Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-62/2013 - Niðurfelling ábyrgðar - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

Úrskurður

Ár 2014, föstudaginn 9. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-62/2013.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 2. desember 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. ágúst 2013. Í ákvörðuninni var ekki fallist á að endurskoða ábyrgð kæranda á námsláni með því að fella niður ábyrgð hennar. Hins vegar féllst stjórn LÍN á að lán til uppgreiðslu skuldarinnar skyldi vera til 15 ára. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. desember 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. janúar 2014 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði frekari upplýsinga frá stjórn LÍN með bréfi dagsettu 6. maí og bárust umbeðin gögn með bréfi dagsettu 8. maí 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er ábyrgðarmaður að námslánum lántaka en bú hennar var tekið til gjaldþrotaskipta þann 21. september 2011. Samkvæmt upplýsingum frá stjórn LÍN var búið eignalaust. Kærandi sendi stjórn LÍN erindi, dagsett 1. júlí 2013, þar sem fram kemur að hún hafi rætt við LÍN og að henni hafi verið boðið að gera upp skuldina með skuldabréfi til 10 ára sem hljóðaði upp á mánaðarlegar afborganir að fjárhæð um það bil 132.000 krónur. Kærandi taldi sig ekki geta staðið undir greiðslum að slíku skuldabréfi sökum aldurs og lágra tekna. Fór kærandi þess á leit að ábyrgðarskuldbindingarnar yrðu endurskoðaðar. LÍN hafnaði kröfum kæranda með vísan til þess að ekki væri lagaheimild fyrir hendi til að fella niður lán. Stjórn LÍN féllst hinsvegar á að heimila kæranda að greiða skuldina með skuldabréfi til 15 ára.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni lýsir kærandi því að hún sé ábyrgðarmaður á námslánum dóttur sinnar, elsta lánið sé frá 1992 en síðasta lánið sé frá 2005. Heildarfjárhæð lánanna sé komin yfir 11 milljónir króna. Kærandi upplýsir að fjárhagsstaða dóttur hennar hafi versnað til mikilla muna eftir hrun sökum atvinnumissis og hækkunar lána og að eina leið hennar hafi verið að lýsa sig gjaldþrota. Kærandi lýsir því einnig að þegar hún hafi skrifað upp á námslán dóttur sinnar hafi hún haft launatekjur og verið ágætlega aflögufær. Hafi hún átt hóflega skuldsetta eign. Nú sé hún á eftirlaunum, hafi engar aukatekjur og fasteignin nánast að fullu veðsett. Kærandi lýsir því að hún hafi einungis um 150.000 krónur sér til framfærslu frá lífeyrissjóði og TR. Ráði hún ekki við afborganir af ábyrgðarskuldbindingu sinni við LÍN en miðað við framfærsluviðmið velferðarráðuneytisins ætti framfærsla hennar að vera um 223.031 krónur á mánuði. Í gögnum sem kærandi sendi kemur fram að maki hennar hefur svipaðar greiðslur og kærandi frá sínum lífeyrissjóði. Í framhaldi af gjaldþroti dóttur sinnar kveðst kærandi hafa leitað til umboðsmanns skuldara til að forðast þá stöðu sem hún sé nú komin í. Hefði ráðgjafi haft samband við LÍN og kannað möguleika hennar á að semja um greiðslur sem hún myndir ráða við og byggðust á upphaflegum skilmálum lánsins og því að lánið yrði ekki gjaldfellt. Hefði LÍN ekki tekið undir þessa málaleitan. Sú lausn sem LÍN hefði boðið henni, þ.e. að lengja greiðslutíma frá 10 upp í 15 ár, telur kærandi að breyti litlu fyrir sig, en í því tilviki yrðu mánaðarlegar afborganir um 110.000 krónur. Kærandi vísar til þess að hún hafi engin tök á að taka á sig ábyrgðarskuldbindingar þær er um ræðir og að lánasjóðurinn verði augljóslega ekki betur settur með áframhaldandi innheimtuferli. Fer kærandi þess á leit að hún verði losuð undan ábyrgðarskuldbindingum á láni dóttur sinnar og þær felldar niður.

