Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2014 - Námslok - synjun á beiðni um frestun námsloka

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 22. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-12/2014:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 4. júní 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. apríl 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun námsloka. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 4. júní 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 25. júní 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi nefndinni ekki frekari athugasemdir í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi var skráð í 30 eininga nám við HÍ á haustönn 2012 og brautskráðist úr MA námi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu í febrúar 2013. Veturinn 2013-2014 var hún skráð í HÍ í viðbótarnám en 11. desember 2013 skráði hún sig úr öllum námskeiðum. Kærandi fékk síðast greidd námslán frá LÍN á vormisseri 2012. Með tölvupósti þann 29. október 2013 tilkynnti LÍN kæranda um lokun skuldabréfs hennar vegna námslána hjá LÍN. Í tölvupóstinum kom fram að þar sem að á árinu 2014 yrðu tvö ár liðin frá því hún hafi síðast fengið afgreitt námslán frá LÍN eða skilað upplýsingum um lánshæfan námsárangur til sjóðsins þá ætti í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins að loka skuldabréfi hennar vegna fyrri námslána og endurgreiðslur að hefjast á árinu 2014. Í tölvupóstinum benti LÍN á að þar sem kærandi hefði sótt um lán á haustmisseri 2013 þá gæti hún átt rétt á að endurgreiðslu skuldabréfsins yrði frestað svo framarlega sem hún skilaði lánshæfum námsárangri á haustmisseri 2013. Jafnframt kom fram í tölvupóstinum að kæmi í ljós eftir haustmisseri 2013 að kærandi hafi ekki skilað lánshæfum námsárangri vegna misserisins yrði skuldabréfinu lokað og endurgreiðslur þess myndu hefjast á árinu 2014. Þá var athygli vakin á því að ef kærandi hefði einnig verið í námi á námsárinu 2012-2013 og lokið lánshæfum námsárangri á skólaárinu án þess að sækja um námslán þá gæti hún sótt um frestun á lokun skuldabréfs vegna þess náms. Í tölvupóstinum kemur fram að umsóknarfrestur til þess að sækja umfrestun á lokun skuldabréfsins vegna þessa væri til og með 30. nóvember 2013 og að með umsókninni þyrfti að fylgja námsárangur frá skólaárinu 2012-2013. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN í byrjun mars 2014 og óskaði eftir undanþágu frá umsóknarfresti um frestun námsloka vegna sérstakra aðstæðna. Í bréfi kæranda til LÍN dagsett 3. mars 2014 kemur m.a. fram að hún taldi sig ekki þurfa að sækja sérstaklega um frestun á lokun skuldabréfs þar sem hún var í lánshæfu námi haustið 2013 og hafði sótt um námslán vegna þess. Þá kemur fram í bréfinu að hún hafi þurft að skrá sig úr náminu haustið 2013 vegna fjárhagserfiðleika sem rekja megi til erfiðleika við innheimtu krafna vegna verktöku hennar við þýðingar. Var beiðni hennar um frestun hafnað þar sem hún barst eftir 30. nóvember 2013.

Sjónarmið kæranda

Kærandi byggir á því að LÍN hafi átt að fallast á beiðni hennar um frestun á lokun skuldabréfs og nýta heimild sína til að úrskurða um vafatilfelli varðandi hvað telja beri námslok. Kærandi vísar til 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og greinar 2.5.2 í úthlutunarreglum LÍN máli sínu til stuðnings. Þá vísar hún til þess að þegar tölvupóstur LÍN frá 29. október 2013 hafi borist henni hafi hún verið í rúmlega fullu námi. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna hafi hún neyðst til að hætta og hafi sagt sig úr öllum áföngum við HÍ eftir að frestur til skila inn umsókn um frestun námsloka var runninn út. Þá vísar kærandi til þess að í tölvupósti LÍN komi fram að sækja þurfi um frestun fyrir nám á námsárinu 2012-2013. Kærandi hafi verið í námi á þessum tíma og samkvæmt tölvupóstinum hefði fyrrgreindum endurgreiðslum verið frestað sjálfkrafa ef þeim einingum hefði verið lokið. Kærandi hafi ekki áttað sig á því að þörf hefði verið á því að sækja sérstaklega um frestun á endurgreiðslum þar sem hún hafi haft allan hug á að ljúka því námi sem hún var í. Hún vísar einnig til námsárangur síns sem sýni að hún hafi lokið bæði BA og MA gráðu með fyrstu einkunn á eðlilegum námshraða og hafi því ekki verið ástæða til að ætla annað en að hún myndi ljúka þeim einingum sem hún hafi verið skráð í á haustönn 2013, ef ekki hafi komið til ófyrirsjáanlegar og fyrirvaralausar aðstæður. Kærandi bendir á að ekkert svigrúm sé í lögum og reglugerðum LÍN fyrir þá nemendur sem ljúki ekki þeim einingum sem ætlast sé til, hver svo sem ástæðan kunni að vera. Þá dregur kærandi í efa óhlutdrægni sjóðsstjórnar LÍN við meðferð á máli þar sem LÍN sé beinn hagsmunaaðili málsins. Telur kærandi að undir slíkum kringumstæðum eðlilegt að leitast sé við að úrskurða málsaðila í hag, enda geti málsaðili sýnt fram á að námslok hafi átt sér stað á því eins árs tímabili sem almennt sé til viðmiðunar. Kærandi bendir á að þrátt fyrir að hún geri sér grein fyrir því að LÍN hafi farið eftir lögum og úthlutunarreglum og að lögin séu til þess gerð að skapa LÍN svigrúm til að áætla námslok í þeim tilfellum þar sem nemandi ljúki ekki námi með prófgráðu, ellegar taki lengra leyfi en sem nemi því sem heimilt sé samkvæmt úthlutunarreglum, leyfi hún sér að setja spurningarmerki við þær heimildir sem LÍN séu veittar með því að fela skilgreiningu námsloka alfarið í þeirra hendur. Kærandi bendir einnig á að námslok séu ekki skilgreind sérstaklega í lögum um LÍN, heldur í regluverki sem LÍN setji sér. Því sé til staðar ákveðið svigrúm til endurskoðunar á þeim reglum sem settar hafa verið um þessi mál. Leggur kærandi til að miðað sé við námslok á því eins árs tímabili sem almennt sé miðað við vegna lokunar skuldabréfa, ellegar að frestur sé færður yfir áramót, eða þar til ljóst sé orðið hvort námsmaður muni ljúka einingum á þeirri önn. Sé það sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að LÍN sé hagsmunaaðili í málum af þessu tagi og telur kærandi óeðlilegt að stofnunin fái leyfi til þess að ógilda eiginleg námslok nemanda í skilgreiningu laga um háskóla á grundvelli skilafrestar sem sjóðurinn taki sjálfur ákvörðun um.

