Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-01/2014 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 16. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-1/2014 (endurupptaka á úrskurði í málinu nr. L-38/2011):

Kæruefni

Með bréfi dagsettu 28. janúar 2014 fór kærand fram á það við málskotsnefnd að hún tæki að nýju fyrir mál hans nr. L-38/2011, en með úrskurði í því máli hafði málskotsnefnd staðfest úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. ágúst 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2010. Málskotsnefnd hafði í bréfi til kæranda þann 17. september 2013 fallist á að taka mál hans fyrir að nýju, færi hann þess á leit við nefndina. Málskotsnefnd sendi kæranda bréf þann 3. apríl 2014 þar sem honum var gefinn kostur á að senda nefndinni frekari upplýsingar og gögn til stuðnings beiðni sinni. Með bréfi dagsettu 15. maí 2014 gaf málskotsnefnd stjórn LÍN kost á að tjá sig um beiðni kæranda um endurupptöku, sem hún gerði með bréfi dagsettu 6. júní 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Mál þetta á sér þá forsögu að kærandi sótti upphaflega um undanþágu frá fastri endurgreiðslu námsláns fyrir árið 2010 með tölvupósti þann 30. apríl 2010. Ástæðu umsóknar kvað kærandi vera fjárhagsörðugleika og fylgdu beiðninni staðgreiðsluyfirlit vegna launa hans frá apríl til og með desember 2009. Með bréfi LÍN til kæranda dagsettu 11. maí 2010 var athygli hans vakin á því að gögn vegna umsóknar hafi ekki borist sjóðnum og af þeirri ástæðu væri umsókn hans synjað, en hann gæti óskað úrskurðar stjórnar LÍN um synjunina. Kærandi andmælti því í bréfi til LÍN dagsettu 19. júlí 2010 að hafa ekki skilað umbeðnum gögnum og krafðist þess að umsóknin yrði tekin fyrir að nýju og honum veitt umbeðin undanþága vegna lágra tekna. Því hafnaði stjórn LÍN með úrskurði þann 17. ágúst 2010. Kærandi kærði úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar LÍN sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum 15. júní 2011, að stjórn LÍN hafi ekki veitt kæranda viðeigandi leiðbeiningar vegna umsóknar hans og með því brotið gegn rannsóknareglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var úrskurður stjórnar LÍN frá 17. ágúst 2010 því felldur úr gildi. Í framhaldi af úrskurði málskotsnefndar tók stjórn LÍN erindi kæranda fyrir að nýju og sendi honum bréf dagsett 1. júlí 2011 þar sem honum voru gefnar leiðbeiningar um hvaða gögnum hann þyrfti að skila til LÍN vegna umsóknar sinnar. Kærandi svaraði því með bréfi 14. sama mánaðar þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að það væri hæpið að einhver frekari gögn vörpuðu ljósi á umsókn hans og ítrekaði að fyrirliggjandi gögn hjá LÍN ættu að duga við afgreiðslu á beiðni hans. Stjórn LÍN tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 30. ágúst 2011 og kvað upp þann úrskurð að hafna umsókn hans um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2010. Með bréfi dagsettu 29. nóvember 2011 skaut kærandi úrskurði stjórnar LÍN til málskotsnefndar. Með úrskurði málskotsnefndar 14. mars 2012 var niðurstaða stjórnar LÍN staðfest með vísan til þess að kærandi hefði ekki sýnt fram á að aðstæður hans hefðu verið með þeim hætti að lánasjóðnum hefði verið heimilt að veita honum undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslánsins á grundvelli 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Kærandi kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar til umboðsmanns Alþingis með bréfi sem móttekið var 22. febrúar 2013. Með fyrirspurnarbréfi til málskostnefndar, sem dagsett er þann 11. júlí 2013, óskaði umboðsmaður m.a. eftir skýringum málskotsnefndar á því áliti nefndarinnar að undanþága yrði ekki eingöngu veitt vegna lágra tekna heldur þyrftu einnig að vera fyrir hendi einhver af þeim atriðum sem talin eru upp í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Þá óskaði umboðsmaður eftir skoðun nefndarinnar á því hvort ítarlegri upplýsingar hefðu verið nauðsynlegar til að leysa úr málinu og hvort öll gögn um aðstæður kæranda þyrftu að stafa frá honum sjálfum. Loks óskaði umboðsmaður eftir afstöðu nefndarinnar til þess að hún tæki mál kæranda fyrir að nýju. Í svarbréfi málskotsnefndar til umboðsmanns þann 16. september 2013 segir að nefndin hafi talið verulega skorta á samvinnu af hálfu kæranda um upplýsingar og skýringar á aðstæðum sínum. En í ljósi þeirra upplýsinga um aðstæður sínar sem fyrst hafi komið fram í kvörtun hans til umboðsmanns hafi nefndin tekið ákvörðun um að taka mál hans fyrir að nýju, færi hann þess á leit við nefndina og gefa honum kost á að leggja fram frekari gögn um aðstæður sínar. Með bréfi dagsettu 28. janúar 2014 fór kærandi fram á að málskotsnefnd endurupptæki mál hans.

