Úrskurður
Ár 2014, miðvikudaginn 3. september , kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-6/2014:
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 9. apríl 2014 kærði kærandi ákvörðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. janúar 2014 um að synja henni um námslán skólaárið 2013-2014. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi 15. apríl 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins þann sama dag. Stjórn LÍN sendi málskotsnefnd athugasemdir við kæruna með bréfi dagsettu 12. maí 2014 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 14. maí 2014, en þar var kæranda jafnframt gefinn fjögurra vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 24. júní 2014 og var afrit þeirra sent stjórn LÍN 27. júní 2014. Engin frekari gögn bárust í málinu.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi sem er íslenskur ríkisborgari en hefur verið búsett í
Svíþjóð sótti um námslán hjá LÍN vegna náms í Noregi haustið 2013. Þann 8.
nóvember 2013 sendi LÍN henni bréf þar sem henni var bent á að til þess að
fullnægja kröfum úthlutunarreglna LÍN, sbr. ákvæði 3. mgr. 3. gr. reglugerðar
nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna, þyrfti hún að uppfylla ákvæði um
búsetu á tilteknum tímabilum fyrir umsóknardag eða senda erindi til stjórnar LÍN
þar sem lagðar væru fram upplýsingar er sýndu fram á sterk tengsl við Ísland.
Meðfylgjandi bréfinu voru leiðbeiningar þar sem veittar voru nánari upplýsingar
um efni slíks erindis til stjórnar LÍN, æskileg fylgiskjöl og þau sjónarmið sem
stjórn sjóðsins byggir ákvarðanir sínar um tengsl umsækjenda við Ísland á. Þann
9. desember 2013 sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN þar sem hún gerði grein
fyrir tengslum sínum við Ísland og sendi jafnframt nánari upplýsingar um nám
sitt á Íslandi, fjölskyldutengsl, fyrri búsetu og störf og annað er hún taldi
sýna fram á sterk tengsl við Ísland. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með
ákvörðun þess efnis 13. janúar 2014. Sagði í ákvörðun stjórnarinnar að með vísan
til fyrirliggjandi gagna væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði sem
sett væru í úthlutunarreglum LÍN fyrir sterkum tengslum við Ísland þannig að
leggja mætti að jöfnu við búsetuskilyrði er fram kæmu í reglugerð um LÍN. Þann
7. febrúar 2014 fékk kærandi þó tölvupóst frá LÍN þar sem óskað var eftir að hún
legði fram endanlega tekjuáætlun vegna umsóknar um námslán. Síðar sama dag eftir
að kærandi hafði sent tölvupóst til LÍN var hún upplýst um að upphafleg ákvörðun
stjórn LÍN um að synja henni um lán stæði enn óbreytt.
Sjónarmið
kæranda
Kærandi bendir á að hún hafi verið búsett á Íslandi frá
fæðingu og fram til ársins 2002. Eftir þann tíma hafi hún verið búsett í
Svíþjóð, Noregi, Eþíópíu og einnig á Íslandi. Kveðst kærandi hafa verið við nám
á Íslandi haustið 2009 og fengið námslán hjá LÍN. Hafi hún flutt lögheimili sitt
til Svíþjóðar haustið 2012 og búið hjá afa sínum og ömmu er væru búsett þar til
haustins 2013 er hún hafi flutt til Noregs til að stunda þar nám. Hafði hún
talið sig eiga rétt á sænsku námsláni þar sem hún hafi átt lögheimili þar en svo
hafi ekki reynst vera. Kærandi telur sig uppfylla þau skilyrði um búsetu er fram
komi í leiðbeiningum frá LÍN. Bendir hún á að í leiðbeiningunum komi fram að
umsækjendur þurfi að hafa haft búsetu á Íslandi í fimm ár samfellt fyrir
umsóknardag, sbr. 1. tölulið í leiðbeiningunum, eða að hafa verið við launuð
störf síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, sbr. 2. tölulið í leiðbeiningunum.
Bendir kærandi á að með samanburði á liðum 1 og 2 megi sjá að ekki sé gerð krafa
um búsetu síðustu fimm árin fyrir umsóknardag heldur nægi að hafa haft búsetu í
fimm ár samfellt. Kærandi tekur fram að hún eigi hvorki rétt til námslána í
Svíþjóð né í Noregi. Meðfylgjandi kærunni og með viðbótarathugasemdum sendir
kærandi gögn um tengsl sín við Ísland, vinnu erlendis og annað er laut að umsókn
hennar um nám hennar í Noregi. Um er að ræða m.a. eftirfarandi gögn:
Staðfestingu á sjálfboðaliðastarfi í Eþíópíu á vegum Sambands íslenskra
kristniboða frá 18. ágúst 2008 til 3. júní 2009.
