Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-25/2014 - Umsóknarfrestur og útborgun Námsárangur barst eftir skilafrest

Úrskurður

 

Ár 2015, miðvikudaginn 4. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-25/2014:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 13. október 2014 kærði kærandi ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) dagsettar 18. júní og 24. september 2014 um að synja honum um greiðslu námsláns vegna náms sem hann stundaði á vormisseri 2013 sökum þess að upplýsingar um námsárangur hafi ekki borist innan þeirra tímamarka sem sett voru í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2012-2013. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. október 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni með bréfi dagsettur 19. nóvember 2014. Með bréfi dagsettu 24. nóvember 2014 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN og bárust þær í bréfi dagsettu 19. desember 2014. Málskotsnefnd sendi athugasemdir kæranda til LÍN sama dag.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við Háskólann á Akureyri (HA) námsárið 2012-2013. Sem hluta af náminu stundaði hann skiptinám í háskóla í Sviss á vorönn 2013 og lauk þar 6 eininga áfanga. Kærandi fékk vottorð skólans í Sviss dagsett 9. september 2013 um að hann hefði staðist umræddan áfanga og sendi með tölvupósti til HA þann 2. janúar 2014. Í tölvupósti kæranda sem fjallaði um mat á einingum vegna náms hans við HA var áfanginn sem hann tók í Sviss tilgreindur sem ÞJÓ2106. Í umræddu vottorði skólans í Sviss kemur fram að kærandi hafi lokið áfanganum á vorönn 2013. Þann 27. febrúar 2014 sendi kærandi tölvupóst til LÍN þar sem hann innti eftir því hvenær greiðsla myndi berast vegna vorláns. Kærandi spurði ennfremur hvort hann ætti eftir að koma upplýsingum til LÍN varðandi áfangana. Í svarpósti LÍN til kæranda þann 4. mars 2014 upplýsti sjóðurinn um stöðuna vegna haustláns og að sjóðinum hefði borist yfirlit um námsárangur fyrir 12 einingar á haustönn 2013. Í kjölfarið hafði kærandi samband við LÍN og fór þess á leit að tekið yrði tillit til aðstæðna hans og honum veitt námslán þó að upplýsingar um námsárangur hafi borist of seint. Hefði kærandi talið að námsárangur myndi berast sjálfkrafa frá HA eins og hann hefði alltaf gert. LÍN óskaði upplýsinga frá HA um hvenær umræddar einingar hafi verið metnar inn á vormisseri. Í svarpósti skólans segir að kærandi hafi sent beiðni og pappíra frá Sviss þann 2. janúar 2014 og að matið hafi farið í gegn næstu daga á eftir. Segir í tölvupóstinum að HA hafi metið einingarnar frá Sviss inn hjá kæranda á vormisseri 2013. Stjórn LÍN tók ákvörðun í máli kæranda 18. júní 2014 þar sem erindi hans um afgreiðslu námsláns vegna vorannar námsársins 2012-2013 var hafnað. Í niðurstöðunum er vísað til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2012-2013 komi fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2014 en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Segir í ákvörðun stjórnar LÍN að samkvæmt upplýsingum frá HA hafi einingarnar ekki verið metnar fyrr en kærandi hafði samband við skólann í byrjun apríl enda hefðu engar frekari skýringar eða upplýsingar fylgt einkunnablaði hans. Með hliðsjón af þessu hafi verið ljóst að einingar vegna námsársins hefðu ekki verið metnar inn í nám kæranda fyrr en frestur til að skila gögnum hafi verið liðinn. Taldi stjórn LÍN enga heimild að finna í reglum LÍN til að verða við erindi kæranda og synjaði því. Með bréfi dagsettu 4. september 2014 fór kærandi þess á leit að mál hans yrði tekið fyrir að nýju hjá stjórn LÍN þar sem ákvörðun hennar hefði byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Lagði kærandi fram tölvupóst frá HA um að kærandi hefði sent HA staðfestingu á loknum einingum í umræddu námskeiði þegar þann 2. janúar 2014. Einnig benti kærandi á að af fyrirliggjandi gögnum hefði mátt ráða að HA hefði fært einingarnar ranglega inn á haustönn 2013 í stað vorannar 2013. Hefðu kæranda ekki verið ljós þessi mistök fyrr en í apríl 2014 enda hafi hann staðið í þeirri trú að einingarnar