Úrskurður
Ár 2014, miðvikudagsinn 19. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-16/2014.
Kæruefni
Hinn 18. ágúst 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 9. maí 2014 þar sem synjað var beiðni hans um endurupptöku á ákvörðun stjórnarinnar frá 6. mars 2014 vegna ábyrgðar hans á námsláni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 8. júlí 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 11. ágúst 2014 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefið færi á að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd með bréfi dagsettu 18. ágúst 2014. Athugasemdir kæranda voru framsendar stjórn LÍN 19. ágúst 2014.
Málsatvik og ágreiningsefni
Með áritun sinni þess efnis á skuldabréf útgefnu af LÍN gekkst
kærandi í sjálfskuldarábyrgð fyrir námsláni nr. R-xxx sem þáverandi sambýliskona
hans tók þann 29. desember 1995. Var ábyrgð kæranda bundin við höfuðstól allt að
400.000 krónur ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef
vanskil verða. Þann 15. janúar 1997 gekkst kærandi síðan í sjálfskuldarábyrgð
til viðbótar fyrri ábyrgð vegna sama láns fyrir höfðustól allt að 1.000.000
krónur ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði sem af vanskilum
kann að leiða. Samkvæmt skilmálum skuldabréfsins sem dagsett er 29. desember
1995 er höfuðstóll 1.560.157 krónur, lánstími er ótilgreindur og greitt skal af
láninu þar til skuldin er uppgreidd. Fram kemur í gögnum málsins að skuldari var
úrskurðuð gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 9. september 2013.
Með bréfi dagsettu 12. nóvember s.á. sendi LÍN kæranda tilkynningu um að kröfu
vegna námsláns skuldara yrði beint að honum sem ábyrgðarmanni að því marki sem
hún fengist ekki greidd úr þrotabúinu. Kom fram í bréfinu að staða ábyrgðarinnar
væri 2.529.391 krónur. Var kæranda bent á að hafa samband við LÍN til að semja
um kröfuna eða óska eftir frekari upplýsingum varðandi kröfuna. Kom fram að
búast mætti við að krafan yrði send í innheimtu ef kærandi hefði ekki samband
við LÍN innan 14 daga. Kærandi hafði samband við fjármálastjóra LÍN vegna
kröfunnar einkum í þeim tilgangi að fá hana fellda niður, en þeirri málaleitan
var hafnað. Kærandi sendi bréf til stjórnar LÍN þann 31. janúar 201 og vísaði
til þess að frá því að lögin um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 tóku gildi 4. apríl
2009 hafi liðið fern áramót án þess að LÍN hafi sent honum tilkynningu vegna
ábyrgðarinnar í samræmi við d. lið 1. mgr. 7. gr. laganna. Benti kærandi á að
samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna félli ábyrgð niður ef vanræksla væri veruleg. Þá
lýsti kærandi slæmri eiginfjárstöðu sinni og eiginkonu sinnar. Fór kærandi þess
á leit við stjórn LÍN að sjóðurinn felldi niður ábyrgðarskuldbindingu hans á
grundvelli þess að LÍN hafi brotið ákvæði laga um ábyrgðarmenn gagnvart sér
og/eða á grundvelli ógjaldfærni hans. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með
ákvörðun þann 6. mars 2014. Segir í bréfi LÍN til kæranda vegna þessa að LÍN
hafi sent honum tilkynningu vegna ábyrgðarinnar um áramótin 2011-2012. Hafi því
tvenn áramót liðið frá gildistöku laga um ábyrgðarmenn og þar til LÍN hafi sent
kæranda tilkynningu samkvæmt lögunum. Yrði ekki fallist á niðurfellingu
ábyrgðarinnar af þeim sökum. Kom fram í ákvörðuninni að kærandi hafi ekki sent
gögn um fjárhagsstöðu sína en að LÍN hafi boðið honum að dreifa greiðslu
skuldarinnar með skuldabréfi til allt að 10 ára. Kærandi óskaði endurupptöku hjá
stjórn LÍN með bréfi dagsettu 27. mars 2014. Kom fram af hálfu kæranda að LÍN
hafi ekki sent honum neina tilkynningu vegna ábyrgðarinnar fyrr en eftir að
lögmaður hans hafi sent LÍN bréf skömmu áður. Í bréfinu gerði kærandi ítarlega
grein fyrir fjárhagsstöðu sinni og eiginkonu sinnar. Segir í bréfinu að óskað sé
endurupptöku þar sem stjórn LÍN hafi augljóslega ekki haft allar upplýsingar um
fjárhagsstöðu kæranda þegar ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Stjórn LÍN tók
beiðni kæranda til meðferðar á ný þann 7. maí 2014. Var beiðni kæranda um
niðurfellingu ábyrgðar synjað á ný með vísan til þess að ekki væri heimilt að
fella niður ábyrgð nema nýr ábyrgðarmaður eða önnur trygging komi í staðinn,
sbr. 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Sjónarmið kæranda
Kæran beinist að ákvörðun stjórnar LÍN
í máli kæranda þann 7. maí 2014. Í kærunni kemur fram að kærandi gekkst í ábyrgð
á námslánum fyrrverandi sambýliskonu sinnar á meðan á sambúð þeirra stóð og að
þau hafi slitið sambúðinni á árinu 1999. Kærandi fer þess á leit að ábyrgð hans
verði felld niður sökum vanrækslu LÍN á að senda honum tilkynningu um ábyrgðina.
