Úrskurður
Ár 2015, miðvikudaginn 4. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-24/2014:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 9. október 2014 kærðu kærendur ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 26. september 2014. Í ákvörðuninni var hafnað kröfu kærenda um að krafa LÍN á hendur þeim yrði felld niður. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. október 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust 19. nóvember 2014 og var afrit þeirra sent kærendum og þeim gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum sem bárust nefndinni með bréfi dagsettu 21. desember 2014.
Málsatvik og ágreiningsefni
Skuldari tók námslán hjá LÍN og hóf endurgreiðslu þeirra í
september 1989. Hann greiddi af lánunum þar til í mars 2004 en hefur ekki greitt
af þeim síðan. Þann 18. ágúst 2005 höfðaði LÍN mál á hendur skuldara og
ábyrgðarmönnum á námslánum hans. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur
21. desember 2005 og voru stefndu dæmd til að greiða kröfuna. Skuldari er með
tvö skuldabréf hjá LÍN, annars vegar nr. S-xxx og hins vegar nr. S-xxx.
S-skuldabréf hétu áður T-skuldabréf hjá LÍN en á þeim tíma sem T-lán voru veitt
var útbúið nýtt skuldabréf fyrir hverja útborgun úr sjóðnum. Seinna voru öll
T-skuldabréf sameinuð undir einu S-skuldabréfi og var ábyrgð S-skuldabréfsins þá
skipt hlutfallslega niður á þá ábyrgðarmenn sem höfðu gengist í ábyrgð fyrir
T-láninu í réttu hlutfalli við þá fjárhæð sem viðkomandi ábyrgðarmaður gekkst í
ábyrgð fyrir. A var í sjálfskuldarábyrgð á þremur skuldabréfum skuldara og var
hún dæmd til að greiða 1.218.119 krónur með fyrrnefndum héraðsdómi. A lést þann
11. september 2007 og var erfingjum hennar veitt leyfi til einkaskipta á
dánarbúinu þann 15. febrúar 2008 og lauk skiptum sama dag. Þann 5. september
2014 barst erindi til stjórnar LÍN frá kærendum (erfingjum A) þar sem farið var
fram á að ábyrgð þeirra vegna námslána skuldara yrði fell niður. Erindinu var
synjað af LÍN þann 26. september 2014. Kærendur krefjast þess að ákvörðun LÍN
verði ógilt og að málskotsnefndin staðfesti með úrskurði sínum að
sjálfskuldarábyrgð kærenda sé fallin brott. Þá krefjast kærendur þess að LÍN
verði gert að greiða kærendum lögmannskostnað vegna málsins að mati
málskotsnefndar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Sjónarmið
kærenda
Kærendur byggja í fyrsta lagi á því að krafa LÍN sé fyrnd.
Upphafleg sjálfskuldarábyrgð A vegna umræddra námslána hafi verið stofnuð með
undirritun á tilgreind skuldabréf vegna námslána á árinu 1985. Þann 21. desember
2005 hafi dómur fallið vegna ábyrgðanna þar sem krafa LÍN á hendur A hafi verið
viðurkennd. Kærendur telja það óumdeilt að kröfur LÍN á hendur A hafi stofnast í
tíð eldri fyrningarlaga nr. 14/1905, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2007. Kærendur
benda á að samkvæmt 4. gr. eldri fyrningarlaga nr. 14/1905 fyrnast kröfur á
grundvelli ábyrgðarskuldbindinga á 4 árum. Benda kærendur á að skipti á dánarbúi
A hafi hafist þann 15. febrúar 2008 og lokið sama dag. Þá fyrst hafi kærendur
getað tekist á herðar sjálfskuldarábyrgð á kröfu LÍN og teljist upphafstími
fyrningarfrests frá þeim degi. Kærendur benda á að frá þeim tíma hafi krafa LÍN
hvorki verið viðurkennd né hafi verið greitt inn á kröfuna af þeirra hálfu.
Fyrningu kröfunnar hafi því aldrei verið slitið í skilningi 6. gr. laga nr.
