Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2014 - Ofgreidd lán - málinu vísað frá

Málsatvik og ágreiningsefni

Bókun um frávísun máls. Mál L-8/2014. Ár 2014, miðvikudaginn 13. ágúst, er tekið fyrir mál nr. L-8/2014. Kærandi sendi kæru til nefndarinnar með bréfi dagsettu 24. apríl 2014 þar sem þess var farið á leit að nefndin heimilaði skuldbreytingu á ofgreiðsluláni þannig að heimilað væri að dreifa greiðslum á lengri tíma. Einnig óskar kærandi eftir undanþágu þannig að samþykkt verði umsókn hennar um námslán á vorönn 2014 en í erindi hennar kom fram að henni hafi verið synjað um námslán sökum þess að hún hafi ekki innt af hendi endurgreiðslu ofgreiðslulánsins. Með bréfi 29. apríl sl. sendi málskotsnefnd stjórn LÍN kæruna til umsagnar. Í umsögn stjórnar LÍN sem barst með bréfi dagsettu 26. maí sl. kemur fram að kærandi hafi ekki borið mál sitt varðandi skuldbreytingu og útgáfu nýs skuldabréfs undir stjórn LÍN. Hefði kærandi upphaflega borið mál vegna undanþágu frá námsframvindu undir stjórn LÍN í janúar 2013. Benti stjórnin á að frestur til að kæra þá ákvörðun væri löngu runninn út. Segir einnig í athugasemdum stjórnar LÍN að útgáfa nýs skuldabréfs sé á verksviði lögmannsstofu þeirra og er farið með innheimtu lánsins í samráði við sjóðinn. Kærandi hefði hins vegar ekki borið fram beiðni um slíka afgreiðslu við stjórn sjóðsins. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugaemdir stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 30. maí sl. og var henni jafnframt bent sérstaklega á kæruheimildir stjórnsýslulaga. Kærandi hafði samband við nefndina símleiðis og staðfesti að henni væri kunnugt um þá kærufresti og kæruleiðir sem bent hafi verið á af hálfu stjórnar LÍN. Aðspurð kvaðst hún munu senda skriflegar athugasemdir. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Samkvæmt 2. mgr. 5.a. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er valdsvið málskotsnefndar takmarkað við að skera úr um hvort ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Kærufrestur á ákvörðunum stjórnvalda er þrír mánuðir frá því ákvörðun barst viðkomandi aðila og í undantekningartilvikum eitt ár. Kærufrestur vegna ákvörðunar stjórnar LÍN um námsframvindu kæranda var því liðinn þegar kærandi sendi kæru sína til málskotsnefndar rúmu ári síðar, þ.e. í lok apríl 2014. Lögum samkvæmt er málskotsnefnd eins og áður greinir einungis heimilt að fjalla um ákvarðanir stjórnar LÍN en ekki aðrar ákvarðanir starfsmanna sjóðsins eða lögfræðifyrirtækis sem fer með innheimtu sjóðsins. Óski námsmenn eftir úrskurði málskotsnefndar um tiltekin álitamál þurfa þeir fyrst að bera mál sitt undir stjórn LÍN, sbr. 5. a gr. laga nr. 21/1992 og fá formlega ákvörðun stjórnar. Kærandi hefur hins vegar ekki borið álitamál varðandi ofgreiðslulán og beiðni um undanþágu vegna vorannar 2014 undir stjórn sjóðsins og brestur málskotsnefndina því vald til að fjalla um það og er kærunni vísað frá nefndinni. 

Til baka