Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-63/2013 - Ofgreidd lán - beiðni um niðurfellingu á ofgreiddu láni

Úrskurður

Ár 2014, fimmtudaginn 5. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-63/2013:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 2. desember 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. janúar 2013, þar sem stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um að endurskoða afstöðu sína til ofgreidds námsláns og að draga innheimtu vegna þess til baka. Málskotsnefnd tilkynnti stjórn LÍN um kæruna með bréfi dagsettu 9. desember 2013 og gaf stjórninni jafnframt kost á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. janúar 2014. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN og bárust athugasemdir hans með bréfi dagsettu 7. febrúar 2014. Athugasemdir kæranda voru framsendar stjórn LÍN 18. febrúar 2014. Stjórn LÍN gerði viðbótarathugasemdir vegna athugasemda kæranda þann 28. febrúar 2014. Voru viðbótarathugasemdir stjórnar LÍN sendar kæranda 17. mars 2014 og gerði hann athugasemdir vegna þeirra 31. mars 2014. Athugasemdir kæranda voru framsendar stjórn LÍN 31. mars 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði MBA nám í Bandaríkjunum á árunum 2009-2012. Kærandi var í vinnu meðfram náminu og lauk því á þremur árum í stað tveggja ár eins og hefðbundið er. Kærandi fékk fyrirframgreitt skólagjaldalán vegna haustannar 2010. Kærandi var í samskiptum við LÍN a.m.k. frá því í september 2010 vegna umsókna sinna um námslán. Starfsmaður LÍN upplýsti kæranda í tölvupósti 8. september 2010 um breytingar á úthlutunarreglum LÍN á eftirfarandi hátt: "nú er ekki lengur hægt að taka saman einingar námsársins heldur verður að ljúka lágmarksárangri fyrir hverja önn. 8 einingar á haustönn og 8 einingar á vorönn. Þá fengir þú 67% lán fyrir hvora önn um sig. Á sumarönn þyrftir þú að ljúka 5 einingum til að vera lánshæfur." Í mars 2011 innir kærandi LÍN eftir námslánum sínum og fær þá svar í tölvupósti frá LÍN 4. mars um að hann hafi ekki verið lánshæfur á haustönn 2010 og þurfi að endurgreiða lánið. Þann 16. ágúst 2011 sendir LÍN umboðsmanni kæranda bréf þar sem honum er tilkynnt að hann hafi fengið ofgreitt skólagjaldalán vegna haustmisseris 2010. Meðfylgjandi bréfinu er skuldabréf til undirritunar. Kærandi hafði samband við sjóðinn í september 2011 og spurðist fyrir um tilefni ofgreiðslubréfsins. Í skýringum LÍN í tölvupósti þann 22. september 2011 kemur fram að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði um lágmarksframvindu á haustönn 2010 en einungis 6 af 8 tilskildum einingum hafi skilað sér til LÍN. Kærandi kveðst ekki hafa móttekið þann tölvupóst. LÍN sendi kæranda og umboðsmanni hans bréf þann 3. október 2011 þar sem honum var tilkynnt um að þar sem hann hefði ekki sinnt uppgjöri á hinu ofgreidda láni væri ofgreiðslan innheimt í formi aukaafborgunar, sbr. grein 5.7 í úthlutunarreglum LÍN. Þá var kæranda tilkynnt að ef aukaafborgun yrði ekki greidd færi óuppgerð skuld til milliinnheimtu hjá innheimtufyrirtæki. Í bréfinu var kæranda tilkynnt um að hann gæti borið mál sitt undir stjórn LÍN. Kærandi hafði ekki samband við lánasjóðinn fyrr en í september 2012 er hann spurðist fyrir um málið, en þá var verið að dómtaka innheimtumálið gegn honum. Fékk hann þau svör að búið væri að loka allri vinnslu vegna námsársins 2010-2011 og að sjóðurinn hefði ekki heimild til að draga til baka innheimtu ofgreidds skólagjaldaláns. Var hann upplýstur um að honum væri heimilt að bera mál sitt undir stjórn LÍN ef hann teldi að afgreiðsla þess hefði verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Kærandi bar síðan mál sitt undir stjórn LÍN með bréfi dagsettu 11. desember 2012. Fór kærandi þess á leit að LÍN endurskoðaði afstöðu sína í máli hans. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli hans 24. janúar 2013. Í úrskurðinum kemur fram að beiðni kæranda hafi verið synjað þar sem frestur til að gera athugasemdir við afgreiðslu LÍN í máli hans hafi verið löngu liðinn. Kærandi fór fram á endurupptöku máls síns hjá stjórn LÍN þar sem hann taldi að afgreiðsla máls hans hefði byggst á röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Í ákvörðun stjórnar LÍN 28. ágúst 2013 var endurupptöku máls kæranda synjað þar sem kærandi hefði ekki lagt fram ný gögn eða upplýsingar, né hafi atvik breyst verulega. Þá tók stjórn LÍN fram að þeir tímafrestir er kæranda hefðu verið veittir væru liðnir. Sjónarmið kæranda. Í kærunni lýsir kærandi því að hann hafi ekki hafið nám fyrr en hann hafi verið búinn að fullvissa sig um að fyrirkomulagið á námi hans hefði ekki áhrif á rétt hans til námsláns en kennt hafi verið um kvöld og helgar og yfir fimm annir á ári en ekki hefðbundnar tvær eða þrjár. Hafi það verið gert til að koma til móts við þarfir útivinnandi nema. Í samtölum við starfsmenn LÍN hafi hann fengið staðfest að ef hann héldi eðlilegri námsframvindu gæti hann fengið námslán. Hafi þetta enda gengið eftir að öðru leyti en umrætt haustmisseri 2010. Kveður kærandi það hafa verið mistök að telja ekki til haustannar einingar sem sannanlega voru fengnar það tímabil sem kallað sé haust en falli undir sumarönn í því námi sem hann stundaði. Einnig vísar kærandi til þess að LÍN hafi hvergi reynt að skilgreina hvað sé önn og hvort "önn" taki til þess sem skilgreint sé sem "intensive courses" og hannað sé fyrir nema sem séu að vinna samhliða námi. Kærandi tekur fram að þó að LÍN hafi gert breytingar á reglum sínum haustið 2010 yrði að túlka þær breytingar með meðalhóf og sanngirni í huga. Ef undan séu skilin stutt jólafrí og hlé yfir hátíðir hafi verið hægt í náminu að taka einingar allt árið. Val kæranda á kúrsum hafi helgast af þremur breytum þ.e. skyldufögum, efni kúrsa og tímasetninga og þá aðallega með tilliti til tímamarka LÍN. Kærandi leggur áherslu á að svokölluð sumarönn skólans nái fram á haust. September sé sjaldnast talið til sumars, hvorki meðal námsmanna né annarra. Það sé ósanngjarnt að tilviljunarkenndar, staðbundnar og handahófskenndar venjur við nafngiftir einstakra anna ráði túlkun. Þá bendir kærandi á að úthlutunarreglur LÍN hafi verið kynntar í byrjun september 2010 þegar hann hafi verið búinn að undirbúa og velja nám næstu mánuði, þ.m.t. sumar og haustönn 2010. Skammur aðdragandi að nýjum reglum sé þvert á hagsmuni þeirra sem stundi nám á erlendri grundu, a.m.k. hafi svo verið í tilfelli hans. Kærandi vísar til þess að í athugasemdum stjórnar LÍN sé því engu svarað hvernig það megi vera að ekkert tillit hafi verið tekið til þess að nýjar úthlutunarreglur hafi verið kynntar í september 2010. Þá hafi kærandi löngu verið búinn að velja áfanga yfir sumar og haust og skipuleggja námið í samræmi við kröfur LÍN. Kærandi skýrir þann drátt er varð á málinu af hans hálfu með því að hann hafi verið búsettur erlendis og borist afstaða LÍN seint og illa. Óhentugir tímafrestir geti ekki réttlætt umdeilda kröfu LÍN sem byggði á misskilningi eða sérlega þröngri formtúlkun þar sem meðalhófs hafi ekki verið gætt. Kærandi tekur einnig fram að hann finni hvergi í sínum fórum tilhlýðilegan rökstuðning fyrir ákvörðun LÍN um ofgreiðsluna. Þá geti það ekki verið ætlan LÍN að umrædd krafa vegna ofgreiðslu hljóti nái fram að ganga einungis vegna þess að kærandi hafi ekki leitað réttar síns innan tilskilinna fresta.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum sínum lýsir stjórn LÍN því að kærandi hafi fengið fyrirframgreitt haustlán 2010 vegna skólagjalda. Í september 2010 hafi LÍN bent kæranda á að breytingar á úthlutunarreglunum hafi leitt til þess að hann ætti ekki rétt á skólagjaldaláni. Hafi kærandi aftur haft samband í mars 2011 og fengið sömu svör og að hann yrði að endurgreiða lánið. Þann 16. ágúst 2011 hafi LÍN síðan sent kæranda ofgreiðslubréf. Hafi kærandi þá haft samband við sjóðinn í september og síðan sent erindi til stjórnar í desember 2012. Stjórn LÍN vísar síðan til þess kærandi hafi ekki lagt fram ný gögn eða upplýsingar í málinu og að atvik hafi ekki breyst. Kærandi hafi verið upplýstur um rétt sinn til endurupptöku og að sá frestur sé þrír mánuðir samkvæmt stjórnsýslulögum. Þá vísar stjórn LÍN til þess að kæran virðist beinast að ákvörðun stjórnar LÍN 24. janúar 2013. Í ljósi þessa krefst stjórn LÍN þess að kærunni verði vísað frá sem of seint fram kominni. Engar skýringar hafi komið fram hvers vegna kæran hafi borist svo seint og að ekki verði talið að veigamiklar ástæður séu fyrir því að taka hana til meðferðar.

