Úrskurður
Ár 2014, miðvikudaginn 16. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-21/2013:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 24. apríl 2013 sem barst málskotsnefnd 29. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN í máli hennar frá 5. mars 2013 þar sem beiðni hennar um endurupptöku úrskurðar frá 17. október 2012 var synjað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 29. apríl 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 24. maí 2013 og var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um þær með bréfi dagsettu 28. sama mánaðar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 19. september 2013 fór málskotsnefnd þess á leit við stjórn LÍN að hún veitti nánari upplýsingar um hvaða tekjuviðmið og gengismun hafi verið stuðst við í máli kæranda og hvernig þau hafi verið reiknuð út. Svör stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 30 september 2013 og var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um svör LÍN með bréfi dagsettu 9. október s.á. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 27. nóvember 2013 fór málskotsnefnd þess á leit við kæranda að hún veitti staðfestar upplýsingar um skattgreiðslur í Noregi árið 2012 og staðfestar upplýsingar frá öðrum yfirvöldum í Noregi eða eftir atvikum á Íslandi um greiðslur til hennar. Að auki var óskað upplýsinga um meðlagsgreiðslur til kæranda. Með svarbréfi kæranda dagsett 10. janúar 2014 voru sendar staðfestar upplýsingar um greiðslur barnabóta og fæðingarorlofs. Þá upplýsti kærandi að hún hefði ekki sótt um meðlag fyrr en í mars 2013. Með bréfi dagsettu 3. febrúar 2014 fór málskotsnefnd þess enn á ný á leit við kæranda að hún sendi staðfestar upplýsingar um skattskyldar tekjur vegna ársins 2012. Upplýsingar frá kæranda um skattskyldar tekjur bárust málskotsnefnd 25. mars 2014.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi býr í Noregi. Hún sótti um lækkun tekjutengdrar
afborgunar þann 4. september 2012 sökum fjárhagserfiðleika. Kærandi er einstæð
móðir með tvö ung börn á sínu framfæri. Kærandi lýsir því að hún njóti ekki
stuðnings frá föður barnanna sem hafi verið atvinnulaus. Kærandi kveðst hafa
verið í fæðingarorlofi fram til 27. ágúst 2012 og síðan þá ekki stundað nema
ígripavinnu þar sem hún eigi ekki rétt á leikskólaplássi fyrir börnin fyrr en
haustið 2014. Í umsókn kæranda til LÍN er því lýst að tekjur hennar hafi verið á
bilinu 16-18.000 norskar krónur á mánuði í fæðingarorlofinu og af því hafi hún
greitt 10.000 norskar krónur í húsaleigu. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda
19. september 2012. Hafnaði stjórnin beiðni kæranda um lækkun tekjutengdrar
afborgunar með vísan til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að uppfyllt væru
skilyrði sem sett væru í grein 7.5 í úthlutunarreglum LÍN fyrir undanþágu
samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna um að
aðstæður þær sem byggt væri á hefðu að jafnaði varað í fjóra mánuði fyrir
gjalddaga. Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN þann 15. janúar 2013 að mál
hennar yrði endurupptekið þar sem hún hefði síðar lagt fram umsókn um dagpeninga
vegna atvinnuleysis. Stjórn LÍN synjaði endurupptöku málsins sbr. ákvörðun 1.
