Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2014 - Ábyrgðarmenn - beiðni um að ábyrgð á lánum verði felld niður

Úrskurður

 

Ár 2014, miðvikudaginn 17. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-7/2014:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 15. apríl 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 10. janúar 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að ábyrgð hennar á námslánum A yrði felld niður. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. apríl 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 19. maí 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Þá fór málskotsnefnd þess ennfremur á leit við kæranda með bréfi dagsettu 19. júní 2014 að hún sendi frekari upplýsingar í málinu. Kærandi sendi nefndinni athugasemdir og upplýsingar með bréfi dagsettu 26. júní 2014. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá LÍN og bárust þau með bréfi dagsettu 3. júlí 2014 og var afrit þess sent kæranda. Kæranda var veittur frestur til að koma athugasemdum sem hún gerði í bréfi dagsettu 17. júlí 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Í júlí 2005 gekkst A í ábyrgð fyrir námsláni B hjá LÍN. Um er að ræða G-lán sem er yfirfærslulán vegna R-láns og var staða lánsins 1. mars 2005 kr. 2.448.328. A lést í ágúst 2011 og erfingi hennar, kærandi, fékk í framhaldi leyfi til einkaskipta hjá sýslumanninum í Reykjavík. Fjárhæð arfshluta kæranda var kr. 16.596.840 og greiddi hún kr. 1.509.684 í erfðafjárskatt vegna arfsins. Umboðsmaður kæranda vegna einkaskiptanna og svo vegna þessarar kæru er bróðir hennar. Í kærunni segir hann svo frá að hann hafi komið í afgreiðslu LÍN og óskað eftir yfirlýsingu frá LÍN um að A væri ekki í neinum skuldbindingum við LÍN umfram sín eigin lán. Hafi hann fengið skjal frá LÍN sem merkt var „LÍN yfirlit – greiðslustaða, eftirstöðvar lána, ábyrgðir, greiðsludreifing, kortaafborgun, áramótastaða.“ Í kjölfarið hafi hann óskað eftir leyfi til einkaskipta fyrir hönd kæranda og var skiptum lokið á árinu 2011. Segir kærandi að síðar hafi komið í ljós að skjalið frá LÍN hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar. Um mitt ár 2012 varð kæranda ljós ábyrgðarskuldbinding hinnar látnu á námsláni hjá LÍN. Í bréfi innheimtulögmanna LÍN, dagsett 12. nóvember 2013, var kæranda tilkynnt um vanskil á gjalddaga 1. mars 2012 á námsláni nr. G-xxx og að fjárhæð kröfunnar væri samtals kr. 176.532 með dráttarvöxtum og kostnaði. Þá var upplýst að ógjaldfelldar eftirstöðvar lánsins væru kr. 4.312.575. Í bréfinu kemur fram að þar sem skiptum á dánarbúi ábyrgðarmannsins hafi lokið með einkaskiptum hafi kærandi sem erfingi tekist á hendur ábyrgð á skuldbindingum búsins og að krafa vegna umræddra ábyrgðarskuldbindinga muni framvegis beinast að kæranda auk aðalskuldara. Kærandi kveðst hafa mótmælt því strax á árinu 2012 að gengið væri að sér vegna ábyrgðarinnar. Sendi kærandi síðan erindi til stjórnar LÍN dagsett 18. nóvember 2013 þar sem gerð var krafa um að ábyrgð hennar yrði felld niður. Stjórn LÍN tók málið fyrir á fundi sínum 10. janúar 2013 og hafnaði erindi kæranda með vísan til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. og til þess að LÍN hefði enga heimild samkvæmt lögum til að fella niður ábyrgðir nema önnur trygging komi í staðinn sem LÍN telur fullnægjandi. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann15. apríl 2014. Við málsmeðferð málsins hefur málskotsnefndin óskað eftir gögnum og upplýsingum bæði frá LÍN og kæranda. Nefndin óskaði eftir afritum af erfðafjárskýrslu og skattskýrslum frá kæranda. Frá stjórn LÍN óskaði nefndin eftir afriti af umræddu skuldabréfi, upplýsingum um hvort að A hafi gengist í ábyrgð á fleiri námslánum en tilgreind eru í málinu og upplýsingar um tilkynningar LÍN til ábyrgðarmannsins í samræmi við d. lið 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Í svarbréfi stjórnar LÍN var upplýst að A væri ekki ábyrgðarmaður á öðrum námslánum. Þá var upplýst að LÍN hafi hafið sendingar í samræmi við d. lið 7. mgr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 árið 2011. Fyrsta tilkynning til ábyrgðarmanna námslána var send um áramótin 2011-2012 en þar sem A hafi látist á árinu 2011 hafði hún ekki fengið slíka tilkynningu fyrir andlát sitt. Þá kemur eftirfarandi fram í svarbréfi LÍN: "Við setningu nýrra laga er stofnunum almennt veitt eðlilegt svigrúm til þess að laga vinnureglur og aðferðir sínar að þeim. Þrátt fyrir að liðið hafi tvenn áramót frá setningu laganna þar til farið var að senda tilkynningar í samræmi við 7. gr. laga um ábyrgðarmenn þykir augljóst að ekki sé um verulega vanrækslu að ræða en til þess þyrfti eitthvað meira að koma til." Þá hefur LÍN upplýst að staða ábyrgðarskuldbindingarinnar er nú kr. 4.286.872 og að lánið er í skilum.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hún hafi verið eini erfingi A samkvæmt erfðaskrá þar um og að A hafi fyrir dauða sinn upplýst kæranda um að hún væri ekki í ábyrgðum fyrir neinum skuldbindingum nema eigin skuldum. Þá bendir kærandi á að við dánarbúskiptin hafi fulltrúi Sýslumannsins í Reykjavík leiðbeint henni varðandi það að ganga úr skugga um að upplýsingar þær sem hún hefði um skuldbindingar A væru réttar og hafi kærandi því aflað upplýsinga frá lánastofnunum um skuldbindingarnar. Hjá LÍN hafi kæranda verið afhent skjal af starfsmanni sjóðsins sem á stóð, "LÍN yfirlit- greiðslustaða, eftirstöðvar lána, ábyrgðir, greiðsludreifing, kortaafborgun, áramótastaða". Þar komi engar upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar en upplýst að skuld A sjálfrar við LÍN hafi verið felld niður. Þessu skjali hafi kærandi skilað til skiptaráðanda á sínum tíma og afriti af því hafi verið skilað til stjórnar LÍN áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Kærandi bendir á að hún hefði aldrei sótt um einkaskipti á dánarbúi A hefði hún haft vitneskju um ábyrgðarskuldbindinguna. Hún hefði þá byrjað á því að óska eftir því að dánarbúið yrði losað undan þeirri ábyrgð áður en hún hefði tekið við dánarbúinu. Bendir kærandi á að hún hafi greitt erfðafjárskatt af mótteknum arfi eins og hún hafi tekið við dánarbúinu án þessarar kvaðar sem hún hefði að öðrum kosti ekki gert. Kærandi byggir á því að þegar hún hafi tekið við dánarbúi A hafi það verið gert með réttum og lögmætum hætti og án þess að kvöð vegna námslána B fylgdi því og að sótt hafi verið um leyfi til einkaskipta á dánarbúinu í góðri trú um að á því hvíldu engar kvaðir og því lokið í samræmi við það. Þá bendir kærandi á að LÍN hafi vanrækt í tvö ár eftir gildistöku laga um ábyrgðarmenn að upplýsa um umrædda ábyrgðarskuldbindingu A á námslánum hjá LÍN. Fyrir bragðið var útilokað fyrir kæranda að vita um þessa ábyrgð þegar gengið var frá búskiptum eftir A. Kærandi telur að LÍN verði að axla ábyrgð á eigin mistökum og að sjóðurinn verði sjálfur að taka ábyrgð á verklagi sínu og vanda sig betur í framtíðinni.

