Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-29/2014 - Niðurfelling ábyrgðar - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 20. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-29/2014:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 19. desember 2014 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. september 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda um afskrift á námsláni sem hann er í ábyrgð fyrir gegn eingreiðslu hluta þess. Þá var því einnig hafnað að kærandi fengi að taka við greiðslum af námsláninu óbreyttu og greiða af því í samræmi við tekjur aðalskuldara eins og skilmálar lánsins kváðu á um í upphafi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 19. desember 2014 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 22. janúar 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 18. febrúar 2015. Með bréfi dagsettu 20. apríl 2015 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga frá stjórn LÍN og bárust þær nefndinni í bréfi dagsettu 21. apríl. Var kæranda þá gefinn kostur á að tjá sig um þær upplýsingar sem hann gerði í bréfi dagsettu 7. maí.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er ábyrgðarmaður á námslánum sonar síns sem úrskurðaður var gjaldþrota þann í mars 2014. LÍN sendi kæranda tilkynningu um gjaldþrotið með bréfi dagsettu 22. apríl 2014 þar sem m.a kom fram að staða ábyrgðarskuldarinnar væri 3.783.835 krónur. Þá var kæranda jafnframt tilkynnt að krafa vegna námslánsins myndi eftirleiðis beinast að honum sem ábyrgðarmanni og kærandi beðinn um að hafa samband við LÍN til þess að semja um kröfuna eða til að fá frekari upplýsingar um hana. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN, dagsett 14. maí 2014, þar sem hann upplýsti að eins og staða hans væri í dag þá hefði hann ekki greiðslugetu til að taka á sig nýjar skuldbindingar. Óskaði hann eftir því við LÍN að annað hvort yrði lánið afskrifað að verulegu leyti gegn eingreiðslu eða að kærandi tæki við láninu óbreyttu og greiddi af því í samræmi við upprunalega skilmála lántakanda. LÍN hafnaði kröfum kæranda í hinni kærðu ákvörðun með vísan til þess að ekki væri lagaheimild fyrir hendi til að fella niður námslán, hvorki að hluta né að fullu. Þá var því einnig hafnað að kærandi gæti fengið að taka við greiðslu lánsins á sömu kjörum og lántakandi hafi notið. Var kæranda boðið að taka skuldabréf hjá LÍN til allt að 10 ára til þess að dreifa greiðslum á umræddri ábyrgðarskuldbindingu. Boð um skuldabréfalán hjá LÍN var háð því skilyrði að kærandi stæðist almenn skilyrði sjóðsins til lántöku sem og greiðslumat í viðskiptabanka hans.

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að með því að fallast á greiðslu námslánsins með þeim hætti sem LÍN bjóði sé LÍN að fá skuldina greidda tvisvar eða þrisvar sinnum hraðar en til hafi verið stofnað í upphafi og auk þess á mörgum sinnum hærri vöxtum. Þá sé gert ráð fyrir að allur kostnaður verði greiddur af kæranda og því séu ekki rök fyrir 1% vaxtaálagi LÍN. Einnig bendir kærandi á að ef umrætt námslán hefði verið tekið nokkrum árum síðar hefði ekki verið gerð krafa um ábyrgðarmann og lánið hefði því fengið sömu meðferð og aðrar skuldir lántaka við gjaldþrot hans. Í ljósi þessa telji kærandi það ósanngjarnt að LÍN skuli ganga fram af þeirri hörku sem raun ber vitni. Kærandi vísar til þess að greiðslugeta hans sé með þeim hætti í dag að hann sé ófær að taka á sig nýjar fjárhagslegar skuldbindingar og myndi hvergi fá lán. Þrátt fyrir þetta þá hafi LÍN engu að síður lagt til að kærandi tæki lán hjá stofnuninni og útvegaði ábyrgðarmann fyrir því láni. Hér sé verið að lána aðila sem vitað sé fyrirfram að sé ekki borgunarmaður fyrir láninu og ljóst að ekki sé hægt að reikna með því að ábyrgðarmaður fáist undir slíkum kringumstæðum. Kærandi bendir á að hann hafi lagt fram raunhæfar tillögur til lausnar málinu, þ.e annars vegar að lánið verði afskrifað að verulegu leyti, t.d. um 50%, og eftirstöðvar yrðu greiddar sem eingreiðsla, og hins vegar að kærandi tæki við námsláninu óbreyttu og greiddi af því í samræmi við tekjur lántakanda í samræmi við upphaflega skilmála lánsins. Kærandi vísar til þess LÍN hóti því að selja húsnæði hans og konu hans, sem séu 74 og 75 ára, til að innheimta ábyrgðarskuldina á námsláni sonar hans. Bendir kærandi á að vegna mikillar veðsetningar á húsnæðinu sé ljóst að það myndi ekki skila LÍN neinu. Kærandi bendir einnig á að hann og eiginkona hans séu nýkomin úr umsjá Umboðsmanns skuldara sem þau hafi leitað til eftir hrun. Þeim hafi tekist að verja heimili sitt með eignasölu og töluverðum fjárútlátum. Þau hafi ekki fengið neinar skuldir niðurfelldar og þær hafi hækkað umtalsvert eins og hjá öðrum. Þá hafi lífeyrisgreiðslur kæranda frá lífeyrissjóði hans lækkað verulega frá hruni og að einu tekjur eiginkonu hans sé ellilífeyrir frá Tryggingarstofnun ríkisins. Tekjur þeirra dugi varla fyrir afborgunum lána og uppihaldi. Kærandi telur að LÍN hafi í hinni kærðu ákvörðun algerlega horft fram hjá því að hann sé ófær um að taka ný lán. Virðist honum sem að LÍN hafi ekki kynnt sér aðstæður hans og þau gögn sem hann hafi lagt fram í málinu með fullnægjandi hætti. Telur kærandi að svör LÍN og athugun hafi verið með stöðluðum hætti og að ekki hafi farið fram einstaklingsbundið mat á máli hans og aðstæðum áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.

