Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-61/2013 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á sjálfskuldarábyrgð á námsláni

Úrskurður

 

Ár 2014, miðvikudaginn 2. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-61/2013.

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 29. nóvember 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. ágúst 2013. Í ákvörðuninni var ekki fallist á beiðni kæranda um að fella niður sjálfskuldarábyrgð hennar á námsláni lántaka. Þá tilkynnti stjórn LÍN kæranda að með hliðsjón af fjárhæð skuldarinnar hafi stjórnin samþykkt að lán til uppgreiðslu skuldarinnar yrði til 15 ára í stað 10 ára eins og áður var gert ráð fyrir. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. desember 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. janúar 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda, dagsettar 31. janúar 2014, voru sendar til stjórnar LÍN og bárust viðbótarathugasemdir sjóðsins í bréfi dagsettu 10. febrúar 2014. Viðbótarathugasemdir LÍN voru sendar kæranda þann 17. febrúar 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi er ábyrgðarmaður að námslánum lántaka hjá LÍN en hann var úrskurðaður gjaldþrota þann 28. september 2012. Í kjölfarið voru námslán lántaka gjaldfelld og innheimta hafin hjá ábyrgðarmanni. Kærandi sendi stjórn LÍN erindi, dagsett 8. ágúst 2013, þar sem hún fór þess á leit að ábyrgð hennar yrði felld niður þar sem hún hefur ekki tök á að greiða hið gjaldfellda lán. Kærandi er ellilífeyrisþegi, fædd árið 1926, og gekkst í ábyrgð fyrir son sinn, lántaka, á árunum 1985-1988. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með ákvörðun dagsettri 28. ágúst 2013 en féllst á að heimila kæranda að greiða skuldina með skuldabréfi til 15 ára. Kærandi krefst þess að ákvörðun stjórnar LÍN verði felld úr gildi. LÍN fer fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðunina.

Sjónarmið kæranda

Til stuðnings kröfu sinni vísar kærandi til þess að hún sé 88 ára gömul, ellilífeyrisþegi með 170 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði og að hún sitji í óskiptu búi. Kærandi bendir á að að stjórn LÍN hafi synjað erindi kæranda á þeim grundvelli að "ábyrgð ábyrgðarmanns getur einungis fallið niður ef önnur trygging kemur í staðinn sem stjórn sjóðsins telur fullnægjandi sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1991." Kærandi vísar til þess að lög nr. 21/1992 eigi ekki við um þau lán sem kærandi tók heldur lög nr. 72/1982. Beri þegar af þeirri ástæðu að fella ákvörðun stjórnar LÍN úr gildi enda skorti hana lagastoð. Varðandi ákvörðun LÍN um að veita kæranda lán til 15 ára til uppgreiðslu skuldarinnar þá bendir kærandi á að heimildir til að gjaldfella lán skv. lögum nr. 72/1982 sé að finna í 11. gr. laganna. Segi þar "verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námslána skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga". Kærandi bendir á að þrátt fyrir gjaldþrot lántaka hafi lánið aldrei farið í vanskil og því sé ljóst að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt fyrir gjaldfellingu lánsins. Lántaki hafi haldið láninu í skilum og sé því ljóst að meðalhófs hafi ekki verið gætt við ákvörðunina enda bersýnilega þarflaust að gjaldfella lánið og leggja það á kæranda að skrifa upp á lán sem hún muni samkvæmt tillögu LÍN greiða til 103 ára aldurs. Kærandi óski því eftir því að ákvörðun stjórnar LÍN um gjaldfellingu lánsins verði felld úr gildi og jafnframt að nefndin úrskurði um niðurfellingu sjálfskuldarábyrgðar hennar á láninu.

