Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2014 - Ábyrgðarmenn - beiðni um niðurfellingu á ábyrgð

Úrskurður

 

Ár 2015, miðvikudaginn 4. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-18/2014:

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 11. ágúst 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 3. apríl 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda og B bróður hennar um að ábyrgð þeirra á námslánum C bróður þeirra yrði felld niður. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 12. ágúst 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 8. september 2014 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 1. október 2014. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari gögnum frá LÍN og bárust þau með tölvupósti 25. nóvember 2014 og var afrit þeirra sent kæranda. Kæranda var veittur frestur til að koma frekari athugasemdum að vegna þessara gagna. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Á árunum 1989 til 1990 gekkst faðir kæranda í ábyrgð á sex námslánum C sonar síns hjá LÍN. Um er að ræða svonefnd T-lán og samkvæmt skilmálum lánsins skal endurgreiðslum ljúka ekki síðar en 40 árum eftir að þær hefjast. Ábyrgðarmaður lést á árinu 2004 og var gengið frá dánarbúi hans með einkaskiptum. Í kærunni lýsir kærandi því að engin gögn hafi verið í dánarbúinu um ábyrgð hins látna á námslánum C bróður þeirra og að henni og B bróður hennar hafi ekki verið kunnugt um ábyrgðarskuldbindinguna fyrr en þau hafi fengið innheimtubréf send í kjölfar vanefnda skuldara sem varð í september 2013. Þann 6. mars 2014 sendi kærandi stjórn LÍN erindi þar sem hún fór þess á leit að innheimtuaðgerðum gagnvart sér og B yrði hætt og að við innheimtu yrði tekið tillit til aðstæðna skuldara sem ætti við langvarandi veikindi að stríða. Vísaði kærandi til þess að LÍN hefði aldrei sent þeim tilkynningu varðandi yfirfærslu ábyrgðar til erfingja eða upplýsingar um lagagrundvöl fyrir slíkri yfirfærslu. Væri þeim þó kunnugt um að ábyrgðaraðilar námslána fengju slíkar tilkynningar á hverju ári í samræmi við ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Benti kærandi einnig á dóm Hæstaréttar í máli nr. 622/2011 þar sem fram hafi komið að óljós atriði í þessum efnum hefðu verið skýrð ábyrgðarmanni í hag og vísað til þess að LÍN væri opinber lánasjóður stofnaður á grundvelli laga og á ábyrgð íslenska ríkisins. Stjórn LÍN tók málið fyrir á fundi sínum 3. apríl 2014 og hafnaði erindi kæranda með vísan til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. og til þess að LÍN hefði enga heimild samkvæmt lögum til að fella niður ábyrgðir nema önnur trygging komi í staðinn sem LÍN telur fullnægjandi. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann11. ágúst 2014. Þar sem ákvörðun stjórnar var ekki réttilega tilkynnt kæranda fyrr en með tölvupósti 17. júlí 2014 miðast kærufrestur stjórnsýslulaga við það tímamark.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að henni og B bróður hennar hafi fyrst verið kunnugt um ábyrgðarskuldbindingar föður þeirra haustið 2013, tíu árum eftir andlát hans, þegar krafa um afborgun hefði verið send í innheimtu og þess krafist að erfingjar tækju ábyrgð á gjaldföllunum afborgunum lánsins. Í kærunni kemur fram að stjórn LÍN hafi vísað til ákvæða laga er tengdust einkaskiptum og kveðst kærandi ekki efast um gildi þeirra. Kærandi óskar þess hins vegar að tekin verði afstaða til þeirra málsástæðna er hún nefndi