Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2014 - Námslengd - réttur til láns

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 4. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-22/2014:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 23. september 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 27. ágúst 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán fyrir 100 ECTS-einingum til að stunda nám við lögfræði við Háskóla Íslands. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. september 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. október 2014 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi 3. nóvember 2014.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hóf nám í lögfræði við lagadeild Háskóla Íslands haustið 2013 og hafði áður í lok júlí 2013 sótt um námslán til LÍN. Kveðst kærandi hafa skömmu síðar fengið tölvupóst frá LÍN þar sem sagði að umsókn hans hafi verið móttekin og að útbúin yrði lánsáætlun fyrir hann sem birtast myndi á einkasvæði hans hjá LÍN, svokölluðu "mínu svæði". Það hafi gengið eftir og þann 8. ágúst 2013 hafi þar verið að finna námsáætlun námsársins sem í hönd fór. Í ramma merktur "nám" hafi komið fram að notaðar einingar af lánsrétti væru 150 af 300 og af fyrirhuguðu námi sem væri 180 ECTS-einingar væri engri einingu lokið. Kærandi kveðst hafa lokið 50 einingum námsárið 2013-2014 og fengið námslán í samræmi við það. Upplýsingar í "nám" á einkasvæðinu hafi verið uppfærðar í samræmi við framangreint þannig að notaðar hafi verið 200 einingar af 300 sem lánsréttur væri fyrir. Kærandi sótti um námslán fyrir skólaárið 2014-2015 og kveðst hafa fengið staðfestingu sjóðsins á móttöku umsóknarinnar í tölvupósti þann 1. júlí 2014. Síðasta dag mánaðarins hafi lánsáætlun verið tilbúin á sama hátt og fyrr þar sem sagði að ónotaðar væru 100 einingar af 300 eininga lánsrétti. Skömmu síðar hafi kæranda borist bréf LÍN, dagsett 30. júlí 2014, um að lánsréttur hans hjá sjóðnum dygði aðeins fyrir hluta námsársins þar sem hann hafi fullnýtt svigrúm sitt til lánsréttar samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Með bréfi til LÍN, dagsettu 7. ágúst 2014, gerði kærandi athugasemdir við ákvörðun sjóðsins og krafðist þess að hún yrði endurskoðuð svo honum reyndist unnt að ljúka BA námi sínu með ráðgerðum hætti. Með öðru bréfi sama dag til LÍN krafðist kærandi ítarlegs rökstuðnings sjóðsins fyrir ákvörðun sinni og óskaði jafnframt tæmandi sundurliðunar á öllum veittum lánum sjóðsins til sín, einingafjölda og upphæðum lána. Stjórn LÍN tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum þann 27. ágúst 2014 og hafnaði þar kröfu kæranda um að ætti ónotaðan lánsrétt fyrir allt að 100 ECTS-einingum. Í bréfi stjórnar til kæranda, dagsettu 1. september 2014, segir að í grein 2.3 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2014-2015 komi fram að námsmaður eigi rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi, 120 ECTS-einingum í meistaranámi, 120 ECTS-einingum í grunn- eða meistaranámi að eigin vali og 180 ECTS-einingum í doktorsnámi, og samanlagt fari lánsréttur aldrei umfram 600 ECTS-einingar. Kærandi hafi í fyrra og núverandi námi fengið samtals lánað frá sjóðnum fyrir 590 ECTS-einingum og eigi því aðeins eftir 10 einingar af lánsrétti sínum. Sú verklagsregla hafi hins vegar verið viðhöfð hjá sjóðnum að veita námsmönnum sem eiga minni lánsrétt en sem nemur lágmarksárangri á önn, sem eru 22 ECTS-einingar, lán að hámarki sem nemur þeim fjölda eininga. Í samræmi við það hafi sjóðurinn fallist á að veita kæranda lán fyrir 22 ECTS-einingum á haustönn 2014, að því tilskyldu að hann uppfyllti kröfur um námsframvindu. Beiðni kæranda um frekari námslán umfram það var því hafnað. Framangreindri ákvörðun stjórnar LÍN hefur kærandi skotið til málskotsnefndar og krefst hann þess að viðurkennt verði að lánsvigrúm hans hjá sjóðnum í upphafi skólaárs 2014-2015 hafi numið 100 ECTS-einingum. Í athugasemdum kæranda til málskostnefndar er einnig farið fram á að nefndin taki afstöðu til þess hvort hann eigi fullan lánsrétt í hinu nýja námi, að frádregnum þeim 50 ECTS einingum sem hann hefur þegar lokið í náminu.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hann hafi fengið rangar upplýsingar frá LÍN um lánsrétt sinn hjá sjóðnum, eins og rakið er hér að framan. Hann hafi á grundvelli þeirra upplýsingar, sem hann hafi enga ástæðu haft til að rengja eða efast um, skipulagt nám sitt til framtíðar. Með upphaflegri lánsáætlun LÍN í ágúst 2013 hafi skapast réttmætar væntingar kæranda til að njóta lánafyrirgreiðslu í samræmi við það loforð sem fólst í lánsáætluninni og sé afturköllun hennar óréttmæt. Kærandi kveðst ekki draga í efa að LÍN sé heimilt að breyta ákvörðun sinni um lánsloforð á grundvelli 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þeim tilvikum er námsmanni hafi með réttu mátt vera ljóst að upplýsingar varðandi lánsrétt hans væru rangar. Það eigi hins vegar ekki við um kæranda. LÍN hafi búið yfir öllum upplýsingum um fyrra nám kæranda og hann hafi undandráttarlaust látið LÍN í té allar upplýsingar um fyrirhugað nám haustið 2013. Það hafi eingöngu verið fyrir mistök sjóðsins að hann fékk ekki réttar upplýsingar um lánsrétt og hann hafi engar forsendur haft til að draga þær í efa og hljóti sjóðurinn að þurfa að bera hallann af eigin mistökum. Kærandi telur að 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga styrki sjónarmið hans um réttmætar væntingar því lagaákvæðið leggi þá skyldu á stjórnvald að tilkynna aðila um leiðréttingu ákvörðunar án tafar og láta viðkomandi í té nýtt endurrit hennar. Rúmt ár hafi liðið án þess að mistökin væru leiðrétt, sem telja verði stórfelldan drátt og afturköllun lánsloforðs hafi því komið allt of seint og sett öll hans áform um nám í uppnám. Kærandi bendir á að eftir að honum barst synjun LÍN á frekari lánum umfram 22 ECTS-einingar hafi hann óskað eftir rökstuðningi fyrir synjuninni og sundurliðun LÍN á öllum veittum lánum frá upphafi, en ekki fengið. Telur hann að með því hafi LÍN brotið gegn 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Kveðst kærandi ekki enn vita hvernig fyrra nám hans var metið til eininga af LÍN, þar sem námið var stundað áður en LÍN tók upp ECTS mælikvarðann á nám. Kærandi bendir á að stjórnsýslurétturinn geri sífellt ríkari kröfur til stjórnvalda um að gæta að réttaröryggi borgaranna og að skapa traust. Einnig að stjórnvöldum beri að jafnaði að taka tillit til réttmætra væntinga málsaðila. Afgreiðsla LÍN gangi þvert á framangreind meginsjónarmið stjórnsýsluréttar. Kærandi hafnar því sjónarmiði stjórnar LÍN að af grein 2.3.2 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2014-2015 leiði að lán til námsmanna geti aldrei farið yfir 600 ECTS-einingar. Þessi túlkun verði hvorki leidd af greininni né af lögum um LÍN eða lögskýringargögnum. Í úthlutunarreglunni sé aðeins kveðið á um "að ekki verði lánað umfram 600 ECTS einingar til doktorsnáms og að hámarki 180 til 240 ECTS einingar til doktorsnámsins sjálfs eftir uppbyggingu námsins." Telur kærandi að úthlutunarreglan komi ekki í veg fyrir að nýtt grunnnám og eftir atvikum meistara- eða doktorsnám að því loknu sé að fullu lánshæft að 600 ECTS-einingum. Telur kærandi sig því eiga rétt á fullu námsláni í hinu nýja námi, að frádregnum þeim 50 ECTS einingum sem hann hefur þegar lokið og fengið lán fyrir.