Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2015 - Undanþágur frá afborgun - synjað um undanþágu vegna tekna maka

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 20. maí kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-3/2015:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 21. desember 2014 sem barst málskotsnefnd þann 6. janúar 2015 kærðu kærandi og eiginmaður hennar ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 21. nóvember 2014 um að synja beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar 2014. Um er að ræða kæru á ákvörðun stjórnar LÍN sem beinist að kæranda en ekki að maka hennar og telst hann því ekki aðili að þessu máli. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. janúar 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Bárust athugasemdir stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 12. febrúar 2015 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 15. apríl 2015 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga frá kæranda. Svarbréf kæranda barst nefndinni 28. apríl og var það framsent stjórn LÍN sem sendi viðbótarathugasemdir vegna þess 11. maí. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um afstöðu stjórnar LÍN til þessara gagna með bréfi 12. maí 2015. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Ennfremur óskaði málskotsnefnd þann 16. apríl nánari upplýsinga frá stjórn LÍN um fjárhæð afborgana kæranda. Bárust umbeðnar upplýsingar 20. s.m.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN með erindi dagsettu 12. október 2014 að fá undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar ársins 2014 vegna veikinda og örorku. Hafði kærandi átt við veikindi að stríða og verið með gilt örorkuskírteini frá janúar 2010. Hún hafði fengið undanþágu frá tekjutengdri afborgun hjá LÍN eftir það. Í erindi kæranda til stjórnar LÍN kveðst hún hafa sent beiðni um niðurfellingu um mánaðarmótin ágúst/september 2014. Um miðjan september hafi hún hringt í sjóðinn og fengið þau svör að erindinu hafi verið synjað. Búið væri að breyta reglunum og tekjur maka kæmu í veg fyrir að afborgunin yrði felld niður. Hafi hún greitt afborgunina enda hafi verið komið bréf frá sjóðnum um að krafan yrði send til innheimtu hjá lögmannsstofu. Í byrjun október s.á hafi svo komið bréf frá sjóðnum þar sem henni hafi verið tilkynnt um að beiðninni hafi verið hafnað þar sem hún hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun sinni 21. nóvember 2014 þar sem fyrirliggjandi gögn um sameiginlegar tekjur hennar og maka hennar voru ekki talin gefa til kynna að um verulega fjárhagsörðugleika hafi verið að ræða fyrir gjalddagann 1. september 2014. Vísaði stjórn LÍN til greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar 6. janúar 2015.

Sjónarmið kæranda.