í upphaflegu erindi til stjórnar LÍN um tómlæti sjóðsins í tengslum við tilkynningaskyldu til ábyrgðarmanna í samræmi við lög um ábyrgðarmenn. Krefst kærandi þess að ábyrgðin verði felld niður sökum tómlætis LÍN. Vísar hún sérstaklega til 2. mgr. 7. gr. laganna, sbr. d.lið 1. mgr. sömu greinar. Lögin hafi vissulega ekki verið til er faðir hennar féll frá en þau hafi þó verið í gildi í frá árinu 2009, eða í fimm ár. Telur kærandi að aðstöðumunur sé slíkur þar sem lagaleg ábyrgð hvíli á opinberri stofnun að senda tilkynningu til ábyrgðarmanna m.a. um stöðu láns. Slík tilkynning hafi ekki verið send og telur kærandi að hin opinbera stofnun verði að bera hallann af því og að ekki sé hægt að halda kröfum uppi á erfingja ábyrgðarmanns. Þannig hafi kæranda og bróður hennar ekki verið kunnugt um tilvist lánsins eða ábyrgðarinnar fyrr en send hafi verið innheimtuviðvörun með gjaldföllnum afborgunum og tilheyrandi innheimtukostnaði. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd fallist á að tómlæti og óuppfylltar lagaskyldur LÍN leiði til þess að ekki verði hægt að krefjast greiðslna frá erfingjum ábyrgðarmanns í þessu tilviki.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN vísar til 5. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. þar sem komi fram að eitt af skilyrðum þess að fá leyfi til einkaskipta sé að erfingjar taki að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiði af skiptunum eða arftöku. Í 97. gr. sömu laga segi svo að eftir að einkaskiptum sé lokið beri erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim hafi verið kunnugt um þær áður en skiptum hafi verið lokið. Líkt og komi fram í tilvitnuðu ákvæði þá hafi vitneskja erfingja um ábyrgðarskuldbindingu ekki áhrif á ábyrgð þeirra á skuldbindingum búsins. Einnig byggir LÍN því að sjóðurinn hafi enga heimild samkvæmt lögum til að fella niður ábyrgðir. Ábyrgð ábyrgðarmanns geti einungis fallið niður ef önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telji fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Með hliðsjón af því hafi erindi kæranda og bróður hennar verið synjað. Vegna tilvísunar kæranda í veikindi skuldara bendir stjórn LÍN á heimild í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins þar sem m.a. komi fram að heimilt sé að veita "undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega." Þurfi að senda beiðni um slíka undanþágu eigi síðar en 60 dögum frá gjalddaga, sbr. grein 7.5.3 í úthlutunarreglum LÍN. Varðandi þær upplýsingar kæranda að ekki hafði legið fyrir í dánarbúinu upplýsingar um ábyrgð hans á láni hjá sjóðnum og að LÍN hafi ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn bendir stjórn LÍN á að við einkaskipti sé það á ábyrgð erfingja að kanna eignir og skuldbindingar dánarbúsins áður en skiptum lýkur. LÍN haldi skrá yfir ábyrgðarmenn en töluverð vinna fylgi því að afla upplýsinga frá sýslumönnum um þá aðila sem hafi tekið yfir ábyrgðir vegna námslána við dánarbúskipti. Sú vinna sé í gangi. Fyrir liggi að kærandi hafi verið upplýst um ábyrgðina á árinu 2013 og því geti stjórn LÍN fallist á að taka verði tillit til aðstæðna í málinu þannig að erfingjar geti átt rétt á að vera skaðlausir með tilliti til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar í málinu. Hins vegar geti stjórn LÍN ekki fallist á að um hafi verið að ræða verulega vanrækslu í skilningi laga um ábyrgðarmenn. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í málinu.