Sjónarmið LÍN

LÍN byggir á því að samkvæmt 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. falla allar kröfur sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að bú sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem áður kunni að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti. Við úrskurð héraðsdóms um gjaldþrot lántaka hafi námslánið gjaldfallið í heild sinni og hægt sé að ganga að ábyrgðarmanni til greiðslu heildarskuldar. Þrátt fyrir það hafi LÍN boðið ábyrgðarmönnum að semja við LÍN um að taka skuldabréf hjá sjóðnum til greiðslu skuldarinnar til allt að 10 ára til þess að dreifa greiðslum vegna slíkra skuldbindinga en ekki sé lengur hægt að greiða af láninu með upphaflegum greiðsluhætti lántaka. LÍN bendir á að sjóðurinn hafi ekki lagaheimild til þess að fella niður ábyrgð á námsláni í neinum tilvikum. Lögmæt krafa verði ekki felld niður nema skýr lagaheimild sé fyrir því og því hafi beiðni kæranda um að krafa gegn honum yrði afskrifuð að verulegu leyti gegn því að hann greiddi upp eftirstöðvar lánsins með eingreiðslu verið synjað. Kærandi hafi einnig farið fram á að honum yrði heimilað að taka við umræddu námsláni og greiða af því samkvæmt upprunalegum skilmálum. LÍN bendir á að þegar lántaki umrædds láns hafi verið úrskurðaður gjaldþrota hafi námslánið gjaldfallið eins og aðrar kröfur á hendur honum í samræmi við 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Ef fallast ætti á kröfu kæranda hvað þetta varðar þá þyrfti að veita honum nýtt lán á sömu kjörum og almenn námslán í því skyni að greiða upp hina gjaldföllnu kröfu. Námslán séu lán sem veitt séu námsmönnum á niðurgreiddum kjörum og því um ríkisaðstoð að ræða og verði slík aðstoð ekki veitt nema lagaheimild sé fyrir því. Samkvæmt lögum um LÍN sé sjóðnum heimilt að veita slík lán til námsmanna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi sé ekki námsmaður og því ljóst að hann uppfylli ekki þau skilyrði og því skorti LÍN lagaheimild til að veita honum slíkt lán. Því hafi beiðni kæranda um lán á sömu kjörum og almennt námslán verið synjað. LÍN bendir á að kæranda hafi verið boðið skuldabréfalán hjá sjóðnum til allt að 10 ára til þess að dreifa greiðslum á umræddri ábyrgðarskuldbindingu. Í viðbótarupplýsingum hefur LÍN greint frá því að ef greiðslugeta ábyrgðarmanns er lítil í samanburði við fjárhæð skuldabréfs þá hefur LÍN í ákveðnum tilvikum boðið ábyrgðarmanni skuldabréf til lengri tíma en 10 ára. Þá upplýsti LÍN með hvaða hætti sjóðurinn framkvæmdi einstaklingsbundið mat í máli kæranda og hver niðustaðan hafi verið af því mati. LÍN byggir á því að niðurstaðan í þessu máli sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar í sambærilegum málum.

Niðurstaða

LÍN er opinber stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að tryggja þeim sem falla undir lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna tækifæri til náms án tillit til efnahags. LÍN veitir lán til námsmanna í framhaldsnámi samkvæmt lögum og reglum sem um sjóðinn gilda. Er starfsemi sjóðsins fjármögnuð með endurgreiðslu námslána, ríkisframlagi og lánsfé. LