Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-20/2014 - Undanþágur frá afborgun - synjun á umsókn um undanþágu afborgunar láns

Úrskurður

Ár 2014, miðvikudaginn 5. nóvember kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-20/2014:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 24. apríl 2013 sem barst málskotsnefnd sama dag kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 18. júní 2014 um að synja kæranda um undanþágu frá afborgun námsláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. ágúst 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN í máli kæranda bárust með bréfi dagsettu 10. september 2014. Var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 11. september 2014 og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Þann 2. maí 2014 sendi kærandi beiðni til LÍN um undanþágu frá greiðslu afborgunar með gjalddaga 1. mars 2014 sökum veikinda. Meðfylgjandi umsókn kæranda sendi hann sérstakt erindi frá félagsráðgjafa sem lýsir aðstæðum kæranda. Þar kemur fram að kærandi eigi við langvarandi veikindi að stríða sem lýsi sér í verkjum í andliti og hálsi. Hafi þetta mikil áhrif á andlega líðan hans. Þar kemur einnig fram að kærandi sé nú í endurhæfingu. Meðfylgjandi var einnig vottorð heimilislæknis þar sem fram kemur að kærandi hafi verið í veikindum í apríl en sé nú í endurhæfingu. Í beiðni sinni vísaði kærandi til þess að sökum mistaka hefði hann sótt um of seint. Fór kærandi þess á leit að sér yrði veitt undanþágu frá umsóknarfresti vegna aðstæðna sinna, en kærandi hefur átt við langvarandi veikindi að stríða auk þess sem sonur kæranda er mikið fatlaður bæði andlega og líkamlega. Lýsti kærandi því að kjör sín væru afar kröpp vegna þessa þar sem einu tekjur hans væru endurhæfingarlífeyrir. Erindi kæranda var synjað sem of seint fram komnu. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN. Í bréfi kæranda til stjórnar LÍN lýsir hann aðstæðum sínum á sama hátt og í fyrra erindi sínu. Einnig lýsir kærandi því að hann eigi einungis 180.000 krónur til ráðstöfunar í hverjum mánuði. Hafi hann sótt of seint um á síðasta ári og lent í fjárhagsþrengingum vegna þess. Í ár hafi hann einnig sótt um of seint þar sem hann hefði fyrir misskilning talið að umsóknarfrestur væri til 1. júní. Þá hafi hann bæði átt við veikindi að stríða í apríl sem og hafi hann verið önnum kafinn vegna verkefnaskila og prófa í skólanum, sem vegna verkfalls kennara og veikinda hafi valdið kæranda álagi og kvíða. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun sinni þann 18. júní 2014. Segir í ákvörðuninni að frestur til að sækja um undanþágu sé 60 dagar samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar sem umsókn hans hafi borist eftir þann frest og engin gögn hafi verið lögð fram um að kæranda hafi verið algjörlega ófær um að sækja um undanþágu á réttum tíma væri engin heimild í reglum LÍN til að verða við erindi kæranda. Kærandi kærði úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann 15. ágúst 2013.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi segir í kærunni að hann hafi verið of seinn að sækja um m.a. vegna veikinda og álags vegna prófa. Kærandi lýsir því að hann sé í endurhæfingu og að einu tekjur hans séu endurhæfingarlífeyrir. Endar nái ekki saman hjá honum og hafi hann ekki möguleika á að greiða afborganir af námsláni. Þá hafi kærandi einnig kostnað vegna sonar síns sem sé mikið fatlaður en þurfi að dvelja meira heima hjá foreldrum sínum þessa dagana sökum skorts á dagvistunarúrræðum. Fer kærandi þess á leit að ákvörðun stjórnar LÍN verði endurskoðuð og að honum verði veitt undanþága frá afborgun námsláns sem fyrst.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi sótt um undanþágu frá afborgun þann 2. maí 2014. Í grein 7.5.3 í úthlutunarreglum LÍN segi að umsókn um undanþágu frá fastri afborgun skuli berast eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga. Opnað sé fyrir umsóknir um undanþágur um leið og gjalddagar hafi verið myndaðir sem að jafnaði sé ekki minna en 60 dögum fyrir gjalddaga og því sé umsóknarfresturinn að minnsta kosti 70 dagar í heildina. LÍN hafi sent ítrekanir til kæranda um að gjalddaginn frá 1. mars 2014 væri ógreiddur, fyrst með tölvupósti 26. mars og svo aftur 15. apríl 2014 á lögheimili hans. Kærandi hafi borið við veikindum auk þess sem hann hafi talið umsóknarfrest vera til 1. júní. Að mati stjórnar LÍN hafi kærandi ekki sýnt fram á að honum hafi verið ómögulegt að sækja um innan tilskilins tíma og hafi erindi hans verið synjað. Kveður stjórn LÍN niðurstöðuna í máli kæranda vera í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Kærandi í máli þessu sótti um undanþágu frá árlegri endurgreiðslu sem féll í gjalddaga 1. mars 2014. Ágreiningslaust er að kærandi sendi umsókn sína til LÍN 2. maí 2014. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um undanþágu með vísan til þess að umsókn hans hafi borist eftir lögbundinn 60 daga frest skv. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. 

Í 6. og 7. mgr. 8. gr. er fjallað um umsókn um undanþágu með eftirfarandi hætti:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.

Eins og áður greinir var gjalddagi sá sem kærandi sótti um undanþágu vegna þann 1. mars 2014. Er því ljóst, sbr. og 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að lögbundinn frestur til að sækja um undanþágu rann út 30. apríl 2014. 

Fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og er því ekki á færi LÍN að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna þess hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins.

Eins og að framan er rakið framvísaði kærandi læknisvottorði þar sem fram kom að hann hafi átt við veikindi að stríða í apríl. Ennfremur kveðst kærandi hafa verið önnum kafinn í við verkefnaskil og í prófum sem hafi valdið honum álagi. Að mati málskotsnefndar benda fram komin gögn í málinu ekki til þess að veikindi kæranda hafi verið með þeim hætti að honum hafi verið ómögulegt að sækja um frest fyrir tilskilinn frest. Með vísan til þessa fellst málskotsnefnd á það með stjórn LÍN að framgreind gögn staðfesti ekki að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um undanþágu innan tilskilins 60 daga frests. Er niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN frá 18. júní sl. í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 18. júní 2014 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka