Úrskurður
Ár 2014, miðvikudaginn 3. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-5/2014:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 5. mars 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 6. febrúar 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán á vorönn 2014 vegna náms í Þýskalandi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. mars 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. apríl 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 4. maí 2014.
Málsatvik og ágreiningsefni
Hinn 10. júlí 2012 sendi kærandi fyrirspurn til LÍN um lánsrétt
sinn við sjóðinn. Í erindi sínu sagðist kærandi síðast hafa þegið námslán fyrir
10 árum og væri að velta fyrir sér diplómanámi og vildi vita um lánsrétt sinn
vegna þess. Kærandi fékk þau svör frá LÍN í tölvubréfi 24. sama mánaðar að hún
ætti ónýttar 60 ECTS einingar í grunnnám sem hún gæti fengið lánað fyrir. Einnig
ætti hún eftir 50 ECTS einingar sem kærandi gæti annað hvort nýtt í grunnnám eða
masternám. Loks ætti hún 180 ECTS einingar ónýttar til doktorsnáms. Hinn 15.
ágúst 2013, ári síðar, sótti kærandi til LÍN um námsaðstoð til diplómanáms í
Þýskalandi á haustönn 2013 og vorönn 2014, samtals 60 ECTS einingar. Hinn 26.
ágúst 2013 var kæranda sendur útreikningur LÍN á áætluðum námslánum vegna hausts
2013 samtals 7.460.000 kr., þar af var skólagjaldalán vegna haustannar 1.075.000
kr. og var það greitt út 6. september 2013. Sama dag sendi LÍN kæranda bréf þar
sem segir: Í greinum 2.3.1 og 2.3.2 í úthlutunarreglum sjóðsins 2013-2014
kemur fram hvað lánað er fyrir mörgum einingum í grunnnámi, meistaranámi og
doktorsnámi. Komið hefur í ljós að þú átt aðeins rétt á námslánum á hluta
námsársins þar sem þú hefur þá fullnýtt það svigrúm sem veitt er skv. þessum
reglum. Með tölvubréfi 23. september 2013 krafði kærandi LÍN skýringa á
framangreindu bréfi. Í tölvubréfi LÍN til kæranda 27. september 2013 segir að
hún eigi engan frekari rétt á lánum til grunnnáms og að námsáætlun fyrir haustið
2013 hafi fyrir mistök verið reiknuð út í tölvukerfi sjóðsins. Með tölvubréfinu
fylgdi yfirlit yfir svigrúm kæranda til náms þar sem fram kemur að kærandi hafi
fullnýtt lán vegna grunnnáms, en eigi ónýttar 10 einingar til meistaranáms og
180 einingar til doktorsnáms. Þessu tölvubréfi fylgdi LÍN eftir með bréfi til
kæranda þann 30. september 2013 þar sem segir að hún hafi fullnýtt sér allt
svigrúm sem veitt er samkvæmt greinum 2.3.1 og 2.3.2 í úthlutunarreglum sjóðsins
og eigi því ekki rétt á frekari lánum frá sjóðnum. Kærandi vísaði málinu til
stjórnar LÍN og krafðist þess að fá lán fyrir 60 ECTS einingum skólaárið
2013-2014. Á fundi stjórnar LÍN 17. október 2013 var fallist á, vegna rangrar
upplýsingagjafar sjóðsins við lánsumsókn kæranda og á grundvelli þeirrar
lánsáætlunar sem kærandi fékk í ágúst 2013, að kærandi fengi að halda því
skólagjaldaláni sem hún fékk fyrir haustönn 2013 og að hún fengi greitt
framfærslulán á sömu önn, svo fremi að hún uppfyllti kröfur um námsframvindu,
sbr. grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Beiðni kæranda um námslán á vormisseri
2014 var hins vegar synjað. Kærandi brást við synjum stjórnar LÍN með því að
senda henni þann 7. janúar 2014 beiðni um undanþágu fyrir námslánum á vorönn
2014. Stjórn LÍN hafnaði þeirri beiðni með ákvörðun 6. febrúar 2014 með vísan
til þess að hún hefði þegar tekið ákvörðun í málinu og að ekki væru fyrir hendi
nein þau atvik sem réttlættu endurupptöku málins samkvæmt 24. gr.
stjórnsýslulaga.