14/1905. Kærendur benda á að hinn kærði úrskurður byggi á því að við lok
einkaskipta hafi kærendur fengið stöðu dómþola, en ekki ábyrgðarmanna og af þeim
sökum fyrnist krafan á hendur þeim á 10 árum. Þessu sé hafnað af hálfu kærenda
og á það bent að þeir séu ekki dómþolar og að stöðu þeirra verði ekki jafnað við
stöðu dómþola gagnvart kröfu LÍN. Í öðru lagi byggja kærendur á því að sökum
verulegs tómlætis og vanrækslu af hálfu LÍN um að uppfylla kröfur laga nr.
32/2009 um ábyrgðarmenn séu hugsanlegar kröfur á hendur þeim niður fallnar.
Kærendur benda á að í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 sé sérstaklega tekið fram
að lánveitingar LÍN, og ábyrgðir vegna þeirra, falli undir gildissvið laganna. Í
2. mgr. 2. gr. sé kveðið á um að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem
hafi gengið persónulega í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Í ljósi þessa
verði að líta svo á að með einkaskiptunum hafi kærendur tekist á hendur
persónulega ábyrgð á kröfu sjóðsins í skilningi 2. mgr. 2. gr. laganna, sbr. 97.
gr. laga nr. 20/1991. Kærendur telja með vísan til laga nr. 32/2009 að krafa LÍN
sé ekki lengur til staðar þar sem LÍN hafi ekki sinnt tilkynningaskyldu sinni
samkvæmt 7. gr. laganna og hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti og vanrækslu,
sem leiði til niðurfellingar ábyrgðar samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Kærendur
benda á að tilefni hafi verið fyrir LÍN strax í febrúar 2008 að tilkynna
kærendum um vanskil kröfunnar. Engin slík tilkynning hafi verði send og þá hafi
kærendum aldrei verið sent yfirlit frá LÍN um stöðu þeirra krafna sem LÍN krefst
greiðslu á frá kærendum. LÍN hafi þrátt fyrir lagalegar skyldur um að tilkynna
ábyrgðarmönnum um tilvist krafna, vanskil þeirra o.fl., engan reka gert að því
að gera kærendum grein fyrir tilvist kröfunnar fyrr en 6 árum og 5 mánuðum eftir
að einkaskiptum hafi lokið. Þá fyrst var kærendum send tilkynning um vanskil og
þeir krafðir um greiðslu. LÍN hafi með þessu sýnt af sér verulegt tómlæti og
vanrækslu. Þá hafi LÍN einnig vanrækt að fylgja eigin reglum varðandi
tilkynningar til ábyrgðarmanna, sbr. það sem fram kemur á heimasíðu LÍN.
Kærendur benda einnig á að það sé lánveitandi sem beri sönnunarbyrði fyrir því
að tilkynningaskyldu hafi verið gætt enda standi það honum nær en ábyrgðarmanni.
Þá segi í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus
af vanrækslu lánveitanda á tilkynningaskyldu og ef vanræksla sé veruleg skuli
ábyrgð falla niður. Kærendur telja að LÍN hafi ekki sýnt fram á að gætt hafi
verið að ákvæðum a, c, eða d liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og að
vanræksla sjóðsins í þessum efnum sé veruleg. Af þeim sökum verði að líta svo á
að umrædd sjálfskuldarábyrgð kærenda sé niður fallin niður samkvæmt 2. mgr. 7.
gr. laga nr. 32/2009, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og
ógilda löggerninga. Í þriðja lagi telja kærendur að staða erfingja ábyrgðarmanna
geti ekki verið verri en staða erfingja skuldara sem andast áður en lán hafi að
fullu verið endurgreitt. Byggja kærendur á því að lögjafna skuli í þeirra
tilviki frá 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992. Samkvæmt því ákvæði falli
endurgreiðslur, sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast, sjálfkrafa niður.