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi stundað nám í líffræði fram til ársins 1995 og verið á lánum hjá sjóðnum meðan á því stóð. Samtals hafi kærandi fengið lánað fyrir sem nemur 540 ECTS-einingum í náminu, sem hann hafi lokið með doktorsprófi. Þær einingar sem hann hafi fengið lánað fyrir hafi skipst í 150 ECTS-einingar í grunnnámi, 120 ECTS-einingar í meistaranámi og 270 ECTS-einingar í doktorsnámi. Skólaárið 2013/2014 hafi kærandi stundað grunnnám í lögfræði og fengið lánað fyrir 50 ECTS-einingum og hafði þá í heildina fengið lánað fyrir 590 ECTS-einingum. Samkvæmt grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN geti lán hjá sjóðnum námsmenna aldrei farið umfram 600 ECTS-einingar og því hafi kærandi aðeins átt 10 einingar eftir af lánsrétti sínum hjá sjóðnum þegar hann sótti um námslán fyrir skólaárið 2014/2015. Eins og fyrr er rakið kveðst LÍN hafa viðhaft þá verklagsreglu að eigi námsmaður minni lánsrétt en sem nemi lágmarksnámsframvindu á önn eigi hann engu að síður kost á lágmarksláni. Námsmenn þurfi ekki sérstaklega að sækja um að nýta þennan rétt heldur taki hann sjálfkrafa gildi ef viðkomandi aðstæður eru fyrir hendi. Þess vegna hafi kæranda í lánsáætlun fyrir skólaárið 2014/2015 reiknast lánsréttur fyrir 22 ECTS-einingum á haustönn, en verið synjað um námslán á vorönn. LÍN hafnar því að skapast hafi réttmætar væntingar hjá kæranda til þess að fá námslán fyrir 100 ECTS-einingum til viðbótar þeim 590 sem hann hafi þegar fengið lán fyrir. Þegar kærandi hóf nám í lögfræði haustið 2013 og fram kom á einkasvæði hans hjá LÍN að hann ætti ónotaðar 150 ECTS-einingar af 300 í náminu hafi honum með réttu átt að vera ljóst að þær upplýsingar væru ekki réttar eða í það minnsta átt að gefa honum tilefni til þessa að koma að máli við LÍN til að fá nánari upplýsingar. Kærandi hafi fyrst sett sig í samband við sjóðinn 7. ágúst 2014 eftir að hann fékk synjun á óskertu námsláni skólaárið 2014-2015. LÍN áréttar að kærandi hafi fengið tilkynningu sjóðsins um skerðingu námsláns þann 30. júlí 2014 eða um leið og tilefni gafst til. Samhliða hafi verið gefin út lánsáætlun þar sem fram hafi komið að kærandi fengi lán miðað við 22 ECTS-einingar á haustönn 2014, en ætti ekki lánsrétt á vorönn 2015. LÍN hafnar alfarið þeirri túlkun kæranda að í grein 2.3.2 í úthlutunarreglum sjóðsins felist að hann geti fengið lánað fyrir meira en 600 ECTS-einingum hefji hann grunnnám eftir að hafa lokið doktorsnámi og þannig aukið við lánsrétt sinn hjá sjóðnum. Í reglunni felist að lán námsmanns hjá sjóðnum geti aldrei farið umfram 600 ECTS-einingar. Loks bendir LÍN á að ECTS-einingamælikvarðinn hafi ekki verið í gildi þegar kærandi stundaði fyrra nám sitt heldur hafi þá verið notast við svokallaðar fimm og tíu ára reglur. Þær hafi gert kæranda kleift á sínum tíma að fá lánað fyrir jafngildi 270 ECTS-eininga í doktorsnámi, en samkvæmt núverandi reglum sé aðeins lánað að hámarki fyrir 240 ECTS-einingum í slíku námi. Bendir LÍN á að ef fyrrnefndar fimm og tíu ára reglur hefðu verið í gildi haustið 2013 hefði kærandi ekki átt rétt á neinu námsláni vegna grunnnáms þar sem hann hafði fullnýtt