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN byggir á því að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til þess að fella niður ábyrgðir. Ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður ef önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telji fullnægjandi sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. LÍN bendir á að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. falli allar kröfur sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem áður kunni að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Við úrskurð héraðsdóms um gjaldþrot lántaka hafi námslánið gjaldfallið í heild sinni og hægt sé að ganga að ábyrgðarmanni til greiðslu heildarskuldar. Þrátt fyrir það hafi LÍN boðið ábyrgðarmönnum að semja við LÍN um að taka skuldabréf til allt að 10 ára til þess að dreifa greiðslum vegna slíkra ábyrgðarskuldbindinga og við ákveðnar aðstæður, s.s. vegna fjárhags ábyrgðarmanns, hafi verið fallist á að lengja þann tíma í 15 ár. Með hliðsjón af aldri og fjárhag kæranda og fjárhæð ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi LÍN fallist á að lán til uppgreiðslu skuldarinnar yrði til 15 ára í stað 10 ára ef kærandi óskaði eftir því. LÍN byggir á því að sjóðurinn hafi ekki lagaheimild til þess að fella niður sjálfskuldarábyrgð á námslánum enda sé slíka heimild hvorki að finna í lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki né í lögum nr. 21/1991 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þá telur LÍN að ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður ef önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telji fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Heimild til að skipta um ábyrgðarmann og/eða koma með aðra tryggingu í staðinn hafi fyrst komið inn í lög nr. 21/1992. Þrátt fyrir það hafi verið talið heimilt að skipta um ábyrgðarmenn á þeim lánum sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra laga. Í tilefni af fyrirspurn málskotsnefndar við meðferð máls nr. L-27/2013 hefur LÍN upplýst að ábyrgðamönnum standi til boða að semja við LÍN um uppgjör gjaldfallinna lána. Þeir geti fengið skuldabréfalán hjá LÍN til allt að 10 ára, sé lánið undir 10 milljónum, en til allt að 15 árum sé lánið yfir 10 milljónum. Vextir séu 7,75% á óverðtryggðum lánum (6,75% vextir + 1% álag) en 4,75% á verðtryggðum lánum (3,75% vextir + 1% álag). Ef ábyrgðarmenn hafi ekki samband við sjóðinn innan 14 daga séu málin áframsend til löginnheimtu. Ábyrgðarmenn geta fengið sömu kjör þar að viðbættri innheimtuþóknun og eftir atvikum öðrum kostnaði. Það sama eigi við ef námslánið sé þegar í löginnheimtu við gjaldþrot lántaka. LÍN byggir á því að niðurstaða í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum.

Niðurstaða

 

