Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-04/2015 - Undanþágur frá afborgun - synjun á undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 6. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2015:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 22. janúar 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 21. nóvember 2014, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns á árinu 2014. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 22. janúar 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi til málskotsnefndar dagsettu 19. febrúar 2015 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda. Kærandi sendi athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 2. mars 2015.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu til LÍN frá tekjutengdri afborgun námsláns á gjalddaga 1. september 2014. Ástæðu umsóknar kvað kærandi vera þá að hún hafi frá september 2013 stundaði lánhæft doktorsnám í Brasilíu. Við upphaf námsins hafi hún starfað sem tónlistarkennari í Rio de Janeiro. Vegna námsins hafi hún í febrúar 2014 þurft að minnka við sig vinnu og við það hafi tekjur hennar rýrnað um fjórðung. LÍN hafnaði beiðni kæranda um undanþágu þar sem sjóðurinn taldi að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar staðfestu ekki að kærandi ætti við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Í tölvupósti starfsmanns LÍN til kæranda frá 14. október 2014 segir að uppfylla þurfi tvö skilyrði til þess að undanþága sé veitt, annars vegar að umsækjandi stundi lánshæft nám og hins vegar megi árstekjur umsækjanda árið á undan almennt ekki fara fram úr 3,3 milljónum króna (6,6 milljónum króna hjá hjónum/sambúðarfólki). Kærandi uppfyllti fyrra skilyrðið, en ekki það seinna. Því hafi verið óskað eftir frekari gögnum frá kæranda sem staðfestu verulega fjárhagsörðugleika hennar, en þau hefðu ekki borist og hafi umsókn hennar þá verið synjað vegna gagnaleysis. Kærandi óskaði eftir ákvörðun stjórnar LÍN í málinu. Ákvörðun hennar lá fyrir 21. nóvember 2014 og segir þar að samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN sé það skilyrði undanþágu frá endurgreiðslu námsláns að auk náms sé um að ræða verulega fjárhagsörðugleika kæranda. Ennfremur þurfi aðstæður þær er umsóknina varði að hafa varað að jafnaði í fjóra mánuði fyrir gjalddaga svo heimilt sé að veita undanþáguna. Var beiðni kæranda hafnað á grundvelli þess að skilyrði um verulega fjárhagsörðugleika væri ekki uppfyllt.

Sjónarmið kæranda

Kröfu sína um að málskotsnefnd felli úr gildi úrskurð LÍN um að synja henni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns sem var á gjalddaga 1. september 2014 byggir kærandi á því að hún eigi vegna tekjusamdráttar samhliða doktorsnámi í verulegum erfiðleikum með að greiða umrædda afborgun. Hún hafi í upphafi hins brasilíska skólaárs í febrúar 2014 minnkað við sig vinnu þannig að tekjur hennar hefðu dregist saman um 25%. Samkvæmt skattframtali hennar fyrir árið 2014 hafi heildartekjur hennar á árinu numið 63.113 brasilískum ríölum, sem svari til 2.966.319 íslenskra króna. Þá hefur kærandi lagt fram launaseðla sína síðustu fjóra mánuði fyrir gjalddagann og svöruðu heildarmánaðarlaun hennar að meðtali um 4.955 ríölum (svarar til um 247 þúsund króna á gengi þess tíma). Kærandi telur það vera rangt hjá LÍN að meta fjárhagslegar aðstæður hennar miðað við tekjur hennar á árinu 2013. Sú aðferð eigi sér ekki stoð í reglum sjóðsins að því er séð verði og sé auk þess mjög óréttlát. Ástæðan fyrir fjárhagsörðugleikum kæranda sé fyrrgreind launalækkun sem sé tilkomin af því að hún varð að draga úr vinnu sinni vegna náms. Samkvæmt grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN teljist um verulega fjárhagserfiðleika að ræða þegar árstekjur séu undir 3,3 milljónum króna. Þar sem hún sé námsmaður í lánshæfu námi og með tekjur undir viðmiðunarmörkum uppfylli hún skilyrði úthlutunarreglna fyrir undanþágu. Kærandi tekur fram að hún þurfi mjög á undanþágunni að halda þar sem árleg endurgreiðsla hennar til sjóðsins svari til meira en helmings af mánaðartekjum hennar, sem sé alvarlegt þar sem hún framfleyti heimili.