mars 2013 með vísan til þess að ekki væri uppfyllt skilyrði úthlutunarreglnanna
um að aðstæður þær sem byggt væri á hefðu varað að jafnaði í fjóra mánuði fyrir
gjalddaga og jafnframt með vísan til þess að staðfesting um að óskað hafi verið
eftir dagpeningum vegna atvinnuleysis hefði ekki þýðingu við úrlausn málsins.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi vísar í kæru sinni til sömu
raka og komið hafi fram í beiðni hennar um endurupptöku, þ.e. að hún standi ekki
undir framfærslu sinni og barna sinna. Sendi kærandi með beiðni sinni yfirlit um
heimilisrekstur sinn. Í endurupptökubeiðninni er einnig vísað til þess að
kærandi hafi þann 4. desember 2012 lagt fram beiðni um atvinnuleysisbætur og
uppfylli því skilyrði um undanþágu. Í upphaflegri kæru sinni lýsir kærandi því
að hún sé vel undir því útgjaldaviðmiði sem norsk yfirvöld (Statens institutt
for forbruksforskning) áætli og hafi hún lagt sig fram um að halda útgjöldum í
algeru lágmarki. Kærandi tekur fram að framfærsla í Noregi sé um það bil
helmingi hærri en á Íslandi auk þess sem tekjur þær sem hún hafi verið með á
fyrra ári hafi nánast verið lágmarkstekjur. Þá mótmælir kærandi því að tekjur
hennar séu reiknaðar út frá gengi norsku krónunnar og að tekjutengda afborgunin
sé miðuð við íslenska framfærslu.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Stjórn LÍN upplýsir í athugasemdum sínum að kæranda hafi verið synjað um
undanþágu þar sem hún hafi ekki getað sýnt fram á verulega fjárhagserfiðleika en
tekjur hennar hafi lækkað um 20,8% milli ára. Almennt sé miðað við að tekjufall
milli ára þurfi að vera um 50% þegar metin séu skilyrði um verulega
fjárhagserfiðleika. Þá sé þess jafnan krafist að aðstæður þær sem vísað er til
og valda örðugleikum hafi varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Þá bendir stjórn
LÍN á að tekjutengda afborgunin miði við hlutfall af útsvarsstofni hvort sem sá
stofn verði til erlendis eða ekki. Íslensk framfærsla hafi því ekki áhrif á
útreikning tekjutengdrar afborgunar. Þegar gengi krónunnar sé veikt greiðist lán
hraðar niður en þegar gengið sé sterkt greiðist lánið hægar. Stjórn LÍN kveðst
hafa skoðað málið með hliðsjón af framfærsluviðmiðum og gengismun á milli Noregs
og Íslands hafi það verið niðurstaðan að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um
undanþágu samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Í viðbótarskýringum stjórnar
LÍN er vísað til sama framfærsluviðmiðs og kærandi vísaði til frá norskum
yfirvöldum. Bendir LÍN á að þegar horft sé til tekna og útgjalda sem kærandi
hafi tekið saman fyrir apríl til og með september 2012 þá séu þær í fullu
samræmi við framfærslutölur norskra yfirvalda. Varðandi gengismun bendir stjórn
LÍN á að erlendar tekjur séu umreiknaðar í íslenskar krónur á meðalgengi þess
árs sem þeirra hafi verið aflað í stað þess að umreikna miðað við hvern mánuð um
sig. Við nánari skoðun komi í ljós að ekki sé mismunur á útkomu eftir því hvor
aðferðin sé notuð.
Niðurstaða
Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 koma fram eftirfarandi
skilyrði um undanþágu frá afborgunum námsláns: Stjórn sjóðsins er heimilt að
veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti,
ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann
veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans
og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita
undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun,
umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum
hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
Stjórn LÍN hefur sett nánari
skilyrði fyrir beitingu undanþágunnar í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN sem
er svohljóðandi:
Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá
afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda,
þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður
valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Óvinnufær vegna veikinda telst
sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv. skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að
jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k.
fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.
Málskotsnefnd telur að við
mat á því hvort fjárhagserfiðleikar séu fyrir hendi sé málefnalegt að miða að
jafnaði við að erfiðleikarnir hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga.