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN byggir á því að yfirlýsing sú sem kærandi vísi til í málinu sé einungis yfirlit um eftirstöðvar lána A við LÍN og að í því felist ekki yfirlýsing um að engar skuldbindingar hafi hvílt á A gagnvart LÍN. Á afrit yfirlitsins hafi kærandi strikað undir orðið ábyrgðir og að ekkert sé skráð í tölvukerfi sjóðsins um beiðni kæranda um yfirlit yfir skuldbindingar hinnar látnu. Um sé að ræða útprentun af starfsmannavef LÍN um yfirlit yfir eftirstöðvar lána A en ekki yfirlit yfir ábyrgðir hennar. Inn í kerfinu geti starfsmaður valið hvort hann sjái skjámyndina greiðslustaða, eftirstöðvar lána, ábyrgðir, greiðsludreifing, kortaafborgun eða áramótastaða með því að ýta á viðeigandi hnappa. Eins og sjáist á neðstu línu yfirlitsins sýni sú skjámynd sem kæranda hafi verið afhent „eftirstöðvar lána“. LÍN telur að ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að yfirlitið sem henni hafi verið afhent sé yfirlýsing frá LÍN um að engar skuldbindingar hafi hvílt á hinni látnu gagnvart LÍN. Þá byggir LÍN á því að í 5. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. komi fram að eitt af skilyrðum þess að fá leyfi til einkaskipta sé að erfingjar taki að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiði af skiptunum eða arftöku. Í 97. gr. sömu laga segi svo að eftir að einkaskiptum sé lokið beri erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim hafi verið kunnugt um þær áður en skiptum hafi verið lokið. Því skipti ekki máli hvort að kærandi hafi vitað af ábyrgðarskuldbindingunni eða ekki við skiptalok búsins þar sem hún beri ábyrgð á öllum skuldbindingum búsins. Einnig byggir LÍN því að sjóðurinn hafi enga heimild samkvæmt lögum til að fella niður ábyrgðir. Ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður ef önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telji fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992.