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Með breytingalögum nr. 78/2009 á lögum nr. 21/1992 um LÍN, var gerð sú breyting að í stað þess að lántaki yrði að leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns, varð meginreglan sú að námsmaður ber einn ábyrgð á endurgreiðslu námsláns, að uppfylltum skilyrðum stjórnar LÍN. Í ákvæði til bráðabirgða í breytingalögunum kemur fram að ákvæði laganna gilda ekki um lánsloforð sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna, eins og í tilfelli kæranda. Um þau skal fara eftir þágildandi lagaákvæðum, reglugerðum og úthlutunarreglum sjóðsins. Í bráðabirgðaákvæðinu kemur einnig fram að LÍN skuli við innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum námslána vera bundinn af þeim reglum sem fram komi í III. kafla laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, eftir því sem við á. Markmið laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin trygginga. Er hér um sama markmið og markmið samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, sem m.a. stjórnvöld stóðu að, frá árinu 2001. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfin sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir voru gefin út á árunum 1985 til 1988. Endurgreiðslutími, og þar með líftími skuldabréfanna og ábyrgðarinnar, er 40 ár. Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim var gerð krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Ábyrgðaryfirlýsing kæranda á skuldabréfunum eru samhljóða og hljóða svo: "Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur ofanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. " Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og gildir það um námslán sem aðrar kröfur gjaldþrota aðila. Ákvæði 1. mgr. 99. gr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 31. gr. eldri gjaldþrotalaga nr. 6/1978. Við það að lántakandi var úrskurðaður gjaldþrota þann 28. september 2013 varð ábyrgð kæranda á láninu virk. Kærandi hefur farið þess á leit að umræddar ábyrgðir verði felldar niður. Kærandi hefur sérstaklega vísað til aldurs og lágra tekna en kærandi er eftirlaunaþegi með lágar tekjur og situr í óskiptu búi eftir mann sinn. Hafi hún ekki fjárhagslegt bolmagn eða greiðslugetu til að greiða af skuldbindingu sinni með þeim hætti sem LÍN hefur boðið upp á. LÍN segist ekki geta orðið við kröfum kæranda með vísan til skorts á lagaheimild. Á almennum lánamarkaði ríkir samningsfrelsi og ábyrgðarmenn sem taka þurfa við skuldbindingu lántakanda geta almennt leitað samninga við lánveitendur um efndir skuldbindinga sinna, fyrirkomulag greiðslunnar og samið um niðurfellingu skuldarinnar gegn hlutagreiðslu, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Þegar lánveitendur meta slík tilboð er það m.a. gert út frá greiðslu- og eignastöðu skuldarans og sjónarmiðum lánveitanda um að hámarka innheimtu lánsins. Málskotsnefndin telur ljóst að löggjöfin um LÍN setur sjóðnum skorður sem þrengir framangreint samningsfrelsi gagnvart ábyrgðarmönnum námslána. Verður að fallast á það með LÍN að sjóðnum er óheimilt að fella niður ábyrgðarskuldbindingu eins og kærandi hefur óskað eftir. Í lögum og reglum um LÍN er ekki að finna neina heimild til að fella niður eða lækka útistandandi skuld vegna námslána, hvorki vegna aðstæðna lántakenda né heldur ábyrgðarmanna. Málskotsnefnd bendir á að í lögum um LÍN, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins, er hvorki vikið að því með hvaða hætti sjóðurinn skuli standa að innheimtu gagnvart ábyrgðarmönnum eða með hvaða hætti heimilt sé að semja við ábyrgðarmenn um frágang á ábyrgðarskuld við sjóðinn. Í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 er í III. kafla laganna fjallað um réttarsamband lánveitanda og ábyrgðarmanns. Þar sem þessi lög tóku gildi eftir að umrædd skuldabréf voru undirrituð af hálfu kæranda gilda þau einungis að hluta til um réttarsamband kæranda og LÍN. Þó er ljóst að kærandi nýtur tiltekinnar verndar, s.s. samkvæmt 8. gr., en þar kemur fram að ekki verði gerð aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans ef krafa á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar. Jafnframt að lánveitandi geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef krafa hans á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar nema hann geri sennilegt að um sviksamlegt undanskot eigna ábyrgðarmanns hafi verið að ræða. Við meðferð máls nr. L-27/2013 hjá málskotsnefnd komu fram þær upplýsingar af hálfu LÍN að eina úrræðið sem ábyrgðarmönnum stendur til boða við gjaldfellingu námsláns vegna gjaldþrots lántaka er staðgreiðsla. Er ábyrgðarmönnum þó boðið að undirrita skuldabréf til 10 eða 15 ára eftir fjárhæð skuldar. Virðist það úrræði byggja á innanhúss verklagsreglum um það hvernig staðið skuli að innheimtu og samningum við ábyrgðarmenn lána í eigu sjóðsins. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu, þ. á m. við ákvarðanir um innheimtu námslána, að fylgja þeim sérstöku lagareglum sem gilda um stjórnsýslu ríkisins, bæði settum og óskráðum grundvallarreglum, og vönduðum stjórnsýsluháttum. Málskotsnefnd telur að af sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti leiði að LÍN ber að gæta þess að við innheimtu krafna á hendur ábyrgðarmönnum sé farið að meginreglum íslensks kröfuréttar og að vandað sé til um innheimtu slíkra skulda. Þá er vísað til laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 um þau sjónarmið og áherslur sem löggjafinn leggur á við meðferð mála þar sem einstaklingar eru krafðir um greiðslu skulda vegna sjálfskuldarábyrgða. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað í málum sambærilegu máli kæranda, þ.e. í máli L-27/2013, L-60/2013 og L-62/2013. Í framangreindum málum kemur fram sú afstaða málskotsnefndar að LÍN sé rétt að setja viðmiðunarreglur eins og þær sem vísað er til hér að framan til að stuðla að jafnræði og skilvirkni í meðferð mála er varða ábyrgðarmenn námslána. Málskotsnefnd tók þó fram að eðli málsins samkvæmt er um að ræða viðmiðunarreglur sem ekki kunna að eiga við í öllum tilvikum, s.s. þegar líkindi eru fyrir því við gjaldþrot lántaka að ábyrgðarmaður kunni ekki að hafa greiðslugetu til að standa undir afborgunum og að í því tilviki hafi LÍN svigrúm til samninga við ábyrgðarmenn eftir gjaldfellingu námsláns m.a. með það fyrir augum að auka líkur á því að sjóðurinn fái fullar efndir viðkomandi ábyrgðarskuldbindingar. Því beri sjóðnum að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta á grundvelli fyrirliggjandi gagna og innan þeirra heimilda sem sjóðurinn hefur með hvaða hætti hægt er að semja við ábyrgðarmann hverju sinni. Málskotsnefnd hefur bent á í þessu sambandi að innheimta stjórnvalds á skuld ábyrgðarmanns vegna námslána þriðja aðila er íþyngjandi athöfn í garð ábyrgðarmanns og að mjög mikilvægt er að staðið sé vel að innheimtu slíkra mála. Málsskotsnefnd fellst á það með LÍN, sbr. hér fyrr, að án viðhlítandi lagaheimildar sé ekki unnt að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu á skuld hennar við sjóðinn. Af gögnum málsins má sjá að LÍN hefur boðið kæranda að lán til uppgreiðslu skuldarinnar verði til 15 ára í stað 10 ára en ekkert hefur komið fram um að sú ráðstöfðun geri kæranda kleift að standa við skuldbindingar sínar. Telja verður að komi fram beiðni frá kæranda um frágang samkomulags miðað við aðstæður hennar beri LÍN að skoða málið á ný og reyna að ná samkomulagi við kæranda um greiðslur sem hún getur staðið undir. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd hina kærðu ákvörðun vera í samræmi við lög og er ákvörðun LÍN frá 28. ágúst 2013 í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun frá 28. ágúst 2013 er staðfest.

Til baka