Staðfestingu á vinnu
á heilbrigðisstofnun á Íslandi sumarið 2008 og 2009.
Staðfestingu á
vinnu á veitingahúsi á Íslandi á árinu 2010.
Staðfestingu frá Háskóla
Íslands um að hún hafi lokið 24 ECTS einingum haustið 2010.
Staðfestingu á vinnu í fatahreinsun á Íslandi frá janúar til loka júlí 2011.
Staðfestingu á vinnu á heilbrigðisstofnun á Íslandi frá 24. september
2011 til 31. maí 2012.
Skattframtöl og álagningarseðil vegna tekna og
eigna á Íslandi árið 2008 til og með 2012.
Staðfestingu á vinnu
kæranda á heimili fyrir ungt fólk í Svíþjóð frá september 2012 til haustsins
2013.
Vottorð frá Þjóðskrá um búsetu foreldra hennar á Íslandi.
Afrit af leigusamningi um húsnæði á Íslandi frá árinu 2010.
Afrit af
niðurstöðu sænskra yfirvalda í máli kæranda þar sem henni er synjað um námslán
vegna náms í Noregi.
Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar hún til þess
að í túlkun stjórnar LÍN á skilyrðum úthlutunarreglna sé farið út fyrir orðalag
reglnanna. Orðið "síðustu" eða annað orð hliðstæðrar merkingar sé ekki að finna
í skilyrði í lið 1 í reglunum. Að mati kæranda er ástæða fyrir þessum mun á
skilyrðum í úthlutunarreglum LÍN. Telur kærandi að skýra beri vafa í orðalagi
sér í hag. Að mati kæranda fari túlkun stjórnar LÍN á svig við lög um LÍN sem sé
ætlað að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags. Kærandi vísar
jafnframt til þess að í leiðbeiningum LÍN komi fram að ekki sé hægt að telja upp
með tæmandi hætti þau atriði er stjórn sjóðsins líti til við mat á því hvort
skilyrði um tengsl séu uppfyllt. Segi þar ennfremur að hver umsókn sé skoðuð og
metin sérstaklega. Telur kærandi í þessu sambandi t.d. ómögulegt að segja til um
hvort hún verði búsett á Íslandi að námi loknu. Þá vísar kærandi til þess að í
leiðbeiningum komi fram að litið sé til heildaraðstæða námsmanna hverju sinni.
Telur kærandi matsaðferðir LÍN lítt gagnsæjar og fer þess á leit, verði
niðurstaða stjórnarinnar staðfest, að því fylgi ítarleg greinargerð um hvers
vegna kærandi sé ekki talin uppfylla skilyrði í greinum 1-3 í grein 1.1.1
úthlutunarreglunum. Þá bendir kærandi á að fram hafi komið af hálfu LÍN að
umboðsmaður hafi verið upplýstur um hvaða gögnum þyrfti að skila, sbr.
minnisblað LÍN frá 13. nóvember2013. Umboðsmaður kæranda telji sig hins vegar
ekki hafa verið nægjanlega upplýstan að þessu leyti. Að lokum bendir kærandi á
að það sé slæmt ef þannig sé búið um hnútana að eðlileg útþrá ungs fólks spilli
rétti þeirra til námsláns.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í
greinargerð stjórnar LÍN er í fyrsta lagi tekið fram að ljóst þyki að kærandi
uppfylli ekki skilyrði úthlutunarreglnanna um búsetu fyrir umsóknardag. Að mati
stjórnar LÍN er túlkun kæranda á orðalagi úthlutunarreglnanna ekki rétt. Myndi
það ekki samrýmast tilgangi reglunnar ef nóg þætti að umsækjandi hefði búið á
Íslandi um 5 ára skeið einhvern tíman á lífsleiðinni. Kærandi hefði ekki
uppfyllt kröfur um búsetu og hefði því stjórn sjóðins þurft að meta hvort hún
uppfyllti kröfu um nægjanlega sterk tengsl. Kærandi hafi átt lögheimili í
Svíþjóð þegar málið var lagt fyrir stjórn LÍN. Hefði hún verið búsett í Svíþjóð
á árunum 2002-2008 og síðan flutt aftur þangað frá Íslandi haustið 2012. Ein af
ástæðum þess að kærandi hafi ekki átt rétt til námsláns í Svíþjóð væri að hún
hefði verið flutt til Noregs til að stunda nám þar. Þá hafi hún ekki átt rétt
hjá norska lánasjóðnum þar sem hún hefði ekki verið þar við störf í 24 mánuði
eins og áskilið væri. Kærandi hefði ekki skattalega heimilisfesti á Íslandi né
hefði hún skuldbindingar hér á landi, s.s. vegna ráðningarsamnings, fasteignar
eða framfærslu. Hafi það verið heildarmat stjórnar sjóðsins að ekki væri um slík
tengsl að leggja mætti þau að jöfnu við að skilyrði 3. mgr. 3. gr. reglugerðar
um LÍN, sbr. grein 1.1.1. í úthlutunarreglum sjóðsins. Benti stjórn sjóðsins á
að um væri að ræða undanþágu sem ætti einungis við í sérstökum tilvikum.