fimm ára grunnnámssvigrúm sitt. Tilkoma einingamælikvarðans hafi því verið ívilnandi í tilviki kæranda. Telur stjórn LÍN að niðurstaða hennar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við fyrri úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Með aðilum er ágreiningur um túlkun á grein 2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN, sem stjórn LÍN telur að skýra beri þannig að lán námsmanns hjá sjóðnum geti aldrei farið fram úr 600 ECTS-einingum. Því hafnar kærandi og telur hann að í greininni sé aðeins "kveðið á um að ekki verði lánað umfram 600 ECTS-einingar til doktorsnáms og að hámarki 180-240 ECTS einingar til doktorsnámsins sjálfs eftir uppbyggingu námsins". Að mati kæranda komi þessi regla ekki í veg fyrir að nýtt grunnnám og eftir atvikum meistara- eða doktorsnám að því loknu sé að fullu lánshæft allt að 600 ECTS-einingum. Á þessa túlkun greinarinnar verður ekki fallist með kæranda. Í kafla 2.3 í úthlutunarreglum LÍN er fjallað um rétt námsmanna til námslána og er hann tiltekinn í ECTS-einingum. Í grein 2.3.1 segir að námsmaður eigi rétt á láni hjá sjóðnum fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi, en allt að 240 einingum sé námið þannig skipulag af hlutaðeigandi skóla. Í meistaranámi eigi námsmaður rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum og að auki eigi námsmaður rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum til viðbótar á grunn- og/eða meistarastigi að eigin vali. Loks er heimilt að veita námsmanni undanþágu fyrir allt að 60 ECTS-einingum að uppfylltum tilgreindum skilyrðum sem fjallað er um í greininni. Þá er eins og fyrr segir ákvæði um það í grein 2.3.2 að veita megi námsmanni lán til doktorsnáms fyrir 180 eða 240 ECTS-einingum, en þó geti lán til hans hjá sjóðnum aldrei farið umfram 600 ECTS-einingar. Þannig er augljóst að hver námsmaður getur að hámarki fengið námslán fyrir 600 ECTS-einingum hjá sjóðnum með þeirri undantekningu þó sem leiðir af fyrrgreindri verklagsreglu sjóðsins um lán til námsmanna, sem eiga minni lánsrétt en sem nemur lágmarksárangri á misseri. Eins og áður segir var ekki notast við ECTS-einingakerfið þegar kærandi stundaði fyrra nám sitt heldur svokallaðar fimm og tíu ára reglur. Kærandi lýsir því að eftir að honum barst synjun LÍN á frekari lánum hafi hann m.a. óskað eftir sundurliðun LÍN á öllum veittum lánum til sín, en ekki fengið. Með bréfi málskotsnefndar til LÍN, dagsett 8. janúar 2015, var óskað eftir því að allar upplýsingar um lánveitingar til kæranda yrðu sendar málskotsnefnd og var það gert með tölvubréfi sjóðsins 20. janúar 2015. Þær upplýsingar framsendi málskotsnefnd kæranda þann 16. febrúar 2015 til athugasemda ef einhverjar væru. Í upplýsingum LÍN kemur fram að kærandi hafi í sínu fyrra námi nýtt einingarétt sinn (lánsrétt) með eftirfarandi hætti: Á árunum 1983-1989 hafi kærandi verið í námi við Háskóla Íslands og fengið lán í fimm annir og hver önn hafi svarað til 30 ECTS-eininga (nám á sumarönn var ekki í boði á þessum tíma). Þetta samsvari því að kærandi hafi notað 150 ECTS-einingar af einingasvigrúmi sínu á þessum tíma. Námsárin 1989-1991 hafi kærandi stundað meistaranám við erlendan háskóla og fengið lán í fjóra annir, sem jafngildi 120 ECTS-einingum. Heildarlán hans á þessum tíma hafi því jafngilt 270 ECTS-einingum. Loks hafi kærandi stundað doktorsnám frá haustönn 1991 til áramóta 1994/1995, samtals tíu annir. Af þeim hafi sjö verið haust- eða vorannir, sem jafngildi 210 ECTS-einingum (7 x 30 einingar) og