Í erindi sínu til stjórnar LÍN segir kærandi að ekkert hafi komið fram í bréfi LÍN til hennar um þær breyttu reglur sem henni hafi áður verið sagt frá í síma. Þess í stað hafi verið vísað til þess að gögn skorti, en sjóðurinn hafi þó aldrei óskað eftir gögnum. Í ljósi þessa fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að hún fengi skýr og skrifleg svör um hvort búið væri að breyta reglum á þann hátt að tekjur maka væru reiknaðar inn í tekjur greiðenda. Ef svo væri benti kærandi á dóma sem gengið hefðu hér á landi um að ólöglegt væri að tengja tekjur öryrkja við tekjur maka þeirra og einnig að samkvæmt hjúskaparlögum væri ólöglegt að færa lán sem annað hjóna hafi tekið yfir á hitt. Sjóðurinn hafi með fyrri niðurfellingum viðurkennt að kærandi væri ekki aflögufær og því væri ekki annað að sjá en að sjóðurinn ætlaði maka kæranda að greiða láni sem hún hafi tekið en ekki hann. Óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvað hefði breyst hjá sjóðnum þannig að henni væri synjað um þessa niðurfellingu núna. Í kæru sinni til málskotsnefndar ítrekar kærandi að með því að fella niður afborganir hennar undanfarin ár hafi LÍN viðurkennt að hún hafi ekki verið aflögufær um að greiða af lánum sínum. Þá sé ekki annað hægt að lesa úr svari sjóðsins nú en að maka hennar sé ætlað að standa skil af lánum hennar. Kærandi vísar í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 549/2002 en þar segi að það sé aðalregla íslensks réttar að réttur fólks til greiðslu sé óháður tekjum maka. Þó að dómurinn eigi við um greiðslur til öryrkja þá hljóti að vera horft til þessarar aðalreglu í þessu máli. Þá segi í 67. og 68. gr. hjúskaparlaga að hvort hjóna beri ábyrgð á eigin skuldbindingum og geti ekki skuldbundið hitt án samþykkis maka sem eigi vissulega við þar sem kærandi hafi hafið nám sitt áður en hún kynntist eiginmanni sínum sem stjórn LÍN ætlist nú til að borgi lánið. Kærandi bendir á að stjórn LÍN hafi vísað til þess að hún eigi ekki í neinum sérstökum fjárhagsvandræðum sem leitt gætu til niðurfellingar greiðslu. Tekur kærandi fram að þau hjónin hafi gengið undirfjárhagslegar skuldbindingar sínar á meðan hún hafði fullt starfsþrek og hafi þær miðað við að þau laun er hún aflaði yrðu notuð til afborgana til jafns við laun maka. Veikindi kæranda og launalækkun maka hennar í kjölfar efnahagshrunsins hafi gert þeim erfitt með að standa í skilum. Með langvarandi aðhaldi hafi þau nánast ekkert annað gert en að kaupa sér mat ásamt lyfjum fyrir langveikan son og eiginmann sem yrði blindur á fáum árum án þessara lyfja. Því muni þau töluvert um þær 100.000 krónur sem tekjutengda afborgun kæranda hafi verið af láninu haustið 2014. Þá séu þau með 900.000 króna fullnýttan yfirdrátt sem þau hafi ekki getað greitt niður á undanförnum árum. Í viðbótarupplýsingum sem kærandi sendi að beiðni málskotsnefndar kemur fram að sonur hennar sem fæddur er 1997 og á framfæri þeirra hjóna sé haldinn sjaldgæfum sjúkdómi og lagði kærandi fram gögn um lyfjakaup þar sem fram kom að á 4,5 mánaða tímabili var lyfjakostnaður hans rúmar 54 þúsund krónur auk kostnaðar vegna bætiefna sem hann þurfi að taka að læknisráði. Einnig upplýsti kærandi að sjúkdómur sonar hennar kalli á um 10 ferðir frá Selfossi til Reykjavíkur á ári en hún hafi ekki haldið sérstaklega utanum þann kostnað. Þá sendi kærandi einnig gögn um lyfjakaup vegna augnsjúkdóms eiginmanns síns sem nam tæpum 46 þúsund krónum á rúmu ári auk upplýsinga um annan kostnað er eiginmaður kæranda þarf að standa straum af vegna blóðprufa. Kærandi bendir á að kæra hennar snúist þó aðallega um hvort löglegt sé eða siðlegt að ætla eiginmanni hennar að borga lán sem hún hafi tekið en hefur ekki lengur getu til að borga af.