Niðurstaða

Við andlát A varð til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tók við réttindum og skyldum hinnar látnu. Fyrir liggur að erfingi hinnar látnu, kærandi þessa máls, fékk leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og að skiptum þess var lokið á grundvelli þess leyfis á árinu 2011. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er eitt skilyrða þess að sýslumaður veiti erfingjum leyfi til einkaskipta að erfingjar taki að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku. Í 97. gr. sömu laga segir svo að eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1991 kemur fram að eitt af skilyrðunum fyrir veitingu leyfis til einkaskipta sé að erfingjar lýsi yfir að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð in solidum á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu án fyrirvara um það eða tillits til þess hvort þeim sé kunnugt um tilvist skuldbindinganna. Þá kemur fram í athugasemdunum að til þess að taka af öll tvímæli um að þessi ábyrgð standi ekki aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra sé kveðið á um þessa ábyrgð í 97. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ljóst að kærandi hefur með því að fá leyfi til einkaskipta á dánarbúi A tekist á hendur ábyrgð á öllum skuldbindingum sem kunni að hvíla á dánarbúinu. Kærandi hefur farið þess á leit að sjálfskuldarábyrgð hinnar látnu við LÍN verði felld niður. Kærandi hefur sérstaklega vísað til þess að LÍN hafi ekki gefið kæranda réttar upplýsingar um skuldbindingar hinnar látnu við sjóðinn þegar eftir því var leitað og að LÍN hafi vanrækt tilkynningarskyldu sína samkvæmt d. lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Kærandi telur að hefðu þessar upplýsingar legið fyrir hefði hún ekki sótt um leyfi til einkaskipta heldur leyst úr málinu með öðrum hætti. LÍN segist ekki geta orðið við kröfum kæranda með vísan til skorts á lagaheimild. Málsskotsnefnd fellst á það með LÍN að án viðhlítandi lagaheimildar sé ekki unnt að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu á sjálfskuldarábyrgð hennar á umræddu námsláni nema önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi sbr. grein 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN og 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Breyting sem gerð var á lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna með lögum nr. 79/2009, þar sem felld er niður krafa um ábyrgðir ábyrgðarmanna, ef lántaki er lánshæfur samkvæmt reglum sjóðsins, breytir ekki stöðu eldri lántaka og ábyrgðarmanna þeirra þar sem breytingalögin eru ekki afturvirk. Situr því kærandi við sama borð og aðrir lántakendur og ábyrgðarmenn þeirra sem fengu lán fyrir gildistöku breytingarlaganna nr. 79/2009. Þá er næst að skoða áhrif yfirlitsins, sem kærandi aflaði um skuldbindingar hinnar látnu við LÍN, á málið. Í þessu máli greinir aðila á um hvort kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um heildarskuldbindingar eða einungis skuldastöðu hinnar látnu. Ljóst er að þegar aðstandendur sem eru að huga að skiptum á dánarbúi hafa samband við LÍN er sökum hagsmuna þeirra ófullnægjandi að veita eingöngu upplýsingar um skuldastöðu. Að mati málskotsnefndar hefði LÍN borið í samræmi við leiðbeiningarskyldu sína, og óháð því hvort einungis var óskað upplýsinga um skuldastöðu, að veita upplýsingar um allar skuldbindingar hinnar látnu gagnvart LÍN. Ljóst er að umrætt yfirlit gefur ekki upp heildarskuldbindingu hinnar látnu við LÍN eins og það hefði átt að gera þegar óskað upplýsinga um látinn einstakling hjá opinberum lánasjóði. Það að yfirlitið bar ekki með sér fullnægjandi upplýsingar um skuldbindingar A við LÍN er á ábyrgð sjóðsins enda ber afritið þess augljós merki að stafa frá starfsmanni hans. Fyrir liggja í málinu upplýsingar um fjárhagsstöðu dánarbúsins sem gefa til kynna að eignir búsins séu allnokkuð umfram þær skuldir sem á því hvíla að með talinni umræddri ábyrgðarskuldbindingu. Þrátt fyrir ófullnægjandi vinnubrögð LÍN getur málskotsnefnd því sökum þessarar góðu fjárhagstöðu búsins ekki fallist á það með kæranda að upplýsingar um umrædda ábyrgðarskuldbindingu hefðu skipt sköpum varðandi það hvort hún hefði sótt um leyfi til einkaskipta eða ekki. Eins og áður segir eru ekki heimildir í lögum til að fella niður slíkar ábyrgðarskuldbindingar og færast þær yfir á erfingja ábyrgðarmanns. Hinn kosturinn fyrir kæranda á þessum tíma hefði verið að óska eftir opinberum skiptum með tilheyrandi kostnaði fyrir dánarbúið. Hefði þá umrædd ábyrgð komið til kasta dánarbúsins og eftir atvikum greiðst af eignum þess enda engin heimild í lögum til að fella ábyrgðina niður. Þá liggur fyrir að námslánið er í dag í skilum og alls ekki útilokað að aðalskuldari fallist á að leita eftir öðrum ábyrgðarmanni í ljósi stöðunnar. Einnig er ljóst að komi til þess að vanskil verði aftur á láninu þá getur ábyrgðarmaður gengið í málið á frumstigi innheimtunnar og nýtt þau úrræði sem aðalskuldari hefur samkvæmt reglum LÍN m.a. um undanþágu frá afborgun námslána vegna verulegra fjárhagsörðugleika. Kærandi hefur einnig bent á að LÍN hafi vanrækt í tvö ár eftir gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að senda yfirlit til ábyrgðarmanns um áramót þar sem upplýst er um stöðu láns og ábyrgðir hans hjá LÍN. Fyrir bragðið hafi verið útilokað fyrir kæranda að vita um þessa ábyrgð þegar gengið var frá búskiptunum. LÍN hefur upplýst að sjóðurinn hafi byrjað að senda út tilkynningar í samræmi við fyrirmæli d. liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn um áramótin 2011-2012. Hefur sjóðurinn gefið þá skýringu á töfinni, að "við setningu nýrra laga sé stofnunum almennt veitt eðlilegt svigrúm til að laga vinnureglur og aðferðir sínar að lögunum". Umrædd lög tóku gildi í apríl 2009 og er ekki gert ráð fyrir neinum aðlögunartíma. LÍN bar því eins og öðrum fjármálafyrirtækjum að senda út tilkynningu samkvæmt framangreindu ákvæði til ábyrgðarmanna strax um áramótin 2009/2010. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. fyrrgreindra laga skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Þrátt fyrir framangreinda vanrækslu af hálfu LÍN er það mat málskotsnefndar að hún teljist ekki veruleg í ljósi atvika í þessu máli þar sem sökum góðrar fjárhagsstöðu búsins verður ekki séð að tilkynning samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn eða réttar upplýsingar frá LÍN hefðu valdið því að kærandi hefði ákveðið að taka ekki yfir eignir og skuldir dánarbúsins. Af þeim sökum liggur ekki fyrir í málinu að mati nefndarinnar að kærandi hafi orðið fyrir tjóni vegna fyrrgreindrar vanrækslu á tilkynningu samkvæmt d. lið 1. mgr. 7. gr. Með vísan til framangreinds er úrskurður stjórnar LÍN frá 10. janúar 2014 staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 10. janúar 2014 er staðfestur.

Til baka