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN byggir á því að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til þess að fella niður ábyrgðir. LÍN bendir á að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. falli allar kröfur sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem áður kunni að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Við úrskurð héraðsdóms um gjaldþrot lántaka hafi námslánið gjaldfallið í heild sinni og hægt sé að ganga að ábyrgðarmanni til greiðslu heildarskuldar. Þrátt fyrir það hafi LÍN boðið ábyrgðarmönnum að semja við LÍN um að taka skuldabréf til allt að 10 ára til þess að dreifa greiðslum vegna slíkra ábyrgðarskuldbindinga og við ákveðnar aðstæður, s.s. vegna fjárhags ábyrgðarmanns, hafi verið fallist á að lengja þann tíma í 15 ár. Í tilefni af fyrirspurn málskotsnefndar við meðferð máls nr. L-27/2013 hefur LÍN upplýst að ábyrgðamönnum standi til boða að semja við LÍN um uppgjör lánsins. Þeir geti fengið skuldabréfalán hjá LÍN til allt að 10 ára, sé lánið undir 10 milljónum, en til allt að 15 árum sé lánið yfir 10 milljónum. Vextir séu 7,75% á óverðtryggðum lánum (6,75% vextir + 1% álag) en 4,75% á verðtryggðum lánum (3,75% vextir + 1% álag). Ef ábyrgðarmenn hafi ekki samband við sjóðinn innan 14 daga séu málin áframsend til löginnheimtu. Ábyrgðarmenn geta fengið sömu kjör þar að viðbættri innheimtuþóknun og eftir atvikum öðrum kostnaði. Það sama eigi við ef námslánið sé þegar í löginnheimtu við gjaldþrot lántaka. LÍN byggir á því að niðurstaða í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Með lögum nr. 78/2009 var gerð sú breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN að í stað þess að lántaki yrði að leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns, varð meginreglan sú að námsmaður bæri einn ábyrgð á endurgreiðslu námsláns, að uppfylltum skilyrðum stjórnar LÍN. Í ákvæði til bráðabirgða í breytingalögunum kemur fram að ákvæði laganna gilda ekki um lánsloforð sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna, eins og í tilfelli kæranda. Um þau fari eftir þágildandi lagaákvæðum, reglugerðum og úthlutunarreglum sjóðsins. Í bráðabirgðaákvæðinu kemur einnig fram að LÍN skuli við innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum námslána vera bundin af þeim reglum sem fram komi í III. kafla laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, eftir því sem við á. Markmið þeirra laga er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Er hér um sama markmið að ræða og í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem m.a. stjórnvöld stóðu að, frá árinu 2001. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfin sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir eru fjögur og voru gefin út á árunum 1992 og 2005. Endurgreiðslutími, og þar með líftími skuldabréfanna og ábyrgðarinnar, er 40 ár. Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim var gerð krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Ábyrgðaryfirlýsing kæranda á skuldabréfunum frá 1992 eru samhljóða og hljóða svo: "Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur neðanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. " Ábyrgðaryfirlýsing kæranda á skuldabréfunum frá 2005 eru samhljóða og hljóða svo: Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að neðangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu in solidum. Höfuðstóll ábyrgðar, tilgreindur fyrir framan undirskrift mína, breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs. Fyrir gjaldfallinni fjárhæð má gera fjánám til tryggingar fullnustu skuldarinnar á undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. laga nr. 90/1089 hjá aðalskuldara eða sjálfskuldarábyrgðarmanni. Skilmálar ábyrgðarinnar samkvæmt skuldabréfunum eru hefðbundnir og skýrir. Samkvæmt 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og gildir það um námslán sem aðrar kröfur gjaldþrota aðila. Við það að lántakandi var úrskurðaður gjaldþrota varð ábyrgð kæranda á lánunum virk. Kærandi hefur farið þess á leit að umræddar ábyrgðir verði felldar niður. Kærandi hefur sérstaklega vísað til aldurs og lágra tekna en kærandi og maður hennar eru eftirlaunaþegar með lágar tekjur og eru töluvert skuldsett. Hafi hún því ekki fjárhagslegt bolmagn eða greiðslugetu til að greiða af skuldbindingu sinni með þeim hætti sem LÍN hefur boðið upp á. LÍN segist ekki geta orðið við kröfum kæranda með vísan til skorts á lagaheimild. Á almennum lánamarkaði ríkir samningsfrelsi og ábyrgðarmenn sem taka þurfa við skuldbindingu lántakanda geta almennt leitað samninga við lánveitendur um efndir skuldbindinga sinna, fyrirkomulag greiðslunnar og samið um niðurfellingu skuldarinnar gegn hlutagreiðslu, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Þegar lánveitendur meta slík tilboð er það m.a. gert út frá greiðslu- og eignastöðu skuldarans og sjónarmiðum lánveitanda um að hámarka innheimtu lánsins. Málskotsnefndin telur ljóst að löggjöfin um LÍN setur sjóðnum skorður sem þrengir framangreint samningsfrelsi gagnvart ábyrgðarmönnum námslána. Verður að fallast á það með LÍN að sjóðnum er óheimilt að fella niður ábyrgðarskuldbindingu eins og kærandi hefur óskað eftir. Í lögum og reglum um LÍN er ekki