og ábyrgð veitt vegna hennar fer fram. Ákvarðanir varðandi námslán eru teknar á grundvelli laga nr. 21/1992 um LÍN og teljast því stjórnvaldsákvarðanir. Þá telur málskotsnefnd það ekki skipta máli varðandi valdsvið nefndarinnar þó kærandi hafi vísað til lagaákvæða um fyrningu kröfuréttinda og bendir á að Umboðsmaður Alþingis (sjá m.a. mál nr. 5924/2010) hefur áréttað að LÍN beri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gæta þess að við innheimtu krafna á hendur lánþegum og eftir atvikum ábyrgðarmönnum sé farið að meginreglum íslensks kröfuréttar. Málskotsnefnd ber eins og áður greinir að gæta að því að LÍN sinni verkefnum sínum í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Telur málskotsnefnd samkvæmt framansögðu að valdsvið nefndarinnar sé skýrt og að það taki til þess að fylgjast með því sem kæra kæranda lýtur að, þ.e. hvort umrædd ákvörðun stjórnar LÍN sé í samræmi við lög um LÍN og vandaða stjórnsýsluhætti, þ.m.t. meginreglur íslensks kröfuréttar, lögfestar sem ólögfestar.

Niðurstaða um efni kæru.

Kærandi byggir á því að krafa LÍN á hendur honum sé fallin niður sökum fyrningar og/eða sökum þess að LÍN hafi gert einhliða breytingar á skilmálum með því að veita aðalskuldara undanþágur frá greiðslu afborgana án þess að upplýsa kæranda um það. Vísar kærandi í þessu sambandi til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Kærandi hefur jafnframt vísað til ógildingarreglna samningaréttarins. Í bréfi sínu til LÍN 4. júní 2013 byggði kærandi á því að vanskil hafi verið af hendi greiðanda í síðasta lagi frá gjalddaga 1. mars 2001. Í kæru sinni til stjórnar LÍN segir kærandi síðan að þó fallast mætti á að sökum undanþáguveitinga hafi lánið verið í skilum fram til ársins 2008, liggi fyrir að undanþága hafi fallið niður 2008 og að greiðsla á næsta gjalddaga þar á eftir, þ.e. 1. mars 2009 hafi hvorki verið innt af hendi á réttum tíma né af lántaka sjálfum, heldur af kæranda sem ábyrgðarmanni er hafi innt greiðslu af hendi 29. júlí 2009. Liggi því fyrir að vanskil hafi orðið af hálfu lántaka á gjalddaga 1. mars 2009 og hafi aðalskuldari ekki innt neina greiðslu af hendi síðan 17. febrúar 2000. Allar greiðslur eftir það tímamark hafi verið inntar af hendi af kæranda. Í kæru sinni til málskotsnefndar byggir kærandi á upphaflegum rökum sínum að fyrningin hefjist eftir gjalddagann 1. mars 2001. Vísar kærandi til þess að LÍN hafi ekki verið heimilt að veita undanþágur til lántaka og auka þannig við ábyrgðarskuldbindingar kæranda. Verði ekki fallist á þessar röksemdir byggir kærandi á því að krafa LÍN hafi í síðasta lagi fallið í gjalddaga 1. mars 2009. Hafi lánið verið í vanskilum og eins og áður greinir hafi ábyrgðarmaður innt greiðslur af hendi síðan þá.

a. Heimildir LÍN til að veita undanþágu frá afborgunum á tímabilinu 2001-2008.

