Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2014 - Umsóknarfrestur og útborgun Málinu vísað frá

Úrskurður

 

Ár 2014, miðvikudaginn 16. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um frávísun máls nr. L-4/2014:

 

Kæruefni

 

Málskotsnefnd bárust þann 27. febrúar sl. tvö erindi dagsett 21. febrúar sl. frá kæranda. Annars vegar kærði kærandi ákvörðun stjórnar LÍN í máli hennar þann 30. september 2013 og hins vegar óskaði kærandi endurupptöku á sömu ákvörðun stjórnar LÍN. Málskotsnefnd sendi kæranda bréf þann 6. mars sl. þar sem kæranda var bent á að svo virtist sem liðnir væru meira en þrír mánuðir frá því að ákvörðun stjórnar LÍN í málinu hafi borist henni. Var kæranda veittur frestur til 21. mars til að gera nánari grein fyrir því hvort fyrir hendi væru afsökunarástæður sem réttlætt gætu að málskotsnefnd bæri eigi að síður að taka kæru hennar til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Engin svör hafa borist frá kæranda. Kæranda var jafnframt bent á að með beiðni hennar um endurupptöku hafi falist misskilningur á því hvaða leiðir kæranda væru færar ef hún óskaði eftir endurskoðun á ákvörðun stjórnar LÍN í máli sínu. Var kæranda bent á að beiðni um endurupptöku á ákvörðun stjórnar LÍN bæri að bera upp við stjórnina og jafnframt að frestur til að óska endurupptöku virtist enn ekki liðinn. Málskotsnefnd sendi jafnframt bréf til stjórnar LÍN dagsett 6. mars þar sem gögn málsins voru framsend og vakin athygli á túlkun ákvæða 24. gr. stjórnsýslulaga um frest til að óska endurupptöku máls.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir ennfremur að kæra teljist "nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn". Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega til aðila, þá skuli miða upphaf kærufrests við "þann dag þegar ákvörðunin er komin til aðila". Í máli þessu liggur fyrir að LÍN tilkynnti kæranda um ákvörðun sína með bréfi dagsettu 30. september 2013. Með bréfi stjórnar LÍN var kæranda leiðbeint um að kærufrestur til málskotsnefndar væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins. Kærufrestur í málinu er samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga þrír mánuðir frá því kæranda barst fyrrgreint bréf stjórnar LÍN. Ekki eru upplýsingar um annað í málinu en að úrskurður stjórnar LÍN hafi borist kæranda innan eðlilegs tíma miðað við dagsetningu bréfsins. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 27. febrúar 2014 of seint fram borin og ber að vísa henni frá skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema „afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr“ eða "veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Var kæranda með bréfi þann 6. mars 2014 gefinn kostur á að tjá sig frekar um þennan þátt málsins eða aðrar þær afsökunarástæður er kynnu að vera fyrir hendi samkvæmt ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga. Engin svör bárust frá kæranda. Eins og áður greinir hefur kæranda verið bent á heimildir stjórnssýslulaga til endurupptöku málsins hjá stjórn LÍN. Í úrskurði stjórnar LÍN í máli kæranda er fjallað um rétt kæranda til að fá lán vegna ferðakostnaðar. Ekki verður fallist á að veigamiklar ástæður teljist vera fyrir hendi er réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti í tilviki kæranda. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda frá málskotsnefnd.

 

Niðurstaða

 

Kæru kæranda í máli nr. L-4/2014 er vísað frá málskotsnefnd LÍN.

 

Úrskurðarorð

Til baka