Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-28/2014 - Umsóknarfrestur og útborgun Námsárangur barst eftir að skilafrestur var liðinn

Úrskurður

 

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-28/2014:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 27. október 2014 sem barst málskotsnefnd 14. nóvember s.á. kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 27. ágúst 2014 um að synja honum um greiðslu námsláns vegna náms sem hann stundaði á haustmisseri 2012 sökum þess að upplýsingar um námsárangur hafi ekki borist innan þeirra tímamarka sem sett voru í úthlutunarreglum sjóðsins fyrir námsárið 2012-2013. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 17. nóvember 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni með bréfi dagsettu 15. desember 2014. Með bréfi dagsettu 18. desember 2014 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla námsárið 2012-2013. Á haustönn 2012 varð hann að hverfa frá námi vegna veikinda og skilaði ekki námsárangri. Í tölvupósti kæranda til LÍN, dagsettum 11. febrúar 2013, upplýsir hann um veikindi sín og að hann muni taka sjúkrapróf síðar í þeim mánuði. Kærandi sótti um aukið svigrúm vegna veikinda og fékk samþykkt lán vegna 18 ECTS eininga vegna haustannar 2012. Kærandi gerði hlé á námi og tók ekki próf vegna haustannar 2012 fyrr en í janúar 2014. Hann skilaði síðan námsárangri vegna 30 ECTS eininga til LÍN þann 4. mars 2014. Í svarpósti LÍN 13. mars 2014 var kæranda bent á að námsárinu 2012-2013 hafi verið lokað og námslán vegna þessa námsárs væru ekki lengur afgreidd. Í svörum starfsmanns LÍN þann 10. apríl 2014 var kærandi einnig upplýstur um að LÍN hafi sent honum tölvupóst 20. nóvember 2013 þar sem hann hafi verið minntur á að skila bæri gögnum um námsárangur fyrir 15. janúar 2014. Eftir þann tíma væri ekki hægt að afgreiða námslán. Þegar hann fékk synjun um námslán bar kærandi málið undir stjórn LÍN. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN tók hann fram að honum hefði ekki borist umræddur póstur og að LÍN hafi ekki lagt fram neina sönnun þess að tölvupósturinn hafi í raun og veru verið sendur á póstfang kæranda. Benti kærandi á að ef hann hefði fengið þessa viðvörun hefði hann getað látið LÍN vita af því tímanlega að hann gæti ekki skilað gögnum um námsárangur innan frests. Gæti hann lagt fram læknisvottorð vegna þessa og vottorð skóla væri þess óskað. Stjórn LÍN tók ákvörðun í máli kæranda 27. ágúst 2014 þar sem erindi hans um afgreiðslu námsláns vegna haustannar námsársins 2012-2013 var hafnað. Í niðurstöðunum er vísað til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2012-2013 komi fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2014 en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Segir í ákvörðun stjórnar LÍN að prófvottorð hafi ekki borist fyrr en 4. mars 2014. Ekki verði séð af gögnum málsins að kærandi hafi verið í neinum samskiptum við sjóðinn frá apríl 2013 og þar til hann sendi umrædd gögn. Samkvæmt úthlutunarreglunum beri námsmanni að tilkynna um allar breytingar á högum sínum til LÍN eftir að hann sækir um námslán ef ætla megi að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán. Reglur sjóðsins séu skýrar og aðgengilegar námsmönnum. Þá hafi LÍN einnig sent kæranda tölvupóst til að minna hann á umræddan frest. Taldi stjórn LÍN enga heimild að finna í reglum LÍN til að verða við erindi kæranda og synjaði því. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi vísar til þess í kæru sinni að hann hafi verið í endurtektarprófum til loka janúar 2014 og því hafi honum ekki verið mögulegt að skila inn upplýsingum um námsárangur fyrr en raun varð á. Endurtektarprófin hafi dregist á langinn vegna langvarandi veikinda hans en undir venjulegum kringumstæðum hefði hann tekið þau í ágúst 2013. Vísar kærandi í þessum efnum til meðfylgjandi vottorða frá geðlækni og sálfræðingi. Kærandi bendir á að þau gögn sem LÍN hafi lagt fram í málinu feli ekki í sér neina sönnun þess að LÍN hafi í raun sent honum tölvupóst til að minna hann á skilafrestinn. Kveðst kærandi alfarið hafna því að hafa fengið umræddan tölvupóst. Kærandi vísar einnig til þess að umræddan póst sé ekki að finna á netþjóni hans og til að komast að hinu sanna hefði LÍN borið að athuga netþjóna sína og fá Google til að staðfesta að tölvupósturinn hafi í raun borist á g-mail póstfang kæranda. Kærandi segir ennfremur að ef hann hefði fengið þessa viðvörun hefði hann getað látið LÍN vita af því í tæka tíð að síðasta endurtektarprófið yrði í janúar 2014 og að honum hefði því ekki verið unnt að senda umrædd gögn fyrr en eftir þann tíma. Kærandi bendir ennfremur á að hefði LÍN látið hann vita af umræddum fresti hefði hann getað samið við skólann um að fá að taka prófið fyrr en áætlað var. Þá bendir kærandi á að til að tryggja að upplýsingarnar kæmust í hendur viðtakanda hefði LÍN átt að nota útgáfu af tölvupósti sem biður um rafræna kvittun. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að kærandi hafi þurft að hverfa frá námi sökum veikinda. Hafi hann því ekki skilað námsárangri vegna haustannar 2012 og því hafi LÍN samþykkt umsókn hans um aukið svigrúm vegna veikinda og veitt honum veikindalán er samsvaraði 18 ECTS einingum. LÍN bendir einnig á að kæranda hafi verið sendur tölvupóstur til að minna hann á umsóknarfrest vegna 2013-2014 og skilafrest gagna vegna námsláns 2012-2013. Þegar kærandi hafi þann 4. mars 2014 skilað inn vottorði um námsárangur fyrir haustönn 2012 hafi skilafrestur gagna verið liðinn. Stjórn LÍN áréttar að námsmönnum beri sjálfum að kynna sér reglur um skil á gögnum. LÍN upplýsir einnig að í tölvukerfi LÍN sé skráð að kæranda hafi sannanlega verið sendur umræddur tölvupóstur á netfang það sem skráð sé á hann í kerfi LÍN. Það verklag að senda tölvupóst til að minna á fresti hafi almennt gefið góða raun og ekki hafi komið fyrir að tölvupóstur sem sannanlega hafi verið sendur hafi ekki borist nema í tilvikum þar sem póstfang hafi verið ranglega skráð. Væri tölvupóstfang kæranda sem hann sjálfur hefði gefið upp réttilega verið skráð hjá LÍN samanber skjáskot meðfylgjandi athugasemdum stjórnar LÍN. Hefði LÍN samkvæmt þessu fullnægt leiðbeiningaskyldu sinni gagnvart kæranda. Fer stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar í máli kæranda.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN skal stjórn LÍN setja reglur um úthlutun námslána. Í grein 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2012-2013 skuli vera lokið fyrir 15. janúar 2014. Þar er einnig sérstaklega tekið fram að eftir þann frest séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Það kemur fram einnig fram í grein 5.1.6 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. og 2. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN, að námsmanni ber að láta sjóðinn vita ef upplýsingar þær sem lagðar eru til grundvallar lánsáætlun reynast rangar. Í grein 5.5.1 í úthlutunarreglum LÍN vegna skólaársins 2012-2013 kemur eftirfarandi fram um upplýsingaskyldu námsmanna: 