Niðurstaða
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 er kveðið á um rétt
íslenskra ríkisborgara til námslána með eftirfarandi hætti: Rétt á námslánum
samkvæmt lögum þessum eiga námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar og uppfylla
skilyrði laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Í 5. mgr. 13.
gr. segir: Ráðherra getur sett reglur um rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara
til námslána á Íslandi og erlendis, þar á meðal vegna þjóðréttarlegra
skuldbindinga. Ákveða má að réttur til námslána, sem leiddur er af 1. og 2.
mgr., taki mið af tengslum við íslenskt samfélag eða vinnumarkað.
Þá
segir jafnframt í 4. mgr. 13. gr. að námsmenn eigi ekki rétt á námslánum
samkvæmt lögunum njóti þeir sambærilegrar aðstoðar frá öðru ríki. Í eldri lögum
um LÍN nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki var réttur til námslána bundinn við
íslenska ríkisborgara með heimild til að veita þegnum annarra ríkja einnig
aðstoð. Í upphafi var heimild í lögum nr. 21/1992 til að veita öllum íslenskum
ríkisborgurum námslán. Lögunum var síðan breytt á árinu 1997 þegar sett var
sérstök heimild í 13. gr. laganna til að kveða á um lánsrétt EES borgara í
frjálsri för. Jafnframt var lánsréttur íslenskra ríkisborgar þá takmarkaður við
að viðkomandi hefði átt lögheimili á Íslandi í eitt ár áður en nám hófst.
Íslenskur ríkisborgari hélt þó að jafnaði lánsrétti sínum í tvö ár eftir að hann
flutti lögheimili sitt til annars lands. Segir í athugasemdum með frumvarpinu að
þetta sé í samræmi við þáverandi framkvæmd hjá sjóðinum. Lögunum var aftur
breytt á árinu 2004 þegar kveðið var á um að lánsréttur íslenskra ríkisborgara
takmarkaðist við þá sem hefðu haft hér fasta búsetu í tvö ár áður en að nám
hófst eða í a.m.k. þrjú ár af tíu fyrir upphaf þess tímabils sem sótt var um
námslán vegna. Sagði í athugasemdum með frumvarpinu að ekki væri lengur þörf á
að kveða á um að íslenskir ríkisborgarar héldu rétti sínum í tvö ár eftir
flutning lögheimilis þar sem slíkt væri ekki nauðsynlegt í ljósi þeirra
breytinga sem gerðar höfðu verið á lögunum. Lögum um LÍN var síðan aftur breytt
á árinu 2008 m.a. varðandi skilyði þau sem íslenskir ríkisborgarar þurfa að
uppfylla til að njóta lánsréttar hjá LÍN. Í athugasemdum við lagafrumvarpið kom
fram að ekki yrði áskilið í lögunum að íslenskir ríkisborgarar þyrftu að
uppfylla tiltekin skilyrði um búsetu á Íslandi til að öðlast rétt til námslána
en í lokamálsgrein 13. gr. væri ráðherra með reglum heimilað að ákveða "að rétt
íslenskra ríkisborgara til námslána megi takmarka með því að líta til tengsla
þeirra við íslenskt samfélag eða vinnumarkað". Segir ennfremur að með tengslum
við íslenskt samfélag "er m.a. átt við búsetu hér á landi". Segir í nefndaráliti
við þingmeðferð frumvarpsins að nefndin hafi kynnt sér reglur er gildi um þessi
mál á Norðurlöndum og væri þar að finna sambærilega leið og farin sé í
frumvarpinu, þ.e. að sett væru opin ákvæði og ráðherra gefin heimild til frekari
reglusetningar. Skilyrði 13. gr. laga um LÍN um tengsl umsækjanda við íslenskt
samfélag eða vinnumarkað til að eiga rétt á námsláni eru útfærð nánar í 1.-3.
mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN þar sem gerðar eru tilteknar búsetukröfur til
íslenskra ríkisborgara, en eins og áður greinir er búseta á Íslandi talin gefa
til kynna tengsl við íslenskt samfélag. Segir eftirfarandi í 3. gr.
reglugerðarinnar:
Námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar eiga rétt
á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að uppfylltum
eftirtöldum skilyrðum:
1. Umsækjandi um námslán hafi verið við launuð
störf hér á landi: a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta og haft
samfellda búsetu hér á landi á sama tíma eða b. í skemmri tíma en 12 mánuði og
haft búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili. Með
launuðu starfi er átt við að umsækjandi hafi á grundvelli gilds atvinnuleyfis
annað hvort haft reglulegt launað starf í vinnuréttarsambandi eða starf sem
sjálfstæður atvinnu¬rekandi. Með starfi er ennfremur átt við starf sem er 30
vinnustundir á viku, að lágmarki. Starfsþjálfun á launum og sambærileg
námstímabil á launum jafngilda ekki launuðu starfi. Skilyrði er að
atvinnurekandinn sé skráður hjá fyrirtækjaskrá og skattyfirvöldum sem
skila-skyldur greiðandi staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna. Áskilið er að
sjálfstætt starf¬andi umsækjendur námsaðstoðar séu skráðir greiðendur
virðisaukaskatts eða staðgreiðslu skatta.
2. Umsækjandi, sem ekki
starfar sem launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi, hafi haft fimm ára
samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag þegar búseta hefur hafist í öðru
augna¬miði en að stunda nám hér á landi.
3. Hafi launað starf skv. 1.
tölul. 1. mgr. ekki verið samfellt eða því hefur ekki verið gegnt fram að
upphafi náms, á umsækjandi þó rétt til námsláns ef umrædd tímabil hafa: a. varað
að hámarki 3 mánuði samanlagt, b. tímabil án atvinnu hafa verið skráð á
atvinnuleysisskrá, c. tímabil allt að 6 mánuðum hafa verið nýtt til starfsnáms,
tungumálanáms eða sambæri¬legrar menntunar eða d. um veikindatímabil er að ræða.
Jafngild launuðu starfi skv. 1. tölul. 1. mgr. eru tímabil sem umsækjandi hefur
annast barn í allt að eitt ár eftir fæðingu eða ættleiðingu samkvæmt þeim reglum
sem gilda á vinnumarkaði. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna er heimilt í
sérstökum tilvikum að leggja serk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að
uppfyllt séu skilyrði lánveitingar samkvæmt 1. mgr.
Samkvæmt
framansögðu er í 3. gr. reglugerðarinnar sett mismunandi búsetuskilyrði eftir
því hvort umsækjandi er þátttakandi á vinnumarkaði eða ekki. Áskilið er að
þátttakendur á vinnumarkaði hafi verið við vinnu hér á landi a.m.k. síðustu 12
mánuði og búið hér á landi á meðan. Hafi slíkur umsækjandi unnið styttri tíma en
12 mánuði þarf hann að hafa búið hér á landi í a.m.k. tvö ár af fimm áður en
hann sækir um lán. Aðrir, þ.e. umsækjendur sem ekki eru á vinnumarkaði, þurfa að
hafa verið búsettir hérlendis í 5 ár samfellt fyrir umsóknardag og mega ekki
hafa flutt hingað til lands til að stunda hér nám. Framangreind ákvæði eru
endurspegluð í grein 1.1.1. í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014 en þar segir að
umsækjendur þurfi m.a. að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
1.
Umsækjandi hafi haft 5 ára samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag.
2. Umsækjandi hafi verið við launuð störf hér á landi síðustu 12 mánuði
fyrir umsóknardag og haft samfellda búsetu á Íslandi á sama tíma.
3.
