Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-65/2013 - Skólagjöld - upphæð skólagjaldaláns

Úrskurður

 

Ár 2014, miðvikudaginn 2. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-65/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 16. desember 2013 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 26. september 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að fá skólagjaldalán í samræmi við upplýsingar um fjárhæð skólagjaldalána sjóðsins sem henni voru veittar í bréfi LÍN þann 21. febrúar 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 27. desember 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 30. janúar 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 22. febrúar 2014. Voru athugasemdir kæranda framsendar stjórn LÍN 4. mars 2014.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námsvist í iðn- og starfsnámi í London í byrjun árs 2013. Til að kanna lánamöguleika sína lagði hún fram þann 16. febrúar 2013 beiðni til LÍN um að fá gefið út yfirlit um lánamöguleika vegna náms erlendis samkvæmt úthlutunarreglum LÍN. Á umsóknareyðublaði sem kærandi undirritaði kom fram eftirfarandi fyrirvari: 

"Beiðni þessi gildir ekki sem umsókn um námslán fyrir viðkomandi skólaár, heldur þarf að sækja um slíkt samkvæmt reglum sjóðsins hverju sinni. Þá er væntanlegt yfirlit um lánamöguleika ekki lánsloforð af hálfu sjóðsins, heldur einungis lauslegur útreikningur á mögulegu hámarksláni byggður á upplýsingum námsmannsins sjálfs og lauslegri athugun á lánshæfni náms í viðkomandi skóla. Til viðbótar koma fram almennar upplýsingar um aðra lánamöguleika hjá sjóðnum. Yfirlitið um lánamöguleika veitir námsmanni ekki sjálfstæðan rétt til námslána í samræmi við þær fjárhæðir sem þar koma fram.

Í svarbréfi LÍN 21. febrúar 2013 komu fram upplýsingar um framfærslu- og skólagjaldalán vegna viðkomandi náms. Kom fram í bréfi LÍN að upplýsingarnar miðuðu við úthlutunarreglur sjóðsins vegna skólaársins 2012-2013 og fyrirliggjandi upplýsingar. Segir í bréfinu að skólagjaldalán séu 14.700 pund fyrir hvert skólaár. Kærandi greiddi staðfestingargjald til skólans 4.655 pund 15. mars 2013 til að tryggja sér skólavist og síðan fullnaðargreiðslu fyrir lok júní 2013 eins og áskilið var af skólanum. Kærandi sótti um námslán og fékk lánsáætlun 12. ágúst 2013. Í lánsáætluninni kom fram að hámark skólagjaldalána yrði 9.133 pund. Kærandi óskaði upplýsinga frá LÍN 13. ágúst 2013 um ástæðu þess að lán vegna skólagjalda yrðu lægri en samkvæmt upplýsingum er hún hafði áður fengið hjá LÍN í bréfi sjóðsins 21. febrúar 2013. Í tölvupósti kæranda segir einnig að hún hafi fengið þær upplýsingar hjá LÍN í byrjun júlí að skólagjaldalán myndu ekkert breytast. Í tölvupósti frá LÍN 23. ágúst 2013 kom fram að hámark skólagjaldalána vegna náms í Bretlandi væru 27.400 pund og að grunnnámsnemar gætu mest fengið 1/3 þeirrar upphæðar á hverju skólaári, eða 9.133 pund sem væri skipt milli anna, sbr. grein 4.8 í úthlutunarreglum LÍN vegna skólaársins 2013-2014. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 2. september 2013. Þar kom fram að hún hefði farið í viðtal hjá LÍN 28. ágúst 2013 en þar hefðu ekki fengist aðrar þær skýringar en að um mistök hafi verið að ræða. Benti kærandi á að töluverður munur væri á þeim fjárhæðum sem hefðu verið gefnar upp hjá LÍN og endanlegri fjárhæð, eða um 5.567 pund. Fór kærandi þess á leit að tilkynning frá LÍN 21. febrúar 2013 um fjárhæð skólagjalda yrði látin standa. Með ákvörðun stjórnar LÍN 30. september 2013 var beiðni kæranda synjað. Vísaði stjórn LÍN til þess að í umræddu bréfi LÍN til kæranda hefði sérstaklega verið tekið fram að einungis væri um vísbendingu að ræða. Í ljósi þess að fyrir lægju skýrar, opinberar og auglýstar reglur um fjárhæð skólagjaldalána, sbr. grein 4.8 í úthlutunarreglum LÍN teldi stjórn LÍN engar forsendur til að verða við beiðni kæranda. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi hafnar niðurstöðu stjórnar LÍN með vísan til þess að hún hafi mátt treysta því að fá réttar upplýsingar um fjárhæð skólagjalda frá LÍN. Sá fyrirvari sem gerður hafi verið af hálfu LÍN getur að mati kæranda einungis vísað til þess að kærandi uppfylli skyldur sínar um námsframvindu. Kærandi vísar jafnframt til ákvæða stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda. Hafi hún greitt skólagjöldin í góðri trú um að upplýsingar frá LÍN stæðust. Þá vísar kærandi jafnframt til andmælaréttar, en starfsmenn LÍN hafi tekið ákvörðun um breytingu á fjárhæð skólagjaldaláns án þess að gefa kæranda kost á að gæta andmælaréttar síns. Kærandi bendir á að þegar endanleg ákvörðun LÍN hafi legið fyrir hafi hún þegar verið búin að festa sér húsnæði í London og einnig hafi verið ljóst á þessum tíma að skólinn myndi ekki endurgreiða skólagjöldin samtals 18.500 pund. Bendir kærandi á að stjórnvaldi beri að tilkynna allar íþyngjandi breytingar gagnvart borgurunum með eðlilegum fyrirvara. Yrðu borgarar að geta treyst því að réttarstaða þeirra væri ljós og þannig bæri stjórnvöldum að taka tillit til réttmætra væntinga þeirra. Vísaði kærandi í þessu efni til álita umboðsmanns Alþingis og dóms Hæstaréttar í máli nr. 151/2010. Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar kærandi ennfremur til þess að með ákvörðun stjórnar LÍN hafi verið tekin afturvirk ákvörðun í máli hans er varði upphæð skólagjaldalána. Væri þessi ákvörðun verulega íþyngjandi fyrir kæranda og færi hún í bág við stjórnsýslulög og vandaða stjórnsýsluhætti. 