þrjár sumarannir, sem svari til 60 ECTS-eininga (3 x 20 einingar). Í byrjun árs 1995 hafi kærandi því fengið lán frá LÍN sem samsvari 540 ECTS-einingum. Framangreind útlistun LÍN á heildarlánveitingum til kæranda vegna hans fyrra náms hefur ekki sætt athugasemdum hans. ECTS-einingakerfið (European Credit Transfer and Accumulation System) er samræmdur mælikvarði á nám í aðildarríkjum Evrópusambandsins og þátttakenda í svokölluðu Bolognaferli. Í kerfinu jafngilda 60 ECTS-einingar fullu námsári. Eins og áður greinir var þetta einingakerfi ekki í gildi þegar kærandi stundaði fyrra nám sitt heldur fyrrnefndar fimm og tíu ára reglur. Þeim var síðast lýst í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010-2011 í kafla 2.3. Þar segir að námsmaður geti að hámarki fengið lán í allt að fimm aðstoðarár samanlagt og teljist eitt aðstoðarár jafngilda láni fyrir 36-60 ECTS-einingum (fimm ára regla). Þá segir að leggi námsmaður stund á framhaldsnám (doktors- eða meistaranám eða sambærilegt nám) sé heimilt að veita lán umfram fimm aðstoðarár, en samanlagður tími sem námsmaður geti fengið námslán sé að hámarki 10 aðstoðarár (tíu ára regla). Eins og áður er rakið fékk kærandi í fyrra námi lánað fyrir sem samsvarar fimm aðstoðarárum í grunnnámi og var því búinn að fullnýta grunnnámssvigrúm sitt samkvæmt þágildandi reglum er hann hóf lögfræðinámið haustið 2013. Með ECTS-einingakerfinu opnaðist hins vegar möguleiki fyrir kæranda á frekari námslánum, þ.e.a.s. á láni fyrir þeim 60 ECTS-einingum sem hann átti eftir til að ná 600 ECTS-eininga hámarkinu. Málskostnefnd fellst því á það með LÍN að við upphaf náms haustið 2013 hafi kærandi aðeins átt ónotaðar 60 ECTS-einingar af lánsrétti sínum hjá sjóðnum, en ekki 150 eins og sagði í námsáætlun á einkasvæði hans hjá LÍN í ágúst 2013. Kemur þá til úrlausnar hvort þessar röngu upplýsingar, sem og upplýsingar í námsáætlun sem birtust á einkasvæði kæranda í júlí 2014, hafi vakið réttmætar væntingar hjá honum um að hann ætti lánsrétt fyrir 150 ECTS-einingum í hinu nýja námi. LÍN er opinber lánastofnun og starfar á ábyrgð í íslenska ríkisins. Um starfsemi sjóðsins gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á sjóðnum hvílir leiðbeiningaskylda samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga en þar segir að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Geta fyrirheit stjórnvalda skapað réttmætar væntingar hjá þeim sem þau beinast að. Kærandi fékk þær upplýsingar á "mínu svæði" á heimasíðu LÍN í ágúst 2013 að hann ætti ónýttar 150 ECTS einingar í grunnnám, sem hann gæti fengið lánað fyrir. Námsárið 2013/2014 sótti hann um lán og fékk lánað fyrir þeim 50 einingum sem hann lauk á námsárinu. Í samræmi við það taldi hann sig eiga ónotaðan lánsrétt hjá sjóðnum fyrir 100 ECTS-einingum og kom það fram í lánsáætlun hans síðasta dag júlímánaðar 2014. Skömmu síðar barst kæranda bréf LÍN, dagsett 30. júlí 2014, þar sem sagði að komið hefði í ljós að hann ætti aðeins rétt á námsláni hluta komandi námsárs þar sem lánssvigrúm hans væri þá fullnýtt. Í grein 5.1.6 í úthlutunarreglum LÍN umrætt námsár er fjallað um lánsáætlun með eftirfarandi hætti:

Á grundvelli upplýsinga námsmanns, m.a. um tekjur og fjölskylduhagi, fær hann útfyllta lánsáætlun frá sjóðnum. Hún gefur kost á tímabundinni fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka, sbr. gr. 5.2.4. Eftir yfirferð lánsáætlunar ber námsmanni að láta sjóðinn vita ef þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar reynast rangar.