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN komi fram þau skilyrði sem lántaki þurfi að uppfylla til að fá undanþágu frá endurgreiðslu námsláns. Reglur varðandi undanþágu frá endurgreiðslu séu nánar útfærðar í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum fyrir námsárið 2014-2015. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef tilteknar aðstæður svo sem lánshæft nám valdi verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í greininni sé tilgreint að almennt séu ekki veittar undanþágur ef árstekjur lánþega séu yfir 3,3 milljónum. Í máli kæranda liggi fyrir að hún var með lánshæfan árangur á viðmiðunartímabilinu og uppfyllti þar með fyrra skilyrði greinar 7.5.1. Á hinn bóginn hafi árstekjur hennar á árinu 2013 verið 4.853.770 kr. og því yfir viðmiðunarmörkum. Af þeirri ástæðu hafi kæranda verið gefinn kostur á að sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika sína með öðrum hætti, eins og til dæmis með staðfestingu frá viðskiptabanka sínum eða umboðsmanni skuldara um að hún nyti einhverskonar úrræða vegna greiðsluerfiðleika. Það hafi kærandi ekki gert og því hafi henni verið synjað um undanþáguna. Hvað varðar það sjónarmið kæranda að rangt sé við mat á undanþágu að miða við tekjur lánþega árið á undan þá bendir stjórn LÍN á að þegar beiðnir um undanþágu vegna afborgana 2014 séu afgreiddar þá liggi fyrir í framtölum ársins tekjuupplýsingar vegna 2013 og því eðlilegt að notast við þær. Í grein 5.7.2 sé hins vegar einnig heimild til að veita undanþágu frá endurgreiðslu ef skyndileg og veruleg breyting hefur orðið á högum lánþega þannig að útsvarstofn hans vegna tekna á fyrra ári gefi ekki rétta mynd af fjárhag hans á endurgreiðsluárinu. Þá sé miðað við að skyndileg og alvarleg veikindi, slys eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegri skerðingu á ráðastöfunarfé og á möguleika til að afla tekna. Þó að kærandi hafi lagt fram launaseðla því til stuðnings að tekjur hennar á árinu 2014 hafi lækkað miðað við árið á undan uppfyllti hún ekki fyrrgreint skilyrði greinar 7.5.2 þar sem tekjuskerðingin hafi ekki verið tilkomin vegna skyndilegra og verulegra breytinga. Það hafi því verið niðurstaða stjórnar LÍN að kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði sem sett eru í úthlutunarreglum LÍN fyrir undanþágu frá afborgun og því hafi erindi hennar verið synjað.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða tekjuöflunarmöguleika. Ennfremur er heimilt að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2014-2015 er að finna nánari útlistun á heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá endurgreiðslu afborgunar námsláns. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar, umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega séu yfir 3,3 milljónum og árstekjur hjóna eða sambúðarfólks séu yfir 6,6 milljónum króna. Þá segir að með námi sé átt við að lánþegi sé í lánshæfu námi og að hann sýni fram á lágmarksnámsframvindu. Loks er tekið fram að ástæður þær sem valdi örðugleikunum skuli að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Í máli þessu er óumdeilt að kærandi uppfyllir það skilyrði úthlutunarreglna að vera í lánshæfu námi til að fá undaþágu. Það atriði eitt út af fyrir sig gefur sjóðsstjórn ekki heimild til undanþágu, heldur þarf einnig að vera til staðar skilyrði um að lánþegi eigi vegna námsins í verulegum fjárhagserfileikum, sem að jafnaði hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddagann. Þá er stjórn sjóðsins einnig heimilt samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga 21/1992 og greinar 7.5.2 í úthlutunarreglum sjóðsins að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu af skyndilegar og verulegar breytingar hafi orðið á högum lánþega þannig að tekjur fyrra árs gefi ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluárinu, t.d. ef alvarleg veikindi, slys eða aðrar sambærilegar aðstæður skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða möguleika til tekjuöflunar. Af hálfu málskostnefndar er fallist á það með stjórn LÍN að doktorsnámið sem kærandi hóf haustið 2013 og leiddi til að hún varð að minnka við sig vinnu á árinu 2014 geti ekki fallið undir það að teljast skyndilegar og verulegar breytingar á högum kæranda í skilningi 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN og heimilað undanþágu frá greiðslu afborgunar. Til að eiga rétt á undanþágu þarf námið að hafa valdið kæranda verulegum fjárhagsörðugleikum. Umsókn kæranda byggir á því að ekki sé rétt við mat á undanþáguheimildinni að horfa til tekna hennar á árinu 2013, heldur eigi að miða við tekjur hennar á árinu 2014. Vegna námsins hafi tekjur hennar 2014 lækkað og farið undir 3,3 milljón króna tekjuviðmiðið í grein 7.5.1. Með reglunni hafi stjórn LÍN sett það viðmið, að um verulega fjárhagserfiðleika sé að ræða þegar árstekjur lánþega séu undir 3,3 milljónum króna, án þess að meira þurfi til að koma. Kærandi hafði 4.853.770 krónur í árstekjur 2013 og var því vel yfir viðmiðunarfjárhæð greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN. Málskotsnefnd telur ekki óeðlilegt að við mat á heimild til undanþágu sé horft til tekna ársins á undan endurgreiðsluári enda ákvarðast árlegar endurgreiðsla samkvæmt 2. og 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN af tekjum ársins á undan. Í því sambandi er eigi heldur ósanngjarnt að miðað sé við að greiðendur geri ráðstafanir um endurgreiðslu í tíma þegar þeir sjá fram á að tekjur þeirra lækki á tilteknu tímabili. Málskotsnefnd tekur þó fram að þótt tekjur kæranda 2013 hafi verið yfir viðmiðunarfjárhæð LÍN beri alltaf að líta til heildaraðstæðna greiðanda hverju sinni við mat á því hvort aðstæður séu með þeim hætti að verulegir fjárhagsörðugleikar teljist vera fyrir hendi. Við það mat hefur málskotsnefnd talið málefnalegt að miða við að erfiðleikarnir hafi að jafnaði varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga, eins og mælt er fyrir um í grein 7.5.1. Hin tekjutengda afborgun sem kærandi óskar undanþágu frá reiknast 3,75% af tekjustofni hennar á árinu 2013, að frádreginni fastagreiðslunni, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Fastagreiðslan sem var á gjalddaga 1. mars 2014 var að fjárhæð 73.138 krónur og upphæð hinnar tekjutengdu afborgunar á gjalddaga 1. september 2014 var 113.369 krónum. Við afgreiðslu LÍN á erindi kæranda leitaði sjóðurinn eftir því að hún legði fram frekari gögn um fjárhag sinn þar sem tekjur hennar 2013 vorum yfir þeim mörkum sem almennt væri miðað við. Kærandi hefur ekki orðið við því enda verður að skilja málatilbúnað hennar þannig að hún glími aðeins við greiðsluerfiðleika við framfærslu vegna tekjulækkunar samfara náminu og til að hún nái endum saman sé mikilvægt að hún fái undanþágu frá umræddri afborgun. Árslaun kæranda í Brasilíu 2014 námu um 3 milljónum króna og voru heildarmánaðarlaun hennar að meðaltali um 247 þúsund krónur síðustu fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Virðast laun hennar hafa því verið tiltölulega jöfn yfir árið. Þegar litið er til tekna kæranda á árunum 2013 og 2014 og upphæðar afborgunar þeirrar sem hún óskar undanþágu frá hefur kærandi að mati málskotsnefndar ekki sýnt fram á að námið hafi valdið henni svo verulegum fjárhagsörðugleikum fyrir gjalddagann 1. september 2014 að heimilt sé að veita henni undanþágu frá afborguninni á grundvelli greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Var stjórn LÍN því rétt að hafna beiðni kæranda og er hin kærða ákvörðun í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 21. nóvember 2014 í máli kæranda er staðfest.

Til baka