Niðurstaða

Stjórn LÍN hefur farið þess á leit að kærunni verði vísað frá þar sem hún beinist að úrskurði stjórnar LÍN frá 24. janúar 2013. Kærandi bar mál sitt tvisvar undir stjórn LÍN. Í fyrra sinn í desember 2012 og úrskurðaði stjórn LÍN í máli hans 24. janúar 2013. Í annað sinn í þann 28. ágúst 2013 vegna beiðni kæranda um endurupptöku. Í kærunni fer kærandi þess á leit að fyrri ákvörðun stjórnar LÍN í máli hans verði felld úr gildi. Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í máli þessu liggur fyrir að LÍN tilkynnti kæranda um ákvörðun sína með bréfi dagsettu 28. janúar 2013. Ekki er ágreiningur um að kærandi hafi móttekið umrætt bréf. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 27. febrúar 2014 of seint fram borin og ber að vísa henni frá samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema "afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr" eða "veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Kærandi hefur vísað til þess að það geti ekki verið ætlunin að krafa er byggi ekki á lögmæltum grunni nái fram að ganga sökum þess að efi sé um að frestum á málatilbúnaði hafi verið hlýtt. Málskotsnefnd bendir á í þessu sambandi að í málinu liggja ekki fyrir nein gögn er gefa til kynna að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Ekki er í stjórnsýslulögum nánar skýrt hvað teljist veigamiklar ástæður er mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í ummælum í greinargerð segir einungis að við mat á því hvort framangreind skilyrði eru fyrir hendi þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu eru fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Þá segir að ef svo er væri rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Ef aðili er aðeins einn yrði mál frekar tekið til meðferðar. Umboðsmaður Alþingis hefur skýrt umrætt ákvæði á þann hátt að rök séu fyrir því að taka kæru til meðferðar þegar m.a. stjórnarskrárvarin réttindi eru í húfi og þá jafnframt að í því máli leiki vafi á að stjórnvald hafi leyst úr málinu á réttum lagagrundvelli (mál nr. 6433/2011). Málskotsnefnd telur ekki að slík rök liggi fyrir í máli þessu. Þrátt fyrir að hagsmunir kæranda af því að fá skólagjaldalán á haustönn 2010 hafi verið mikilsverðir verði þeim ekki jafnað við þá hagsmuni sem um er fjallað í áliti umboðsmanns Alþingis. Verður því ekki séð að tilefni sé til að ætla að í máli þessu teljist veigamiklar ástæður vera fyrir hendi er réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti í tilviki kæranda. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa frá kæru kæranda á ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. janúar 2013.

Úrskurðarorð

Kæru kæranda á ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. janúar 2013 er vísað frá málskotsnefnd. 

Til baka