Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-10/2014 - Námsframvinda - synjun á að flytja einingar á milli anna

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 22. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-10/2014:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 19. maí 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 8. apríl 2014, þar sem kæranda var synjað um að flytja einingar frá fyrra námsári yfir á vorönn 2014 þar sem hún uppfyllti ekki kröfur úthlutunarreglna LÍN um lágmarks framvindu í námi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. maí 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 12. júní 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði BA nám við Háskóla Íslands og var á lokamisseri námsárið 2013-2014. Skipulagði hún nám sitt þannig að hún tók 46 ECTS einingar á haustönn 2013 og átti þá einungis eftir 12 einingar á vorönn 2014. Kærandi hafði hug á að flytja 16 umframeiningar frá haustönn 2013 yfir á vorönn 2014 en fékk þær upplýsingar frá LÍN að hún yrði þá að uppfylla kröfur um lágmarksframvindu á vorönn. Kærandi sendi tölvupóst til LÍN 14. nóvember 2013 og innti eftir því hvort einhverjar heimildir væru til að fá undanþágu frá skilyrðum úthlutunarreglnanna um lágmarksframvindu því að öðrum kosti yrði hún að bæta við sig 6 einingum sem hún myndi ekki fá á prófskírteinið sitt og fengi ekki lán vegna. Svar LÍN barst með tölvupósti 12. desember 2013. Þar kom fram að kærandi ætti rétt á láni í hlutfalli við loknar einingar samkvæmt grein 2.4.6 í úthlutunarreglunum. Þá var kærandi einnig upplýst um að ef hún bætti við sig 6 einingum þá ætti hún rétt á námsláni vegna 18 eininga. Kærandi svaraði LÍN sama dag þar sem hún spurði aftur sömu spurningar hvort hún gæti fært 16 umframeiningarnar yfir á vorönn. Kvað hún ástæðu þess að hún tæki þessar einingar á haustönn vera að þær væru skyldufög sem væru einungis kennd á haustönn. Svar LÍN barst samdægurs þar sem kærandi var upplýst um að námsmaður sem lýkur fleiri en 30 ECTS einingum á misseri ætti rétt á að nýta umframeiningarnar á öðru misseri sama námsárs svo framarlega sem lágmarksárangri væri náð á því misseri samkvæmt grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þann 12. janúar 2014 sendi kærandi tölvupóst til LÍN á lin@lin.is og upplýsti að hún hefði sótt um námslán vegna 18 eininga á vorönn 2014. Hún væri að ljúka námi og ætti því rétt á láni samkvæmt grein 2.4.6 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi kvaðst hafa lokið 46 einingum á haustönn og að hún óskaði eftir láni vegna 16 eininga af þeim á vorönn 2014. Kærandi sendi aftur tölvupóst til starfsmanns LÍN 30. janúar s.á. þar sem hún ítrekaði fyrra erindi sitt. Í svarpósti LÍN kom fram að fyrri póstur hennar hafði ekki borist. Kom fram í póstinum að allt að 10 daga gæti tekið að svara erindi hennar. Þann 19. febrúar s.á. sendir kærandi enn tölvupóst til starfsmanns LÍN og ítrekar fyrri fyrirspurn þar sem enn hafi ekkert svar borist. LÍN sendi kæranda svar með tölvupósti þar sem fram kom að hún ætti ekki rétt á láni nema að hún væri að ljúka að lágmarki 18 einingum á vorönn 2014. Hún ætti hins vegar rétt á láni í hlutfalli við loknar einingar. Kærandi svaraði með tölvupósti 20. febrúar 2014 þar sem hún vísaði til þess að hún hefði fengið þau svör frá LÍN í desember 2013 að henni væri heimilt að flytja 16 einingar yfir á vorönn 2014 og fá þá lán vegna 28 eininga en ekki 12. Hefði hún beðið Háskóla Íslands að senda allar upplýsingar um loknar einingar til sjóðsins. Þann 5. mars 2014 sendi kærandi síðan erindi til stjórnar LÍN þar sem hún fór þess á leit að námsframvinda hennar skólaárið 2013-2014 væru metin heildstætt svo hún gæti notið fullrar framfærslu frá LÍN eins og heimilt væri á grundvelli 2.4 kafla úthlutunarreglna LÍN. Lýsti kærandi því að hún hefði tekið 46 einingar á haustönn og ætti því einungis eftir 12 einingar á vorönn. Af þessu leiddi að 16 einingar myndu "falla dauðar og ómerkar" sökum þess að ekki væri lánað á hverri önn umfram 30 einingar. Þá lýsti kærandi því að hún hefði tekið svo margar einingar á haustönn þar sem alvarleg veikindi væru í fjölskyldunni og að hún vildi vera til staðar á vorönn. Ættingi hennar hefði síðan látist í febrúar 2014. Kærandi vísaði til greinar 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kæmi heimild til að meta árangur námsársins í heild og veita lán í hlutfalli við námsárangur þegar námsmaður hefði lokið a.m.k. 44 einingum á skólaárinu í heild. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með ákvörðun 5. mars 2014 þar sem vísað var til þess að kærandi hefði einungis átt 12 einingar eftir á vorönn 2014 og næði því ekki kröfum um lágmarksframvindu, þ.e. 18 einingum, sem væri skilyrði þess að flytja einingar á milli anna, sbr. grein 2.2 í úthlutunarreglum LÍN. Var kæranda bent á að hún ætti rétt á láni vegna þeirra 12 eininga sem hún ætti eftir óloknum, sbr. grein 2.4.6 í úthlutunarreglunum.

Sjónarmið kæranda.

Í kæru sinni til málskotsnefndar kærir kærandi ákvörðun stjórnar LÍN um að synja henni um heimild til að flytja umframeiningar af haustönn 2013 yfir á vorönn 2014. Jafnframt vísar kærandi til þess að við meðferð máls hennar hafi málshraðaregla stjórnsýslulaga verið brotin. Ástæður þess að hún hafi lokið 46 einingum á haustönn 2013 kveður kærandi vera þá að um hafi verið að ræða skyldufög sem ekki hafi verið kennd á vorönn auk þess sem fjölskylduaðstæður hafi verið þess eðlis að hliðrun á einingum í námi hafi hentað betur. Þá hafi skipt máli að að fyrir hendi hafi verið heimild fyrir aukið svigrúm í námi sbr. kafla 2.4.1 – 2.4.5 í úthlutunarreglunum. Til að engum vafa væri til að dreifa hafi hún haft samband við LÍN og óskað staðfestingar á því að hún gæti flutt einingar sem hafi verið umfram 30 einingar yfir á vorönn og fengið lán vegna þeirra til viðbótar við þær 12 einingar er hún hafi verið skráð fyrir á vorönn 2014. Hafi hún fengið óljós svör og hafi hún því óskað skýrari svara. Hafi hún fengið þau svör að henni væri heimilt að flytja umframeiningar yfir á annað misseri sama námsárs svo framarlega sem lágmarksárangri væri náð á því misseri, sbr. grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þann 30. janúar 2014 hafi kærandi síðan ítrekað fyrirspurn sína til LÍN þar sem síðasti dagur til að breyta skráningu hafi verið að líða. Þann 19. febrúar s.á. hafi hún síðan ítrekað erindi sitt og búist við jákvæðum viðtökum þar sem of seint hafi verið fyrir hana að gæta réttar síns og skrá sig í fleiri einingar til að uppfylla skilyrði um 18 einingar svo hún gæti flutt 16 einingar frá haustönn yfir á vorönn.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN eru rakin samskipti kæranda og starfsmanna sjóðsins. M.a. hafi kærandi upplýst að hún vissi að til að eiga rétt á að færa umframeiningar yfir á næstu önn þyrfti hún að ná 18 einingum á þeirri önn. Í kjölfarið hafi kærandi síðan spurst fyrir um hvort hægt væri að fá undanþágu frá lágmarkinu og hafi LÍN svarað því til að námsmaður á lokaönn sem ætti færri en 18 einingar eftir gæti fengið lán í hlutfalli við loknar einingar á þeirri önn. Hafi henni verið bent á að sækja um vegna 18 eininga og senda síðan beiðni vegna greinar 2.4.6. Tekur stjórn LÍN fram að svo virðist sem kærandi hafi misskilið það sem hafi komið fram í tölvupóstsamskiptum hennar og sjóðsins í desember 2013. Þar hafi hvergi komið fram að hún hefði heimild til þess að nýta umframeiningar frá fyrra misseri nema að hún næði lágmarksnámsárangri á þeim síðari. Ítrekar stjórn LÍN að kærandi hafi sjálf staðfest í tölvupósti þann 14. nóvember 2013 að hún hafi fengið þær upplýsingar frá sjóðnum að hún þyrfti að taka að lágmarki 18 einingar til að geta nýtt umframeiningar sínar á vormisseri 2014. Þá hafi starfsmaður LÍN upplýst kæranda í tölvupósti þann 12. desember 2013 að til þess að fá að nýta umframeiningar þyrfti hún að vera með lágmarksnámsárangur á misserinu sem hún ætlaði að nýta einingarnar á.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að eiga rétt á námsláni samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í þessu skyni hefur stjórnin kveðið á um að námsmaður þurfi að öðru jöfnu að vera í fullu lánshæfu námi til þess yfirleitt að eiga rétt m.a. á framfærsluláni. Nánari útfærsla á þessu skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum 2013-2014 en samkvæmt henni telst nám lánshæft þegar það er 60 ETCS einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS einingar á hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um lágmarksnámsframvindu og var í grein 2.2 í úthlutunarreglum 2013-2014 áskilið að námsmaður lyki a.m.k. 18 einingum á misseri til að eiga rétt á námsláni. Átti námsmaður 2013-2014 lánsrétt vegna lokinna eininga, þ.e. lán vegna 18 