hefðu verið færðar réttilega inn í námsferil hans og réttum upplýsingum komið til LÍN. Því hafi það ekki verið rétt sem fram kæmi í niðurstöðu stjórnar LÍN að ástæða þess að einingarnar hefðu ekki verið færðar inn í námsferilinn hafi verið að engar skýringar hafi fylgt einkunnablaði hans til skólans. Stjórn LÍN tók mál kæranda aftur fyrir þann 24. september 2014 og synjaði beiðni hans um endurupptöku þar sem ekki væru uppfyllt skilyrði endurupptöku, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísaði stjórnin til þess að þau gögn um tölvupóstsamskipti sem kærandi hafði lagt fram með beiðni sinni hefðu legið fyrir þegar fyrri ákvörðun stjórnar var tekin í máli hans. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi vísar til þess í kæru sinni að hann hafi réttilega upplýst skólayfirvöld HA um námsframvindu sína erlendis með tölvupósti 2. janúar 2014. Af fyrirliggjandi gögnum verði hins vegar ráðið að það hafi verið handvömm skrifstofu HA að færa einingarnar ekki réttilega inn á vorönn 2013 heldur haustönn það ár. Mistökin hafi ekki verið kæranda ljós fyrr en í apríl 2014 enda hafi hann staðið í þeirri trú að einingarnar hefðu verið réttilega færðar inn hjá skólanum. Það sé því ekki rétt sem komið hafi fram hjá stjórn LÍN að einingarnar hafi ekki verið metnar inn í námsferilinn þar sem engar skýringar eða upplýsingar hafi fylgt einkunnablaði hans til skólans. Kærandi telur ljóst að hann hafi skilað réttum upplýsingum til skólans innan þeirra tímamarka er koma fram í úthlutunarreglum námsársins 2012-2013 og hafi verið í góðri trú um að þær upplýsingar hafi borist til LÍN í tæka tíð. Hann hafi því uppfyllt upplýsingaskyldu sína gagnvart LÍN samkvæmt 6. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna og grein 5.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2012-2013. Telur kærandi að taka eigi tillit til aðstæðna hans í málinu og unir ekki þeirri niðurstöðu að honum verði neitað um útgreiðslu námslána fyrir vor misseri 2013 vegna mistaka skólayfirvalda. Í athugasemdum sínum við athugasemdir stjórnar LÍN mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu stjórnar LÍN að prófvottorð hafi verið á þýsku. Vottorðið hafi verið bæði á ensku og þýsku og þær upplýsingar er mestu máli skipti, þ.e. á hvaða önn áfanginn var tekinn, komi fram á vottorðinu á ensku. Þá mótmælir kærandi þeirri fullyrðingu stjórnar LÍN að tölvupóstur meðfylgjandi prófvottorði hafi verið auður. Umræddur tölvupóstur hafi verið hluti af samskiptum milli kæranda og HA þar sem þessir aðilar ræddu um hvaða einingum kærandi hefði lokið. Þá mótmælir kærandi þeim rökum stjórnar LÍN að þar sem vottorðið hafi verið dagsett 9. september 2013 hafi honum borið að senda það fyrr. Bendir kærandi á að frestur til að skila námsárangri til LÍN fyrir viðkomandi önn hafi verið til 15. janúar 2014. Hafi kærandi staðið í þeirri trú að námsárangur hans yrði sendur með námsárangri annarra nemenda til LÍN fyrir tilskilinn frest í janúar 2014. Bendir kærandi á að í tölvupósti HA komi fram að einingarnar hafi verið metnar hjá HA í kjölfar þess að kærandi sendi upplýsingarnar til skólans þann 2. janúar 2014. Það geti ekki staðist að kæranda hafi borið að skila prófvottorði til HA fyrr og óska sérstaklega eftir því að upplýsingar um námsframvindu hans yrðu sendar til LÍN. Þá bendir kærandi á að eins og fram komi í athugasemdum stjórnar LÍN sé námsárangur sendur í tölvukeyrslu frá háskólum landsins til LÍN. Samkvæmt því sé ljóst að meginreglan sé sú að háskólar sjái um að senda upplýsingar um námsframvindu án aðkomu nemendanna sjálfra. Þannig geri nemendur almennt ráð fyrir að upplýsingar um námsárangur séu sendar fyrir þá og að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þeim sé ekki skilað. Í tilfelli kæranda hafi honum borið að senda upplýsingarnar til HA til að fá þær metnar inn í námsárangur sinn þar. Hafi hann því verið í góðri trú um að þessar upplýsingar yrðu sendar ásamt öðrum upplýsingum til LÍN við lok misseris. Þá telur kærandi ljóst að HA hafi gert mistök sem leiddu til þess að upplýsingar um námsárangur