Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2014 - Umsóknarfrestur og útborgun Einingafjöldi á önn

Úrskurður

 

Ár 2014, miðvikudaginn 19. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-13/2014:

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 10. júní 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 6. mars 2014, þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán vegna 6 ECTS eininga fyrir námskeiðið VIR173 á vorönn 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 10. júní 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 3. júlí 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi nefndinni athugasemdir með bréfi dagsettu 23. júlí 2014. Stjórn LÍN sendi inn viðbótarathugasemdir með bréfum dagsettum 6. og 27. ágúst 2014 og kærandi sendi inn viðbótarathugasemdir með bréfum dagsettum 13. ágúst og 2. september s.á.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi var á vorönn 2013 skráð í 30 einingar í mastersnámi í lögfræði við Háskólann á Akureyri (HA). Hún þreytti meðal annars próf í námskeiðinu VIR0173 á vorönninni en stóðst ekki lágmarkskröfur í faginu og skráði sig því í upptökupróf í námskeiðinu sem fór fram í júní 2013. Kærandi gat ekki mætt í prófið vegna veikinda og óskaði eftir því að fá að taka sjúkrapróf í faginu. Kærandi fékk lán hjá LÍN fyrir 24 einingum á vorönninni 2013. Kærandi var skráð í 30 einingar á haustönn 2013 sem hún skilaði og fékk hún lán hjá LÍN fyrir þeim. Hún tók síðan sjúkrapróf í VIR0173 þann 7. janúar 2014 sem hún stóðst en ekki var boðið upp á það af hálfu HA að taka sjúkraprófið fyrr. Voru einingarnar skráðar sem sjúkrapróf á haustmisseri 2013 hjá LÍN á grundvelli upplýsinga þar um frá HA. Þá hefur HA staðfest í bréfi dagsettu 20. mars 2014 að kærandi hafi verið skráð í og setið námskeiðið VIR0173 á vormisseri 2013 en fullnægjandi námsmati námskeiðsins hafi hún lokið með prófi í janúar 2014. Stjórn LÍN hafnaði í hinni kærðu ákvörðun beiðni kæranda um að framangreindar 6 ECTS einingar vegna námskeiðs VIR0173 yrðu taldar til vorannar 2013 og að hún fengi afgreitt lán vegna þeirra til viðbótar við þær 24 einingar sem hún hafði fengið afgreitt vegna vorannar 2013. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi vísar til þess að umdeilt námskeið hafi ekki verið kennt við HA á haustönn 2013. Það hafi síðast verið kennt á vorönn 2013 og verði næst í boði á vorönn 2015. Það sé því ómögulegt að þær 6 ECTS einingar fyrir námskeiðið, sem skráðar hafi verið í námsframvinduskrá kæranda hafi tilheyrt haustönn 2013. Kærandi vísar einnig til þess að hún hafi ítrekað fengið þær upplýsingar frá LÍN að hún ætti rétt á að fá námslán vegna þessara 6 eininga ef hún stæðist prófið og að einingar fyrir það, ásamt staðfestingu frá HA um að námskeiðið tilheyrði vorönn 2013, væru komnar til LÍN fyrir 15. janúar 2014. Kærandi telur sig hafa haft réttmætar væntingar um að leiðbeiningar LÍN væru réttar og að hún ætti rétt til námsláns vegna VIR0173 eftir að hún hafi staðist sjúkraprófið í janúar 2014. Kærandi bendir á að ekki sé vefengt af hálfu LÍN að hinar 6 ECTS einingar sem sjóðnum hafi borist í janúar 2014 hafi verið vegna námskeiðs sem tilheyrði vorönn 2013 en að stjórn LÍN virðist álíta að skráning prófs í tölvukerfi eigi að ráða rétt kæranda til námsláns. Þessa afstöðu virðist stjórn LÍN hafa tekið þrátt fyrir að hafa frá upphafi haft upplýsingar um að um væri að ræða próf vegna námskeiðs sem hafi verið kennt á vorönn 2013 en hafi ekki verið í boði á haustönn 2013. Kærandi telur að ákvörðun stjórnar LÍN byggi ekki á málefnalegum sjónarmiðum og að fráleitt sé að skráning prófs í tölvukerfi eigi að ráða lánsrétti nemanda þegar sú staðreynd liggi fyrir að viðkomandi próf hafi verið þreytt vegna náms á vorönn 2013. Kærandi telur ljóst að hún hafi skaðast vegna þess að tölvukerfi og verklagsreglur LÍN og HA stangist á. Telur kærandi að það hljóti að eiga að ráða réttindum hennar hjá LÍN hvernig námi hennar var háttað í raun. Kærandi bendir á að við lagadeild HA sé notuð svokölluð fléttukennsla og sé hvert námskeið því aðeins í boði annað hvert ár. Á árinu 2012 hafi HA breytt tímasetningum sjúkraprófa þeirra nemenda sem höfðu vegna veikinda ekki getað þreytt upptökupróf í námskeiðum vormissera. Fyrir breytinguna hafi slík próf verið þreytt í ágúst sama ár og vormisseri lauk en áður en haustmisseri hafi hafist. Eftir breytinguna var fyrst boðið upp á slík sjúkrapróf í janúar næsta ár. Kærandi telur að það sé ekki sanngjarnt né í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að nemandi missi rétt sinn til námsláns einungis vegna þess að skóli breyti tímasetningu sjúkraprófa. Hvergi sé að sjá þess merki, í lánareglum LÍN, né í lögum eða lögskýringagögnum, að slíkar breytingar eigi að leiða til þess að nemandi missi rétt til námsláns. Telur kærandi að einingar sem lokið sé í fyrsta mögulega sjúkraprófi vegna vormisseris 2013 tilheyri vormisserinu áfram þrátt fyrir breytinguna. Það sé því óþarfi að færa þær milli námsára og því eigi grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN ekki við í þessu máli. Sú regla eigi aðeins við þegar nemandi ljúki ekki fullum 30 einingum á einu skólaári en skrái sig í og ljúki fleiri en 30 einingum á því næsta. Það eigi ekki við í tilviki kæranda. Kærandi telur einnig að LÍN hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þessu máli og það því ekki verið nægilega upplýst áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. 

Sjónarmið LÍN 

Stjórn LÍN vísar til greinar 2.1 og 2.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2012-2013 þar komi m.a. fram að „Ljúki námsmaður 18-30 ECTS-einingum á misseri á hann rétt á láni vegna lokinna eininga, þ.e. allt að 30 einingum.“ LÍN vísar einnig til þess að samkvæmt upplýsingum frá skóla kæranda hafi hún lokið hinum umdeildu 6 ECTS einingum á haustmisseri 2013 og því sé LÍN ekki heimilt að færa þessar 6 ECTS einingar frá haustmisseri 2013 til vormisseris 2013 enda hafi þeim ekki verið lokið á því misseri. LÍN bendir á að sjóðurinn breyti aldrei skráningu skóla á námsmati nemenda sinna. Jafnframt sé óheimilt að færa viðbótareiningar aftur í tíma á fyrri annir, sbr. t.d. grein 2.4.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þar komi m.a fram að námsmaður sem ljúki fleiri en 30 ECTS einingum á misseri geti átt rétt á að nýta umframeiningar á öðru misseri sama námsárs eða flytja umframeiningarnar á síðari námsár í sama námsferli. Þá bendir LÍN á að ekki sé óalgengt að nemendur þurfi að þreyta sama prófið aftur. Þá skipti engu máli hvenær nemandi hafi upphaflega verið skráður í fagið heldur hvenær námsárangur sé skráður hjá viðkomandi skóla enda sé misjafnt hversu langur tími líði frá því að námsmaður hafi upphaflega verið skráður í fagið og þar til endanlegt námsmat hafi farið fram. Telur LÍN óeðlilegt ef sjóðurinn eigi að fara taka mið af upphaflegri skráningu einstaklings í fag en ekki hvenær endanlegt námsmat sé skráð hjá viðkomandi skóla. LÍN bendir á að þær upplýsingar sem kæranda hafi verið gefnar af starfsmönnum sjóðsins hafi verið réttar. Útskýrt hafi verið fyrir kæranda að upplýsingar um námsárangur fyrir námsárið 2012-2013 þyrftu að vera komnar til sjóðsins fyrir 15. janúar 2014 ásamt staðfestingu frá skóla um að umræddar einingar tilheyrðu námsárinu 2012-2013. Samkvæmt gögnum málsins séu umræddar einingar skráðar sem sjúkrapróf vegna haustmisseris 2013 á skólaárinu 2013-2014. LÍN sé því ekki heimilt að veita lán vegna eininganna á öðru námsári en því sem þær séu skráðar á. Telur LÍN að útskýringar kæranda og/eða HA á því að umræddar einingar séu hluti af námsárinu 2012-2013 samkvæmt námsskrá kæranda enga þýðingu hafa hvað þetta varði. Hér þurfi að horfa á hlutina í stærra samhengi enda algengt að nemendur taki upp fög og/eða próf á öðrum misserum eða námsárum en upphaflega námskrá eða námsskipulag þeirra segi til um. LÍN geti ekki fylgst með námsskipulagi hvers nemenda fyrir sig heldur gildi skráningar skóla á loknum einingum hverju sinni, m.ö.o. hvenær endanlegt námsmat fari fram. Niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