Umsækjandi hafi starfað hér á landi í skemmri tíma en 12 mánuði fyrir
umsóknardag og haft búsetu á Íslandi í 2 ár samanlagt á samfelldu 5 ára
tímabili.
Í leiðbeiningum þeim sem kærandi fékk sendar frá LÍN koma
ofangreind skilyrði úthlutunarreglnanna fram.
Túlkun úthlutunarreglna
LÍN.
Málskotsnefnd getur ekki fallist á þær röksemdir kæranda að það
nægi samkvæmt úthlutunarreglunum að umsækjandi hafi búið hér á landi á 5 ára
samfelldu tímabili og að ekki sé gerð krafa um að það sé fram að þeim degi er
sótt er um lán. Í grein 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 3. gr. reglugerðar um
LÍN, er gerð er krafa um "5 ára samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag" og að mati nefndarinnar verður að skilja það sem svo að átt sé við samfelldan
tíma fram til umsóknardags. Fær þessi túlkun einnig stoð í 3. tl. 1. mgr. 3. gr.
reglugerðarinnar þar sem fram kemur að skýra beri liði a. og b í 1. tl., 1. mgr.
3. gr. reglugerðarinnar (sem samsvara liðum 2 og 3 í leiðbeiningum LÍN) þannig
að átt sé við "síðustu" 12 mánuði þrátt fyrir að aðeins sé notað
orðalagið "síðustu" í lið 2. Um mat á tengslum kæranda við Ísland. Er kærandi
sótti um námslán hjá LÍN hafði hún verið búsett í Svíþjóð í rúmt ár við störf og
síðan flutt til Noregs vegna fyrirhugaðs náms. Er því lánsréttur kæranda
samkvæmt lögum og reglum um LÍN bundinn við að hún sýndi fram á sterk tengsl við
íslenskt samfélag eða vinnumarkað. Í leiðbeiningum LÍN segir að hver umsókn sé
metin sérstaklega. Litið sé m.a. til eftirfarandi þátta:
- hvort
umsækjandi hyggist flytja til Íslands til að stunda hér nám.
- hvort
aðstæður umsækjanda bendi til þess að hann muni hafa búsetu hér á landi að námi
loknu.
- hvort umsækjandi hafi sökum ákvæða laga og reglugerða þurft að
flytja lögheimili sitt þrátt fyrir að um tímabundna dvöl hafi verið að ræða,
t.d. vegna náms.
- að hve miklu leyti tengsl umsækjanda hafi rofnað og
þá sérstaklega hvernig hagað sé skattskilum umsækjanda og búsetu maka,
einstaklinga á framfæri umsækjanda og/eða einstaklinga sem umsækjandi er á
framfæri hjá.
- skuldbindingar umsækjanda og maka hans, s.s.
ráðningarsamninga, húsnæðislán, lengri leigusamninga um íbúðarhúsnæði,
framfærsluskyldum vegna barna o.þ.h. sem gefi vísbendingu um tengsl umsækjanda
við Ísland eða eftir atvikum við annað land.
- réttur umsækjanda til
námslána frá stjórnvöldum annars lands en Íslands. Í hinni kærðu ákvörðun
stjórnar LÍN er vísað til viðeigandi ákvæða úthlutunarreglna LÍN og reglugerðar
um LÍN. Síðan segir:
"Með vísan til fyrirliggjandi gagna er ljóst að
þú uppfyllir ekki framangreind skilyrði um búsetu á Íslandi fyrir umsóknardag.