Á þeim tíma þegar kærandi hafi skrifað bréf sitt til stjórnar LÍN í janúar 2014
hafi hann aldrei móttekið tilkynningu um ábyrgðina. Um sé að ræða fimm ára
vanrækslu sem verði að teljast veruleg vanræksla á annars skýrri lagaskyldu og
beri því að fella ábyrgðina niður. Í öðru lagi byggir kærandi kröfu sína um
niðurfellingu á því að hann sé ekki borgunarmaður fyrir ábyrgðinni. Eignastaða
hans sé neikvæð og af þeim sökum sé áframhaldandi innheimta með öllu
þýðingarlaus. Lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 komi í veg fyrir að LÍN geti
aðhafst eitthvað á grundvelli áframhaldandi innheimtu, sbr. 8. gr. þeirra. Á
þeim grundvelli krefst kærandi þess að málskotsnefndin komist að þeirri
niðurstöðu að fella beri málið niður en til vara að öllum innheimtuaðgerðum
verði hætt án tafar.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í
athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til þess að við ákvörðun í málinu hafi komið
fram að kæranda hafi í raun verið send tilkynning um ábyrgðina um áramótin
2011-2012. Í afriti af umræddri tilkynningu kemur fram að hún hafi verið send
kæranda 30. janúar 2012 vegna ársins 2011. Í athugasemdunum LÍN segir að
meginsjónarmið að baki tilkynningaskyldu lánveitanda sé að hann tilkynni
ábyrgðarmanni um öll þau atvik er haft geti áhrif á forsendur ábyrgðarinnar
ábyrgðarmanni í óhag. Einnig sé talið eðlilegt að ábyrgðarmenn fái a.m.k. einu
sinni á ári yfirlit yfir ábyrgðir sem þeir hafi gengist í. Kærandi hafi ekki
borið því við í málinu að hann hafi ekki vitað af ábyrgð sinni eða sýnt fram á
að það hafi valdið honum tjóni eða haft að öðru leyti áhrif á hann að hann hafi
ekki fengið tilkynningu fyrstu tvö áramótin eftir gildistöku laga um
ábyrgðarmenn. Stjórn LÍN telur einnig að vanræksla á að senda yfirlit fyrstu tvö
árin eftir gildistöku laganna geti ekki talist vera veruleg vanræksla og eitt og
sér leitt til brottfalls ábyrgðar. Í ákvörðun stjórnar LÍN í málinu hafi komið
fram að sjóðurinn hafi enga heimild samkvæmt lögum til að fella niður ábyrgðir.
Ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður ef nýr ábyrgðarmaður eða önnur
trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telur fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6.
gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Varðandi síðari kröfu kæranda bendir stjórn LÍN á
að slæm fjárhagsstaða ábyrgðarmanns geti ein og sér ekki leitt til brottfalls
ábyrgðar hjá sjóðnum Hafi stjórnin ekki aðrar heimildir en fram komi í 7. mgr.
6. gr. laga um LÍN. Stjórn LÍN telur að hafna beri varakröfu kæranda um að
innheimtuaðgerðum verði hætt, enda sé innheimta kröfunnar í samræmi við lög um
ábyrgðarmenn. Stjórn LÍN telur að niðurstaða sín í máli kæranda sé í samræmi við
lög og reglur sem um sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði
stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd
staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.
Niðurstaða
Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN kemur fram að ábyrgð
ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji námsmaður aðra
tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Þá kemur fram í grein 5.3.2 í
úthlutunarreglum LÍN að eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema henni sé sagt upp
og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Sjálfskuldarábyrgð er
kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á
hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir
kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu
skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til
grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju
sinni. Skuldabréf það sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð var gefið út 29.
desember 1995. Var ábyrgð kæranda takmörkuð við 400.000 krónur en með
yfirlýsingu þess efnis þann 15. janúar 1997 tókst kærandi á hendur
viðbótarábyrgð fyrir allt að 1.000.000 króna. Eins og áður greinir segir í
skuldabréfinu að lánstími sé ótilgreindur og að greiða skuli af láninu þar til
skuldin sé að fullu greidd. Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr.
72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim var gerð krafa um að námsmaður,
sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns um að
hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Ábyrgðaryfirlýsing
kæranda á umræddu skuldabréfi vegna láns nr. R-xxx hljóðar svo:
"Til
tryggingar skilvísri greiðslu á höfuðstól allt að kr. 400.000, ásamt vöxtum,
verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég
undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu. Höfuðstóll ofangreindrar
sjálfskuldarábyrgðar breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs frá útgáfudegi
ábyrgðar þessarar."