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar er vísað til 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í tilvitnuðu ákvæði úthlutunarreglnanna sé lagaákvæðið nánar útfært en þar segi meðal annars að miðað sé við að þær ástæður er valdi fjárhagsörðugleikum hafi varað a.m.k. 4 mánuði fyrir gjalddaga. Einnig segi þar að almennt séu ekki veittar slíkar undanþágur þegar árstekjur eru yfir 3,3 milljónir króna og árstekjur hjóna/sambúðarfólks yfir 6,6 milljónir króna. Hafi stjórn LÍN metið það svo að tvö sjálfstæð skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo lánþegi geti átt rétt á undanþágu frá afborgun. Annars vegar að tilteknar ástæður séu fyrir hendi sem séu til þess fallnar að valda lánþegum fjárhagsörðugleikum eins og til dæmis veikindi eða örorka. Hins vegar að lánþegi teljist vera í verulegum fjárhagsörðugleikum. Þar sem kærandi hafi verið með gilt örorkuskírteini kveðst stjórn LÍN telja að hún uppfylli fyrra skilyrðið. Síðara skilyrðið er lúti að fjárhagsörðugleikum telur stjórn LÍN að gefi nokkuð svigrúm til túlkunar og því sé nauðsynlegt að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða. Í framkvæmd hafi verið litið svo á að einstaklingar undir tekjuviðmiðum sem tilgreind séu í grein 7.5.1 uppfylli sjálfkrafa skilyrði um verulega fjárhagsörðugleika. Þegar lánþegi uppfylli fyrra skilyrðið sé honum boðið að leggja fram frekari gögn er sýni fram á fjárhagsörðugleika og þá sérstaklega hvort viðkomandi sé í greiðsluerfiðleikaúrræðum hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara. Þegar slík mál fari fyrir stjórn sjóðsins sé einnig framkvæmt heildarmat á aðstæðum lánþega og kannað hvort aðstæður hans gefi til kynna að sérstakt tilefni sé til að líta framhjá þeim tekjuviðmiðum sem tilgreind séu í grein 7.5.1. Einnig sé litið til þess hvort einhverjar aðrar ástæður eða gögn í málinu bendi sérstaklega til þess að um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða þrátt fyrir að tekjur séu yfir viðmiðum. Stjórn LÍN bendir á að árstekjur kæranda á viðmiðunarárinu hafi verið 2.572.600 krónur en tekjur maka hennar hafi verið 6.852.900 krónur. Samanlagðar tekjur kæranda og maka hennar hafi þannig verið 9.425.500 krónur sem væri töluvert yfir 6,6 milljón króna viðmiði greinar 7.5.1. Þegar aðstæður kæranda hafi verið metnar heildstætt með hliðsjón af þeim gögnum sem legið hafi fyrir og þeim atriðum sem tiltekin voru í erindi kæranda hafi það verið mat stjórnar að kærandi hafi ekki sýnt fram á verulega fjárhagsörðugleika. Að því er varðar tilvísun kæranda til dóms Hæstaréttar í máli nr. 549/2002 bendir stjórn LÍN á að í þeim dómi og einnig í máli nr. 125/2000 hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að skerða örorkubætur einstaklings með vísan til tekna maka hans. Forsendur fyrir þeirri niðurstöðu hafi verið að í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar felist ákveðin lágmarksréttindi. Þegar örorkubætur hafi verið skertar með hliðsjón af tekjum maka væri jafnvel mögulegt að örorkubæturnar væru að fullu skertar. Væri slík skerðing framkvæmd væru umrædd lágmarksréttindi öryrkja ekki lengur tryggð og bryti tekjutengingin því í bága við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Í þessu sambandi telur stjórn LÍN nauðsynlegt að geta þess að fjárhæð árlegrar afborgunar af námslánum sé tengd árstekjum lánþega og miðast endurgreiðslur því við 3,75% af árstekjum hans. Þegar afborganir kæranda á árinu 2014 hafi verið reiknaðar út hafi því aðeins verið stuðst við hennar tekjur en ekki tekjur maka hennar. Með þessu hafi verið tekið tillit til lágra tekna kæranda. Að mati stjórnar LÍN er bæði málefnalegt og eðlilegt að horfa til heildartekna heimilis við mat á því hvort lánþegi sé í verulegum fjárhagsörðugleikum. Einnig beri að gæta að því að undanþága frá afborgun feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að lánþegar skuli endurgreiða lán og sé heimildinni aðeins ætlað að bregðast við aðstæðum er geti skapast í undantekningartilvikum. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti úrskurðinn í máli kæranda. Í viðbótarathugasemdum stjórnar LÍN vegna upplýsinga um kostnað vegna veikinda sonar kæranda og eiginmanns hennar segir að stjórn LÍN hafi skoðað málið á ný í ljósi nýrra upplýsinga. Sé það heildarmat stjórnar að teknu tilliti til árstekna og fjárhæðar aukakostnaðar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN um verulega fjárhagsörðugleika.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna segir:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015 segir eftirfarandi um veitingu undanþágu vegna fjárhagsörðugleika sem komnir eru til vegna veikinda, þungunar o. þ. h:

