Úrskurður
Ár 2014, fimmtudaginn 5. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-50/2013.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 1. október 2013 kærðu kærendur, ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. júlí og 17. október 2013. Með ákvörðunum var synjað beiðni kærenda, A og B, sem eru ábyrgðarmenn að láni látaka hjá LÍN um að endurgreiðslur af námsláninu tækju mið af ákvæðum þess skuldabréfs sem í gildi var þegar lánið var tekið og að afborganir af því myndu ekki hefjast fyrr en tveimur árum eftir námslok lántaka. Ástæða synjunarinnar var gjaldþrot lántaka. Þá var ekki fallist á beiðni kærenda um að dráttarvextir og innheimtukostnaður yrði felldur niður. Hins vegar féllst stjórn LÍN á að ef samið yrði um greiðslu skuldarinnar yrði allt að helmingur áfallinna dráttarvaxta felldur niður og með hliðsjón af fjárhæð skuldarinnar var fallist á að greiðslutími skuldabréfs ábyrgðarmanna yrði allt að 15 ár. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 10. október 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 6. nóvember 2013 og var afrit þess sent kærendum og þeim jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum og bárust þau í bréfi dagsettu 2. desember s.á. LÍN var gefið tækifæri á að svara andmælum kærenda og bárust athugasemdir LÍN þann 18. desember s.á.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærendur gengu í sjálfsskuldarábyrgð á námslánum lántaka á
árunun 2011 og 2012 en kærendur eru foreldrar lántaka. Um var að ræða tvö
skuldabréf útgefin af LÍN vegna námsláns lántaka nr. G-118518, en kærandi, A,
tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð þann 6. apríl 2011 fyrir 7.000.000 kr. og
kærandi, B, tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð þann 7. janúar 2012 fyrir
7.000.000 kr. sem var til viðbótar sjálfskuldarábyrgð A. Í bæði skiptin
undirrituðu kærendur fylgiskjal sem útbúið var af LÍN, "Upplýsingar til
ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009", þar sem m.a kemur fram að þau
staðfesti að hafa kynnt sér þær upplýsingar sem fram koma í skjalinu og að þau
hafi fengið afhent afrit fylgiskjals um greiðslusögu lántaka. Með úrskurði
héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 11. október 2012 var bú lántaka tekið til
gjaldþrotaskipta, en hann er skuldari að skuldabréfi hjá LÍN nr. G-118518. Staða
skuldar hans við LÍN við gjaldþrotið var 10.461.666 kr. Gjaldþrotaskiptum á búi
lántaka var lokið 15. janúar 2013. LÍN sendi kærendum bréf þann 10. janúar 2013,
þar sem þeim var tilkynnt um gjaldþrot lántaka. Í bréfinu sagði að krafa vegna
námslánsins myndi í kjölfarið beinast að þeim sem ábyrgðarmönnum og jafnframt
var þeim boðið að hafa samband við LÍN til að semja um kröfuna sem að öðrum
kosti yrði send í innheimtu til lögmannsstofu. Þar sem kærendur höfðu ekki
samband vegna skuldarinnar innan tilskilins frests var krafan send í innheimtu
þann 30. apríl 2013. Þann 31. maí 2013 barst LÍN erindi frá kærendum og lántaka
þar sem óskað var eftir því að LÍN myndi loka skuldabréfi lántaka með
hefðbundnum hætti og að lántaki fengi að greiða af því eins og aðrir námsmenn.
Stjórn LÍN hafnað erindinu með ákvörðun dagsettri 3. júlí 2013. Þann 9.
september 2013 barst stjórn LÍN beiðni kærenda um endurupptöku á málinu. Stjórn
LÍN féllst á endurupptöku málsins og með ákvörðun dagsettri 17. október s.á. var
erindi kærenda hafnað á ný. Kærendur kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN til
málskotsnefndar og óska eftir endurupptöku á ákvörðun stjórnar LÍN á
gjaldfellingu og að gengið verði frá skuldinni á hefðbundinn hátt eins og gert
er ráð fyrir í skuldabréfinu og að afborganir af því hefjist tveimur árum eftir
námslok. Þá fara kærendur fram á að dráttarvextir og lögfræðikostnaður falli
niður. Stjórn LÍN fer fram að málskotsnefnd staðfesti hinar kærðu ákvarðanir
sjóðsins.