Málskotsnefnd getur ekki fallist á þær röksemdir stjórnar LÍN um að vísa beri frá þeim þætti kærunnar er lýtur að heimildum LÍN til að veita undanþágur frá afborgunum á tímabilinu 2001 til 2008. Í röksemdum sínum gagnvart kæranda í hinni kærðu ákvörðun hefur LÍN í raun byggt á því að um lögmætar undanþágur hafi verið að ræða á þessu tímabili og því sé ekki mögulegt að um vanskil hafi verið að ræða á tímabilinu. Á málskotsnefnd hvílir rannsóknarskylda og ber nefndinni að kanna þessi atriði ef nefndin sjálf ef kærandi telur að þessi rök LÍN standist ekki. Kærandi byggir á því að veiting LÍN á undanþágu til lántaka sé í andstöðu við ábyrgðarskilmála skuldabréfanna, sem og ákvæði laga um LÍN og laga um ábyrgðarmenn. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 72/1982, sbr. og 1. gr. laga nr. 21/1992 er meginhlutverk LÍN að veita námsmönnum fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms við stofnanir sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar nemenda og gerðar eru til háskólanáms hérlendis. Lánin sem veitt voru samkvæmt lögum nr. 72/1982 eru verðtryggð og vaxtalaus. Lántaki tók námslánin á árunum 1988 til 1991 sem var í gildistíð laga um námslán og námsstyrki nr. 72/1982. Kærandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á lánum þessum, 18 talsins, sem vísað er til í heild sinni sem lán nr. S-956692 hjá LÍN. Í texta skuldabréfanna sem eiga sér einnig stoð í þágildandi og núgildandi lögum kemur einnig fram að tveir árlegir gjalddagar séu á lánunum, annar sé 1. mars ár hvert sem feli í sér fasta afborgun og hinn sé tekjutengd afborgun 1. september. Kemur þar einnig fram að endurgreiðslum ljúki "ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast og eru eftirstöðvar lánsins þá óafturkræfar, sbr. þó ákvæði 11. gr. um vanskil og vantalningu tekna." Jafnframt segir að endurgreiðslur skuli standa yfir í 5 ár hið skemmsta, þó þannig að það skerði ekki fasta greiðslu. Þá segir ennfremur að stjórn LÍN sé heimilt að "veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára." Í skuldabréfunum segir að um skuldabréfið skuli að öðru leyti gilda ákvæði 2. kafla laga um námslán og námstyrki nr. 72/1982. Í þeim lögum sagði eftirfarandi um undanþágur frá afborgunum í 5. mgr. 8. gr. laganna: Stjórn Lánasjóðs er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 2. og 3. mgr. ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórninni er ennfremur heimilt að veita undanþágu frá fastri ársgreiðslu skv. 2. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Ákvæði núgildandi laga nr. 21/1992 eru orðuð með sambærilegum hætti og samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laganna er, auk undanþágu vegna skyndilegra og verulegra breytinga, heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu "ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans." Framangreint fyrirkomulag endurgreiðslu námslána byggir að verulegu leyti á félagslegum sjónarmiðum. Kæranda mátti því ljóst vera þegar hann gekkst í ábyrgð á greiðslum á umræddum lánum að fyrirkomulag endurgreiðslu tæki mið af félagslegum aðstæðum greiðanda ólíkt því sem gildir á almennum lánamarkaði. Slíkt fyrirkomulag er enda einnig hagkvæmt fyrir ábyrgðarmann því minni líkur eru á af þessum sökum að reyna muni á ábyrgð hans þó svo að félagslegar aðstæður greiðanda verði bágar og honum reynist torvelt að standa við fjárskuldbindingar sínar. Þá byggja heimildir LÍN ekki aðeins á skilmálum bréfanna heldur einnig á lögum um LÍN og sbr. áðurtilvitnuð 5. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982 eru heimildir LÍN víðtækari en svo að þær taki aðeins til skyndilegra og verulegra breytinga á högum lántaka eins og kærandi hefur haldið fram í kæru sinni. Er veiting undanþága með slíkum hætti í samræmi við lög um LÍN og skilmála umræddra lána og veitir LÍN slíka undanþágu á grundvelli staðfestanlegra upplýsinga hverju sinni um fjárhagslega stöðu greiðanda og félagslegar aðstæður hans. Hefur í framkvæmd verið miðað við að veiting undanþáganna sé ívilnandi ráðstöfun sem beinist ekki eingöngu að því að tryggja hagsmuni lántaka heldur einnig ábyrgðarmanna. Getur málskotsnefnd ekki fallist á að veiting undanþága með framangreindum hætti teljist hafa verið kæranda í óhag. Af framangreindu leiðir einnig að LÍN bar ekki skylda til að tilkynna kæranda um veitingu undanþáganna. Engin slík tilkynningaskylda er tiltekin í skilmálum lánsins eða lögum um LÍN. Málskotsnefnd bendir einnig á að í 7. gr. laga nr. 32/2009, sem tóku gildi 4. apríl 2009, eru talin upp þau tilvik þar sem lánveitandi skal senda sérstaka tilkynningu til ábyrgðarmanns. Skal lánveitandi m.a. senda ábyrgðarmanni tilkynningu ef vanskil verða og um stöðu láns hver áramót. Ekki er útilokað að slík tilkynning gæti verið ábyrgðarmanni tilefni til að inna LÍN eftir nánari upplýsingum um innheimtu afborgana námsláns. Frá gildistöku laganna hefur LÍN sent kæranda yfirlit yfir stöðu ábyrgðar hans um hver áramót eða síðan áramótin 2009/2010 án þess að kærandi hafi fyrr en um mitt ár 2013 talið ástæðu til að bera brigður á umfang og gildi ábyrgðar sinnar. Með vísan til framangreinds er því að mati málskotsnefndar ekki hægt að fallast á þær röksemdir kæranda að LÍN hafi verið óheimilt að veita umræddar undanþágur á árunum 2001-2008 án þess að tilkynna kæranda sérstaklega um slíkt hverju sinni. Verður heldur ekki fallist á þær röksemdir kæranda að um vanskil hafi verið að ræða af hendi lántaka á umræddu tímabili á árunum 2001-2008 er hafi leitt til þess að kröfur LÍN á hendur lántaka og ábyrgðarmanni teljist fyrndar. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd ekki efni til að taka undir þær röksemdir kæranda að veiting LÍN á undanþágu til lántaka leiði til ógildingar á ábyrgðarsamningi hans á grundvelli 36. gr. samningalaga.

b. Um fyrningu kröfu LÍN frá og með gjalddaga 1. mars 2009.