7.5.1 Undanþága vegna verulegra fjárhagsörðugleika

Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt er miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega eru yfir 3,3 milljónum og árstekjur hjóna / sambúðarfólks eru yfir 6,6 milljónum. Með lánshæfu námi er átt við að lánþegi sé í lánshæfu námi og að hann sýni fram á lágmarksnámsframvindu. Óvinnufær vegna örorku telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv. skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.


Eins og fram kemur að ofan er miðað við að ástæður þær er valdið hafa fjárhagsörðugleikum hafi varað að jafnaði í fjóra mánuði fyrir gjalddaga þeirrar afborgunar sem undanþágu er óskað frá. Kærandi hefur verið með örorkuskírteini frá því í apríl 2010 og a.m.k. fram að umræddum gjalddaga. Þá eru tekjur hennar einnig undir því viðmiði sem skilgreint er fyrir einstakling, þ.e. 3,3 milljónir króna. Að mati stjórnar LÍN hefur kærandi hins vegar ekki sýnt fram á að örorka hennar hafi valdið verulegum fjárhagsörðugleikum hjá henni og vísar til þess að tekjur kæranda og maka hennar hafi verið yfir því hámarki sem fram komi í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi fengið undanþágu frá afborgunum undanfarin ár. Þá mótmælir kærandi því að tekjur maka verði teknar með í tekjuviðmið. Vísar kærandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 549/2002 þar sem fram komi að „aðalregla íslensks réttar sé réttur fólks til greiðslu óháð því að tekið sé tillit til tekna maka.“ Einnig vísar kærandi til þess að það leiði af 67. og 68. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að maka beri ekki að standa undir skuldbindingum sem hinn aðilinn hefur tekist á hendur án samþykkis hans. Kærandi hefur einnig vísað til þess að þau hjón þurfi að standa undir lyfjakostnaði eiginmanns hennar og langveiks sonar þeirra. Því ákvæði úthlutunarreglna LÍN sem vísað er til í máli þessu var breytt með nýjum úthlutunarreglum vegna 2014-2015 á þann hátt að nú eru tilgreind tekjuviðmið sem að jafnaði skal byggja á við mat á því hvort fjárhagsörðugleikar séu fyrir hendi hjá greiðendum námslána. Úthlutunarreglurnar voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2014. Fyrir þann tíma var tekjuviðmið vegna undanþágu 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 einungis birt á heimasíðu LÍN og miðaðist það við heildartekjur greiðanda og ekki var tekið tillit til tekna maka. Starfsmaður LÍN upplýsti kæranda um að reglur hefðu breyst en þegar hún óskaði frekari upplýsinga um breytingarnar var því ekki sinnt. Þetta er aðfinnsluvert en breytir því ekki að umræddar reglur voru birtar með fullnægjandi hætti í Stjórnartíðindum. Í þeim dómi Hæstaréttar sem kærandi hefur vísað til nr. 549/2002 er að finna nánari túlkun á fyrri dómi Hæstaréttar í máli nr. 125/2000 um að skerðing tekjutryggingar öryrkja í sambúð eða hjúskap vegna tekna maka fæli í sér skerðingu grunnréttinda til lágmarksframfærslu er 76. gr. stjórnarskrárinnar væri ætlað að tryggja. Í máli nr. 549/2002 kemur fram að það yrði að teljast aðalregla íslensks réttar að réttur einstaklinga til greiðslna úr opinberum sjóðum skyldi vera án tillits til tekna. Af þessu tilefni tekur málskotsnefnd fram að í máli því sem hér er til meðferðar er ekki um að ræða greiðslu úr opinberum sjóði heldur viðmið um undanþágu frá afborgun námsláns sem kærandi tók vegna náms og undirtók þá skuldbindingu að endurgreiða. Þá ber til þess að líta að sjálf afborgunin er reiknuð sem hlutfall af tekjum kæranda. Endurspeglar sú tilhögun félagslegt hlutverk sjóðsins þar sem afborganir eru miðaðar við efnahag greiðanda og einnig að litið er á greiðanda sem sjálfstæðan einstakling við endurgreiðslu þar sem ekki er tekið tillit til tekna maka við útreikning afborgunar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 