Niðurstaða

 

Við andlát ábyrgðarmannsins varð til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tók við réttindum og skyldum hins látna. Fyrir liggur að erfingjar hans, kærandi þessa máls ásamt systkinum, fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og að skiptum þess var lokið á grundvelli þess leyfis á árinu 2004. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. er eitt skilyrða þess að sýslumaður veiti erfingjum leyfi til einkaskipta að erfingjar taki að sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða arftöku. Í 97. gr. sömu laga segir svo að eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1991 kemur fram að eitt af skilyrðunum fyrir veitingu leyfis til einkaskipta sé að erfingjar lýsi yfir að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð in solidum á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu án fyrirvara um það eða tillits til þess hvort þeim sé kunnugt um tilvist skuldbindinganna. Þá kemur fram í athugasemdunum að til þess að taka af öll tvímæli um að þessi ábyrgð standi ekki aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra sé kveðið á um þessa ábyrgð í 97. gr. laganna. Með vísan til þessa er ljóst að kærandi ásamt öðrum erfingjum búsins hafa með því að fá leyfi til einkaskipta á dánarbúinu tekist á hendur ábyrgð á öllum skuldbindingum sem kunni að hvíla á dánarbúinu, þ.m.t. ábyrgð á námslánum C. Samkvæmt 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 getur ábyrgð ábyrgðarmanns einungis fallið niður að önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins telur fullnægjandi. Í kærunni hefur kærandi lýst því að hún efist ekki um gildi ákvæða laga um einkaskipti. Hún fer þess hins vegar á leit að sjálfskuldarábyrgð hins látna við LÍN verði felld niður með vísan til þess að LÍN vanrækti tilkynningaskyldu sína samkvæmt d. lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Kærandi hefur bent á að LÍN hafi vanrækt í fjögur ár eftir gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að senda yfirlit til ábyrgðarmanna um áramót þar sem upplýst er um stöðu láns og ábyrgðir hans hjá LÍN. Fyrir liggur í málinu að LÍN vanrækti að senda erfingjum ábyrgðarmanns tilkynningar í samræmi við fyrirmæli d. liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Hefur sjóðurinn gefið þá skýringu að þessar tafir megi rekja til þess að "töluverð vinna fylgir því að afla upplýsinga hjá sýslumönnum um þá aðila sem hafa tekið yfir ábyrgðir vegna námslána við dánarbúskipti en sú vinna [sé] í gangi." Umrædd lög tóku gildi í apríl 2009 og er ekki gert ráð fyrir neinum aðlögunartíma. LÍN bar því eins og öðrum fjármálafyrirtækjum að senda út tilkynningu samkvæmt framangreindu ákvæði til ábyrgðarmanna strax um áramótin 2009/2010. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. fyrrgreindra laga skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Stjórn LÍN hefur lýst því yfir að hún fallist á að erfingjar geti átt rétt á því að vera skaðlausir af vanrækslu LÍN með tilliti til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar í málinu. Þá hefur LÍN bent á í athugasemdum sínum að skuldari kunni að eiga rétt á undanþágu frá afborgunum sökum veikinda. Stjórn LÍN lýsti því einnig yfir í athugasemdum sínum í máli umboðsmanns Alþingis nr. 5924/2010 að ábyrgðarmaður geti sótt um slíka undanþágu ef hann geti lagt fram viðeigandi gögn til staðfestingar á högum skuldara lánsins. Málskotsnefnd bendir á að ekki verður séð að kærandi eða bróðir kæranda hafi orðið fyrir tjóni vegna fyrrgreindrar vanrækslu LÍN á að senda tilkynningu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 umfram þann kostnað sem LÍN hefur lýst yfir að verði felldur niður. Ekki liggur fyrir í málinu að kærandi eða bróðir hennar hefðu getað gripið til einhverra úrræða eða látið eitthvað ógert þótt þeim hefðu borist lögbundnar tilkynningar LÍN. Bendir málskotsnefnd einnig á dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-4454/2013 í þessu sambandi. Eru samkvæmt framansögðu ekki forsendur til þess að ábyrgð kæranda og B bróður hennar á námsláni C bróður þeirra verði felld niður með vísan til ákvæða laga nr. 32/2009. Með vísan til framangreinds er ákvörðun stjórnar LÍN frá 3. apríl 2014 staðfest.

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 3. apríl 2014 er staðfest.

Til baka