Kærandi byggir á því að lántaki hafi ekki efnt greiðsluskyldu sína á gjalddaganum 1. mars 2009 og því hafi skuldin öll þegar á þessum degi fallið í gjalddaga samkvæmt skilmálum skuldabréfanna. Kærandi byggir á því að upphaf fyrningar skuli miðast við umræddan gjalddaga og því teljist krafan fyrnd samkvæmt 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda. Jafnframt hefur kærandi vísað til meginreglna um fyrningu ábyrgðarskuldbindinga, sbr. áðurgreind lög nr. 14/1905 og núgildandi lög um fyrningu nr. 150/2007. LÍN hefur vísað til þess að með greiðslum afborgana hafi falist viðurkenning á gildi kröfunnar í skilningi 6. gr. laga nr. 14/1905. Í samhljóða ábyrgðaryfirlýsingum skuldabréfanna 18 segir eftirfarandi: Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda hefur undirritaður ábyrgðarmaður lýst því yfir að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Í skuldabréfunum eru ákvæði um vanskil sem eru eftirfarandi: "Endurgreiðslur eru lögtakskræfar ef um vanskil er að ræða. Sama máli gegnir um eftirstöðvar námslána sem felld eru í gjalddaga." Þá segir einnig í skilmálum skuldabréfanna að "[s]tandi lántaki ekki í skilum með greiðslu afborgana á tilsettum tíma er lánið allt fallið í gjalddaga án uppsagnar]" Í þágildandi lögum um LÍN nr. 72/1978, 1. mgr. 11. gr. sbr. og 3. mgr. 11. gr. núgildandi laga um LÍN segir hins vegar að "[v]erði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga". Námslán eru félagsleg réttindi. Eru lánin veitt á kjörum sem eru hagfelldari en á almennum lánamarkaði. Taka endurgreiðslukjör einnig mið af aðstæðum og kjörum lántaka á endurgreiðslutíma. Er LÍN í lögum og skilmálum skuldabréfa játaðar víðtækar heimildir til að veita greiðendum ívilnanir. Verður að telja að LÍN hafi á þessum tíma verið heimilt að ákveða hvort sjóðurinn myndi fylgja eftir gjaldfellingu skuldabréfanna gagnvart lántaka. Þá ber jafnframt að hafa í huga að 4. apríl 2009 eða rúmum mánuði eftir umræddan gjalddaga tóku gildi lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn en með 4. mgr. 7. gr. laganna er lagt bann við að lánveitandi gjaldfelli lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir. Þrátt fyrir að viðurkennt yrði að bréfið hafi verið fallið í gjalddaga frá og með 1. mars 2009 er til þess að líta að kærandi greiddi sjálfur gjaldfallnar afborganir lánsins eftir það. Verður að líta svo á að með því hafi kærandi fallist á greiðsluskyldu sína og jafnframt hafi hann fallist á að honum bæri aðeins að greiða umræddar afborganir en ekki lánið í heild sinni. Var þetta kæranda til hagsbóta, enda hefði skuldin verið gjaldkræf gagnvart honum í heild sinni á gjalddaganum 1. mars 2009. Er því fallist á sjónarmið LÍN um að kærandi hafi með atferli sínu viðurkennt kröfuna og geti hann því ekki borið fyrir sig að fyrningarfrestur hennar hafi hafist frá og með fyrrgreindum gjalddaga. Er þetta í samræmi við meginreglur kröfuréttar sem fram koma í 6. gr. laga nr. 14/1905, og í 14. gr. núgildandi laga um fyrningu nr. 150/2007 um að fyrningu sé slitið þegar skuldari annað hvort beinlínis eða með atferli sínu viðurkennir kröfuna. Með vísan til framanritaðs er ekki fallist á rök kæranda að ábyrgð hans á láni nr. S-xxx sé niður fallin fyrir fyrningu. Með vísan til ofangreindra röksemda er ákvörðun stjórnar LÍN frá 2. október 2013 staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun frá 2. október 2013 í máli kæranda er staðfest.

Til baka