Sjónarmið kæranda

Kröfu sína um að málskotsnefnd felli úr gildi úrskurð LÍN um að synja honum um undanþágu frá fastri afborgun námsláns sem var á gjalddaga 1. mars 2010 og að afborgun námsláns hans verði frestað byggir kærandi á því að hann hafi vegna tekjusamdráttar átt í verulegum fjárhagserfiðleikum fyrir gjalddaga umræddrar afborgunar. Kærandi hefur borið því við að hann hafi átt erfitt með að átta sig á því hvaða gögn það væru sem stjórn LÍN teldi að fylgja þurfti umsókn hans svo hægt væri að afgreiða hana. Í fórum LÍN hafi verið nægileg gögn sem sýndu fram á tekjusamdrátt hans og sérstaklega á því tímabili sem notað er til viðmiðunar af hálfu LÍN. Kærandi kveður tekjur sínar fyrir gjalddaga hinnar föstu afborgunar, þ.e. mánuðina desember 2009 til mars 2010, hafa verið mjög lágar, eins og staðgreiðsluyfirlit og skattframtal staðfesti. Hann hafi starfað sjálfstætt við verktöku á árunum 2009 og 2010 og hafi þá ástand á vinnumarkaði verið óvenju slæmt og lítið um verkefni. Þar sem hann hafi starfað sjálfstætt frá árinu 2008 hafi hann ekki notið réttinda hjá Vinnumálastofnun. Bendir kærandi á að samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN sé stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá afborgun ef að þær ástæður sem þar eru taldar upp eða aðrar sambærilegar valda verulegum fjárhagserfiðleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Umsókn kæranda byggir á „öðrum sambærilegum ástæðum“. Kærandi kveðst búa einn.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að lágar tekjur umsækjanda séu ekki fullnægjandi grundvöllur undanþágu afborgunar hjá sjóðnum. Kærandi hafi ekki sýnt fram á fjárhagsörðugleika með öðrum hætti, né með hvaða hætti aðrar sambærilegar ástæður væru að valda honum verulegum erfiðleikum fjárhagslega og því hafi umsókn hans upphaflega verið synjað af stjórn og sú ákvörðun verið staðfest af málskotsnefnd þann 14. mars 2012. Fram kemur hjá stjórn LÍN að eftir að málskotsnefnd hafi fallist á að taka mál kæranda fyrir að nýju hafi hún óskað eftir fjárhagsupplýsingum frá honum og skýringum á því hvers vegna tekjur hans væri svo lágar og með hvaða hætti þær hafi valdið honum verulegum fjárhagserfiðleikum, einkum síðustu mánuðina fyrir gjalddagann. Kærandi hafi í svari sínu skýrt ástæður lágra tekna með vísan til slæms ástands á vinnumarkaði, en hann hafi ekki komið fram með neina staðfestingu á því sem hann hafi haldið fram um atvinnuleysi sitt. Hvorki að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur né verið synjað um þær. Þá hafi hann engar upplýsingar gefið um það að hann hafi sótt um störf eða reynt að afla verkefna á tímabilinu. Auk þess hafi hann ekki sent neinar skýringar eða gögn um það með hvaða hætti lágar tekjur hafi valdið honum fjárhagsörðugleikum. Stjórn LÍN áréttar mikilvægi þess að sambærilegar kröfur séu gerðar til allra sem sæki um undanþágu frá afborgun og að gæra verið samræmis við afgreiðslu mála, þótt skoða verði hvert mál sérstaklega. Bendir stjórn LÍN á því að ekki sé lagaheimild til þess að veita undanþágu eingöngu vegna lágra tekna, heldur verði að sýna fram á að fyrir hendi séu einhver af þeim skilyrðum sem talin eru upp í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Það að kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi leiði ekki sjálfkrafa til þess að hann njóti ekki réttar til aðstoðar hjá Vinnumálastofnun. Þvert á móti sé gert ráð fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti átt rétt