Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-59/2013 - Lánshæfi - lánshæfi náms

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 16. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-59/2013:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 21. nóvember 2013 kærði framkvæmdastjóri Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, Grænásbraut 910, Reykjanesbæ (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 28. ágúst 2013, þar sem hafnað var beiðni Keilis um að námið tískubraut yrði metið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 25. nóvember 2013 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. janúar 2014 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 18. júní 2014 óskað málskostnefnd eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kæranda um námið og barst svar hans þann 25. júní 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málavextir eru þeir að með bréfi dagsettu 26. júní 2013 heimilaði mennta- og menningamálaráðuneytið kæranda að hefja tilraunakennslu á tískubraut samkvæmt námskrárdrögum. Var leyfið veitt með þeim skilyrðum að áfangalýsingar yrðu endurskoðaðar á tilraunatímabilinu og að skólinn gæti skipulagt tilraunakennsluna þannig að hún félli innan fjárheimilda skólans. Að auki var leyfið háð því að skólinn fengi endurnýjaða viðurkenningu ráðuneytisins sem einkaskóli á framhaldsskólastigi. Leyfið skyldi gilda skólaárið 2013-2014 og í lok tímabilsins bæri skólanum að skila ráðuneytinu skýrslu um tilraunakennsluna og þróun brautarinnar. Jafnframt sagði í bréfi ráðuneytisins að sækja þurfi um áframhaldandi kennsluleyfi að ári og umsókninni fylgja endurskoðaðar áfanga- og námsbrautarlýsingar. Með tölvubréfi frá 2. júlí 2013 óskaði kærandi eftir því við LÍN að námið við tískubraut yrði metið lánshæft. Fram kemur í erindinu að skipulag og uppbygging námsins hafi verið samþykkt af mennta- og menningamálaráðuneytinu og af starfsgreinaráði. Náminu er lýst á eftirfarandi hátt í umsókn kæranda:

Tískubraut er starfsnám á framhaldskólastigi skipulagt sem 100% nám, námið fer allt fram í skóla og eru námslok á hæfniþrepi 2. Námið: skipulagt á 4 önnum, tvær haustannir og tvær vorannir samtals 122 fein einingar Skólagjöld: Skólinn rukkar skólagjöld fyrir námið Forkröfur: Nemendur þurfa að hafa lokið 60 fein einingum og náð 18 ára aldri.

Með fein einingum er átt við námseiningar í framhaldsskóla og veitir eitt námsár 60 einingar miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 175 dagar, sbr. 15. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Um réttindi eða starfsgráðu sem námið á tískubraut veitir segir í tölvubréfi kæranda til LÍN þann 3. júlí 2013, að nemendur megi að námi loknu starfa sem tískuhönnuðir, ýmist sjálfstætt eða hjá fyrirtækjum í tískuhönnun. Stjórn LÍN tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 28. ágúst 2013 var niðurstaða hennar að synja að svo komnu máli beiðni kæranda. Í niðurstöðum hennar sagði:

Í þeim gögnum sem liggja fyrir kemur fram að starfsgreinaráð hönnunar- og handverksgreina gerði í umsögn sinni við fyrirhugaða fatatækninámsbraut Keilis athugasemdir við hæfniskröfur og hæfnisviðmið brautarinnar. Í kjölfarið á því var, í samráði við ráðuneytið, nafni brautarinnar breytt í tískubraut í stað fatatæknibrautar. Miðað við framangreint hefur ekki borist jákvæð umsögn frá starfsgreinaráði um tískubraut Keilis, sbr. gr. 1.2.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Þá er heimild mennta- og menningarráðuneytisins einungis heimild til tilraunakennslu með fyrirvörum og skilyrðum.

Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurður stjórnar LÍN verði felldur úr gildi og að úrskurðað verði að nám það sem kennt er á tískubraut sé lánshæft hjá LÍN. Kærandi bendir á að mennta- og menningamálaráðuneytið hafi upphaflega veitt skólanum leyfi til kennslu á tískubraut til eins árs, sem muni vera venja í ráðuneytinu með nýjar námsbrautir. Hið tímabundna leyfi hafi verið forsendan fyrir þeirri ákvörðun stjórnar LÍN að synja um lánveitingu til námsins. Í framhaldi af ákvörðun sinni að gefa út leyfi fyrir tilraunakennslu í eitt ár hafi ráðuneytið gefið út nýtt leyfi sem gildi til tveggja ára. Með því hafi ráðuneytið staðfest að full alvara væri að baki námsbrautinni. Kærandi nefnir að vinnuheiti á umræddi námsbraut hafi upphaflega verið fatahönnun en vegna ruglingshættu við nám á háskólastigi sem hafi sama heiti hafi nafni námsbrautarinnar í samráði við ráðuneytið verið breytt í tískuhönnun. Kærandi bendir á að þetta muni vera í annað skiptið sem LÍN hafni því að veita lán til þess konar námsbrautar, en í fyrra skiptið hafi námið þó ekki verið á vegum kæranda. Kærandi segir að ákveðið hafi verið að bjóða upp á umrætt nám vegna mikillar eftirspurnar. Í Danmörku sé samskonar nám mjög vinsælt og sé útflutningur á tískufatnaði ein af stærri útflutningsgreinunum þar í landi. Þá hafi orðið til klasi um tískufatnað á Ásbrú í Reykjanesbæ og sé námið því í samræmi við tengsl kæranda og atvinnulífs, sem hafi hvatt til áforma um tískubraut. Þá bendir kærandi á að LÍN veiti lán til náms í fatahönnun við nokkra danska skóla og sé tískubraut kæranda sniðin að þeim námsbrautum. Telur kærandi að það standist vart jafnræðisreglu að lána til slíks náms í Danmörku en hafna samskonar námi hér á landi. Í ljósi fullyrðingar kæranda um að mennta- og menningamálaráðuneytið hafi í framhaldi af ákvörðun sinni að gefa út leyfi fyrir tilraunakennslu í eitt ár gefið út nýtt leyfi sem gildi til tveggja ára óskaði málskotsnefnd eftir frekari upplýsingum og skýringum kæranda um þá ákvörðun. Í svarbréfi kæranda frá 25. júní 2014 segir orðrétt:

Í ákvörðun stjórnar LÍN er þess getið að meginástæða fyrir synjun á lánum til náms á tískubraut sé skortur á upplýsingum, þ.e. engin gögn sýni að heimild ráðuneytisins fyrir námsbraut þessari séu til staðar. Kemur sú afstaða nokkuð á óvart. Í bréfi frá ráðuneytinu, sem fylgdi umfjöllun stjórnar LÍN, kemur skýrt fram að nám á tískubraut sé fjögurra anna nám. Keili er ætlað að nota fyrra árið til að þróa brautina frekar og skila tillögum um það í lok fyrra árs. Samkvæmt orðanna hljóðna (sic) og í samræmi við fundi okkar með ráðuneytisfólki var beinlínis gert ráð fyrir því að Keilir héldi áfram með námsbrautina enda liggur í augum uppi að enginn tilgangur væri að rækja tveggja ára námsbraut í eitt ár. Annað væri hreinlega út í hött.