Með sams konar hætti eigi endurgreiðslukrafa LÍN á hendur ábyrgðarmönnum sem
andast einnig að falla sjálfkrafa niður. Í fjórða lagi byggja kærendur kröfu
sína á því að á þeim tíma er umrædd skipti á dánarbúinu hafi átt sér stað hafi
verið í gildi áralöng stjórnsýsluframkvæmd hjá LÍN um að þegar dánarbúi væri
skipt einkaskiptum væri ekki gengið að erfingjum, þrátt fyrir að krafa væri í
eða kæmist í vanskil síðar. Kærendur telja að það hafi fyrst verið í byrjun árs
2012 að stjórn LÍN hafi ákveðið að breyta þessari áralöngu og venjuhelguðu
stjórnsýsluframkvæmd og hafi í framhaldinu hafið innheimtu krafna fjögur ár
aftur í tímann á hendur erfingjum sem fengið höfðu leyfi til einkaskipta á
dánarbúi ábyrgðarmanns. Kærendur telja að LÍN hafi ákveðið í máli þessu að
breyta stjórnsýsluframkvæmd með afturvirkum hætti. Ákvörðunin hafi ekki verið
tekin með formlegum hætti og hafi ekki verið kynnt opinberlega af hálfu LÍN, en
þó megi ráða af henni að ekki þótti ástæða til að fara lengra aftur en fjögur ár
enda sá tími fyrningarfrestur krafna sem stofnað hafi verið til í tíð eldri
fyrningarlaga. Kærendur benda á að það sé ein af grundvallarreglum
réttarríkisins að íþyngjandi reglum verði ekki beitt afturvirkt. Í fimmta lagi
gera kærendur kröfu um lögmannskostnað og telja að það leiði af eðli máls að
ólögmætar kröfur LÍN á hendur þeim og kröfur sjóðsins um innheimtu þeirra hafa
neytt kærendur til að grípa til varna. Þær varnir hafa leitt til tjóns fyrir þá
í formi fjárhagslegra útgjalda vegna aðstoðar lögmanns.
Sjónarmið
stjórnar LÍN
Af hálfu stjórnar LÍN er ekki fallist á það með
kærendum að krafa sjóðsins sé fyrnd. Um sé að ræða kröfu samkvæmt dómi sem
fyrnist á 10 árum, sbr. 1. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905. Krafa hafi verið
staðfest með dómi þann 21. desember 2005 og því hafi hún ekki fyrnst fyrr en 21.
desember 2015. Mótmælir LÍN þeirri túlkun kærenda að 4 ára fyrningarfrestur eigi
við um kröfuna. LÍN bendir á að kærendur telja að ábyrgð þeirra á kröfu LÍN sé
niður fallin á grundvelli vanrækslu á tilkynningaskyldu sbr. 7. gr. laga nr.
32/2009 um ábyrgðarmenn og bera því við að LÍN hafi vanrækt tilkynningaskyldu þá
er tilgreind sé í a-, c- og d-lið 1. mgr. 7. gr. laganna. LÍN mótmælir því að
hafa vanrækt tilkynningaskyldu samkvæmt a og c-lið. Ábyrgðarmenn hafi verið
látnir vita af vanskilum lántaka þegar þau áttu sér fyrst stað og ítrekað í
framhaldinu af því. Hafi síðan dómur gengið gegn aðalskuldara og ábyrgðarmönnum
þann 21. desember 2005. LÍN telur heldur ekki að c-liður ákvæðisins eigi við þar
sem lántaki hafi hvorki verið úrskurðaður gjaldþrota né fallið frá. Þótt fallast
beri á að LÍN hafi ekki fyllilega uppfyllt tilkynningaskyldu sína, sem tilgreind
sé í d-lið ákvæðisins, verði að hafa í huga að engar tilkynningar séu sendar til
kröfuhafa, þ.e. LÍN, þegar dánarbúi sé lokið með einkaskiptum. Eina leið
kröfuhafa til að staðreyna hvort að dánarbúi hafi verið lokið með einkaskiptum
sé að senda fyrirspurn til viðeigandi sýslumannsembættis um framvindu skipta. Ef
dánarbúi hafi ekki verið skipt þurfi að endurtaka fyrirspurnina aftur síðar. LÍN
mótmælir því jafnframt að vanræksla á tilkynningaskyldu hafi verið þannig háttað
að eðlilegt geti talist að ábyrgðin falli niður. Af orðalagi 2. mgr. 7. gr. laga
nr. 32/2009 megi greina að tilgangur ákvæðisins sé að ábyrgðarmaður skuli vera
skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningaskyldu. Beri að horfa til þess
sjónarmiðs þegar metið sé hvort vanræksla lánveitanda teljist veruleg í
skilningi ákvæðisins og myndi það þá teljast veruleg vanræksla ef sýnt þætti að
vanrækslan hafi orðið ábyrgðarmanni að svo verulegu tjóni að bersýnilega
ósanngjarnt teldist að halda ábyrgðinni til streitu. Slíkar aðstæður séu ekki
til staðar í máli kærenda, enda hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að
staða málsins væri öðruvísi háttað ef tilkynningaskylda samkvæmt d-lið 1. mgr.