til atvinnuleysisbóta, sbr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. LÍN geri alltaf þá kröfu til þeirra sem sækja um undanþágu á afborgun vegna atvinnuleysis að þeir sýni fram á að þeir þiggi atvinnuleysisbætur, að þeir eigi ekki rétt á slíkum bótum og/eða sýni fram á atvinnuleit. Kærandi hafi ítrekað fengið tækifæri til þess að sýna fram á að hann ætti rétt á undanþágu án þess að hafa nýtt sér það þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar bæði stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Þrátt fyrir að leiðbeininga- og rannsóknarskylda hvíli á stjórnvöldum leysi það umsækjendur ekki undan því að skila þeim gögnum og upplýsingum sem óskað er eftir. Telur stjórn LÍN að kærandi hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun bæði stjórnar LÍN og síðan málskotsnefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Niðurstaða

Í máli þessi er af hálfu málskotsnefndar endurupptekinn úrskurður nefndarinnar frá 14. mars 2012 í málinu nr. L-38/2011 þar sem staðfestur var úrskurður stjórnar LÍN frá 30. ágúst 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns með gjalddaga 1. mars 2010. Byggði niðurstaða nefndarinnar á því að kærandi hefði ekki þrátt fyrir áskoranir gert tilraun til þess að sýna fram á að fyrir hendi væru ástæður sem veitt gætu heimild til undanþágu frá afborgun námsláns. Eins og að framan er rakið sendi kærandi umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna málsins þann 22. febrúar 2013. Vegna athugasemda Umboðsmanns um að ekki hafi verið nægilega gætt að rannsóknarreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins lýsti málskotsnefnd því yfir að hún tæki málið á ný til athugunar færi kærandi þess á leit, sem hann gerði með bréfi þess efnis 28. janúar 2014. Með bréfi málskotsnefndar til kæranda dagsett 3. apríl 2014 var óskað eftir því að kærandi gæfi nefndinni nákvæmari upplýsingar um tekjur sínar á árunum 2009 og 2010 og hverjar væru ástæður þess að tekjur hans voru lágar. Þá var óskað fyllri upplýsingar kæranda um verktöku hans á árunum 2009 og 2010, auk upplýsinga um fjölskylduhagi og með hvaða hætti lágar tekjur, einkum síðustu fjóra mánuðina fyrir gjaldagann 1. mars 2010, hafi valdið honum fjárhagsörðugleikum. Í svarbréfi kæranda þann 21. apríl 2014 voru aðstæður hans nánar úrskýrðar, auk þess sem hann sendi málskotsnefnd nánari gögn um tekjur áranna 2009 og 2010. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námsláns að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða tekjuöflunarmöguleika. Ennfremur er heimilt að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Af lagaákvæðinu er ljóst að undanþága verður ekki eingöngu veitt vegna lágra tekna, heldur þurfa einnig að vera fyrir hendi einhver af þeim atriðum sem þar eru talin upp. Umsókn kæranda byggir á því að aðstæður hans flokkist undir „aðra sambærilegar ástæður“ þar sem hann hafi átt í verulegum fjárhagserfiðleikum sem orsökuðust af lágum tekjum vegna erfiðs atvinnuástands árin 2009 og 2010. Í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 kemur fram að skuldari, sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr., skuli leggja fram þær upplýsingar sem stjórn LÍN telur skipta máli. Að mati málskostnefndar skorti verulega á það af hálfu kæranda að hann skýrði betur aðstæður sínar, eins og um var beðið, enda var það hans að sýna fram á að hann uppfyllti skilyrði og reglur sjóðsins til undanþágu. Hafði kærandi ítrekuð tækifæri til þess