Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-60/2013 - Endurgreiðsla námslána - greiðsla á gjaldfelldu láni vegna gjaldþrots

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 23. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-60/2013.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 22. nóvember 2013 sem barst málskotsnefnd 26. sama mánaðar kærðu kærandi A ábyrgðarmaður og kærandi B lántaki (hér eftir nefndar kærendur), ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. nóvember 2013 þar sem beiðni lántaka um að fá að greiða gjaldfelld námslán sín með sama greiðsluhætti og hún gerði áður en hún var úrskurðuð gjaldþrota var hafnað. Kærð var ákvörðun LÍN um að hafna beiðni aðalskuldara um að fá að greiða áfram af námsláni sínu óbreyttu og að gera ábyrgðarmann verr settan en aðalskuldara þegar kemur að afborgunum láns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 10. desember 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. janúar 2014 og var afrit þess sent kærendum og þeim jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum. Kærendur óskuðu í kæru sinni eftir frestunar réttaráhrifa meðan á meðferð málsins stæði hjá málskotsnefndinni. Með úrskurði málskotsnefndar 7. janúar 2014 var þeirri beiðni hafnað.

Málsatvik og ágreiningsefni

Með úrskurði héraðsdóms Suðurlands 3. apríl 2013 var bú kæranda B tekið til gjaldþrotaskipta en kærandi er skuldari að skuldabréfi hjá LÍN nr. R-035977. LÍN sendi kæranda A sem er ábyrgðarmaður skuldabréfsins, bréf þann 11. júní 2013 þar sem henni var tilkynnt um gjaldþrot lántaka, að krafa vegna námslánsins muni í kjölfarið beinast að henni sem ábyrgðarmanni og jafnframt var henni boðið að hafa samband við LÍN til að semja um kröfuna sem að öðrum kosti yrði send í innheimtu til C lögmannsstofu. Þar sem ábyrgðarmaður hafði ekki samband innan tilskilins frests var krafan send í innheimtu. Gjaldþrotaskiptum á búi lántaka var lokið þann 17. júlí 2013. Kærandi B fór þess á leit við stjórn LÍN að sér yrði heimilað að greiða af láninu með sama hætti og áður en hún varð gjaldþrota. Í hinni kærðu ákvörðun frá 12. nóvember 2013 synjaði stjórn LÍN beiðni hennar.

Sjónarmið kærenda

Kærendur benda á að í júní 2013 hafi LÍN sent ábyrgðarmanni tilkynningu um gjaldþrot skuldara þar sem ábyrgðarmanni hafi verið boðið að ganga að nýju skuldabréfi til greiðslu á skuldbindingum lántakanda. Strax og tilkynningin barst ábyrgðarmanni reyndi hann að hafa samband við LÍN en illa hafi gengið að ná í réttan aðila og því hafi verið sendur tölvupóstur til LÍN þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum og svörum m.a. hvort ekki væri í lagi að borga áfram af láninu eins og áður hafi verið gert. Það hafi svo verið í byrjun september 2013 sem ábyrgðarmanni hafi borist bréf innheimtulögmanna LÍN þar sem krafist var greiðslu á skuld að fjárhæð 5.377.810 kr. Hafi útgáfudagur reikningsins verið 11. júní 2013 og gjalddagi sama dag. Virðist þetta hafa átt sér stað á sama tíma og lántakandi hafi verið að reyna að semja við LÍN um greiðslu á skuldinni. Kærendur telja þessi vinnubrögð með öllu óhæf. Á heildarupphæð kröfunnar í september hafi síðan verið reiknaðir dráttarvextir og innheimtuviðvörunargjald. Samtals hafi því krafan verið að fjárhæð 5.454.951 kr. og hafi verið gefinn 10 daga frestur til að ganga frá greiðslu hennar. Kærendur benda á að á þessu tímabili virðist aldrei hafa verið kannaður sá möguleiki af hálfu LÍN að skuldari/lántakandi héldi áfram að greiða af láninu eins og hann hafi falast eftir við LÍN í lok júní 2013. Kærendur telja að skuldabréfið hafi verið gjaldfellt hjá LÍN af einhverri óskiljanlegri ástæðu í stað þess að ábyrgðarmanni stæði til boða að borga af því á sömu kjörum og lántakandi hafi gert. Kærendur vísa til 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 þar sem segi: "Lánveitandi getur ekki einhliða breytt skilmálum ábyrgðarsamnings, þ.m.t. lánssamnings, ábyrgðarmanni í óhag." Kærendur telja í ljósi þessa ákvæðis hljóti það að teljast sanngjarnt og eðlilegt að ábyrgðarmanni sé heimilað að borga af ábyrgðarsamningi með sama hætti og lántakanda. Þrátt fyrir að lögin um ábyrgðarmenn hafi ekki verið til staðar þegar að sá ábyrgðarsamningur sem hér um ræðir hafi verið undirritaður, hafi lögin verið í gildi þegar að lántakandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota í apríl 2013. Kærendur benda á að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um ábyrgðarmenn gilda lögin um lánveitingar ýmissa fjármálastofnana auk LÍN. Því verði að telja þá ákvörðun LÍN að gjaldfella lán sem hafi verið í skilum ósanngjarna auk þess að vera gagnstæða meginreglum laga og í hreinni andstöðu við ofangreint ákvæði laganna. Kærendur benda á að þann 17. júlí 2013 hafi gjaldþrotaskiptum á búi lántakanda verið lokið og því hafi ekkert verið til fyrirstöðu að lántakandi greiddi áfram af láni sínu við LÍN eins og hann hafi gert hingað til. Kærendur óska því eftir því að lántakanda/skuldara verði sendir greiðsluseðlar og að hann fái að borga af láninu áfram í samræmi við lánasamninginn. Ef talið sé að ábyrgðin á láninu sé fallin á ábyrgðarmann lánsins, þá óski ábyrgðarmaður þess að hann fái að greiða af láninu á sömu kjörum og lántakandi hafi greitt af því, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, og að í öllu falli þá verði dráttarvextir og innheimtugjöld látin niður falla.