5.5.1 Tilkynningaskylda námsmanns 

Umsækjanda ber að tilkynna allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu námsaðstoðar, svo sem breyttar fjölskylduaðstæður, breytingar á fjárhag, heimilisfangi og námsáætlun, eða veikindi er valdið geta töfum í námi. M.a. ber að tilkynna sjóðnum þegar námsmaður stofnar til hjúskapar eða sambúðar. Námsmanni ber auk þess að senda sjóðnum öll þau gögn sem hann kann að verða beðinn um vegna umsóknar hans um námslán eða frest á lokun skuldabréfs.
 

Kærandi átti við veikindi að stríða á haustönn 2012 og lauk ekki prófum á tilskildum tíma. Hann upplýsti LÍN um að hann hygðist taka sjúkrapróf í lok febrúar 2013. Kærandi lauk hins vegar ekki sjúkraprófum á þessum tíma og fékk samþykkt veikindalán er samsvaraði 18 ECTS einingum. Kærandi lauk svo umræddum prófunum í lok janúar 2014 og skilaði gögnum um námsárangur til LÍN 4. mars 2014. Þegar LÍN barst staðfesting frá skóla kæranda um námsárangur hafði stjórn LÍN lokað á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2012-2013. Kærandi hefur vísað til þess að tölvupóstur LÍN þar sem minnt var á fresti hafi ekki borist honum. Í þessu sambandi bendir málskotsnefnd á að þó svo að LÍN sendi út slíka tölvupósta er það ávallt á ábyrgð umsækjenda sjálfra að gæta að frestum til skila á gögnum. Þá er einnig til þess að líta að kærandi gerði LÍN ekki grein fyrir breyttum aðstæðum sínum, þ.e. að hann hygðist taka sjúkrapróf í janúar 2014 og að hann ætti ekki von á einkunnum fyrr en eftir umræddan frest. Hefði hann þá átt þess kost að fá leiðbeiningar um skil á gögnum vegna prófanna. Það er álit málskotsnefndar að af grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN leiði, að ekki geti komið til lánveitinga vegna umsókna sem berast eftir að lokið er afgreiðslu námslána vegna námsársins. Þá eru málsatvik í þessu máli ekki með þeim hætti að það eigi að leiða til undantekningar frá framangreindri reglu. Er þá sérstaklega bent á að kærandi hafi ekki gætt að því að upplýsa LÍN um breytta námsáætlun sína sbr. grein 5.5.1. Þá er ekki fallist á það með kæranda að LÍN hafi brugðist upplýsingaskyldu sinni gagnvart honum. Með vísan til framanritaðs og fyrri úrskurða stjórnar LÍN og málskotsnefndar við meðferð samskonar mála er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 27. ágúst 2014 staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 27. ágúst 2014 er staðfest.

Til baka