Sjónarmið kæranda
Kærandi vísar til þess
að þegar hún kannaði rétt sinn hjá LÍN vegna hins fyrirhugaða náms hafi hún
fengið rangar upplýsingar um lánsrétt sinn. Með þær upplýsingar LÍN í farteskinu
að hún ætti rétt til námslána í tvær annir hafi hún haldið til Þýskalands ásamt
fjölskyldu sinni í ágúst 2013. Börn hennar þrjú hafi verið innrituð í skóla og
leikskóla og eiginmaður kæranda hafi komist á reynslusamning um vinnu. Eftir að
hún hafi verið flutt með fjölskylduna til Þýsklands hafi komið upp hjá LÍN að
hún ætti engan lánsrétt eftir vegna grunnnáms. Þær upplýsingar hafi verið mikið
áfall og málið mjög alvarlegt því ákvörðun um nám og búferlaflutning til
Þýskalands og áætlanir um framfærslu hafi grundvallast á þeim upplýsingum um
lánsrétt sem hennar voru veittar. Það hafi ekki verið fyrr en í lok september
2013 sem LÍN hafi tilkynnt að hún hefði fullnýtt lánsrétt sinn, en þá var búið
að veita henni skólagjaldalán á haustönn. Hún hafi sótt um undanþágu til
námsláns á haustönn og fengið, en ákveðið að bíða með að sækja um undanþágu
vegna vorannar vegna væntinga um að tekjur eiginmanns myndu nægja til framfærslu
seinni hluta námsins. Það hafi ekki gengið eftir þar sem eiginmaður hennar hafi
ekki fengið framlengingu á vinnusamningi. Mikil óvissa hafi því skapast um
framfærslu fjölskyldunnar. Kærandi bendir á að hún hafi vegna námsins fengið
ársleyfi frá starfi sínu hér á landi. Henni hafi með fjarvinnu tekist að hafa
afla smá tekna, en þær engan veginn dugað til framfærslu fjölskyldunnar.
Möguleikar hennar á frekari vinnu með námi séu ekki fyrir hendi vegna barnanna,
sem aðeins séu í skóla hluta af degi. Þá bendir kærandi á að henni hafi ekki
verið hægt um vik að breyta áætlunum sínum þar sem hún hafi leigt út íbúð sína
hér á landi til 1. september 2014. Kærandi vísar loks til þess að orsök þessa
máls séu alfarið mistök LÍN, sem sett hafi allar fyrirætlanir hennar úr skorðum
og raskað högum fjölskyldunnar. Frá því að hún lauk námi fyrir 11 árum hafi hún
samviskulega greitt af námslánum sínum og hefði aldrei tekið fjölskylduna upp og
hafið nýtt nám nema af því að hún taldi sig hafa traustar og réttar upplýsingar
frá lánasjóðnum.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í athugasemdum
stjórnar LÍN er vísað til þess að ákvörðun stjórnar sjóðsins frá 17. október
2013 um að synja beiðni kæranda um námslán á vorönn 2014 hafi byggst á því að
samkvæmt reglum sjóðsins hafi kærandi ekki átt rétt á frekari námslánum. Kærandi
hafi í fyrra námi nýtt lánssvigrúm sitt til grunnnáms að fullu. Lánsáætlun fyrir
hausið 2013 hafi verið reiknuð út fyrir mistök í tölvukerfi sjóðsins. Vegna
þeirra mistaka hafi stjórn LÍN fallist á að kærandi héldi skólagjaldaláni og
fengi framfærslulán á haustönn 2013, eins og að framan er rakið. Erindi kæranda
frá 7. janúar 2014 um undanþágu vegna vorannar 2014 hafi verið synjað þar sem
stjórn LÍN hafi verið búin að taka ákvörðun í málinu og kærandi hafi ekki lagt
fram ný gögn eða upplýsingar sem sýndu fram á að niðurstaða stjórnarinnar hefði
byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum né að atvik hafi breyst verulega
frá því að LÍN fjallaði um málið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Tekur stjórn LÍN sérstaklega fram að atvinnustaða eiginmanns kæranda hafi ekki
verið forsenda í fyrri ákvörðun stjórnar og því hafi breyting á stöðu hans ekki
skipt máli við ákvörðun þegar málið var endurupptekið. Þá tekur stjórn LÍN
sérstaklega fram að þótt kærandi hafi í júlí 2012 fengið rangar upplýsingar um
fjölda eininga sem hún ætti lánsrétt fyrir gæti það ekki hafa skapað henni
réttmætar væntingar á vormisseri 2014. Telur stjórn LÍN að niðurstaða hennar í
máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við fyrri
úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.