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN vísar til þess að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. falli allar kröfur sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem áður kunni að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Við úrskurð héraðsdóms um gjaldþrot lántakanda hafi skuldabréf hans nr. R-035977 gjaldfallið í heild sinni. Sjálfskuldarábyrgð verði virk þegar aðalkrafa gjaldfellur. Eftir úrskurð um gjaldþrot sé ekki hægt að greiða áfram með almennum hætti af skuldinni enda sé hún gjaldfallin. Það eigi bæði við um lántakanda/skuldara og ábyrgðarmann. Þannig sé ekki verið að breyta skilmálum samnings einhliða eða gera ábyrgðarmann verr settan en lántakanda. LÍN hafi boðið ábyrgðarmönnum að semja við LÍN um að taka skuldabréf til allt að 10 ára til þess að dreifa greiðslum vegna ábyrgðarskuldbindinga en ekki sé lengur hægt að greiða af láninu með upphaflegum greiðsluhætti lántaka. LÍN bendir á að ábyrgðarmanni skuldabréfsins hafi verið sent bréf, dagsett 11. júní 2013, þar sem honum hafi verið tilkynnt um gjaldþrotið og jafnframt hafi honum verið boðið að hafa samband við LÍN til þess að ganga frá málinu en að öðrum kosti yrði krafan send í innheimtu. Ábyrgðarmaðurinn hafi ekki haft samband innan tilskilins frests og því hafi krafan verið send áfram í innheimtu. LÍN byggir á því að niðurstaðan í þessu máli sé í samræmi við lög og reglur og í samræmi við úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum. Í máli málskotsnefndar nr. L-27/2013 var sérstaklega óskað af hálfu nefndarinnar eftir upplýsingum frá LÍN um þau úrræði sem ábyrgðarmönnum standi til boða af hálfu sjóðsins við gjaldfellingu námslána vegna gjaldþrota lántakenda. Í svari LÍN kom fram að ábyrgðamönnum standi til boða að semja við sjóðinn um uppgjör lánsins. Þeir geti fengið skuldabréfalán hjá LÍN til allt að 10 ára, sé lánið undir 10 milljónum, en til allt að 15 ára sé lánið yfir 10 milljónum. Vextir séu 7,75% á óverðtryggðum lánum (6,75% vextir + 1% álag) en 4,75% á verðtryggðum lánum (3,75% vextir + 1% álag). Ef ábyrgðarmenn hafi ekki samband við sjóðinn innan 14 daga séu málin send í löginnheimtu. Ábyrgðarmenn geti fengið sömu kjör að viðbættri innheimtuþóknun og eftir atvikum öðrum kostnaði. Það sama eigi við ef námslánið sé þegar í löginnheimtu við gjaldþrot lántakenda/skuldara. Í sama máli óskaði nefndin eftir upplýsingum frá LÍN um þau úrræði sem ábyrgðarmönnum standi til boða við gjaldfellingu námslána vegna greiðslufalls lántakenda. LÍN upplýsti að það væri engin önnur úrræði í boði fyrir ábyrgðarmenn en staðgreiðsla. Aðspurt um þau úrræði sem lántakanda standi til boða eftir gjaldfellingu námsláns vegna greiðslufalls hans svaraði LÍN því að ef lántakandi óskaði eftir að greiða áfram af námsláni sínu væri gjaldfellingin almennt dregin til baka og honum heimilað að gera upp vanskilin. Væri það þá gert með staðgreiðslu, dómsátt eða vanskilaskuldabréfi. Vanskilaskuldabréfin séu þá með sömu kjörum og skuldabréf til ábyrgðamanna samanber hér fyrr. Ef námslán sé gjaldfellt vegna gjaldþrots lántakanda og hann óski eftir að fá að greiða áfram af námsláni sínu séu engin úrræði í boði fyrir hann önnur en staðgreiðsla á láninu í heild.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gildir. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslum námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Með lögum nr. 78/2009 var gerð sú breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN að í stað þess að lántaki yrði að leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns, varð meginreglan sú að námsmaður ber einn ábyrgð á endurgreiðslu námsláns, að uppfylltum skilyrðum stjórnar LÍN. Í ákvæði til bráðabirgða í breytingalögunum, kemur fram að ákvæði laganna gilda ekki um lánsloforð sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna. Um þau fara eftir þágildandi lagaákvæðum, reglugerðum og úthlutunarreglum sjóðsins. Í bráðabirgðaákvæðinu kemur einnig fram að LÍN skuli við innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum námslána vera bundin af þeim reglum sem fram komi í III. kafla laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, eftir því sem við á. Markmið laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin trygginga. Er hér um sama markmið að ræða og í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá árinu 2001, sem m.a. stjórnvöld stóðu að. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfið sem kærandi A gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir var gefið út 20. nóvember 2001. Lánstími og þar með líftími skuldabréfsins og ábyrgðarinnar, er ótilgreindur í skuldabréfinu en þar segir "að greitt er af láninu þar til skuldin er að fullu greidd". Við útgáfu skuldabréfsins voru í gildi lög nr. 21/1992 um LÍN. Samkvæmt lögunum var gerð sú krafa að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram a.m.k. yfirlýsingu eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Ábyrgðaryfirlýsing kæranda A á skuldabréfinu er svohljóðandi:

"Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól að neðangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu láns þessa in solidum. Höfuðstóll sjálfskuldarábyrgðar miðast við vísitölu neysluverðs."

Þá kemur fram í skuldabréfinu að fjárhæð ábyrgðarinnar sé 6.000.000 kr. og að upphafs vísitalan sé 209,4. Skilmálar ábyrgðarinnar samkvæmt skuldabréfinu eru hefðbundnir og skýrir. Kærendur gera þá kröfu að lántakanda verði heimilað að borga af láninu áfram í samræmi við lánasamninginn. Ef talið er að ábyrgðarmanni lánsins beri að greiða skuldina vegna greiðslufalls lántakanda, þá er gerð krafa um að ábyrgðarmanni verði heimilað að greiða af láninu á sömu kjörum og lántakandi hafði greitt af því fyrir gjaldfellingu þess, eða að dráttarvextir og innheimtugjöld verði að minnsta kosti látin niður falla. LÍN telur ekki hægt að verða við kröfum kæranda með vísan til laga og fordæma við afgreiðslu sambærilegra mála hjá sjóðnum. Samkvæmt 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillit til þess sem kann áður hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti og gildir það um námslán sem aðrar kröfur gjaldþrota aðila. Við það að lántakandi var úrskurðaður gjaldþrota þann 3. apríl 2013 var námslánið sjálfkrafa gjaldfellt og LÍN var því heimilt að innheimta skuldina hjá ábyrgðarmanni. Á almennum lánamarkaði ríkir samningsfrelsi og ábyrgðarmenn sem taka þurfa við skuldbindingu lántakanda geta almennt leitað samninga við lánveitendur um efndir skuldbindinga sinna og um fyrirkomulag greiðslunnar. Málskotsnefndin telur ljóst að löggjöfin um LÍN setur sjóðnum skorður sem þrengir framangreint samningsfrelsi gagnvart ábyrgðarmönnum námslána samanber niðurstöðu málskotsnefndar í máli nr. L 27/2013. Málskotsnefnd bendir á að í lögum um LÍN, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins, er hvorki vikið að því með hvaða hætti sjóðurinn skuli standa að innheimtu gagnvart ábyrgðarmönnum né með hvaða hætti heimilt sé að semja við ábyrgðarmenn um frágang á ábyrgðarskuld við sjóðinn. Í III. kafla laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er fjallað um réttarsamband lánveitanda og ábyrgðarmanns. Er í 7. gr. laganna m.a. fjallað um tilkynningaskyldu lánveitanda til ábyrgðarmanna vegna vanskila lántakanda og um aðgerð lánveitanda gagnvart ábyrgðarmanni áður en hann getur nýtt sér rétt sinn til gjaldfellingar lánsins í heild. Í þessu máli var námslán lántakanda gjaldfellt með sjálfvirkum hætti, ásamt öllum öðrum lánum hans, á grundvelli 99. gr. gjaldþrotalaga vegna gjaldþrot hans. Aðstæður í málinu eru því ekki með þeim hætti að framangreint ákvæði laga um ábyrgðarmenn eigi við. Þau úrræði sem LÍN hefur upplýst málskotsnefnd um að stofnunin bjóði ábyrgðarmönnum þegar lán hefur verið gjaldfellt vegna gjaldþrots lántaka byggja á innanhús verklagsreglum um það hvernig skuli staðið að innheimtu og samningum við ábyrgðarmenn lána í eigu sjóðsins. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu, þ. á m. við ákvarðanir um innheimtu námslána, að fylgja þeim sérstöku lagareglum sem gilda um stjórnsýslu ríkisins, bæði settum og óskráðum grundvallarreglum, og vönduðum stjórnsýsluháttum. Málskotsnefnd telur að af sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti leiði að LÍN ber að gæta þess að við innheimtu krafna á hendur ábyrgðarmönnum sé farið að meginreglum íslensks kröfuréttar og að vandað sé til um innheimtu slíkra skulda. Einnig að höfð séu í huga þau sjónarmið og áherslur sem löggjafinn leggur áherslu á við meðferð mála þar sem einstaklingar eru krafðir um greiðslu skulda vegna sjálfskuldarábyrgða og fram koma í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Málskotsnefnd telur að sjóðnum sé rétt að setja viðmiðunarreglur eins og þær sem vísað er til hér að framan til að stuðla að jafnræði og skilvirkni í meðferð mála er varða ábyrgðarmenn námslána. Málskotsnefnd tekur þó fram að eðli málsins samkvæmt er um að ræða viðmiðunarreglur sem ekki kunna að eiga við í öllum tilvikum, s.s. þegar líkindi eru fyrir því við gjaldþrot lántaka að ábyrgðarmaður kunni ekki að hafa greiðslugetu til að standa undir afborgunum og að í því tilviki hafi LÍN svigrúm til samninga við ábyrgðarmenn eftir gjaldfellingu námsláns m.a. með það fyrir augum að auka líkur á því að sjóðurinn fái fullar efndir viðkomandi ábyrgðarskuldbindingar. Því beri sjóðnum að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta á grundvelli fyrirliggjandi gagna og innan þeirra heimilda sem sjóðurinn hefur með hvaða hætti hægt er að semja við ábyrgðarmann hverju sinni. Málskotsnefnd bendir á í þessu sambandi að innheimta stjórnvalds á skuld ábyrgðarmanns vegna námslána þriðja aðila er íþyngjandi athöfn í garð ábyrgðarmanns og að mjög mikilvægt er að staðið sé vel að innheimtu slíkra mála. LÍN sendi ábyrgðarmanni þessa máls tilkynningu um gjaldþrot lántakanda með bréfi dagsettu 11. júní 2013 þar sem fram kemur að krafan verði innheimt hjá honum og honum var bent á að hafa samband við LÍN til að semja um kröfuna. Í tilkynningunni kemur einnig fram að ef ekkert samband verði haft við LÍN innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins megi búast við því að krafan verði send í löginnheimtu. Lántakandi hafði samband við LÍN í tölvupósti dagsettum 27. júní 2013 og óskaði upplýsinga með hvaða hætti væri hægt að ganga frá kröfunni. LÍN svaraði í tölvupósti daginn eftir og þar sem gefnar voru upplýsingar um mögulegan frágang á skuldinni. Frekari samskipti áttu sér ekki stað á milli kærenda og LÍN vegna frágangs á skuldinni en telja verður að það hafi hvílt á kærendum að fylgja því eftir að ganga frá málum við LÍN samkvæmt leiðbeiningum þar um og að það hafi legið ljóst fyrir að ef það yrði ekki gert yrði krafan send í löginnheimtu eins og gert var. Þá er ekki fallist á það með kærendum að aðgerðir LÍN eftir gjaldþrot lántakanda feli í sér breytingu á skilmálum skuldabréfsins né að með aðgerðunum hafi staða ábyrgðarmanns verið gerð verri en lántakanda. Með vísan til framangreinds telur málskotsnefnd hina kærðu ákvörðun vera í samræmi við lög og að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar meðferð innheimtumálsins og er ákvörðun stjórnar LÍN frá 15. nóvember 2013 í máli kærenda því staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun frá 15. nóvember 2013 er staðfest.

Til baka