Málskotsnefnd hefur þó talið að LÍN sé rétt að líta á heildarmynd aðstæðna
greiðenda hverju sinni og víkja frá beitingu slíkra meðaltalsreglna þegar fyrir
liggi eigi að síður að aðstæður greiðenda séu með þeim hætti að verulegir
fjárhagserfiðleikar verði að teljast vera fyrir hendi, s.s. eins og aðstæður
voru í máli L-32/2009 þegar árstekjur kæranda voru afar lágar. Málskotsnefnd
bendir á að þau útgjaldaviðmið norskra stjórnvalda sem vísað er til í málinu eru
ekki lágmarksviðmið heldur dæmigerð viðmið um hófleg útgjöld (rimelig forbruk)
þar sem hvorki er gert ráð fyrir lágmarksneyslu né lúxusneyslu. Miðað við
útreikninga kæranda nægja tekjur hennar til að standa straum af slíkum útgjöldum
og borga húsaleigu fyrir fimm herbergja húsnæði sem kærandi leigir. Ennfremur
bendir málskotsnefnd á að samkvæmt álagningarseðli vegna 2012 voru laun og aðrar
tekjur kæranda (personinntekt og alminnelig inntekt, sbr. Lov om skatt av formue
og inntekt) samtals um 413 þúsund NOK og um 324 þúsund NOK eftir skatta. Þar af
voru barnabætur og fæðingarorlofsgreiðslur sem kærandi lagði fram sérstök gögn
um rúmar 264.388 NOK, en eftir frádrátt 192.842 NOK. Samkvæmt álagningarseðli
hafði kærandi rúmlega 27 þúsund NOK í tekjur eftir skatta að jafnaði í hverjum
mánuði það ár eða sem samsvarar 580 þúsundum ÍKR að jafnaði miðað við meðalgengi
norsku krónunnar árið 2012 (21,5). Miðað við framfærsluviðmið sem liggja fyrir í
málinu eru hófleg viðmið fyrir einstætt foreldri með 2 börn um 26 þúsund NOK á
mánuði m.v. að leiga sé 10.000 NOK. Þrátt fyrir að ætla mætti að hluta af tekjum
kæranda sé ráðstafað til lífeyrisiðgjalda verður samt að telja að
ráðstöfunartekjur hennar hafi talist nálægt því að standa undir þeirri
framfærslu sem samkvæmt framangreindu er talin hófleg. Kærandi hefur lýst því að
hún og sambýlismaður hennar hafi slitið samvistum í maí 2012. Hann hafi verið
atvinnulaus og hún séð um framfærslu fjölskyldunnar að mestu leyti fram að
þessum tíma. Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um hvort hann hafði
einhverjar tekjur. Þá er upplýst af hálfu kæranda að hún hafi ekki fyrr en í
mars 2013 krafið fyrrum sambýlismann um meðlag með börnum þeirra, sem tilheyrir
þó börnunum og skal notað í þágu þeirra samkvæmt 63. gr. barnalaga nr. 76/2003
og forsjárforeldri ber að innheimta. Miðað við framangreint verður að mati
nefndarinnar ekki hægt að miða við að aðstæður kæranda fram að gjalddaga hafi
verið óvenju erfiðar. Þó svo að kærandi geri ráð fyrir einhverri tekjulækkun
eftir umræddan gjalddaga haustið 2012 verður ekki séð að um sé að ræða slíkar
óvenjulegar aðstæður að réttlæti frávik frá þeim almennu viðmiðum sem LÍN hefur
sett sér í því skyni að gæta jafnræðis við meðferð mála. Hin tekjutengda
endurgreiðsla námsláns, svokölluð viðbótargreiðsla samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga
nr. 21/1992, miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan
endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. laganna. Mótmæli kæranda við að sú afborgun
námsláns hennar sé miðuð við framfærslu á Íslandi eiga því ekki við rök að
styðjast. Þá bendir málskotsnefnd á að nauðsynlegt er að umreikna tekjur kæranda
í íslenskar krónur þar sem afborgun er reiknuð út í þeim gjaldmiðli sem kveðið
er á um í umræddu skuldabréfi, þ.e. íslenskum krónum. Að mati málskotsnefndar er
niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda samræmi við fyrrgreind ákvæði 6. mgr. 8.
gr. laga nr. 21/1992 og þær reglur sem um sjóðinn gilda. Af heildarmati á gögnum
málsins verður ekki séð að skilyrði hafi verið fyrir því að heimila endurupptöku
máls kæranda hjá stjórn LÍN í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ber
því að staðfesta niðurstöðu stjórnar LÍN frá 1. mars 2013 í máli kæranda.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 1. mars 2013 í máli kæranda er staðfestur.