Sjónarmið kærenda
Kærendur hafa greint frá því
að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá lántaka þann 15. apríl 2010. Á
árinu 2011 hafi hann ákveðið að mennta sig og fara í nám. Hann hafi sótt um
námslán til LÍN og fengið það með því skilyrði að hann útvegaði tvo
ábyrgðarmenn. Hafi kærendur gengist í ábyrgð fyrir láninu frá LÍN. Lántaki hafi
þann 11. október 2012 verið úrskurðaður gjaldþrota á grundvelli sömu krafna og
árangurslausa fjárnámið frá 15. apríl 2010 byggði á. Þann 10. janúar 2013 hafi
kærendum verið tilkynnt formlega um gjaldþrotið en í millitíðinni hafi LÍN
greitt út námslán til lántaka. Lántaki hafi lokið námi sínu í byrjun árs 2013 og
starfi nú sem flugvirki í fullu starfi hjá flugfélaginu Atlanta. Kærendur benda
á að LÍN hafi sent námslánið í innheimtu hjá lögmannsstofu á vormánuðum 2013 og
að kærendur séu krafðir um greiðslu á lögfræðikostnaði að fjárhæð 900.000 kr. og
dráttarvöxtum að fjárhæð 750.000 kr. án þess að heimildar sé getið. Kærendur
vísa til þess að í skuldabréfinu sjálfu og í 5. mgr. 7. gr. og í 2. mgr. 9. gr.
l. 21/1992 komi fram að vexti skuli aðeins reikna frá námslokum. Þá benda
kærendur á að í skuldabréfinu komi hvergi fram að skuldina megi innheimta hjá
ábyrgðarmönnum á meðan á námi standi. Þá sé í stöðluðum upplýsingum frá LÍN til
ábyrgðarmanna vegna ábyrgðar á námsláni vakin athygli á því að umrætt lán muni
ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi ljúki og að þá verði aðstæður lántaka
aðrar en í dag. Kærendur telja að ekki sé heimild í skuldabréfinu til að ganga
að ábyrgðarmönnun á þann hátt sem LÍN geri enda komi skýrt fram í bréfinu að
endurgreiðsla hefjist tveimur árum eftir námslok. Sama regla komi fram í 4. mgr.
7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Kærendur benda einnig á að LÍN hafi afgreitt
hluta námslánsins til lántaka eftir að hann hafi verið tekin til
gjaldþrotaskipta. Ennfremur benda kærendur á að þau hafi verið í sambandi við
fjármálastjóra LÍN í febrúar 2013 og hann hafi tilkynnt þeim að það eina sem
hægt væri gera fyrir þau væri að gefa út skuldabréf til 10 ára sem þau sem
ábyrgðarmenn yrðu greiðendur að, með u.þ.b. 160.000 kr. greiðslubyrði á mánuði.
Kærendur segja að þau hafi þá bent starfsmanninum á að útgreiðsla hluta lánsins
hafi átt sér stað eftir að lántaki varð gjaldþrota og einnig að þeim hafi verið
gefnar þær upplýsingar að endurgreiðsla námslánanna myndi ekki hefjast fyrr en
tveimur árum eftir námslok. Starfsmaðurinn hafi þá sagst ætla að athuga málið og
hafa síðan samband. Síðan hafi ekkert gerst fyrr en kærendur hafi fengið
innheimtuviðvörun frá lögmönnum LÍN. Kærendur benda á að þau geti hvorki greitt
ábyrgðirnar eða staðið undir greiðslubyrði upp á a.m.k. 160.000 kr. á mánuði í
10 ár og stefni því í greiðsluþrot þeirra nái krafa LÍN fram að ganga.
Sjónarmið stjórnar LÍN
LÍN vísar til þess að í grein
5.1.8 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir skólaárin 2010-2011 og 2011-2012 komi
fram þau skilyrði sem lánþegar þurfi að uppfylla til þess að teljast lánshæfir
hjá sjóðnum. Skilyrðin séu m.a. þau að lánþegar séu ekki á vanskilaskrá né í
vanskilum við sjóðinn þegar sótt sé um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til
gjaldþrotameðferðar. Teljist námsmaður ekki lánshæfur samkvæmt framangreindu
geti hann sótt um undanþágu enda sýni hann fram á annað eða leggi fram ábyrgðir
sem sjóðurinn telji viðunandi s.s. veð eða sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila.