Niðurstaða
LÍN er opinber lánastofnun og starfar á ábyrgð íslenska ríkisins. Um starfsemi sjóðsins gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á sjóðnum hvílir leiðbeiningaskylda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga en þar segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Geta fyrirheit stjórnvalda skapað réttmætar væntingar hjá þeim sem þau beinast að. Kærandi fékk þær upplýsingar frá LÍN í júlí 2012 að hún ætti ónýttar 60 ECTS einingar í grunnnám, sem hún gæti fengið lánað fyrir. Í ágúst 2013 sótti hún um lán til LÍN og fékk útgefna áætlun fyrir láni á haustönn samtals 7.460.000 kr., þar af var skólagjaldalán 1.075.000 kr. sem hún fékk greitt út 6. september 2013, eins og áður er rakið. Mál þetta beinist að þeirri ákvörðun LÍN að synja kæranda um lán á vorönn 2014, en með því dró LÍN til baka fyrri yfirlýsingu um lánsrétt kæranda. Heldur stjórn LÍN því fram að samkvæmt úthlutunarreglum LÍN hafi kærandi ekki átt rétt á frekari námslánum hjá sjóðnum til þess að stunda grunnnám og því geti ekki verið um frekari lán til hennar að ræða. Samt taldi sjóðurinn sér heimilt vegna mistaka við upplýsingagjöf til kæranda að veita henni lán til grunnnáms á haustönn 2013. Ekki kemur fram hjá LÍN á hvaða grundvelli sjóðurinn taldi sér það heimilt, en synjun á námsláni haustið 2013 hefði falið í sér afturköllun á fyrrgreindri ákvörðun um lánsáætlun kæranda á haustönn 2013. Þótt LÍN hafi ekki látið frá sér lánsáætlun vegna kæranda á vorönn 2014 skapaði sjóðurinn með kæranda, með hinum röngu upplýsingum um lánsrétt hennar í júlí 2012 og afgreiðslu sinni á lánsumsókn hennar haustið 2013, réttmætar væntingar til þess að tilteknar kringumstæður myndu ganga eftir. Mátti kærandi þannig treysta því að fá afgreidd námslán skólaárið 2013-2014. Í því sambandi verður einnig að líta til þess óhagræðis og tjóns sem önnur niðurstaða kynni að valda kæranda, sem tók upp fjölskyldu sína og flutti til útlanda í nám í trausti þeirra upplýsinga sem hún fékk frá LÍN. Í tilefni af athugasemdum stjórnar LÍN um skort á heimild til endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga vekur málskotnefnd athygli á að ekki er hægt að gagnálykta frá ákvæðinu um skyldu stjórnvalda til að taka mál upp að nýju. Stjórnvöldum kann að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna til að mynda þegar lagalegar forsendur ákvörðunar hafa breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Einnig kunna rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds að leiða til þess að því sé skylt að taka mál upp að nýju. Umboðsmaður Alþingis hefur einnig talið að sama eigi við um þau tilvik þegar fyrir liggur að ákvörðun hafi byggst á röngum lagagrundvelli eða verulegt misræmi er á milli úrlausna stjórnvalds í sambærilegum málum þannig að fari í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Eins og að ofan greinir telur málskotsnefnd að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá stjórn LÍN varðandi lán til kæranda á vorönn. Hefði það átt að vera stjórn LÍN tilefni til afturköllunar að eigin frumkvæði eða endurupptöku málsins að fram kominni beiðni kæranda. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að LÍN hafi borið að endurupptaka mál kæranda og veita henni lán á vorönn 2014. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.
Úrskurðarorð
Hinn kærða ákvörðun frá 6. febrúar 2014 í máli kæranda er felld úr gildi.