að leggja fram gögn og upplýsingar um aðstæður sínar, en hann lét lengst af við það sitja að leggja eingöngu fram staðgreiðsluyfirlit vegna ársins 2009. Úr því hefur kærandi nú bætt við endurupptöku málsins og hefur hann gefið ítarlegri skýringar á aðstæðum sínum. Í framlögðu skattframtali 2011 kemur fram að heildartekjur kæranda á árinu 2010 námu aðeins 199.645 kr. og samkvæmt framtalinu naut kærandi hvorki atvinnuleysisbóta né félagslegar aðstoðar á því ári. Eins og fyrr segir kveður kærandi orsakir lágra tekna mega rekja til slæms ástands á vinnumarkaði bæði varðandi verktöku og starfsmöguleika. Þá ber skattframtalið einnig með sér að skuldir kæranda voru langt umfram eignir. Eins og að framan er rakið verður undanþága frá árlegri endurgreiðslu á grundvelli 6. mgr. 8. gr. ekki eingöngu veitt vegna lágra tekna heldur þurfa einnig að vera fyrir hendi einhver af þeim atriðum sem talin eru upp í lagaákvæðinu, þ.e. nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða sambærilegar ástæður. Samhliða þessum ástæðum þurfa að vera fyrir hendi verulegir fjárhagsörðugleikar hjá umsækjanda, svo heimilt sé að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Kærandi hefur upplýst að lágar árin 2009 og 2010 megi rekja til verkaefnaskorts og að hann hafi ekki notið réttinda hjá Vinnumálastofnun, þar sem hann hafi starfað sjálfstætt frá árinu 2008. Eins og fram hefur komið í málinu er samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi geti notið atvinnuleysisbóta. Í lögunum er þó sett það skilyrði fyrir slíkum bótum, sbr. 18. gr., að viðkomandi hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun rekstrar. Samkvæmt 21. gr. laganna skal slík staðfesting fela í sér: "a. yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess, og b. afrit af tilkynningu til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra um að rekstur hafi verið stöðvaður, vottorð frá skattyfirvöldum um að skráningarnúmer hans hafi verið tekið af skrá eða önnur viðeigandi gögn frá opinberum aðilum er staðfesta kunna stöðvun rekstrar." Af ofangreindum skilyrðum má ráða að sjálfstætt starfandi sem eins og kærandi kjósa að halda áfram verkefnaleit eiga lögum samkvæmt ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Í gögnum frá kæranda kemur fram að hann hafi kosið að vinna áfram sjálfstætt og að tímabundinn verkefnaskortur hafi valdið verulegum fjárhagsörðugleikum hjá honum. Í tilviki kæranda fela því kröfur LÍN, sbr. athugasemdir stjórnar LÍN, um sönnun þess að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í sér skilyrði sem ekki eiga við í tilviki kæranda. Kærandi var eins og fyrr greinir á umræddu tímabili sjálfstætt starfandi en tímabundið með lágar tekjur sökum verkefnaskorts. Er það mat málskotsnefndar að aðstæður hans falli undir „aðrar sambærilegar ástæður“ í skilningi 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Þá verður að telja hafið yfir vafa að mati málskotsnefndar að mjög svo lágar tekjur kæranda, ásamt erfiðri skuldastöðu, hafi valdið honum verulegum fjárhagslegum örðugleikum og þeir örðugleikar hans hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunarinnar, sbr. grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Því hafi borið að veita kæranda undanþágu frá fastri endurgreiðslu afborgar sem var á gjalddaga 1. mars 2010. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er því felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 30. ágúst 2011 er felldur úr gildi.

Til baka