7. gr. laga nr. 32/2009 hefði verið uppfyllt. LÍN hafnar því að lögjafna beri út
frá 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 þannig að ábyrgðir falli niður við andlát
ábyrgðarmanns. Einnig hafnar LÍN því að með því að innheimta ábyrgð af umræddri
kröfu sé verið að breyta stjórnsýsluframkvæmd afturvirkt sem hafi þurft að kynna
sérstaklega. LÍN mótmælir því að verklagsregla hafi verið við lýði þess efnis að
ekki væri innheimt á ábyrgðarmenn. LÍN hafi aldrei gefið út slíka verklagsreglu
eða tilkynnt með nokkrum hætti að ekki yrði innheimt hjá dánarbúum
ábyrgðarmanna. Sú staðreynd að LÍN hafi ekki nýtt rétt sinn til að innheimta
námslán hjá erfingjum látinna ábyrgðarmanna í einhverjum tilvikum áður hafi ekki
sjálfkrafa þá þýðingu að LÍN glati réttinum til að gera það síðar. Þá mótmælir
LÍN kröfu kærenda um greiðslu lögmannskostnaðar og bendir á að ekki sé hefð
fyrir því að greiddur sé lögmannskostnaður vegna mála sem rekin séu fyrir
kærunefndum innan stjórnsýslunnar nema ef sérstök lagaheimild sé fyrir því. Enga
heimild sé að finna í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna um
greiðslu lögmannskostnaðar.
Niðurstaða
Í málinu liggur fyrir að skuldari tók námslán hjá LÍN og hóf
endurgreiðslu þeirra í september 1989. Lánin fóru í vanskil á árinu 2004 og
höfðaði LÍN mál á hendur honum og ábyrgðarmönnum á námslánum hans, þ.m.t A.
Dómur féll í málinu þann 21. desember 2005 og var A dæmd til að greiða hluta
kröfunnar eða 1.218.119 krónur. A lést þann 11. september 2007 og fengu
erfingjar hennar leyfi til einkaskipta á dánarbúinu þann 15. febrúar 2008 og
luku þau skiptum þann sama dag. Krafa LÍN byggir á dómi sem féll í gildistíð
eldri fyrningarlaga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
Óumdeilt er að fyrningartími dómsins er 10 ár og skiptir þá ekki máli hvort
litið er til eldri eða núgildandi fyrningarlaga nr. 150/2007 um fyrningu
kröfuréttinda. Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2007 tóku lögin gildi 1. janúar
2008 og gilda um þær kröfur sem stofnast eftir gildistöku laganna. Í 7. gr. laga
nr. 150/2007 segir:
Nú er krafa tryggð með ábyrgð eða annarri
sambærilegri tryggingu og reiknast þá fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni
eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna. Engu breytir við útreikning
fyrningarfrests þótt ekki sé unnt að krefjast fullnustu hjá ábyrgðarmanni fyrr
en greiðslu hefur árangurslaust verið leitað hjá aðalskuldara eða að ábyrgðin er
að öðru leyti þess eðlis að hún sé til vara.
Í athugasemdum við
lagafrumvarp það sem varð að lögum nr. 150/2007 segir m.a um 7. gr:
Frumvarpið hefur að geyma sérreglur um fyrningu ábyrgðarskuldbindinga
en lagt er til að þeim reglum verði hagað nokkuð með öðru móti en samkvæmt
gildandi fyrningarlögum. Lagt er til að undir ákvæðið falli allar tegundir
ábyrgða, þar með talið sjálfskuldarábyrgð og einföld ábyrgð. Einnig er gert ráð
fyrir því að undir ákvæðið falli tilvik þar sem krafa hefur verið framseld með
skaðlausu framsali, þ.e. þegar krafa er framseld með ábyrgð framseljanda á
greiðslu kröfunnar. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að
ábyrgðarskuldbindingar geti fyrnst með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða
sjálfstæða fyrningu ábyrgðarkröfu og er um hana rætt í þessari grein. Hins vegar
getur fyrning ábyrgðar átt sér stað samhliða fyrningu aðalkröfu skv. 2. mgr. 25.