Sjónarmið LÍN

Stjórn LÍN hafnar því að sérnám kæranda í fatahönnun á tískubraut sé lánshæft og vísar um það til greinar 1.2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Við ákvörðun sína kveðst stjórn LÍN hafa litið til þess að í fyrirliggjandi gögnum málsins komi fram að starfsgreinaráð hönnunar- og handverksgreina hafi gert athugasemdir við hæfniskröfur og hæfnisviðmið brautarinnar. Í kjölfarið á því hafi kærandi, í samráði við mennta- og menningamálaráðuneytið, breytt heiti brautarinnar úr fatatæknibraut í tískubraut. Miðað við þetta hefur að áliti LÍN ekki borist jákvæð umsögn frá starfgreinaráði um námsbrautina, eins og tilskilið er í grein 1.2.2 í úthlutunarreglum sjóðsins. Þá vísar LÍN til þess að heimild mennta- og menningamálaráðuneytisins fyrir námsbrautinni hafi einungis náð til tilraunakennslu og verið háð fyrirvörum og skilyrðum. Því hafi ekki verið fært að samþykkja námið við tískubraut lánshæft að svo komnu máli. Vegna fullyrðingar kæranda um að hann hafi fengið heimild ráðuneytis til tveggja ára til kennslu á tískubraut bendir LÍN á að engin gögn hafi borist sem staðfesti það. Tekur LÍN fram að kærandi hafi ekki óskað eftir endurupptöku málsins á grundvelli nýrra gagna. Samþykki ráðuneytisins sé aðeins eitt af þeim skilyrðum sem talin eru upp í grein 1.2.2 og vöntun þess hafi þó ekki verið eina forsendan fyrir synjun LÍN.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. gr., sbr. 1. gr., laga um framhaldsskóla fer mennta- og menningarmálaráðuneytið með yfirstjórn skólastarfs á framhaldsskólastigi og ber m.a. ábyrgð á aðalnámskrá og staðfestingu á námskrám og námsbrautarlýsingum skóla. Í 1. mgr. 12. gr. lagananna segir að ráðherra veiti framhaldsskólum, öðrum en þeim sem falla undir II. kafla laganna (opinberum framhaldsskólum), viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Sérnám er skilgreint þannig í úthlutunarreglum LÍN að það sé starfstengt nám sem ekki er kennt á háskólastigi. Nám á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs telst ekki til sérnáms, sbr. grein 1.2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Í 2. mgr. greinar 1.2.2 segir að til þess að sérnám teljist lánshæft þurfi það að vera samþykkt af menntamálaráðuneytinu og að hafa fengið jákvæða umsögn af viðkomandi starfsgreinaráði. Starfsgreinaráð eru skipuð á grundvelli 24. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008. Samkvæmt 25. gr. laganna er hlutverk starfsgreinaráða, hvers á sínu sviði, að vera ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi. Kærandi kveðst hafa fengið heimild mennta- og menningamálaráðuneytisins til tveggja ára til að hefja kennslu á tískubraut og vísar um það til bréfs ráðuneytisins frá 26. júní 2013 sem hefur efnisheitið „Umsókn um tilraunakennslu á tískubraut“. Samkvæmt orðanna hljóðan bréfsins og í samræmi við fund kæranda með starfsmönnum ráðuneytisins megi beinlínis gera ráð fyrir því að áliti kæranda að áfram verði haldið með námsbrautina. Bréfi ráðuneytisins er svar við umsókn kæranda frá 23. apríl 2013 um leyfi til tilraunakennslu í fatatækni. Þar er kæranda með skilyrðum veitt leyfi til tilraunakennslu og þróun námsbrautarinnar skólaárið 2013-2014 og að þeim tíma liðnum þurfi kærandi að sækja um áframhaldandi kennsluleyfi. Þá segir í bréfi ráðuneytisins að fyrir liggi umsögn starfsgreinaráðs hönnunar- og handverksgreina frá 10. júní 2013 þar sem bent sé á að hæfniskröfur lýsingar námsbrautarinnar falli ekki að hæfniskröfum starfa fatatæknis og að hæfnisviðmið brautarinnar beinist að öðrum námslokum en námslokum fatatækna. Því hafi kærandi í samráði við ráðuneytið endurnefnt brautina tískubraut í stað fatatæknibrautar. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2013-2014, sem sett er af stjórn LÍN með heimild í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er í grein 1.2 fjallað um lánshæfi náms á Íslandi. Um lánshæfi sérnáms er ákvæði í grein 1.1.2 þar sem m.a. segir:

Lánshæft sérnám á Íslandi er löggilt iðnnám og annað a.m.k. eins árs starfsnám á framhaldsskólastigi, samþykkt af menntamálaráðuneyti, sem fengið hefur jákvæða umsögn af viðkomandi starfsgreinaráði, og er ekki launað skv. kjarasamningi umfram grunnframfærslu á Íslandi, sbr. gr. 3.1.1 og 3.2.

Af framansögðu er ljóst að til þess að sérnám sé lánshæft hjá sjóðnum þarf námið að hafa hlotið samþykki menninga- og menntamálaráðuneytis að fenginni jákvæðri umsögn hlutaðeigandi starfsgreinaráðs. Það samþykki liggur ekki fyrir að áliti málskotsnefndar. Af margnefndu svarbréfi ráðuneytisins frá 26. júní 2013 er ljóst að verið er að vinna í þróun námsbrautarinnar og áfangalýsingum hennar. Fékk kærandi tímabundið leyfi menninga- og menntamálaráðuneytisins skólaárið 2013-2014 til tilraunakennslu og skyldi í lok tímabilsins skila skýrslu til ráðuneytisins um kennsluna og þróun brautarinnar. Að því loknu þyrfti kærandi að sækja um áframhaldandi kennsluleyfi að nýju og umsókn hans fylgja endurskoðuð áfanga- og námsbrautalýsing. Námið á tískubraut fellur því ekki undir það að teljast lánshæft nám þar sem aðeins liggur fyrir tímabundin heimild ráðuneytisins fyrir kennslu og með ýmsum skilyrðum m.a. um þróun hennar. Hlutverk stjórnar LÍN felst eingöngu í að kanna hvaða sérnám uppfylli skilyrði lánhæfis samkvæmt grein 1.2.2, þ.á m. að það hafi hlotið samþykki mennta- og menningamálaráðuneytisins að fenginni jákvæðri umsögn viðkomandi starfsgreinaráðs. Þar sem hvorki liggur fyrir samþykki ráðuneytisins, né jákvæð umsögn starfsgreinaráðs er nám kæranda á tískubraut ekki lánshæft að mati málskotnefndar. Ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. ágúst 2013 er að áliti málskotsnefndar í samræmi við úthlutunarreglur LÍN og er hún því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 28. ágúst 2013 í máli kæranda er staðfest.

Til baka