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til þess að í beiðni kæranda um að fá yfirlit um lánamöguleika hjá LÍN vegna náms erlendis komi fram að yfirlitið sé ekki lánsloforð af hálfu sjóðsins heldur einungis lauslegur útreikningur á mögulegu hámarksláni byggður á upplýsingum námsmannsins sjálfs og lauslegri athugun á lánshæfni náms í viðkomandi skóla. Komi fram á umsóknareyðublaðinu að umsóknin veiti kæranda ekki sjálfstæðan rétt til námslána í samræmi við þær fjárhæðir er þar komi fram. Kærandi hafi með undirritun sinni á beiðnina staðfest viðkomandi fyrirvara og að hafa kynnt sér gildandi úthlutunarreglur sjóðsins. Þann 21. febrúar 2013 hafi kærandi fengið yfirlýsingu frá LÍN vegna náms erlendis á grundvelli umsóknar sinnar. Tekið sé fram í yfirlýsingunni frá LÍN að lánað sé að hámarki fyrir 14.700 pundum á námsári en að fjárhæðin sé einungis til viðmiðunar og sé ekki trygging fyrir láni. Þá komi einnig fram að þegar nemandi sæki um lán fái hann lánsáætlun þar sem fram komi loforð um lán á grundvelli þeirra upplýsinga sem nemandi hefur gefið sjóðnum. Neðst í yfirlýsingunni komi svo fram að framangreindar upplýsingar séu í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins fyrir skólaárið 2012-2013 og þeim upplýsingum er hafi verið til staðar á degi yfirlýsingarinnar. Einnig kemur fram í athugasemdum stjórnar LÍN að engin samskipti við kæranda séu skráð hjá sjóðnum frá því yfirlýsingin hafi verið gefin út í febrúar 2013 og þar til kærandi hafi haft samband við sjóðinn vegna lánshæfis náms í júlí 2013. Hafi skólinn verið metinn lánshæfur og kærandi í kjölfarið sótt um námslán 29. júlí 2013. Í lánsáætlun frá 12. ágúst 2013 komi fram að skólagjaldalán fyrir námsárið 2013-2014 sé 9.133 pund. Stjórn LÍN bendir á að ákvörðun stjórnar í máli kæranda sé byggð á grein 4.8 í úthlutunarreglum sjóðsins en þar komi fram upplýsingar um hámark skólagjaldalána sem sé 9.133 pund í tilviki kæranda. Stjórn LÍN telur að ekki sé hægt að byggja neinn rétt á á almennri yfirlýsingu um nám erlendis. Almennt séu slíkar yfirlýsingar byggðar á þeim reglum og þeim forsendum sem liggi fyrir þann dag sem yfirlýsing sé gerð. Miklir fyrirvarar séu gerðir um að hana eigi aðeins að hafa til hliðsjónar en hún sé ekki loforð um lánsrétt viðkomandi námsmanns enda sé aldrei ljóst hvernig reglur næsta námsárs verði eða hvort forsendur breytist í millitíðinni. LÍN bendir á aðí máli kæranda sé ljóst að röng fjárhæð hafi verið skráð á framangreinda yfirlýsingu en ekki sé um það að ræða að stjórnsýsluframkvæmd hafi breyst með skömmum fyrirvara og af þeim sökum hafi myndast réttmætar væntingar. Þar sem ekki hafi verið tekin nein ákvörðun með útgáfu yfirlýsingarinnar sé heldur ekki hægt að byggja neinn rétt á því að með útgáfu lánsáætlunar hafi verið tekin afturvirk ákvörðun. LÍN beri engin skylda til að gefa út slíkar yfirlýsingar en hafi gert það þar sem sumir skólar krefjist slíkra yfirlýsinga. Verði það mat málskotsnefndar að hægt verði að byggja lánsrétt á slíkum yfirlýsingum myndi slíkt óhjákvæmilega leiða til þess að hætta yrði að gefa út slíkar yfirlýsingar.