Í viðbótarábyrgðaryfirlýsingu sem kærandi
undirritaði 15. janúar 1997 er samhljóða yfirlýsing þar sem kærandi tekst á
hendur sjálfskuldarábyrgð til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á
höfuðstól allt að einni milljón króna, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og
öllum kostnaði er af vanskilum kann að leiða. Málskotsnefndin telur skilmála
sjálfskuldarábyrgðanna sem kærandi tókst á hendur á sínum tíma vera hefðbundna
og skýra. Ekki liggur neitt fyrir um að efni samningsins, staða samningsaðila
eða atvik við samningsgerðina hafi verið óvenjuleg með neinum hætti, ósanngjörn
eða andstæð góðum viðskiptavenjum þegar undir samninginn var skrifað. Þá hefur
ekkert komið fram í málinu annað en að kærandi hafi gert sér fulla grein fyrir
því hvað fælist í sjálfskuldarábyrgð sinni á námsláni lánþega þegar hann
undirgekkst ábyrgðina. Þá telur málskotsnefndin ljóst að í lögum og reglum LÍN
er ekki að finna heimild til þess að fella niður sjálfskuldarábyrgð
ábyrgðarmanna, án þess að annar ábyrgðamaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn
sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Deilt er um í málinu hvort LÍN hafi sent
kæranda tilkynningu samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn vegna ársins 2011. Hefur LÍN
lagt fram afrit af tilkynningu sem sjóðurinn hafi sent kæranda 30. janúar 2012.
Kærandi kveðst ekki hafa móttekið tilkynninguna. Málskotsnefnd bendir á að
stjórnvöld eru almennt talin bera áhættuna af því ef mistök verða við sendingu
bréfa eða önnur tæknileg mistök sem valda því að bréf berst ekki málsaðila, nema
málsaðili hafi sýnt af sér sök. Er í þessu sambandi talið að sönnunarbyrði hvíli
jafnan á stjórnvöldum um að bréf, sem þau fullyrða að hafi verið sent, hafi
borist málsaðila. Þó er talið að sönnunarbyrði stjórnvalds sé almennt aflétt með
því að stjórnvald geri grein fyrir þeim verklagsreglum er viðhafðar hafi verið
við tilkynningu á viðkomandi ákvörðun. Þá bendir málskotsnefnd á 3. mgr. 71. gr.
laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um sönnunargildi opinberra skjala þar sem
kemur fram að [þ]ar til annað sannast skal efni opinbers skjals talið rétt ef
það varðar tiltekin atvik sem er sagt að hafi gerst í embætti eða sýslan
útgefanda. Stjórn LÍN hefur ekki gert sérstaklega grein fyrir verklagsreglum
þeim er viðhafðar hafi verið við útsendingu umræddrar tilkynningar til kæranda.
Málskotsnefnd bendir hins vegar á að þrátt fyrir að talið væri að tilkynning um
ábyrgð hafi ekki verið send kæranda fyrr en með bréfi LÍN til hans 12. nóvember
2013 verður ekki séð eins og atvikum er háttað í þessu máli að vanræksla LÍN
hafi valdið því að umfang ábyrgðar kæranda hafi aukist vegna þessa eða að
vanræksla á tilkynningaskyldu hvort sem er um tvenn eða þrenn áramót hafi á
annan hátt valdið kæranda tjóni. Verður því vanræksla á tilkynningaskyldu ein og
sér í máli kæranda ekki talin gefa tilefni til að fella beri niður þá ábyrgð
hans sem um ræðir í máli þessu. Ábyrgð kæranda tekur til 1.400.000 króna af
höfuðstóli láns þess sem hér um ræðir að ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum
og öllum kostnaði er af vanskilum kann að leiða. Kærandi hefur lýst því að
eignastaða hans sé neikvæð og af þeim sökum sé áframhaldandi innheimta með öllu
þýðingarlaus. Beri því að fella ábyrgð hans niður en til vara að öllum
innheimtuaðgerðum verði hætt án tafar. Málskotsnefnd tekur fram að nefndin hefur
talið að við gjaldþrot lántaka hafi sjóðurinn svigrúm til samninga við
ábyrgðarmenn m.a. með það fyrir augum að auka líkur á því að sjóðurinn fái
fullar efndir viðkomandi ábyrgðarskuldbindingar. Málskotsnefnd fellst á það með
stjórn LÍN að ekki sé heimild til að fella niður kröfu eða hætta innheimtu en
bendir á að sjóðurinn hafi þó svigrúm til að semja við ábyrgðarmenn um tilhögun
á greiðslum. Er því ekki heimild að lögum til að fallast á kröfur kæranda um
niðurfellingu kröfunnar. Með vísan til framangreinds telur málskotsnefnd hina
kærðu ákvörðun hvorki vera í andstöðu við lög nr. 21/1992 um LÍN, né ákvæði laga
nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda er því
staðfest
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 9. maí 2014 er staðfest.