Úrskurður
Ár 2014, miðvikudaginn 23. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-53/2013.
Kæruefni
Með kæru dagsettri 7. október 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. ágúst 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 11. sama mánaðar og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins þann sama dag. Stjórn LÍN sendi málskostnefnd athugasemdir við kæruna með bréfi dagsettu 7. nóvember 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 12. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði frekari upplýsinga um alvarleika veikinda kæranda með bréfi dagsettu 28. febrúar 2014. Kærandi sendi svarbréf sitt 11. mars og var það framsent til stjórnar LÍN. Stjórn LÍN sendi viðbótarathugasemdir þann 7. apríl 2014.
Málsatvik og ágreiningsefni
Fram kemur í kæru að kærandi sótti um undanþágu frá fastri
afborgun námsláns fyrir árið 2013 sökum tekjuleysis. Hafi hún sótt um
undanþáguna einni viku of seint og verið synjað. Kærandi bar mál sitt undir
stjórn LÍN og fór þess á leit að stjórn LÍN endurskoðaði ákvörðun um að synja
henni um undanþágu í ljósi aðstæðna hennar. Kom fram í beiðni kæranda að hún
hefði aðeins örorkulífeyri sér til framfærslu og að hann nægði henni vart. Væri
hún því ekki aflögufær um afborganir af námsláni sínu. Stjórn LÍN synjaði beiðni
kæranda með vísan til greinar 7.5.3 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 7. mgr. 8. gr.
laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Kom fram í ákvörðuninni að þar
sem umsókn hafi ekki borist fyrir tilskilinn frest væri ekki heimilt að taka
tillit til þeirra atriða er fram hefðu komið í erindi kæranda.
Sjónarmið kæranda.
Í kæru til málskotsnefndar lýsir
kærandi því að hún sé 75% öryrki og alls óvinnufær. Hafi hún ýmis útgjöld vegna
sjúkdóma. Hafi hún ekki getað látið enda ná saman þar sem örorkulífeyrir dugi
henni ekki til framfærslu og sé hún því langt í frá aflögufær með afborganir af
námsláni sínu. Kærandi lýsir því einnig að hún hafi sótt um undanþágu viku of
seint. Hafi það hent hana áður að sækja um of seint en hingað til hafi það ekki
skipt sköpum heldur hafi verið tekið fullt tillit til aðstæðna hennar. Væri það
henni mikið áfall að framkvæmd hjá LÍN hafi verið breytt á svo afdrifaríkan hátt
og án fyrirvara. Ástæða þess að hún hafi sótt um of seint hafi ekki veri
kæruleysi heldur heilsuleysi og því lengur sem fólk búi við heilsuleysi því
erfiðari verði andleg líðan. Hafi veikindum hennar fylgt sívaxandi þunglyndi og
oft hafi hún ekkert framtak svo langtímum skipti. Bendir kærandi á að það rýri
gagnsemi undanþáguheimilda að ekki sé tekið tillit til aðstæðna við veitingu
undanþága. Áréttar kærandi að beiðni hennar um undanþágu hafi borist aðeins viku
of seint. Í bréfi sínu þann 11. mars 2014 lýsir kærandi því að hún hafi komið á
skrifstofu LÍN í fylgd sonar síns þegar u.þ.b. vika var liðin fram yfir
umsóknarfrest. Hafi hún orðið mjög miður sín þegar henni var tilkynnt um að
fresturinn væri liðinn og ekki væri lengur hægt að sækja um undanþágu. Kærandi
bendi á að hún hafi nú þegar hafið greiðslu skuldarinnar en velti fyrir sér hvað
verði um innheimtukostnað falli úrskurður henni í hag. Meðfylgjandi bréfinu
lagði kærandi fram læknisvottorð um heilsufar sitt á þessum tíma. Segir í
umræddu vottorði að kærandi sé haldin andlegum og líkamlegum sjúkdómum. Að hún
hafi verið mjög illa haldin heilsufarslega á tímabilinu janúar- júní 2013, engan
veginn í stakk búin til að standa undir sjálfri sér og ófær um að sinna málefnum
sínum. Hafi hún þurft á ítarlegri læknismeðferð að halda á þessum tíma.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Stjórn LÍN fer fram á að ákvörðun
hennar frá 28. ágúst 2013 verði staðfest. Bendir LÍN á að frestur til að sækja
um undanþágu frá tekjutengdri afborgun sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein
7.5.3, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Fram kemur í athugasemdum stjórnar LÍN
að ekki sé að finna neinar upplýsingar í kerfi LÍN um umsókn frá kæranda fyrr en
með erindi hennar til stjórnar LÍN er hafi borist sjóðnum 1. júlí 2013. Ekki
hafi verið hægt að taka tillit til aðstæðna kæranda enda hvorki haldið fram né
sýnt fram á að hún hafi ekki getað sótt um innan tilskilins frests. Í
athugasemdum kemur einnig fram að kærandi hafi sótt um undanþágu undanfarin ár
