Úrskurður
Ár 2015, miðvikudaginn 6. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-7/2015:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 1. mars 2015 kærðu kærendur ákvarðanir stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 18. febrúar 2015 þar sem hafnað var beiðni kærenda um endurútreikning á tekjutengdri afborgun ársins 2014. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. mars 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 15. apríl 2015 og var afrit þess sent kærendum og þeim jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærendur nýttu sér það og sendu nefndinni athugasemdir sínar með bréfi dagsettu 27. apríl 2015.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærendur sem eru hjón eru bæði greiðendur að námsláni hjá LÍN.
Kærendur fengu senda greiðsluseðla frá LÍN vegna tekjutengdra afborguna á
námslánum sínum með gjalddaga 1. september 2014. Fjárhæð afborgana, sem kærendum
var gert að greiða, byggði á áætluðum skattstofni þeirra hjá Ríkisskattstjóra
(RSK) vegna tekna þeirra á árinu 2013. Kærendur óskuðu eftir endurútreikningi á
afborguninni með tölvupósti til LÍN þann 17. nóvember 2014 og sendu meðfylgjandi
úrskurð RSK. Í tölvupóstinum sagði eftirfarandi:
"Vinsamlegast
endurútreiknið lánafborganir ársins á mig og konu mína, þar sem skatturinn er
búinn að endurútreikna skattstofninn (ef það er ekki gert sjálfvirkt hjá
ykkur)."
Kærendur ítrekuðu beiðni sína með tölvupósti þann 11.
desember 2014. LÍN synjaði beiðni kærenda í tölvupósti þann 12. desember 2014
með vísan til þess að lögbundinn frestur 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um
Lánasjóð íslenskra námsmanna væri liðinn. Kærendur báru mál sín undir stjórn LÍN
þann 29. desember 2014. Stjórn LÍN synjaði beiðni kærenda með samhljóða
ákvörðunum þann 13. febrúar 2015. Kærendur kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN til
málskotsnefndar með kæru dagsettri 1. mars 2015.
Sjónarmið
kærenda
Kærendur vísa til þess að þau hafi gert ráð fyrir að þar sem
upphaflegir álagningarseðlar færu til LÍN þá væri einnig svo um leiðrétta
álagningarseðla. Kærendur benda á að greiðsluvilji þeirra sé einlægur og að þau
séu ekki að biðja um undanþágu heldur einungis að greiðsluseðlar LÍN verði
endurútreiknaðir til samræmis við úrskurð RSK. Þá hafi lítill tími verið gefinn
til þess að senda LÍN endurálagninguna enda hafi þau staðið í þeirri trú að LÍN
endurreiknaði afborganir sjálfkrafa. Kærendur upplýsa einnig að þau hafi staðið
í flutningum á þessum tíma og að lögheimili þeirra hafi verið flutt í september
2014. Hafi bréf RSK verið sent á eldra lögheimili og því hafi þeim ekki unnist
tími til að óska endurútreiknings hjá LÍN innan tilskilins frests. Kærendur vísa
einnig til þess að LÍN hafi verið kunnugt um endurálagninguna því LÍN fengi
allar upplýsingar sjálfkrafa frá skattinum. Hefði LÍN því átt að hafa frumkvæði
að endurútreikningi þegar úrskurður RSK hafi legið fyrir þann 7. október 2014.
Þá benda kærendur á að fram komi í 8. gr. laga nr. 21/1992 hvernig reikna skuli
viðbótargreiðslu af lánum. Fara hefði átt eftir þeim reglum þegar ljóst var að
forsendur LÍN fyrir upphaflegum viðbótargreiðslum voru rangar. Þar sem málið
hafi tafist vegna samskipta við LÍN fara kærendur þess á leit að dráttarvextir
og kostnaður verði felldir niður. Þá fara kærendur þess á leit að hótun LÍN um
fjárnám á hendur þeim verði dregin til baka. Í viðbótarathugasemdum kærenda vísa
þau til þess að upplýsingar um úrskurð RSK hafi verið sendar á eldra lögheimili
þeirra sem þau hafi breytt 16. september 2014. Meðfylgjandi sendu þau
staðfestingu Þjóðskrár um breytingu lögheimilis og afrit af úrskurði RSK og
meðfylgjandi gögnum.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Stjórn LÍN
vísar til 3. mgr. greinar 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins og í 1. mgr. 11. gr.
laga nr. 21/1992 en þar komi fram: "Lánþegi á rétt á endurútreikningi
árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um
endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.
Endurútreikningurinn fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar
upplýsingar um tekjur greiðanda."
Stjórn LÍN bendir á að á
grundvelli þessa ákvæðis verði endurútreikningur ekki veittur nema umsókn um
endurútreikning liggi fyrir innan 60 daga frá gjalddaga eða í síðasta lagi þann
30. október 2014. Ekki séu gerðar formkröfur til umsóknar um endurútreikning og
nægi að sendur sé tölvupóstur þar sem endurútreiknings sé óskað. Geti lántaki
ekki lagt fram tekjuupplýsingar á sama tíma og hann sækir um endurútreikning sé
honum heimilt að leggja þær fram síðar. Þá sé gerð sú krafa að hann leggi þær
fram eins fljótt og unnt er. Umsókn kærenda hafi borist 17. nóvember 2014 sem
hafi verið eftir að lögbundinn frestur til að sækja um endurútreikning hafi
verið liðinn. Af þeim sökum hafi beiðni kærenda verið synjað. Fer stjórn LÍN
fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnarinnar í máli kærenda.