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN vísar til þess að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils, sbr. grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2013-2014. Heimilt sé að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skuli þá sækja sérstaklega um frestunina og eftir því sem við eigi gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli úthlutunarreglna LÍN. Kærandi hafi hvorki sótt um innan tilskilins frests né skilað lánshæfum námsárangri og því hafi stjórn LÍN synjað erindi kæranda. Stjórn LÍN vísar til þess að niðurstaðan hennar sé í samræmi við lög og reglur og í samræmi við sambærilega úrskurði (ákvarðanir) stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2013-2014 segir í grein 2.5.1 að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Þá segir í greininni að sá tímapunktur teljist námslok í skilningi laga nr. 21/1992 og reglugerðar um LÍN. Í grein 2.5.2 er síðan fjallað um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir:

"Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina til og með 30. nóvember 2013 og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli - Námsframvinda. Ef námsmaður gerir hlé á námi sínu lengur en eitt námsár er ekki heimilt að fresta lokun skuldabréfs og miðast lokun skuldabréfsins þá við lok síðasta aðstoðartímabils fyrir námshlé. Þegar námsmaður hefur aftur nám að loknu slíku námshléi skal líta á það sem nýtt nám með útgáfu á nýju skuldabréfi."

Í grein 2.5.5 segir að stjórn sjóðsins ákveði lokun skuldabréfs í vafatilfellum. Ljóst er af framangreindu að stjórn LÍN ber að skilgreina hvað telja beri námslok samkvæmt lögum nr. 21/1992 um LÍN. Hefur það verið gert í grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í grein 2.5.2 er síðan heimild til að fresta lokun skuldabréfs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum m.a. að sækja skuli um frestinn fyrir ákveðinn tíma í þessu tilviki fyrir 1. desember 2013. Málskotsnefnd fellst ekki á það með kæranda að skilgreining stjórnar LÍN á því hvað teljist til námsloka í skilningi sjóðsins feli í sér brot á lögum og stjórnsýslureglum. Þá er heldur ekki fallist á það með kæranda að stjórn LÍN hafi í málsmeðferð sinni brotið gegn stjórnsýslureglum heldur þykir málskotsnefndinni sýnt að afgreiðsla málsins hafi verið rétt og í samræmi við lög og úthlutunarreglur. Fyrir liggur að kærandi tók síðast námslán hjá LÍN á vormisserinu 2012. Hún hélt síðan áfram námi skólaárið 2012-2013 án þess að taka námslán. Á haustönn 2013 var hún skráð í fullt nám við HÍ og sótti um námslán til LÍN vegna þess en skráði sig síðan úr námskeiðunum í desember 2013 og lauk ekki prófum. Í málinu liggur fyrir að þann 29. október 2013 sendi LÍN kæranda tilkynningu um lokun skuldabréfs hennar á árinu 2014 og að endurgreiðslur á námsláni hennar myndu hefjast á því ári. Jafnframt vakti LÍN athygli kæranda á möguleika hennar til að sækja um frestun á lokun skuldabréfsins, bæði vegna þess náms sem hún var skráð í haustið 2013 og svo vegna þess náms sem hún hafði verið í á námsárinu 2012-2013. Í tilkynningunni kemur fram með skýrum hætti að umsóknarfrestur til þess að sækja um frestun á lokun skuldabréfsins væri til og með 30. nóvember 2013. Kærandi óskaði eftir frestun á lokun skuldabréfs síns hjá LÍN þann 3. mars 2014 og var beiðninni hafnað af hálfu LÍN þar sem umsóknarfresturinn til þess var útrunninn. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2013-2014 kemur fram með skýrum hætti að sækja skuli um frestun á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember 2013. Þessu til viðbótar eru á heimasíðu LÍN leiðbeiningar um námslok og lokun skuldabréfa. Þessar reglur og leiðbeiningar eru aðgengilegar öllum lántakendum og verður að leggja þá ábyrgð á þá að kynna sér reglur sjóðsins og fylgja þeim. Þá sendi LÍN kæranda sérstaka tilkynningu um lokun skuldabréfsins og leiðbeiningar varðandi möguleika hennar að sækja um frestun á lokun þess. Það er viðurkennd meginregla að stjórnvöldum beri ekki skylda að taka til efnismeðferðar mál sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Að baki reglum LÍN búa málefnalegar ástæður er lúta að stjórn á fjárreiðum sjóðsins sem gera það mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir. Almennt ber því að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, svo sem þegar tekst að sanna að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að sótt væri um innan frests eða mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN. Hvorugt á við í þessu máli að áliti málskotsnefndar. Er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda og að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er því staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun frá 3. apríl 2014 í máli kæranda er staðfest.

Til baka