gr. frumvarpsins. Samkvæmt 4. tölul. 3. gr. gildandi fyrningarlaga er
fyrningarfrestur ábyrgðarskuldbindinga fjögur ár óháð því hver fyrningarfrestur
aðalkröfunnar er. Skv. 2. mgr. 5. gr. sömu laga gilda sérreglur um ábyrgð á
kröfum, sem fyrnast á tíu eða tuttugu árum. Ef gjalddagi slíkra krafna fer eftir
uppsögn af hálfu kröfuhafa byrjar fyrningarfrestur ábyrgðar á þeim aðeins að
líða þegar uppsögn hefur í raun og veru farið fram. Jafnframt er kveðið á um að
ábyrgðarkrafan fyrnist eftir sömu reglum og aðalkrafan, þ.e. á tíu eða tuttugu
árum frá þeim degi er hún hefði fyrst getað orðið gjaldkræf vegna uppsagnar á
aðalkröfunni. Er því um að ræða tvöfaldan fyrningarfrest að gildandi rétti. Eins
og orðalag 7. gr. frumvarpsins ber með sér er hér í fyrsta lagi lagt til að
fyrningarfrestur ábyrgðarskuldbindingar verði sá sami og aðalkröfunnar. Ef
aðalkrafa fyrnist til dæmis á 10 árum gildir það sama um ábyrgðarskuldbindingu
vegna hennar. Í öðru lagi felur ákvæðið í sér að upphaf fyrningarfrests er
ákveðið eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna. Jafnframt leiðir af ákvæðum
2. mgr. 25. gr. frumvarpsins að ábyrgðarskuldbinding fyrnist hvað sem öðru líður
samtímis aðalkröfu ef kröfuhafi hefur ekki látið reyna á ábyrgðina áður. Er það
í samræmi við óskráðar reglur um ábyrgðir en samkvæmt þeim fellur ábyrgð niður
við fyrningu aðalkröfu. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er lagt til að
reglurnar um fyrningu ábyrgðarkrafna verði einfaldaðar og er ekki gert ráð fyrir
að lengur verði um að ræða að fyrningarfrestur ábyrgðarkröfu og aðalkröfu geti
verið misjafn. Kröfuhafi verður hins vegar eins og áður að gæta að því sjálfur
að kröfur á hendur aðalskuldara og ábyrgðarmanni fyrnist ekki.
Samkvæmt lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. tekur dánarbú
látins manns við öllum fjárhagslegum réttindum sem hinn látni átti við andlát
sitt og dánarbúið tekur einnig við öllum fjárhagslegum skyldum sem hvíldu á þeim
látna þegar hann lést. Dánarbú nýtur þannig hæfis til að eiga og öðlast réttindi
og hæfi þess til að bera og baka sér skyldur og helst það þar til skiptum þess
lýkur. Dánarbúið telst þannig sjálfstæður lögaðili á meðan á skiptum stendur.
Erfingjar dánarbús geta sótt um leyfi til einkaskipta til þess sýslumanns sem
fer með forræði búsins eftir andlát. Samkvæmt 5. tl. 28. gr. laga nr. 20/1990 er
eitt skilyrða þess að fá leyfi til einkaskipta "að erfingjar hafi tekið að
sér sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum
skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiða af skiptunum eða
arftöku". Í 97. gr. sömu laga er svo kveðið á um að þessi ábyrgð standi ekki
aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra. Í ákvæðinu
segir að "eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og
allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim
var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið". Í athugasemdum við
lagafrumvarp það sem varð að lögum nr. 20/1990 segir um 97. gr:
Samkvæmt 5. tölul. 28. gr. er eitt af skilyrðunum fyrir veitingu
leyfis til einkaskipta að erfingjar lýsi yfir að þeir taki að sér
sjálfskuldarábyrgð in solidum á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á
dánarbúinu án fyrirvara um það eða tillits til þess hvort þeim sé kunnugt um
tilvist skuldbindinganna. Til að taka af öll tvímæli um að þessi ábyrgð standi
ekki aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra er
aftur kveðið á um þessa ábyrgð í 97. gr. og þá með þeim hætti að hún nái til
skuldbindinga sem enn væru við lýði eftir lok einkaskipta.
