Úrskurður
Ár 2014, miðvikudaginn 1. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2014:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 3. júní 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 6. mars 2014 þar sem synjað var beiðni kæranda um frestun á innheimtu vanskila og frestun afborgana á grundvelli veikinda og atvinnuleysis Málskotsnefnd tilkynnti stjórn LÍN um kæruna með bréfi dagsettu 3. júní 2014 og gaf henni kost á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN vegna kærunnar voru settar fram í bréfi dagsettu 25. júní 2014 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 27. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með tölvupósti 2. september 2014 óskaði málskotsnefnd frekari gagna frá LÍN um skuld kæranda. Gögn bárust frá LÍN 3. sama mánaðar.. Málskotsnefnd óskaði frekari gagna um skuld kæranda og innheimtuaðgerðir gagnvart honum með bréfi dagsettu 9. september 2014. Umbeðnar upplýsingar bárust með bréfi dagsettu 17. sama mánaðar.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er skuldari að námslánum hjá LÍN bæði svokölluðum S og
R lánum. S-lán kæranda er ekki enn komið til innheimtu hjá LÍN. R-lán kæranda
hefur verið í vanskilum frá árinu 2007 og var í júní það ár sent í löginnheimtu.
Greiddi kærandi inná lánið um tíma en það var síðan gjaldfellt 15. október 2012
vegna vanskila hans. Stefna vegna skuldarinnar var gefin út 15. febrúar 2013 og
málið dómtekið 16. apríl 2013. Stefnan var árituð og aðfararbeiðni send
sýslumanni 25. júní 2013. Þann 1. júlí 2013 var gert árangurslaust fjárnám hjá
kæranda. Kærandi sendi beiðni til stjórnar LÍN 20. febrúar 2014 þar sem hann fór
þess á leit að afborgunum og innheimtu yrði frestað vegna veikinda hans og
atvinnuleysis undanfarin ár. Kom fram af hálfu kæranda að beiðni um frestun væri
ekki að öllu leyti beint til innheimtuaðila þar sem forsendur beiðni hans byggðu
á persónulegum upplýsingum og sjúkrasögu, enda væri LÍN eigandi námslánanna.
Stjórn LÍN synjaði beiðni hans með ákvörðun dagsettri 6. mars 2014. Var í
ákvörðun stjórnar LÍN vísað til greinar 7.9 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir
árið 2013-2014 og beiðni kæranda um að semja beint við sjóðinn synjað. Var honum
bent á að semja beint við innheimtufyrirtækið um vanskil sín.
Sjónarmið kæranda.
Til stuðnings beiðni sinni um frestun
afborgana og innheimtu vísar kærandi til 12. og 13. gr. reglugerðar um Lánasjóð
íslenskra námsmanna nr. 478/2011. Kærandi lýsir því að hann hafi átt við
veikindi að stríða og atvinnuleysi samfara því síðan á árinu 2011. Vegna
mikillar óvissu um bata hafi starfsgeta hans verið breytileg, frá 0% til 35%.
Hafi hann verið á sjúkrahúsi fyrri hluta árs 2013, haft takmarkaða starfsgetu
eftir það og endurhæfingartímabil hafi verið frá október 2013 til janúar 2014.
Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð sem staðfesta óvinnufærni hans frá maí
2011 til október 2011 og frá október 2013 til apríl 2014. Kærandi hafi 90%
starfsgetu frá og með apríl 2014 enskert starfsgeta takmarki aðgang hans að
vinnu þar sem oftast sé gert ráð fyrir 100% starfshlutfalli. Meðfylgjandi
kærunni sendir kærandi skattframtal þar sem fram kemur að tekjur hans á árinu
2012 hafi verið tæpar 1,8 milljónir kr.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Stjórn LÍN fer fram á að ákvörðun hennar frá 6. mars 2014 verði
staðfest. Stjórn LÍN kveður kæranda hafa verið í vanskilum við sjóðinn síðan
2007. Lán hans hafi verið gjaldfellt 15. október 2012 og hafi skuldin verið send
í löginnheimtu það ár. Innheimtumál gegn skuldara hafi verið dómtekið í apríl
2013, stefnan hafi verið árituð og 1. júlí 2013 hafi verið gert árangurslaust
fjárnám hjá skuldara. Stjórn LÍN vísar til greinar 7.9 í úthlutunarreglum LÍN
fyrir árið 2013-2014 en þar komi fram að ef krafa fer í vanskil sé hún send til
innheimtu lögmanna. Þegar svo standi á fari nýjar kröfur einnig í innheimtu hjá
lögmönnum. Þegar afborgun sé í lögmannsinnheimtu beri lánþega að semja um skuld
sína við lögmenn beint án milligöngu sjóðsins. Með vísan til þessarar reglu hafi
beiðni kæranda um frestun á vanskilum og innheimtu verið synjað. Því beri að
staðfesta ákvörðun stjórnar.