eininga og allt að 30 einingum. Undanþága er veitt frá framangreindum kröfum um námsframvindu þegar námsmaður er að ljúka námi.. Í fyrsta lagi var samkvæmt úthlutunarreglum 2013-2014, grein 2.4.6, heimilt að veita námslán í samræmi við loknar einingar þó þær væru færri en 18 eininga lágmarkið. Samkvæmt þeirri reglu átti kærandi rétt á námsláni vegna 12 eininga á vorönn 2014. Í öðru lagi er frekara svigrúm einnig veitt á lokaönn þegar námsmaður á eftir færri einingar en lágmarkskröfur um námsframvindu kveða á um. Lágmarks framvindukröfur voru 18 einingar á árinu 2013-2014. Var í 4. mgr. greinar 2.4.1 veitt heimild til að "miða lánsrétt" við 18 einingar ef námsmaður bætti við sig nægjanlegum fjölda eininga sem uppá vantaði óháð námsferlum og gráðu. Í tilviki kæranda hefði hún þurft að bæta við sig 6 einingum til þess að hægt væri að "miða lánsrétt" hennar við 18 einingar. Þá er í þriðja lagi almenn regla í grein 2.4.1 sem gildir um alla námsmenn um heimild til að flytja umframeiningar á milli missera þegar námsmaður hefur lokið fleiri en 30 einingum á misseri. Er þá gert að skilyrði að námsmaður nái lágmarksárangri á þeirri önn sem einingarnar eru fluttar til. Kærandi átti einungis eftir 12 einingar á vorönn 2013 og lá því fyrir á þessum tíma að hún næði ekki þeim lágmarksárangri sem krafist var til þess að heimilt væri að flytja einingar frá haustönn yfir á vorönn. Kærandi heldur því fram að með því að bæta við sig 6 einingum óháð námsferli og gráðu eins og henni var heimilt samkvæmt 4. mgr. greinar 2.4.1 hefði hún í raun átt þess kost að ná 18 eininga námsárangurs lágmarkinu á vorönn og með því hefði hún getað skapað sér rétt til að flytja umframeiningarnar 16 yfir á vorönn skv. 1. mgr. greinar 2.4.1. Kærandi telur sig hafa tapað þessum möguleika sökum seinna viðbragða LÍN. Stjórn LÍN hefur í athugasemdum sínum ítrekað að heimild til að flytja einingar sé ekki fyrir hendi nema að námsmaður uppfylli skilyrði um lágmarksárangur. Að slíkt sé ekki fyrir hendi þó svo að námsmaður hafi fengið undanþágu frá kröfum um námsframvindu. Málskotsnefnd telur að ofangreindur skilningur stjórnar LÍN eigi sér stoð í orðalagi 4. mgr. greinar 2.4.1 þar sem segir að þegar námsmaður uppfyllir ekki "skilyrði um lágmarksnámsframvindu" sé eigi að síður heimilt að "miða lánsrétt" við 18 eininga lágmarkseiningafjölda ef námsmaður bætir við sig einingum óháð námsferlum og gráðu. Samkvæmt þessu gat kærandi ekki með því að bæta við sig 6 einingum óháð námsferli og gráðu talist uppfylla kröfu um lágmarksframvindu og þannig öðlast rétt til að flytja 16 einingar frá haustönn 2013 yfir á vorönn 2014. Málskotsnefnd telur framangreinda skýringu á úthlutunarreglum LÍN eðlilega í ljósi þess markmiðs laga um LÍN að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði "meðan á námi stendur." Kærandi var í minna en hálfu námi á lokaönn sinni vorið 2014. Málskotsnefnd bendir þó á að ákvæði úthlutunarreglna LÍN eru ekki eins skýr og á verður kosið um samspil þessara tveggja undanþága í 1. og 4. mgr. greinar 2.4.1 og færi betur á að tekið væri skýrt fram að þeim verði ekki beitt saman. Að mati málskotsnefndar fékk kærandi þó nægjanlega skýr svör frá LÍN um lánsrétt sinn í nóvember og desember 2013 þegar henni var bent á þær tvær leiðir sem voru í boði, þ.e. hlutfallslegt lán vegna 12 eininga eða lán vegna 18 eininga lán ef hún bætti við sig 6 einingum. Kemur hvergi fram af hálfu LÍN að kærandi hafi getað átt rétt til að nýta tvær undanþáguheimildir greinar 2.4.1 samtímis eins og hún byggir mál sitt á. Þó svo að tafist hafi að svara kæranda í byrjun árs 2014 varð það ekki til þess að hún missti rétt þar sem fyrri svör LÍN til hennar voru fullnægjandi. Með vísan til þessa er niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. mars 2014 er staðfest.

Til baka