Í grein 5.2. er síðan fjallað um útborgun námslána og þar kemur meðal annars fram að útreikningur á námsláni og útgáfa lánsáætlana hefjist í byrjun ágúst. Þá segir einnig að lán vegna framfærslu verði greidd út í byrjun janúar til þeirra er uppfylli skilyrði um lágmarksnámsframvindu á viðkomandi önn. Þá sé það skilyrði þess að lánið verði greitt að námsmaður leggi fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Útgáfa lánsáætlunar felur í sér samkvæmt framansögðu að LÍN lýsir því yfir gagnvart námsmanni að hann eigi rétt á námsláni á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann hefur gefið um viðkomandi nám, tekjur og fjölskylduhagi, að því marki sem slíkar upplýsingar geta legið fyrir á því tímamarki. Að mati málskotsnefndar er hér um að ræða stjórnvaldsákvörðun, sbr. úrskurð hennar í málinu nr. L-2/2014, enda er um að ræða ákvörðun LÍN um hvort orðið verður við umsókn um námslán á grundvelli laga og reglna um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sú staðreynd að námslánin eru greidd út síðar og þá eftir að námsmaður hefur uppfyllt kröfur laga og reglna um LÍN skiptir ekki máli í þessu sambandi enda er stjórnvaldi heimilt að binda ákvörðun sína um fyrirgreiðslu tilteknum skilyrðum. Þegar LÍN tilkynnti kæranda með bréfi dagsettu 30. júlí 2014 að hann hefði fullnýtt lánsrétt sinn og ætti aðeins rétt á námsláni hluta námsársins var um að ræða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar. Samkvæmt 23. gr. getur stjórnvald "breytt ákvörðun sinni þar til hún hefur verið tilkynnt aðila máls." Eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun er stjórnvaldi einungis "heimilt að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té". Ljóst er að leiðréttingarheilmild stjórnvalds tekur einungis til bersýnilegra villna sem varða form ákvörðunar, svo sem misritun á orði, nafni eða tölu og reikningsskekkju. Heimildin tekur hins vegar ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar og getur því 23. gr. stjórnsýslulaga ekki verið grundvöllur að leiðréttingu af hálfu LÍN gagnvart kæranda. LÍN bar því að styðjast við 25. gr. stjórnsýslulaga við ákvörðun sína í máli kæranda en þar segir: "Stjórnvald getur afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar: 1. það er ekki til tjóns fyrir aðila, eða 2. ákvörðun er ógildanleg." Ljóst er að afturköllunin er kæranda til tjóns. Stjórnvaldsákvörðun getur talist ógildanleg ef hún er haldin verulegum annmarka að lögum, enda mæli veigamikil rök ekki gegn því að ógilda hana. Málskotsnefnd bendir á réttmætar væntingar málsaðila eru taldar til þeirra veigamiklu raka sem mæla gegn því að ógilda stjórnvaldsákvörðun. Í því sambandi er m.a. litið til þess hvort aðili hafi verið í góðri trú og hvort hann hafi verið byrjaður að nýta sér ákvörðunina. Ljóst er að kærandi var byrjaður að nýta sér ákvörðun LÍN. Í athugasemdum LÍN segir að kæranda hefði með réttu átt að vera ljóst að upplýsingarnar um lánsrétt hans væru ekki réttar. Málskotsnefnd fellst ekki á það með LÍN að kærandi hafi vitað eða mátt vita að lánsupplýsingarnar væru eða gætu verið rangar. Hér áður er rakið að við lánveitingar til kæranda í hans fyrra námi hafi ECTS-einingakerfið ekki verið í gildi heldur hafi farið um lánsrétt samkvæmt öðrum reglum. Þá liggur einnig fyrir að upptaka einingakerfisins hjá LÍN hafi m.a. tryggt kæranda víðtækari lánsrétt, en hann átti samkvæmt eldri reglum. Verður því að leggja til grundvallar að kæranda hafi ekki með réttu mátt vera ljóst að upplýsingar varðandi lánsrétt hans væru rangar. Með því að láta frá sér lánsáætlun vegna kæranda í ágúst 2013 og aftur í lok júlí 2014 með röngum upplýsingum um lánsrétt skapaði sjóðurinn með kæranda réttmætar væntingar til þess að tilteknar kringumstæður myndu ganga eftir umrædd námsár. Mátti kærandi þannig treysta því er hann hóf hið nýja nám að hann ætti ónotaðar einingar af lánsrétti sínum við sjóðinn í samræmi við það sem fram kom í lánsáætluninni. Það er því álit málskotsnefndar að LÍN hafi skapað réttmætar væntingar hjá kæranda um að hann ætti haustið 2014 ónotaðar 100 ECTS-einingar af lánsrétti sínum þrátt fyrir fyrra nám. Í því sambandi verður einnig að líta til þess óhagræðis og tjóns sem önnur niðurstaða kynni að valda kæranda. Ákvörðun stjórnar LÍN frá 27. ágúst 2014 um að skerða lánsrétt kæranda á haustönn 2014 og að synja honum um lán á vorönn 2015 þar sem hann hafi fullnýtt lánsrétt sinn er því felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærða ákvörðun frá 27. ágúst 2014 í máli kæranda er felld úr gildi. 

Til baka