 

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um námslán vegna 6 ECTS eininga fyrir námskeiðið VIR0173 á vorönn 2013. Ágreiningslaust er að námskeiðið var kennt á vorönn 2013 samkvæmt skipulagi HA en að kærandi tók sjúkrapróf í faginu í janúar 2014. Þá liggur fyrir að kærandi lauk 24 einingum á vorönn 2013 og 30 einingum á haustönn 2013 og fékk afgreitt námslán í samræmi við það. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda um að framangreindar 6 einingar yrðu afgreiddar sem hluti af námsláni fyrir vorönn 2013 með vísan til greina 2.1 og 2.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2012-2013 og með vísan til þeirra upplýsinga og skráningar frá skóla kæranda á því hvenær hún hefði lokið fullnægjandi námsmati vegna námskeiðsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða m.a að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að eiga rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í úthlutunarreglum LÍN er m.a fjallað um námsframvindu í II. kafla og segir þar í grein 2.2 að ljúki námsmaður 18-30 ECTS einingum á misseri eigi hann rétt á láni vegna lokinna eininga, þ.e. allt að 30 einingum. Í grein 5.2 í úthlutunarreglunum er fjallað um útborgun námslána og þar kemur fram að útborgun námslána sé háð því skilyrði að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun og skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Í framkvæmd eru það þó skólar sem í flestum tilvikum senda upplýsingar um námsárangur beint til LÍN. Eins og fram kemur í grein 2.2 er við mat á námsframvindu og þar með rétt námsmanns til láns á hverju misseri miðað við loknar einingar á hverju misseri fyrir sig. Í þessu felst að gögn um námsárangur verða að bera það með sér með skýrum hætti á hvaða önn ECTS einingum er lokið. Í fyrirliggjandi gögnum frá HA kemur fram að kærandi var skráð í og sat námskeiðið VIR0173 á vormisseri 2013 en að fullnægjandi námsmati námskeiðsins hafi hún ekki lokið fyrr en með sjúkraprófi í janúar 2014. Að mati málskotsnefndar liggur fyrir samkvæmt skýrum gögnum og upplýsingum frá skóla kæranda að umræddum einingum vegna námskeiðisins VIR0173 var lokið með sjúkraprófi í byrjun árs 2014 og tilheyrir haustönn 2013. Námsárangur kæranda í faginu lá ekki fyrir fyrr en í byrjun janúar 2014 þrátt fyrir að kærandi hafi setið námskeiðið á vorönn 2013. Kærandi lauk því 24 einingum á vorönninni 2013 en 36 einingum á haustönn 2013. Í úthlutunarreglum LÍN er engin heimild til að færa umframeiningar til fyrra misseris eins og kærandi fer fram á. LÍN er stjórnvald sem falið er með lögum að veita námsmönnum námslán að uppfylltum skilyrðum laganna og öðrum þeim reglum sem um sjóðinn gilda og það er á ábyrgð LÍN og stjórnar LÍN að kveða á um lánsrétt umsækjenda. Málskotsnefnd bendir á að HA ákveður skipulag á því námi sem skólinn býður upp á hverju sinni og þá námskrá sem hann starfar eftir. Er ekki fallist á það með kæranda að hægt sé að gera þá kröfu á LÍN að miða reglur sínar við skipulag hvers skóla fyrir sig eða að fylgjast með námskipulagi hvers nemanda fyrir sig. Málskotsnefnd telur að það fyrirkomulag sem LÍN notast við þ.e að miða lánsrétt námsmanna við loknar einingar á hverju misseri sé málefnalegt og með því sé gætt að jafnræði meðal námsmanna. Þá er ekki fallist á það með kæranda að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við málsmeðferð málsins hjá LÍN. Verður að telja að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því en enginn ágreiningur er um málsatvik í þessu máli. Er heldur ekki fallist á það með kæranda að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta eigi hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun frá 6. mars 2014 í máli kæranda er staðfest.

Til baka