549/2002 segir að dómsorð í máli nr. 125/2000 verði að túlka í ljósi forsendna dómsins sjálfs. Segir Hæstiréttur að "ekkert í [forsendum dómsins] veiti tilefni til þeirrar ályktunar, að löggjafanum sé óheimilt að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu öryrkja til skerðingar." Tekur Hæstiréttur fram að því valdi séu þó settar þær skorður sem lýst hafi verið nánar, þ.e. að slíkt megi ekki leiða til skerðingar á stjórnarskrárvernduðum rétti hvers einstaklings til að minnsta kosti einhverrar lágmarksframfærslu eftir fyrirframgefnu skipulagi, sem kveðið væri á um á málefnalegan hátt. Í umræddum dómi er einnig vísað til þess að það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að gera einhvern mun á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi væri í sambúð eða ekki þar sem talið hafi verið að einstaklingur í hjúskap eða sambúð þyrfti minna sér til framfærslu en sá sem byggi einn. Þá bendir málskotsnefnd á að í mörgum tilvikum miða opinberir aðilar við heildartekjur heimilis við mat á þörf fyrir aðstoð, s.s. fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þar sem allar tekjur, þ.m.t. tekjur maka eru taldar með við mat á fjárþörf. Þær takmarkanir sem vísað er til í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar gilda því aðeins þegar um er að ræða skerðingu á þeirri lágmarksframfærslu sem vísað er til í 76. gr. stjórnarskrárinnar. Ljóst er að ekki er um slíkt að ræða í máli þessu. Kærandi hefur einnig vísað til þess að 67. og 68. gr. hjúskaparlaga komi í veg fyrir að tekjur maka séu teknar með við mat á því hvort skilyrði undanþágu samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 eigi við. Málskotsnefnd telur fyrrgreind ákvæði hjúskaparlaga ekki eiga við í máli þessu á þann hátt sem kærandi vísar til. Það leiðir af 66. gr. hjúskaparlaga að kærandi ber ein ábyrgð á námslánaskuldum sínum og standa eignir hennar til fullnustu þeim ef þörf er á en ekki eignir maka hennar. Þess ber og að geta að hjúskaparlög kveða á um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og í því felst að hvort um sig leggi til framfærslu eftir getu og aðstæðum, sbr. VII. kafla hjúskaparlaga. Af þessu leiðir að gert er ráð fyrir að sá maki sem meira hefur umleikis geti þurft að leggja meira til framfærslu ef svo ber undir. Eins og áður er fram komið voru tekjur kæranda 2.572.600 krónur, tekjur maka hennar 6.852.900 krónur og samanlagðar tekjur þeirra 9.425.500 krónur. Tekjuviðmið LÍN er 3,3 milljónir króna og 6,6 milljónir króna fyrir hjón/sambúðaraðila. Sú afborgun sem kærandi hefur óskað niðurfellingu á er rúmar 25 þúsund krónur og var gjalddagi hennar 1. september 2014. Kærandi hafði áður fengið undanþágu frá fastri afborgun 1. mars 2014. Afborgun kæranda er reiknuð sem hlutfall af hennar tekjum hennar en ekki af tekjum maka hennar og eru tekjur maka einungis taldar með við mat á hvort um verulega fjárhagsörðugleika hjá kæranda er að ræða. Hafa ber í huga að um er að ræða undanþágu sem ber að skýra þröngt. Að mati málskotsnefndar er í þessu sambandi ekki óeðlilegt eða ómálefnalegt að líta til heildartekna heimilis við mat á fjárhagsörðugleikum. Með vísan til framaritaðs verður að fallast á það mat stjórnar LÍN að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi átt í verulegum fjárhagsörðugleikum fyrir gjalddagann 1. september 2014. Breyta upplýsingar kæranda um lyfjakostnað og annan kostnað vegna veikinda ekki þessu heildarmati. Er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda frá 21. nóvember 2014. Eins og áður er getið var eiginmaður kæranda ekki aðili að málinu fyrir stjórn LÍN og er kærunni vísað frá hvað hann varðar.

Úrskurðarorð

Hinn kærða ákvörðun frá 21. nóvember 2014 í máli kæranda er staðfest. Kærunni er vísað frá að því er varðar eiginmann kæranda.

Til baka