Úrskurður
Ár 2014, fimmtudaginn 26. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurði í máli nr. L-50/2013.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með ákvörðun þann 3. júlí 2013 synjaði stjórn Lánasjóðs
íslenskra námsmanna (LÍN) beiðni kærenda (ábyrgðarmanna) um að lántaki fengi að
greiða gjaldfellt lán sitt með sama hætti og lántaki myndi gera áður en hann var
úrskurðaður gjaldþrota. Kærendur fóru fram á endurupptöku málsins sem stjórn LÍN
synjaði með ákvörðun þess efnis 17. október 2013. Kærendur kærðu ákvarðanir
stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Þann 5. júní 2014 kvað málskotsnefnd upp
úrskurð í máli kærenda þar sem felldar voru úr gildi ákvarðanir stjórnar LÍN frá
3. júlí og 17. október 2013 í máli kærenda.
Byggt var á því í niðurstöðu
málskotsnefndar að LÍN hefði brugðist þeirri ríku skyldu sem á sjóðnum hvíli,
annars vegar þeirri skyldu að láta fara fram einstaklingsbundið greiðslumat á
lántaka og hins vegar að upplýsa ábyrgðarmenn skriflega um þá áhættu sem ábyrgð
er samfara, áður en ábyrgðarmenn tókust á hendur ábyrgð á láni lántakanda. Þá
segir í úrskurðinum:
"Þar sem LÍN fór ekki eftir skýrum fyrirmælum
laga um ábyrgðarmenn þegar kærendur gengust í verulega ábyrgð gagnvart sjóðnum
og þegar litið er til þess aðstöðumunar sem er á kærendum annars vegar og svo
LÍN hins vegar, og svo þegar litið er til málsatvika í heild sinni, þá telur
málskotsnefnd það ósanngjarnt hjá LÍN að bera fyrir sig ábyrgðarsamninginn
gagnvart kærendum. Beri því með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 að
fella niður ábyrgð kærenda á umræddum námslánum.
Úrskurðurinn var
birtur aðilum sama dag.
Málskotsnefnd hefur nú borist beiðni frá LÍN sem
dagsett er 13. júní 2014 um að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað skv. 3.
mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992. Eftirfarandi rökstuðning er að finna í
beiðninni:
"Með vísan til heimildar í 3. mgr. 5. gr. a. laga nr.
21/1992 gerir stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna kröfu um að réttaráhrifum
úrskurða í málum nr. L-50/2013 og L-58/2013 verði frestað. Stjórn sjóðsins
stefnir að því að bera málið undir dómstóla enda er það mat stjórnarinnar að
úrskurðirnir hafi í för með sér veruleg fjárhagsleg áhrif yfir sjóðinn auk þess
sem stjórn sjóðsins telur verulegan lögfræðilegan vafa vera um niðurstöðu
málskotsnefndar, m.a. um beitingu 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga. Þá er ljóst að fordæmisgildi úrskurðanna gagnvart þeim málum sem
heyra undir sjóðinn séu umtalsverð. Ef umræddir úrskurðir verða staðfestir af
dómstólum er fyrirséð að það muni geta haft veruleg fjárhagsleg áhrif á sjóðinn.
Með lögum nr. 78/2009 um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna var
lögum um sjóðinn breytt á þann veg að námsmaður bæri einn ábyrgð á endurgreiðslu
námsláns að uppfylltum skilyrðum stjórnar. Frá þeim tíma hefur LÍN eingöngu
krafist ábyrgða vegna lána til námsmanna sem eru á vanskilaskrá. Fjöldi
námsmanna sem LÍN lánaði til og fór fram á ábyrgð hjá voru rúmlega þúsund frá
gildistöku laganna og fram til 1. nóvember 2013. Nema námslán á umræddu tímabili
og sem falla undir úrskurði málskotsnefndar rúmum 2,5 milljörðum. Verði
úrskurðir málskotsnefndar staðfestir af dómstólum gæti því niðurfelling námslána
vegna vanskila numið allt að þessari upphæð þar sem ætla má að vanskil þessa
greiðendahóps í ljósi greiðslusögu þeirra verði meiri en almenn vanskil
sjóðsins."
Með tölvupósti dagsettum 16. júní 2014 var kærendum
tilkynnt um beiðni stjórnar LÍN og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Með
tölvupósti dagsettum 24. júní 2014 mótmæltu kærendur frestun á réttaráhrifum
úrskurðarins og töldu rétt að hann yrði birtur án tafar.
Niðurstaða
Um frestun réttaráhrifa er fjallað í 3. mgr. 5. gr. a. laga nr.
21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna sem er svohljóðandi: "Að kröfu
stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd sjóðsins getur nefndin frestað
réttaráhrifum úrskurðar síns telji hún að hann muni hafa í för með sér veruleg
fjárhagsleg áhrif á sjóðinn. Krafa þess efnis skal gerð eigi síðar en 10 dögum
frá birtingu úrskurðar. Skal frestun á réttaráhrifum úrskurðar að auki vera
bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir
dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski þá eftir að það hljóti flýtimeðferð.
Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30
daga frestsins. Þegar mál er höfðað vegna úrskurðar málskotsnefndar er henni
heimilt að fresta afgreiðslu sambærilegra mála, sem til meðferðar eru hjá
nefndinni, þar til dómur gengur."
Í athugasemdum við frumvarp til
laga um breyting á lögum nr. 21/1992 kemur fram að við mat á því "hvort
heimild þessi verði veitt ber málskotsnefndinni að taka mið af því hvort
úrskurðurinn geti haft fordæmisgildi, hann hafi í för með sér veruleg fjárútlát
fyrir sjóðinn eða að lögfræðilegur vafi sé um niðurstöðuna." Þá kemur einnig
fram að gert sé ráð fyrir því að stjórnin nýti þessa heimild einungis í
undantekningartilvikum. Að mati málskotsnefndar hefur stjórn LÍN leitt að því
líkum að niðurstaða málsins geti haft verulegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir
sjóðinn. Þá er ljóst að fordæmisgildi úrskurðarins er verulegt. Telur
málskotsnefnd því að fullnægt sé skilyrðum sem fram koma í 3. mgr. 5. gr. a.
laga nr. 21/1992. Fellst málskotsnefnd því á beiðni stjórnar LÍN um frestun
réttaráhrifa úrskurðar málskotsnefndar í máli L-50/2013 þar til niðurstaða
dómstóla í málinu liggur fyrir. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar er bundin því
skilyrði að stjórn LÍN beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og
óski jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Frestun réttaráhrifa
úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frá birtingu
úrskurðar þessa og ef ekki er óskað eftir flýtimeðferð málsins.
Úrskurðarorð
Réttaráhrifum úrskurðar málskotsnefndar í máli L-50/2013 er frestað þar til niðurstaða dómstóla í málinu liggur fyrir. Frestun á réttaráhrifum úrskurðar er bundin því skilyrði að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna beri málið undir dómstóla innan 30 daga frá frestun og óski eftir flýtimeðferð málsins. Frestun réttaráhrifa úrskurðar fellur úr gildi ef mál er ekki höfðað innan 30 daga frá birtingu úrskurðar þessa og ef ekki er óskað eftir flýtimeðferð málsins.