Niðurstaða
Í erindi kæranda til stjórnar LÍN óskaði hann eftir frestun
afborgana og frestun innheimtu vanskila með vísan til þess að hann hefði ekki
neina greiðslugetu sökum veikinda og atvinnuleysis. Í kæru sinni til
málskotsnefndar vísar kærandi einnig til 12. og 13. gr. reglugerðar um LÍN.
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er sjóðsstjórn heimilt að veita
undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna
veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda
verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í seinni málslið 7. mgr. 8. gr.
laganna kemur fram að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir
gjalddaga afborgunar. Framangreind ákvæði eru nánar útfærð í 12. og 13. gr.
reglugerðar um LÍN sem kærandi hefur vísað til. Eru ákvæðin svohljóðandi:
"12. gr. Nú gefur tekjustofn ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á
endurgreiðsluári, vegna skyndilegra og verulegra breytinga sem hafa orðið á
högum hans milli ára, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er
skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Ef lánþegi
gerir skriflega grein fyrir þessum breyttu högum sínum og styður hana tilskildum
gögnum, er sjóðstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu,
ýmist til lækkunar eða niðurfellingar á greiðslum, eftir atvikum. 13. gr.
Sjóðstjórn er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám,
atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar
sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Skal hann
þá leggja fyrir sjóðstjórn upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og annað það sem
stjórnin telur máli skipta. Stjórninni er þá heimilt að veita undanþágu að hluta
eða öllu leyti eftir atvikum. Sjóðstjórn setur nánari almennar reglur um
framkvæmd þessa heimildarákvæðis."
Nánari ákvæði um undanþáguna er
að finna í úthlutunarreglum sjóðsins í grein 7.5.3 en þar segir m.a. að sækja
þurfi um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns fyrir hvern gjalddaga
fyrir sig og að umsókn um skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir
gjalddaga viðkomandi afborgunar. Hafi ósk um undanþágu ekki borist sjóðnum fyrir
þessi tímamörk sé óheimilt að veita undanþágu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um
sjóðinn. Ákvæði 12. gr er einnig endurspeglað í skilmálum skuldabréfs vegna láns
kæranda en þar segir að stjórn LÍN sé heimilt "að veita undanþágu frá árlegri
endurgreiðslu ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum lánþega milli
ára." Umsókn kæranda var sett fram í erindi til stjórnar LÍN 20. febrúar
2014. Var þá komið vel á annað ár frá því að lánið var gjaldfellt sökum vanefnda
kæranda er stafa allt frá árinu 2007. Búið var að árita stefnu í málinu og gera
árangurslaust fjárnám vegna skuldarinnar. Ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992
er fortakslaust um að það tekur aðeins til heimildar LÍN til að veita undanþágu
frá árlegri afborgun hverju sinni og það er fortakslaust um umsóknarfresti. Í
þessu máli er þó alveg ljóst að það er ekki á færi LÍN að veita undanþágu á
grundvelli 12. og 13. gr. reglugerðar um LÍN enda var öll skuldin gjaldfelld í
október 2012 vegna vanefnda kæranda, dómur er genginn fyrir allri skuldinni og á
grundvelli þess dóms hefur verið framkvæmt árangurslaust fjárnám hjá kæranda.
Ekki er um að ræða aðrar heimildir LÍN til að veita undanþágu vegna veikinda eða
atvinnuleysis. Var stjórn LÍN því rétt að benda kæranda á að semja um greiðslu
við innheimtuaðila, sbr. og grein 7.9 í úthlutunarreglum sjóðsins. Með vísan til
ofangreindra sjónarmiða og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar frá 6. mars 2014 er
fallist á það með stjórn LÍN að sú ákvörðun sjóðsins að hafna erindi kæranda
hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Er hin kærða
ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN frá 6. mars 2014 í máli kæranda er staðfest.