 

Niðurstaða

 

Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um sjóðinn að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Það er hlutverk stjórnar sjóðsins að setja reglur um úthlutun námslána, sbr. 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna. Í úthlutunarreglum sjóðsins undanfarin ár hafa verið óbreytt viðmið um fjárhæð lána vegna skólagjalda í námi eins og því sem kærandi stundaði. Hefur fjárhæðin sbr. grein 4.8 í úthlutunarreglum undanfarinna ára verið tilgreind sem 1/3 af þeim fjárhæðum sem fram koma í viðauka II við úthlutunarreglurnar. Var því hámark skólagjaldalána vegna grunnnáms í London 1/3 af heildarupphæð til skólagjaldalána. Heildarupphæð er og hefur undanfarin ár verið 27.400 pund. Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN átti kærandi því rétt á 1/3 af þeirri fjárhæð, eða 9.133 pund. Þegar kærandi fékk þær upplýsingar í ágúst 2013 að hún fengi ekki hærra lán en 9.133 pund vegna skólagjalda var því ekki um að ræða neina breytingu á stjórnsýsluframkvæmd sem LÍN er rétt að gera fyrirvara um við útgáfu á yfirlýsingu af því tagi sem um ræðir í máli kæranda. Að mati málskotsnefndar verður því eigi leyst úr máli kæranda með vísan til þess að hún eigi ekki rétt til frekara láns en kveðið er á um í grein 4.8 í úthlutunarreglum LÍN. Að mati nefndarinnar hefur stjórn LÍN því ekki lagt réttan lagagrundvöll að ákvörðun sinni í máli kæranda. LÍN er opinber lánastofnun og starfar á ábyrgð íslenska ríkisins. Um starfsemi sjóðsins gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og áður greinir er LÍN rétt að gera fyrirvara um frekari upplýsingar af hálfu umsækjenda um námslán og um breytingar á gildandi úthlutunarreglum þegar veittar eru fyrirfram upplýsingar um lánsrétt. Slíkur fyrirvari undanþiggur þó ekki LÍN sem stjórnvald frá allri ábyrgð á því að veita réttar upplýsingar um gildandi reglur sem umsækjendur geta síðan miðað áætlanir sínar við á eigin ábyrgð, kjósi þeir svo. Á sjóðnum hvílir leiðbeiningaskylda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga en þar segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í bréfi LÍN þann 21. febrúar 2013 er samkvæmt umsókn kæranda þar að lútandi gefinn lauslegur útreikningur á mögulegu hámarksláni til kæranda sem byggður er á upplýsingum kæranda og lauslegri athugun á lánshæfni náms í viðkomandi skóla. Þar segir að hámarkslán til kæranda geti numið allt að 14.700 pundum fyrir skólaárið. Í fyrirvara segir að upplýsingarnar í bréfinu séu gefnar á grundvelli reglna sjóðsins fyrir námsárið 2012-2013 sem og upplýsinga sem liggi fyrir á þeim tíma sem yfirlýsingin er gefin. Eins og áður er fram komið var hámarkslán vegna skólagjalda í námi eins og kæranda á námsárinu 2012-2013 í raun einungis 9.133 pund og því ljóst að þær upplýsingar sem fram komu í bréfi LÍN voru rangar. Með umræddu bréfi gaf LÍN kæranda ranglega til kynna að hún kynni að óbreyttu að eiga von á 60% hærra láni en hún í raun hefði mátt vænta miðað við þágildandi úthlutunarreglur. Er því sennilegt, eins og kærandi hefur borið, einkum í ljósi þess hve mikill munur er á fjárhæðum, að hinar röngu upplýsingar LÍN hafi orðið henni tilefni til að sækja um skólavist og greiða skólagjöld vegna náms sem hún hefði ekki sótt um ef hún hefði í upphafi fengið þær upplýsingar frá LÍN um að samkvæmt lauslegri athugun yrðu skólagjaldalán aðeins 9.133 pund. Umboðsmaður Alþingis hefur bent á að vegna brota á leiðbeiningarskyldu beri stjórnvöldum að gera aðila sem næst jafn settan og ef hann hefði fengið réttar leiðbeiningar í upphafi. Málskotsnefnd bendir á í þessu sambandi að þó svo að umrætt bréf frá 21. febrúar 2013 hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun þá geta komið til sambærileg sjónarmið og gilda um stjórnvaldsákvörðun þegar um er að ræða upplýsingar eða leiðbeiningar stjórnvalda vegna fyrirspurna um hvert verði efni stjórnvaldsákvörðunar, væri slíkt mál borið undir stjórnvald. Er því með vísan til framanritaðs hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN felld úr gildi og er lagt fyrir stjórn LÍN að taka umsókn kæranda um námslán til afgreiðslu á ný í samræmi við framangreind viðmið.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun frá 26. september 2013 í máli kæranda er felld úr gildi.

Til baka