hans hafi ekki boristLÍN líkt og aðrar einingar hans við skólann. Þá sé rangt með farið hjá stjórn LÍN að kærandi hafi ekki haft samband við LÍN fyrr en í apríl 2014 til að inna eftir útborgun. Hið rétta sé að kærandi hafi sent tölvupóst til LÍN 27. febrúar 2014 líkt og gögn málsins beri með sér. Þegar kæranda hafi orðið mistökin ljós hafi hann hafist handa við að leiðrétta mistökin og sjá til þess að LÍN fengi réttar upplýsingar í hendur. Að öllu þessu virtu telur kærandi ljóst að ástæða þess að LÍN hafi ekki fengið upplýsingar um námsárangur innan tilskilins frests hafi verið mistök af hálfu HA. þá að það sé Að mati kæranda er það meginregla að háskólar sendi upplýsingar um námsárangur til LÍN. Þó svo að einingarnar hafi verið teknar við háskóla í Sviss hafi kærandi stundað nám við HA og hafi honum borið að skila gögnum um einingarnar þangað. Væri þar af leiðandi eðilegt að HA sendi þær upplýsingar til LÍN líkt og almennt sé gert. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafði samband við sjóðinn 19. nóvember 2013 til að inna eftir því hvort einingar vegna upptökuprófs vegna vorannar 2013 yrðu skráðar á þá önn. Hafi LÍN svarað honum að ef skólinn skráði einingarnar á vorönn myndi LÍN einnig gera það. Var kærandi upplýstur í tölvupóstinum að námsárinu væri lokað þann 15. janúar 2014 og að eftir það væri ekki tekið við frekari upplýsingum. Kærandi hafi sent tölvupóst til HA með afriti af prófvottorði á þýsku frá háskóla í Sviss. Engar upplýsingar hafi hins vegar fylgt prófvottorðinu heldur hafi verið um að ræða auðan tölvupóst með prófvottorði í viðhengi. Hafi HA móttekið póstinn og metið áfangann til eininga en ekki hafi tekist að staðfesta hvenær það hafi verið. Hafi HA metið árangurinn til eininga á haustönn en ekki vorönn. Námsárangur frá háskólum á Íslandi þar á meðal HA hafi verið keyrður inn í tölvukerfi LÍN í janúar 2014. Í þeirri tölvukeyrslu hafi umræddur námsárangur ekki verið, hvorki sem einingar skráðar á vorönn né haustönn 2013. Kærandi hafi haft samband við LÍN í apríl til að grennslast fyrir um útborgun lánsins og þá verið tjáð að búið væri að loka námsárinu og að ekki væri tekið við gögnum sem hefðu borist eftir 15. janúar 2014. Hafi kærandi þá haft samband við HA til að fá skráninguna leiðrétta og í kjölfarið sent réttar upplýsingar til LÍN. Hafi honum þá aftur verið tjáð að búið væri að loka námsárinu. Stjórn LÍN vísar til þess að afgreiðslu HA hafi að nokkru verið ábótavant þar sem námsárangur kæranda hafi t.d. verið skráður á ranga önn. Hins vegar beri þó að hafa í huga að þó svo einingarnar hefðu verið rétt skráðar sé ekki þar með sagt að HA hafi borið að senda þær til LÍN enda ekki sjálfgefið að allir nemendur séu lánþegar hjá LÍN. Stjórn LÍN bendir á að nemendur beri almennt sjálfir ábyrgð á að námsárangur þeirra berist frá skóla til LÍN. Til hagræðingar sé námsárangur sendur frá stærstu háskólum landsins við lok hvers misseris. Þegar nemendur skili námsárangri á óvenjulegum tíma eins og í tilfelli kæranda þurfi þeir almennt að sjá til þess að námsárangur rati til LÍN. Þegar kærandi hafi sent tölvupóst til LÍN hafi ekkert komið fram af hans hálfu er benti til þess að skólanum bæri að senda námsárangurinn til LÍN. Undir þessum kringumstæðum hefði verið eðlilegt að kærandi hefði mælst sérstaklega til þess við HA að skólinn kæmi upplýsingunum til LÍN og að það skyldi gert sem fyrst. Þá beri að horfa til þess að vottorð svissneska háskólans um námsárangur kæranda sé dagsett 9. september 2013 og hafi kæranda því verið í lófa lagið að senda það mun fyrr til HA. Telji stjórn LÍN að þessu virtu að síðbúin skil á námsárangri vegna vorannar 2013 hafi ekki verið vegna atriða sem hafi verið kæranda óviðráðanleg. Ekki sé heldur hægt að rekja það til mistaka HA að kærandi hafi skilað námsárangri eftir tilskilinn frest. Stjórn LÍN tekur fram að við endurupptöku málsins hafi ekki komið fram ný gögn er hefðu efnisleg áhrif á niðurstöðuna. Hafi endurupptökubeiðni því verið synjað. Afgreiðsla stjórnar LÍN á máli kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