Þá er það mat stjórnar að þú hafir ekki sýnt fram á sterk tengsl við Ísland sem
leggja megi að jöfnu við framangreind búsetuskilyrði. Synjar stjórn LÍN því
erindi þínu um námslán vegna náms í Noregi skólaárið 2013-2014." Réttur til
námslána er félagsleg réttindi og eru slík réttindi almennt bundin við búsetu og
bundin takmörkunum hvort eða að hve miklu leyti ríkisborgarar eða aðrir geti
notið þeirra þrátt fyrir að vera ekki búsettir í viðkomandi ríki. Í lögum og
reglugerð um LÍN er gert ráð fyrir því að umsækjendur þurfi að sýna fram á
sérstök tengsl við Ísland er felist m.a. í búsetu. Í leiðbeiningum LÍN er tekið
fram eins og áður greinir að hver umsókn sé metin sérstaklega og að við mat á
tengslum sé litið til fjölmargra atriða sem talin eru upp í leiðbeiningunum, sem
þar að auki séu ekki tæmandi talin. Málskotsnefnd bendir þó á að í niðurstöðu
stjórnar LÍN er ekki að finna neinn rökstuðning er lýtur að því hvaða atriði
voru talin ráða úrslitum um að kærandi taldist ekki hafa sýnt fram á sterk
tengsl við íslenskt samfélag eða vinnumarkað. Að mati nefndarinnar uppfyllir
ákvörðun stjórnar LÍN ekki þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings
stjórnvaldsákvörðunar í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum
stjórnar LÍN vegna kæru koma þó fram þau atriði er stjórnin telur að hafi skipt
máli. Þar vísar stjórn LÍN til þess í fyrsta lagi að kærandi hafi er umsókn um
námslán var lögð fram verið með skráð lögheimili í Svíþjóð en stundað nám í
Noregi. Ætti hún lánsrétt í hvorugu ríki, þ.e. ekki í Svíþjóð vegna þess að hún
hafi farið til náms í Noregi og ekki í Noregi þar sem hún hafi ekki verið þar í
24 mánuði. Einnig vísar sjóðurinn til búsetutímabila kæranda í Svíþjóð, þ.e.
2002-2008 og 2012-2013 og að hún hafi þá búið hjá afa sínum og ömmu. Þá er vísað
til þess að kærandi hafi ekki haft skattalega heimilisfesti á Íslandi og hafi
ekki skuldbindingar á Íslandi, s.s. vegna ráðningarsamnings, fasteignar eða
framfærslu. Að mati málskotsnefndar er framangreindur rökstuðningur stjórnar LÍN
ekki fullnægjandi. M.a. tilgreinir stjórn LÍN atriði sem beinlínis eru til þess
fallin að sýna fram á að kærandi hafi hvorki myndað tengsl við samfélag eða
vinnumarkað í öðru ríki. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi á ekki lánsrétt
í Noregi þar sem hún er ekki talin hafa nægjanleg tengsl þar fyrr en eftir 24
mánaða vinnu. Þá vísar stjórn LÍN til þess að kærandi eigi ekki rétt í Svíþjóð "af því að hún var ekki með búsetu þar í landi." Málskotsnefnd telur rétt að
benda á í þessu sambandi að fram kemur í bréfi sænskra yfirvalda að kærandi átti
einungis takmarkaðan rétt til námslána í Svíþjóð, þ.e. á grundvelli þess að hún
var EES launþegi í frjálsri för. Hafði hún sem slíkur launþegi á grundvelli
jafnræðisreglna sama rétt og sænskir ríkisborgarar til aðstoðar vegna náms
meðfram starfi í Svíþjóð eða í tilteknum tilvikum, s.s atvinnuleysi eða vegna
náms er tengist starfi. Er hún hætti störfum á sænskum vinnumarkaði féll þessi
vinnutengdi réttur niður hvort sem það var vegna náms í Svíþjóð eða Noregi. Í
athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til þess að metnar séu heildaraðstæður
umsækjenda hverju sinni. Málskotsnefnd telur að í því felist að skoða þurfi m.a.
lengd búsetutímabila hér á landi og hve langt er um liðið frá því umsækjandi
flutti brott af landinu. Um er að ræða einstaklingsbundið mat og í því sambandi
getur t.d. verið rétt að líta til þess að þegar ungt fólk á í hlut er þess
almennt ekki að vænta að það hafi miklar skuldbindingar hér á landi, s.s. vegna
húsnæðis eða annars. Þó svo að slíkar skuldbindingar verði taldar til marks um
sérstök tengsl þá verði skortur á slíkum skuldbindingum einn og sér ekki talinn
til marks um að umsækjanda skorti tengsl við íslenskt samfélag. Eins og áður er
rakið telur málskotsnefnd að ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda hafi ekki
fullnægt þeim kröfum er gerðar eru til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana, sbr.
22. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur málskotsnefnd að sá rökstuðningur sem settur
er fram í athugasemdum stjórnar LÍN í máli kæranda feli ekki í sér fullnægjandi
einstaklingsbundið mat á högum kæranda. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða
málskotsnefndar að fella beri úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN frá 13. janúar 2014
og leggja fyrir stjórn LÍN að taka mál kæranda fyrir að nýju.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 13. janúar 2014 í máli kæranda er felld úr gildi.