Lántaki hafi ekki verið talinn lánshæfur en hafi sótt um undanþágu frá umræddri
grein og hafi lagt fram sjálfskuldarábyrgð kærenda fyrir námslánum sínum. LÍN
byggir á því að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti falli
allar kröfur sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um
að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kunni áður að hafa
verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Við úrskurð héraðsdóms um gjaldþrot
lántaka hafi lán hans gjaldfallið í heild sinni og við það hafi
sjálfskuldarábyrgð kærenda orðið virk. LÍN bendir á að sjóðurinn hafi fallist á
að ef kærendur semji um greiðslu skuldarinnar verði allt að helmingur áfallinna
dráttarvaxta felldur niður. Þá hafi LÍN einnig fallist á, með vísan til
fjárhæðar skuldarinnar, að greiðslutími skuldabréfs kærenda yrði allt að 15 ár.
LÍN vísar til orðalags skuldabréfs lántaka og til upplýsingablaðs LÍN til
ábyrgðarmanna sem að kærendur hafi undirritað. Með upplýsingablaðinu hafi fylgt
greiðslusaga lántaka (yfirlit úr vanskilaskrá) sem kærendur hafi staðfest að
þeir hafi kynnt sér áður en þeir hafi skrifað undir ábyrgðaryfirlýsinguna. Þá
hefur LÍN upplýst að við nánari skoðun málsins hafi komið í ljós að eftir
gjaldfellingu lánsins hafi lántaki fengið greitt út lán á sama skuldabréf.
Ástæðu þess megi rekja til tækniörðugleika hjá sjóðnum. Lánið sem lántaki hafi
þannig fengið afgreitt eftir gjaldfellingu lánsins, að fjárhæð 2.809.188 kr., sé
ekki gjaldfallið og verði innheimt með almennum hætti að tveimur árum liðnum frá
námslokum. Varðandi ábendingu kærenda til LÍN um að það komi hvergi fram í
skuldabréfinu að hefja megi innheimtu hjá ábyrgðarmanni á meðan á námi standi og
að í stöðluðum upplýsingum LÍN til ábyrgðarmanna sé sérstaklega vakin athygli á
því að umrætt lán muni ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi líkur, telur
LÍN að því sé fullsvarað með vísun til 99. gr. laga nr. 21/1991 um
gjaldþrotaskipti. Við gjaldþrot aðalskuldara gjaldfalli lánið í heild sinni
samkvæmt skýru lagaákvæði án tillits til þess sem áður hafi verið samið um. Enda
yrði það að teljast óeðlileg niðurstaða ef samningur myndi varna því að hægt
væri að ganga að aðalskuldara og/eða ábyrgðarmanni í kjölfar úrskurðar
héraðsdóms um gjaldþrot á meðan fyrningartími kröfunnar væri á sama tíma að
líða.
Niðurstaða
LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að
tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna
tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í
framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi
sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber
í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um
starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um
stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á.
Með lögum nr. 78/2009 var gerð sú breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN, að í stað
þess að lántaki yrði að leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann
tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns, varð meginreglan sú að
námsmaður ber einn ábyrgð á endurgreiðslu námsláns, að uppfylltum skilyrðum
stjórnar LÍN. Í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992, sbr. breytingalög nr. 78/2009,
segir:
Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf
við lántöku, teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins. Teljist
námsmaður ekki lánshæfur getur hann lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur
viðunandi. Ábyrgðir geta m.a. verið ábyrgðaryfirlýsing fjármálastofnunar eða
yfirlýsing ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns ásamt
vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni fjárhæð.
Þá segir í
7. mgr. ákvæðisins:
Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum
lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. ..... Grein 5.1.8 í
úthlutunarreglum LÍN, sem settar eru af stjórn sjóðsins, er svohljóðandi:
Skilyrði sem lánþegar þurfa m.a. að uppfylla, til þess að teljast lánshæfir sem
lántakendur hjá sjóðnum, eru að þeir séu ekki á vanskilaskrá né í vanskilum við
sjóðinn þegar sótt er um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til gjaldþrotameðferðar.