 

Niðurstaða

 

Í málinu liggja fyrir tvær ákvarðanir stjórnar LÍN í máli kæranda frá 18. júní 2014 og 24. september 2014 og er síðari ákvörðunin synjun á beiðni um endurupptöku þeirrar fyrri. Kærandi stundaði nám við HA skólaárið 2012-2013. Var hluti þess skiptinám í Sviss. Samkvæmt vottorði háskólans í Sviss dagsettu 9. september 2013 lauk kærandi prófi í 6 eininga áfanga sem tilheyrði vorönn 2013. Kærandi sendi upplýsingarnar til HA með tölvupósti þann 2. janúar 2014. Engar upplýsingar liggja fyrir í málinu um að kærandi hafi óskað eftir því við HA að upplýsingar um þessar einingar yrðu sendar til LÍN. Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skolaárið 2012-2013. Í 2. - 4. mgr. segir eftirfarandi: 

Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána vegna haustannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda vorannar hefst í byrjun janúar 2013 til þeirra sem uppfylla skilyrði sjóðsins um lágmarksnámsframvindu á önninni, sbr. gr. 2.2. Með sömu framangreindum skilyrðum hefst útborgun framfærslu- og bókalána vegna vorannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda sumarannar í lok apríl 2013. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins 2012-2013 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2014. Eftir þann tíma er hvorki hægt að afgreiða lán né gera athugasemdir við afgreiðslu láns á námsárinu. 

Samkvæmt framansögðu skyldi lánveitingum vegna námsársins 2012-2013 vera lokið fyrir 15. janúar 2014. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Þær einingar sem kærandi óskar að fá lán vegna tilheyra vorönn 2013 og gaf svissneski háskólinn út vottorð vegna þeirra 9. september 2013. Kærandi sendi þó ekki gögnin til HA fyrr en með tölvupósti 2. janúar 2014. Í framkvæmd hefur tíðkast að stærri háskólar á Íslandi sendi gögn um námsárangur nemenda beint til LÍN. Eftir sem áður hvílir skyldan til að skila gögnum til LÍN á námsmönnum en ekki menntastofnunum. Þegar fyrir liggur að einingar eru skráðar hjá viðkomandi menntastofnun stuttu fyrir frest eins og í tilviki kæranda hefði slíkt átt að vera honum sérstakt tilefni til að gera ráðstafanir til að gögnin myndu berast til LÍN í tæka tíð. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi mátt standa í þeirri trú að upplýsingar um námsárangur myndu berast sjóðnum innan þess frests sem LÍN gefur samkvæmt grein 5.2.1, þ.e. 15. janúar 2014. Getur kærandi ekki borið fyrir sig vanrækslu HA þegar ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um að kærandi sjálfur hafi gert ráðstafanir til að stuðla að því að einkunnir hans yrðu sendar en kærandi sjálfur hafði til þess nægan tíma. Verður því ekki fallist á með kæranda að sú seinkun sem varð af hálfu skólans á að koma upplýsingum um námsárangur hans til LÍN sé til komin af atvikum sem hann réði hvorki við né gat haft áhrif á. Var því LÍN rétt að synja honum um greiðslu námsláns sökum þess að upplýsingar um námsárangur hans bárust eftir að fresti til þess lauk samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglunum. Með vísan til framangreinds eru hinar kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN frá 18. júní og 24. september 2014 staðfestar.

 

Úrskurðarorð

 

Hinar kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN frá 18. júní og 24. september 2014 eru staðfestar.

 
Til baka