Niðurstaða
Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla
ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum
lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda
afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september,
sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins.
Í 3. mgr. 8. gr. laganna segir að viðbótargreiðslan miðist við ákveðinn
hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr.
Hundraðshluti þessi er 3,75 við afborganir af skuldabréfinu. Frá
viðbótargreiðslunni dregst svo fastagreiðslan. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé
lánþega áætlaður skattstofn skuli miða við hann. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir
síðan:
Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé
hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar
en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu
fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.
Í úthlutunarreglum LÍN fyrir
árið 2014-2015 sem eiga við í þessu máli er í kafla VII fjallað um lánskjör.
Segir þar m.a. eftirfarandi:
7.1. Endurgreiðslur námslána
Endurgreiðslur námslána taka mið af ákvæðum hvers skuldabréfs og þeim lögum sem
í gildi voru þegar lánin voru tekin. Að öðru leyti gilda samþykktar
úthlutunarreglur hverju sinni. Fylgiskjöl vegna umsókna eiga að berast sjóðnum
eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út.
Í
3. mgr. greinar 7.4 í úthlutunarreglunum er síðan fjallað um umsókn um
endurútreikning með eftirfarandi hætti:
Lánþegi á rétt á
endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann
skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga
afborgunar. Endurútreikningur fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu
fáanlegar upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar upplýsingar um
tekjurnar liggja fyrir skulu þær senda sjóðnum og endurútreikningur skoðaður til
samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd
ofgreidd fjárhæð með almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.
Skattyfirvöld áætluðu tekjur kærenda þar sem þau höfðu ekki sent inn
framtal fyrir tilskilinn frest. Kærendur sendu skattframtal sitt þann 30. júní
2014 og með úrskurði dagsettum 7. október 2014 féllst ríkisskattstjóri á að
leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda. Upplýsingar um
raunverulegar tekjur kærenda lágu því ekki fyrir hjá LÍN þegar tekjutengda
afborgunin var reiknuð út í lok ágúst 2014. Í samræmi við lagafyrirmæli byggði
LÍN því útreikning sinn á tekjutengdum afborgunum kærenda fyrir árið 2013 á
tekjuupplýsingum frá RSK þar sem tekjur kærenda voru áætlaðar. Var gjalddagi
þeirra afborgana 1. september 2014 og rann hinn lögákveðni 60 daga frestur til
að sækja um endurútreikning út 1. nóvember 2014. Kærendur sóttu um
endurútreikning til LÍN 17. nóvember 2014 og LÍN svaraði erindi kærenda 12.
desember s.á. Málskotsnefnd bendir á að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 11. gr. laga
nr. 21/1992 skal sækja um endurútreikning eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga
afborgunar og leggja svo fyrir sjóðinn "bestu fáanlegar upplýsingar" um
tekjur. Í lögunum er ekki gefinn neinn frestur til að koma þessum upplýsingum að
en í úthlutunarreglum LÍN, grein 7.1, er gefinn tveggja mánaða frestur eftir að
umsóknarfrestur rennur út til að koma að fylgiskjölum. Ekki er ágreiningur um að
kærendum var ljóst frá því í byrjun september 2014 að útreikningur afborgana
byggði á áætlun RSK. Kærendur sendu þó ekki umsókn sína um endurútreikning til
LÍN innan 60 daga frestsins. Málskotsnefnd bendir á að bæði lög nr. 21/1992 sem
og úthlutunarreglur sjóðsins eru afar skýrar að því leiti að það er á ábyrgð og
frumkvæði greiðenda að óska endurútreiknings tekjutengdrar afborgunar. Einnig
bendir nefndin á að LÍN hefur ekki sjálfvirkt aðgengi að uppfærðum gögnum
skattyfirvalda um tekjur greiðenda eins og kærendur hafa haldið fram.
Fyrrgreindur frestur 11. gr. laga nr. 21/1992 er lögbundinn og ekki heimilaðar
undanþágur frá honum. Ekki liggur fyrir að kærendum hafi verið ómögulegt að
sækja um endurútreikning innan tveggja mánaða frestsins þó svo að endanlegar
upplýsingar um tekjur þeirra hafi ekki legið fyrir. Í kæru sinni hafa kærendur
einnig óskað þess að dráttarvextir og kostnaður verði felldir niður. Þá fara
kærendur þess einnig á leit að hótun LÍN um fjárnám á hendur þeim verði dregin
til baka. Stjórn LÍN tók ekki afstöðu til þessara atriða í ákvörðun sinni enda
fóru kærendur þessa ekki á leit í upphaflegu erindi sínu til stjórnar LÍN. Er
málskotsnefnd af þessum sökum ekki heimilt að taka afstöðu til þessara krafna
kærenda og er þessum lið kærunnar því vísað frá málskotsnefnd. Með vísan til
framanritaðs er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi
kærenda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Eru hinar
kærðu ákvarðanir stjórnar LÍN í máli kærenda því staðfestar.
Úrskurðarorð
Hinar kærðu ákvarðanir frá 13. febrúar 2014 í máli kærenda eru staðfestar. Beiðni kærenda um niðurfellingu dráttarvaxta og kostnaðar sem og beiðni um að aðvörun um fjárnám verði dregin til baka er vísað frá málskotsnefnd.