Teljist námsmaður ekki lánshæfur skv. framangreindu getur hann sótt um undanþágu
frá þessari grein enda sýni hann fram á annað eða leggi fram ábyrgðir sem
sjóðurinn telur viðunandi, s.s. veð eða sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila.
Framangreind skilyrði lúta að skyldum lántaka gagnvart LÍN til að leggja
fram viðunandi ábyrgðir um greiðslu á námsláni sínu ef hann telst ekki
lánshæfur. Eins og nánar er rakið hér að neðan gilda þessu til viðbótar
sérákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrðarmenn um skyldur LÍN gagnvart ábyrgðarmönnum
um að framkvæma einstaklingsbundið greiðslumat á lántaka. Sjálfskuldarábyrgð er
kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á
hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir
kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu
skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til
grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju
sinni. Skuldabréfið sem kærendur gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir voru gefin
út á árunum 2011 og 2012. Ábyrgðaryfirlýsingar kærenda eru svohljóðandi:
Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl.
atriði skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á
sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs. Til
tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að neðangreindri
fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil
verða, tekst ég undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu in
solidum. Höfuðstóll ábyrgðar, tilgreindur fyrir framan undirskrift mína,
breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs. Fyrir gjaldfallinni fjárhæð má gera
fjárnám til tryggingar fullnustu skuldarinnar án undangengis dóms eða
réttarsáttar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 hjá aðalskuldara
eða sjálfskuldarábyrgðarmönnum.
Samkvæmt 99. gr. gjaldþrotalaga nr.
21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við
uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og
gildir það um námslán sem aðrar kröfur gjaldþrota aðila. Við það að lántaki var
úrskurðaður gjaldþrota varð ábyrgð kærenda á láninu virk. Sjálfskuldarábyrgð
kærenda er sjálfstæður samningur sem skoða þarf sérstaklega varðandi stofnun,
efni og form. Um ábyrgðarsamninga kæranda gilda lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn
og við frágang þeirra bar LÍN að fylgja eftir ákvæðum þeirra laga. Í lögunum
kemur fram að markmið þeirra er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga
úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu
lántaka og hans eigin tryggingar. Í 4. gr. laganna kemur fram að lánveitandi
skal meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður
gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka og skal greiðslumatið byggt á
viðurkenndum viðmiðum. Þá skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða
ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að
lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Með sama hætti skal lánveitandi
ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa
tilefni til. Í 5. gr. laganna segir að fyrir gerð ábyrgðarsamnings skal
lánveitandi upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara. Í
6. gr. laganna segir að ábyrgðarsamningur skal vera skriflegur og í honum skal
getið þeirra upplýsinga sem nefndar eru í 5. gr. og skoðast þær sem hluti
samningsins. Fyrir liggur að við lántöku lántaka hjá LÍN var hann ekki talinn
lánshæfur hjá sjóðnum og til þess að fá námslán þurfti hann að leggja fram
fullnægjandi tryggingar. LÍN samþykkti sjálfskuldarábyrgð kærenda sem
fullnægjandi tryggingu fyrir því að veita lántaka námslán. Í fylgiskjalinu,
Upplýsingar til ábyrgðarmanns, sem samið er af LÍN, kemur fram í 2. tl. að LÍN
hafi upplýst ábyrgðarmann "um greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr.
laga nr. 32/2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali". Þá segir í
skjalinu að frekari upplýsingar um greiðslugetu lántaka sé ekki að fá og vakin
athygli á því að umrætt lán muni ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi
ljúki og að þá verði aðstæður lántaka aðrar en í dag, þ.á m greiðslugeta.
Skjalið er undirritað af kærendum og segir í texta fylgiskjalsins að með því
staðfesti þau að hafa kynnt sér upplýsingar skjalsins og fengið afhent afrit af
því og að það skoðist sem hluti af ábyrgðarsamningnum. Í lögum um ábyrgðarmenn
nr. 32/2009 er lögð skylda á þá aðila, stofnanir og fyrirtæki, sem veita lán þar
sem ábyrgðarmaður, einstaklingur, gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka,
að upplýsa um þá áhættu sem í ábyrgð felst áður en ábyrgðarmaður gengst undir
hana. LÍN ber samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna að meta hæfi lántaka til að standa
í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar á efndum
lántaka. LÍN sem lánveitanda bar þannig að leggja mat sitt á greiðslugetu
lántaka og framkvæma greiðslumat sem byggt er á viðurkenndum viðmiðum. Í
athugasemdum í greinargerð með frumvarpi er síðar varð að lögum nr. 32/2009
segir að óþarft sé að slá föstu í lögunum þeim viðmiðum sem leggja beri til
grundvallar við greiðslumat enda geti framkvæmd í þeim efnum verið háð
blæbrigðum meðal lánveitenda. Aðalatriðið sé að 2matið sé forsvaranlegt og
byggist á viðurkenndum viðmiðum." Telur málskotsnefnd að í þessu sambandi
hafi LÍN m.a. getað litið til þess greiðslumats sem framkvæmt er hjá t.d.
Íbúðalánasjóði og svo viðskiptabönkunum, og byggir á áralangri reynslu þessara
aðila við að greiðslumeta lántakendur til upplýsingar fyrir ábyrgðarmenn. Þá
vísast einnig í þessu sambandi til reglugerðar nr. 920/2013 um gerð viðurkennds
greiðslumats. Af hálfu LÍN virðist ekkert greiðslumat hafa verið framkvæmt á
lántaka heldur látið nægja að prenta af vanskilaskrá Credit Info og upplýsa
ábyrgðarmenn um greiðslusögu lántaka með vísun í það skjal. Í málinu liggja ekki
fyrir nein gögn um hver greiðslusaga lántaka var á þessum tíma þó vísað sé til
þess sem fylgiskjals með upplýsingaskjali LÍN til ábyrgðarmanns. Umrætt
fylgiskjal hefur ekki verið lagt fram af hálfu LÍN enda hefur LÍN upplýst að það
hafi verið tekin um það ákvörðun hjá sjóðnum að geyma ekki afrit af yfirliti úr
vanskilaskrá viðkomandi aðila með gögnum málsins á grundvelli persónusjónarmiða.
Málskotsnefnd fellst ekki á það með LÍN að ekki hafi verið unnt að framkvæma
greiðslumat m.a með vísun til eðlis lánveitingarinnar og skorts á upplýsingum um
lántaka. Verður að telja að LÍN standi margar leiðir til boða í þessu sambandi
sbr. hér fyrr og geti einnig t.d. byggt á eigin gagnagrunni um lántökur og
endurgreiðslur námslána, mati á umsókn lántaka og áætlun um lán til hans, auk
hefðbundinna gagna um lántaka s.s. skattskýrslur og greiðslusögu úr
vanskilaskrám. Að mati málskotsnefndar skiptir hér heldur ekki máli að námslán
eru lán sem veitt eru lántaka á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum.
Gagnvart ábyrgðarmanni skipta þau sjónarmið engu máli þegar til þess kemur að
ábyrgðarsamningur verður virkur og innheimta lánsins hefst. Innheimtan er
framkvæmd á grundvelli kröfuréttarlegra sjónarmiða af hálfu LÍN en innan ramma
laga um sjóðinn sem gerir t.d. svigrúm sjóðsins til samninga við ábyrgðarmenn
þrengra en gerist almennt hjá lánastofnunum. LÍN ber einnig samkvæmt 2. og 3.
mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn að ráða ábyrgðarmanni með skriflegum hætti frá
því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt
skuldbindingar sínar og ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Ekkert mat
virðist hafa verið framkvæmt á högum kærenda. Ekki verður séð að LÍN hafi fylgt
framangreindum ákvæðum eftir heldur þvert á móti má skilja orðalag í
fylgiskjalinu, Upplýsingar til ábyrgðarmanns, um að [v]akin er athygli á því að
umrætt lán mun ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi lýkur og þá verða
aðstæður lántakanda aðrar en í dag, þ.á.m greiðslugeta sem hvatningu til að
gangast í ábyrgð fyrir lántaka. Þá er einnig ljóst að sá fyrirvari um að
greiðslur eigi ekki að hefjast fyrr en tveimur árum eftir lok náms er beinlínis
villandi gagnvart ábyrgðarmanni ef fyrir liggur að fjárhagslegar upplýsingar um
lántaka eru þess eðlis að hann geti allt eins orðið gjaldþrota innan þess tíma
með þeim afleiðingum að lán hans hjá LÍN gjaldfalli við úrskurð um gjaldþrot. Þá
er ljóst að eftir að breytingarlög nr. 78/2009 á lögum nr. 21/1992 um LÍN tóku
gildi krefst LÍN eingöngu ábyrgðarmanns þegar lántaki er ekki talinn lánshæfur
samkvæmt reglum sjóðsins m.a. vegna þess að hann er á vanskilaskrá. Að mati
málskotsnefndar gefur það LÍN sérstaka ástæðu til að vanda vel til könnunar
málsins og upplýsingagjafar til ábyrgðarmanns um stöðu lántaka og áhættuna sem
því fylgir fyrir hann að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á lánum lántaka. Af
ákvæðum laga nr. 32/2009 leiðir síðan að þegar einstaklingsbundið greiðslumat
leiðir í ljós að líkur séu jafnvel á því að námsmaður geti ekki efnt
skuldbindingar sínar beri LÍN skylda til þess að ráðleggja ábyrgðarmanni,
skriflega og með skýrum hætti, frá því að gangast í ábyrgð. Einnig telur
málskotsnefnd að almennt sé full ástæða fyrir LÍN að benda á og upplýsa
ábyrgðarmann um áhrif þess ef bú lántaka er tekið til gjaldþrotaskipta, enda
aukin hætta á því ef aðstæður lántaka eru með þeim hætti að hann hefur ekki
verið metinn lánshæfur hjá LÍN. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar þá leiðir það
ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta
af þeim sökum einum að lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum,
heldur hefur það verið talið að finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum
samningaréttar ef leysa á ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt
ábyrgðarsamningi. Málskotsnefnd telur að LÍN verði að bera hallann af því að
ábyrgðaryfirlýsing til tryggingar námsláni var veitt án þess að sjóðurinn hafi
viðhaft þau vönduðu vinnubrögð sem lög um ábyrgðarmenn mæla fyrir um.
Málskotsnefnd telur að greiðslugeta lántaka hafi ekki verið metin þannig að
fullnægt hafi verið ákvæðum laga um ábyrgðarmenn en til þess bar LÍN skylda
samkvæmt fortakslausum ákvæðum laga nr. 32/2009. Þá er það mat málskotsnefndar
að kærendur hafi vegna þess ekki getað gert sér grein fyrir þeirri áhættu sem
fólst í því að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslánum lántaka en að það
hafi hvílt á LÍN sú ótvíræða lagaskylda að upplýsa þau um þá áhættu með
fullnægjandi hætti. Málskotsnefndin telur ljóst að LÍN hefur brugðist þeirri
ríku skyldu sem á sjóðnum hvílir, annars vegar þeirri skyldu að láta fara fram
einstaklingsbundið greiðslumat á lántaka og hins vegar að upplýsa ábyrgðarmenn
skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara, áður en þau tókust ábyrgðir þessar
á hendur. Þar sem LÍN fór ekki eftir skýrum fyrirmælum laga um ábyrgðarmenn
þegar kærendur gengust í verulega ábyrgð gagnvart sjóðnum og þegar litið er til
þess aðstöðumunar sem er á kærendum annars vegar og svo LÍN hins vegar, og svo
þegar litið er til málsatvika í heild sinni, þá telur málskotsnefnd það
ósanngjarnt hjá LÍN að bera fyrir sig ábyrgðarsamninginn gagnvart kærendum. Beri
því með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að fella niður ábyrgð kærenda
á umræddum námslánum Með vísan til framanritaðs eru hinar kærðu ákvarðanir
stjórnar LÍN frá 3. júlí og 17. október 2013 felldar úr gildi.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir stjórnar LÍN frá 3. júlí og 17. október 2013 í máli kærenda eru felldar úr gildi.