Kærendur
fengu leyfi til einkaskipta og luku skiptum á dánarbúinu þann 15. febrúar 2008.
Með því tóku kærendur á sig sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir
einn, á öllum skuldbindingum sem hvíldu á dánarbúinu. Ábyrgðin sem kærendur tóku
á sig með þessum hætti fól í sér skilyrðislaust þriðjamanns loforð til allra
þeirra sem áttu kröfu á hendur dánarbúinu. Um fyrningu sjálfskuldarábyrgðar
kærenda eiga núgildandi fyrningarlög nr. 150/2007 við þar sem kærendur tóku á
sig ábyrgðina eftir gildistöku laganna. Samkvæmt 7. gr. laganna reiknast
fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglum og gilda um
aðalkröfuna. Í þessu máli byggir aðalkrafan á dómi héraðsdóms sem kveðinn var
upp 21. desember 2005 og varð krafan þá gjaldkræf gagnvart dómþolum og er
fyrningarfrestur hennar 10 ár. Fyrningarfrestur kröfunnar og
sjálfskuldarábyrgðar kærenda er því til 21. desember 2015. Kærendur byggja á því
að sökum verulegs tómlætis og vanrækslu af hálfu LÍN um að uppfylla kröfur laga
nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn séu hugsanlegar kröfur á hendur þeim niður fallnar.
Lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 tóku gildi 4. apríl 2009 og taka þau til ábyrgða
sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra að frátöldum 4. gr., 5. gr.,
1. mgr. 6. gr. og 8. gr. laganna. Lögin gilda um lánveitingar stofnana og
fyrirtækja, þ.m.t LÍN, þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar
efndum lántaka. Fjallað er um réttarsamband lánveitanda og ábyrgðarmanns í 7.
gr. laganna. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að lánveitandi skal senda
ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur er vegna ákveðinna
atriða sem tilgreind eru í ákvæðinu. Þá segir í 2. mgr. að ábyrgðarmaður skal
vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef
vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Málskotsnefnd telur að
tilkynningarskylda samkvæmt a, b og c lið 7. gr. laga nr. 32/2009 eigi ekki við
gagnvart kærendum. Krafa LÍN byggir á dómi sem féll í desember 2005 eins og áður
hefur verið rakið. Við dómsuppkvaðningu varð krafan gjaldkræf gagnvart dómhöfum
og var því gjaldkræf þegar á þeim tíma þegar kærendur fengu leyfi til
einkaskipta í febrúar 2008 og gengust með því í sjálfskuldarábyrgð fyrir öllum
kröfum og skuldbindingum hinnar látnu þ.m.t. umræddri kröfu LÍN. Samkvæmt d-lið
1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega
tilkynningu eftir hver áramót um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og senda
honum jafnframt yfirlit yfir ábyrgðir. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð með
frumvarpi til laga um ábyrgðarmenn er meginsjónarmiðið að baki ákvæðinu að
lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geta haft á
forsendur ábyrgðar, ábyrgðarmanni í óhag. Er ákvæðinu ætlað að tryggja að
ábyrgðarmaður eigi þess alltaf kost að grípa inn í aðstæður og greiða
gjaldfallna afborgun eins og hún stendur á gjalddaga. Í þessu máli reynir á
hvort vanræksla LÍN, á því að senda kærendum skriflega tilkynningu eftir hver
áramót frá gildistöku laga nr. 32/2009 með upplýsingum um stöðu lánsins sem
ábyrgð stendur fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir hjá sjóðnum, eigi að leiða til
þess að ábyrgð kærenda falli niður. Í málinu liggja ekki fyrir nein afrit af
tilkynningum frá LÍN til kærenda sem ábyrgðarmanna í samræmi við fyrirmæli d.
liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Virðist það fyrst vera með innheimtubréfi
innheimtufyrirtækis LÍN, dagsettu 28. júlí 2014, sem kærendum er send tilkynning
um skuld þeirra við sjóðinn á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar þeirra á skuldum
dánarbús A. Þar sem LÍN, sem lánveitandi, hefur sönnunarbyrði fyrir því að
tilkynningarskyldu hafi verið gætt gagnvart ábyrgðarmönnum, verður að líta svo á
að ósannað sé að LÍN hafi sent kærendum lögboðna tilkynningu um stöðu skuldar og
um ábyrgð þeirra á umræddri kröfu LÍN fyrr en með fyrrgreindu innheimtubréfi
innheimtufyrirtækisins. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal
ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv.
1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Með hliðsjón af
aðstæðum í málinu og þess að ekkert bendir til þess að staða málsins gagnvart
kærendum væri öðruvísi háttað þó að tilkynningaskyldunnar hefði verið gætt telur
málskotsnefnd ekki hægt að fallast á það með kærendum að um verulega vanrækslu á
tilkynningarskyldu hafi verið að ræða sem eigi að leiða til þess að ábyrgð
kærenda eigi að falla niður. Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 segir að
ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum
innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær
vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða
gjaldfallnar afborganir lánsins. Í innheimtubréfi frá 28. júlí 2014 kemur fram
að höfuðstóll kröfunnar sé 1.218.119 krónur en með áföllnum kostnaði sé krafan á
hendur ábyrgðarmönnum orðin samtals 2.381.857 krónur. Kærendur brugðust við
innheimtubréfinu og sendu LÍN bréf, dagsett 5. september 2014, þar sem farið var
fram á niðurfellingu ábyrgðarinnar. LÍN synjaði beiðninni með hinni kærðu
ákvörðun. Að mati málskotsnefndar er það fyrst eftir móttöku bréfsins, dagsettu
27. júlí 2014, sem kærendum var sannanlega gefinn kostur á að greiða skuld
hinnar látnu við LÍN og ber útreikningur kröfunnar að taka mið af því. Kærendur
byggja einnig á því að staða erfingja ábyrgðarmanna geti ekki verið verri en
staða erfingja skuldara sem andast áður en lán hafi að fullu verið endurgreitt.
Byggja kærendur á því að lögjafna eigi frá 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 en
samkvæmt því ákvæði falla endurgreiðslur, sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi
andast, sjálfkrafa niður. Með sams konar hætti eigi endurgreiðslukrafa LÍN á
hendur ábyrgðarmönnum sem andast einnig að falla sjálfkrafa niður. Lögjöfnun
kemur til greina þegar aðrar réttarheimildir þrýtur og er reist á því sjónarmiði
að um tilvik sem eigi efnislega samstöðu skuli fara eftir sams konar
réttarreglum. Málskotsnefnd fellst ekki á að það eigi við hér og vísar um það
m.a. til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4994/2013 þar sem sambærilegri
málsástæðu ábyrgðarmanna um lögjöfnun var hafnað. Þá byggja kærendur einnig á
því að á þeim tíma er umrædd skipti á dánarbúinu hafi átt sér stað hafi verið í
gildi áralöng stjórnsýsluframkvæmd hjá LÍN um að þegar dánarbúi væri skipt
einkaskiptum væri ekki gengið að erfingjum, þrátt fyrir að krafa væri í eða
kæmist í vanskil síðar. Málskotsnefnd fellst heldur ekki það og vísar til
fyrrnefnds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4994/2013 þar sem ekki var
fallist á sambærilega málsástæðu ábyrgðarmanna um að LÍN hafi með ólögmætum
hætti breytt áralangri og venjuhelgaðri stjórnsýsluframkvæmd við innheimtu
ábyrgðarskuldbindinga. Kærendur gera kröfu um að LÍN verði úrskurðað til að
greiða lögmannskostnað þeirra í málinu. Málskotsnefnd bendir á að engin
lagaheimild sé fyrir hendi í þeim lögum eða reglum sem um LÍN gilda um greiðslu
lögmannskostnaðar og er því kröfunni hafnað. Með vísan til framanritaðs er hin
kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 26. september 2014 staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kærenda frá 26. september 2014 er staðfest.