Úrskurður
Ár 2015, föstudaginn 27. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um meðferð máls nr. L-1/2015.
Kæruefni
Málskotsnefnd barst þann 2. janúar 2015 kæra dagsett sama dag
frá kæranda vegna ákvörðunar stjórnar LÍN sem honum barst með tölvupósti þennan
sama dag um að sjóðurinn hefði ákveðið að höfða mál á hendur honum til
viðurkenningar á að honum bæri að standa skil á greiðslu námslána sem hann hafi
tekið hjá sjóðnum á árunum 1999-2002. Með tölvupósti til málskotsnefndar
dagsettum 17. mars 2015 upplýsti stjórn LÍN að stefna í máli LÍN gegn kæranda
hafi verið birt og að málið yrði þingfest 31. mars nk. Stefnan varðaði sama
ágreiningsefni og væri til meðferðar hjá nefndinni, þ.e. hvort krafa LÍN á
hendur kæranda og ábyrgðarmanni hans væri fyrnd. Fór stjórn LÍN þess á leit við
málskotsnefnd að málið yrði fellt niður eða til vara að meðferð þess yrði
frestað.
Málavextir
Kærandi tók námslán hjá LÍN á árunum
1999-2002. Lánum þessum var skuldbreytt í tvö skuldabréf 16. desember 2005. Bú
kæranda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 21. september
2011. Kærandi telur að krafa LÍN á hendur honum um greiðslu námslána hans sé
fyrnd samkvæmt 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Fór kærandi þess á
leit við stjórn LÍN þann 25. ágúst 2014 að námslán hans yrðu felld niður í ljósi
þess að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 21. september 2011 og að skiptum
hafi lokið 23. júlí 2012. Stjórn LÍN aflaði lögfræðiálits um málið. Með
tölvupósti 17. desember 2014 sendi starfsmaður LÍN kæranda álitið og tilkynnti
honum jafnframt að sjóðurinn hygðist höfða mál á hendur honum til að fá
endanlega úr því skorið hvort krafan væri fyrnd. Í tölvupósti LÍN þennan sama
dag var kærandi upplýstur um að sjóðurinn teldi heppilegast að útkljá málið
fyrir dómstólum. Um væri að ræða einkaréttarlegt mál og ekki ljóst hvort það
væri á færi málskotsnefndar að fjalla efnislega um það. Kærandi sendi kæru til
málskotsnefndar vegna málsins. Hann fór þess einnig á leit að réttáhrifum
ákvörðunar stjórnar LÍN yrði frestað. Málskotsnefnd synjaði þeirri beiðni
kæranda með úrskurði þann 21. janúar 2015. Í úrskurði nefndarinnar kom einnig
fram að um væri að ræða stjórnvaldsákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda. Félli
málið þar af leiðandi undir valdsvið nefndarinnar. Þann 16. mars sl. upplýsti
kærandi málskotsnefnd um að LÍN hafi stefnt honum fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur
til greiðslu skuldarinnar og yrði málið þingfest 31. mars nk. Þann 17. mars sl.
barst málskotsnefnd tölvupóstur LÍN þar sem upplýst var um stefnuna og þess
farið á leit að málskotsnefnd felldi niður málið og til vara að meðferð þess
yrði frestað. Málskotsnefnd gaf kæranda kost á að tjá sig um framkomna beiðni
LÍN og bárust athugasemdir hans 19. mars 2015.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi telur að lögmætisregla stjórnsýsluréttar komi í veg fyrir að
málskotsnefnd geti fallist á kröfu sjóðsins. Í lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð
íslenskra námsmanna annars vegar og í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 hins vegar sé
enga heimild að finna til niðurfellingar máls. Á meðan dómstólar hafi ekki lagt
á ágreininginn efnisdóm telur kærandi óhjákvæmilegt að málið fái efnislega
meðferð hjá málskotsnefnd. Fallist málskotsnefnd á þessa kröfu megi jafna því
við lögneitun þar sem kæranda væri meinað að neyta réttar síns til að skjóta
máli til æðra stjórnvalds. Hvað varðar varakröfu um frestun máls bendir kærandi
á að 3. mgr. 5. gr. laga um LÍN veiti einungis heimild til frestunar
réttaráhrifa úrskurða í málum sem hafa fengið efnislega meðferð hjá
málskotsnefndinni. Lögmætisreglan útiloki að fallist verði á varakröfu stjórnar
LÍN rétt eins og aðalkröfuna.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í
beiðni stjórnar LÍN er vísað til þess að stefnan varði sama ágreiningsefni og sé
til meðferðar hjá málskotsnefnd, þ.e. hvort krafa LÍN á hendur málsaðila og
ábyrgðarmanni hans sé fyrnd.
Málsatvik og ágreiningsefni
Samkvæmt 5. gr. a. laga um LÍN er málskotsnefnd heimilt
"þegar mál er höfðað vegna úrskurðar málskotsnefndar [...] að fresta
afgreiðslu sambærilegra mála, sem til meðferðar eru hjá nefndinni, þar til dómur
gengur."
Samkvæmt framangreindu lagaákvæði tekur heimild
málskotsnefndar einungis til frestunar sambærilegra mála þegar dómsmál er höfðað
vegna úrskurðar nefndarinnar. Í dómkröfu í stefnu þess máls sem LÍN hefur höfðað
á hendur kæranda kemur fram að LÍN krefst þess aðallega að kærandi og
ábyrgðarmaður námsláns hans verði dæmdir til að greiða sjóðnum in solidum [...]
kr. ásamt dráttarvöxtum að frádregnum [...] kr., en þá fjárhæð hafði kærandi
greitt LÍN 4. mars 2014. Til vara krefst sjóðurinn að fyrningaslit krafna á
hendur kæranda að nánar greindri fjárhæð samkvæmt skuldabréfum G-[...] og
G-[...] verði viðurkennd með dómi. Ágreiningslaust er að um er að ræða sama
deilumál og kærandi hefur borið undir nefndina, enda er kæran til komin vegna
ákvörðunar stjórnar LÍN að höfða mál til viðurkenningar á greiðsluskyldu
kæranda. Bendir nefndin á í þessu sambandi að umboðsmaður Alþingis (sjá álit í
máli 4968/2007) gerir ráð fyrir að ekki sé lengur um að ræða skyldu stjórnvalds
til úrskurða þegar sama úrlausnarefni hefur verið lagt fyrir dómstóla. Sú
tilhögun að fela stjórnvaldi úrlausn ágreiningsmáls breytir því ekki að í reynd
er endanlegt úrlausnarvald í höndum dómstóla samkvæmt 60. gr. stjórnskrárinnar.
Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd rétt að vísa málinu frá.
Niðurstaða
Máli nr. L-1/2015 er vísað frá málskotsnefnd.