og hafi því átt að vera ljóst hver fresturinn sé. Þegar kærandi hafi sótt um
undanþágu, þá hafi það alltaf verið innan tilskilins frests. Eru í athugasemdum
stjórnar LÍN tilgreindar umsóknir kæranda um undanþágur frá árinu 2007 og komi
þar fram að kærandi hafi sótt um undanþágu á þessum árum, að undaskildu árinu
2008. Voru umsóknir kæranda í þessum tilvikum innan frests. Í
viðbótarathugasemdum sínum kemur fram að líklega hafi kærandi komið á skrifstofu
LÍN í byrjun maí. Stjórn LÍN upplýsir ennfremur að almennt séu engar undanþágur
veittar frá umsóknarfrestum. Í algjörum undantekningartilvikum hafi komið fyrir
að einstaklingsbundið mat hafi leitt til þess að undanþága hafi verið veitt frá
umsóknarfrestum. Við slíkt mat sé almennt skoðað hvort óvoðráðanleg atvik eða
handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um
innan tilskilins frests. Mikilvægt þyki að gætt sé að samræmi og jafnræði á
milli umsækjenda í svipuðum eða sömu aðstæðum. Ekkert hafi komið fram að um
handvömm starfsmanna LÍN hafi verið að ræða. Þá hafi ekki legið fyrir neinar
upplýsingar um óviðráðanleg atvik við ákvörðun stjórnar LÍN í málinu né hafi því
verið haldið fram af hálfu kæranda. Kærandi sjálf haldi því fram að hún hafi
verið ófær um að sækja um undanþágu en hafi þó komið sjálf á skrifstofu sjóðsins
á því tímabili sem vottorð læknis hafi borið að hún hafi verið alls ófær um að
sinna sínum málum.
Niðurstaða
Kærandi sækir um undanþágu frá fastri afborgun 2013, sem var á gjalddaga 1. mars 2013 vegna tekjuleysis. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í seinni málslið 7. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar sem í tilviki kæranda var 1. mars 2013. Að sögn kæranda sendi hún ekki umsókn fyrr en viku eftir að umræddur gjalddagi var liðinn. Í viðbótarathugasemdum LÍN segir að kærandi hafi líklega komið á skrifstofu LÍN í byrjun maí. Í fyrri úrskurðum málskotsnefndar hefur komið fram að fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 sé fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og ekki sé kveðið á um í lögunum um heimild til að veita undanþágu frá frestinum, hvorki sökum veikinda né annarra atvika. Málskotsnefnd bendir á að stjórn LÍN hefur þó áður tekið fram við meðferð máls nr. 38/2010, sbr. bréf stjórnar LÍN dagsett 14. febrúar 2011 að þrátt fyrir fortakslaust orðalag 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 hafi stjórn LÍN veitt undanþágu þegar sýnt sé fram á að umsækjandi hafi alls ekki getað sótt um fyrir tilskilinn frest vegna alvarlegra veikinda sem staðfest séu með læknisvottorði. Sem dæmi er nefnt; ef umsækjandi á við alvarlegan geðrænan sjúkdóm að stríða sem hamli því að hann geti sinnt sínum persónulegu málum. Einnig hafi komið upp tilfelli þar sem umsækjandi hafi lent í alvarlegu slysi. Í rökstuðningi kæranda til málskotsnefndar kemur fram að kærandi búi við langvarandi heilsuleysi og fylgi veikindunum þunglyndi og skorti kæranda einnig framtak og komi engu í verk. Í framlögðu vottorði læknis vegna málsins kemur fram að andleg og líkamleg veikindi kæranda hafi verið með þeim hætti á tímabilinu janúar-júní 2013 að hún hafi verið alls ófær um að sinna sínum málum. Kærandi kemur á skrifstofu LÍN í byrjun maí í fylgd sonar síns og naut því aðstoðar hans við að sinna sínum málum. Málskotsnefnd telur sér ekki fært að bera brigður á vottorð læknis í máli kæranda og bendir jafnframt á að stuttur tími leið frá því að umsóknarfrestur rann út og þar til kærandi freistaði þess með aðstoð sonar síns að leggja fram umsókn um undanþágu. Telur málskotsnefnd nægjanlega sýnt fram á með vottorði læknis í máli þessu að umsækjandi hafi verið haldinn sjúkdómi er hamlaði því að hún gat sinnt sínum persónulegu málum. Ber því samkvæmt framansögðu að fella úr gildi úrskurð stjórnar LÍN í máli kæranda og leggja fyrir stjórnina að taka umsókn hennar um undanþágu til meðferðar. Vegna athugasemda kæranda um innheimtukostnað bendir málskotsnefnd á að þar sem úrskurður stjórnar LÍN er felldur úr gildi verði ekki um að ræða kostnað vegna þeirra innheimtuaðgerða sem þegar hafa verið framkvæmdar. Er það því niðurstaða málskotsnefndar að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. ágúst 2013.
Úrskurðarorð
Hinn kærða ákvörðun frá 28. ágúst 2013 í máli kæranda er felld úr gildi.