að finna neina heimild til að fella niður eða lækka útistandandi skuld vegna námslána, hvorki vegna aðstæðna lántakenda né heldur ábyrgðarmanna. Málskotsnefnd bendir á að í lögum um LÍN, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins, er hvorki vikið að því með hvaða hætti sjóðurinn skuli standa að innheimtu gagnvart ábyrgðarmönnum eða með hvaða hætti heimilt sé að semja við ábyrgðarmenn um frágang á ábyrgðarskuld við sjóðinn. Í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er í III. kafla laganna fjallað um réttarsamband lánveitanda og ábyrgðarmanns. Þar sem þessi lög tóku gildi eftir að umrædd skuldabréf voru undirrituð af hálfu kæranda gilda þau einungis að hluta til um réttarsamband kæranda og LÍN. Þó er ljóst að kærandi nýtur tiltekinnar verndar, s.s. samkvæmt 8. gr. en þar kemur fram að ekki verði gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar. Jafnframt að lánveitandi geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef krafa hans á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar nema hann geri sennilegt að um sviksamlegt undanskot eigna ábyrgðarmanns hafi verið að ræða. Við meðferð máls nr. L-27/2013 hjá málskotsnefnd komu fram þær upplýsingar af hálfu LÍN að eina úrræði sem ábyrgðarmönnum stendur til boða við gjaldfellingu námsláns vegna gjaldþrots lántaka er staðgreiðsla. Er ábyrgðarmönnum þó boðið að undirrita skuldabréf til 10 eða 15 ára eftir fjárhæð skuldar. Virðist það úrræði byggja á innanhúss verklagsreglum um það hvernig staðið skuli að innheimtu og samningum við ábyrgðarmenn lána í eigu sjóðsins. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu, þ. á m. við ákvarðanir um innheimtu námslána, að fylgja þeim sérstöku lagareglum sem gilda um stjórnsýslu ríkisins, bæði settum og óskráðum grundvallarreglum, og vönduðum stjórnsýsluháttum. Málskotsnefnd telur að af sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti leiði að LÍN ber að gæta þess að við innheimtu krafna á hendur ábyrgðarmönnum sé farið að meginreglum íslensks kröfuréttar og að vandað sé til um innheimtu slíkra skulda. Þá er vísað til laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 um þau sjónarmið og áherslur sem löggjafinn leggur á við meðferð mála þar sem einstaklingar eru krafðir um greiðslu skulda vegna sjálfskuldarábyrgða. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað í máli sambærilegu máli kæranda, þ.e. í máli L-27/2013 frá 27. nóvember 2013. Þar kom fram sú afstaða málskotsnefndar að sjóðnum sé rétt að setja viðmiðunarreglur eins og þær sem vísað er til hér að framan til að stuðla að jafnræði og skilvirkni í meðferð mála er varða ábyrgðarmenn námslána. Málskotsnefnd tók þó fram að eðli málsins samkvæmt er um að ræða viðmiðunarreglur sem ekki kunna að eiga við í öllum tilvikum, s.s. þegar líkindi eru fyrir því við gjaldþrot lántaka að ábyrgðarmaður kunni ekki að hafa greiðslugetu til að standa undir afborgunum og að í því tilviki hafi LÍN svigrúm til samninga við ábyrgðarmenn eftir gjaldfellingu námsláns m.a. með það fyrir augum að auka líkur á því að sjóðurinn fái fullar efndir viðkomandi ábyrgðarskuldbindingar. Því beri sjóðnum að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta á grundvelli fyrirliggjandi gagna og innan þeirra heimilda sem sjóðurinn hefur með hvaða hætti hægt er að semja við ábyrgðarmann hverju sinni. Málskotsnefnd hefur bent á í þessu sambandi að innheimta stjórnvalds á skuld ábyrgðarmanns vegna námslána þriðja aðila er íþyngjandi athöfn í garð ábyrgðarmanns og að mjög mikilvægt er að staðið sé vel að innheimtu slíkra mála. Málsskotsnefnd fellst á það með LÍN, sbr. hér fyrr, að án viðhlítandi lagaheimildar sé ekki unnt að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu á skuld hennar við sjóðinn. Málskotsnefndin gerir hins vegar athugasemd við að mál kæranda virðist ekki hafa verið skoðað með tilliti til aðstæðna hennar og að LÍN bjóði eingöngu uppá tvær framangreindar leiðir fyrir kæranda til að standa við skuldbindingar sínar við sjóðinn en ekki tekið frekari tillit til aðstæðna. Kærandi vísar í erindum sínum til LÍN til slæmrar fjárhagsstöðu sinnar og að hún eigi erfitt með að standa skil á skuld sinni við sjóðinn með þeim skilmálum sem LÍN bjóði upp á. Ljóst virðist af framlögðum gögnum í málinu að fjárhagsaðstæður kæranda séu afar knappar. Skuld sú sem kærandi ber ábyrgð á er hins vegar töluverð. Í ljósi þessara upplýsinga frá kæranda telur málskotsnefnd að á sjóðnum hafi hvílt sú skylda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, að kalla eftir frekari gögnum sem staðfestu fullyrðingar kæranda um fjárhagstöðu hennar. Í framhaldi af því hafi sjóðurinn átt að skoða mál kæranda miðað við fyrirliggjandi upplýsingar og reyna að ná samkomulagi um greiðslur sem kærandi getur staðið undir. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd að LÍN hafi við ákvörðun sína í máli kæranda ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun sinni í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og beri að taka mál kæranda fyrir á ný. Er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 28. ágúst 2013 felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 28. ágúst 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka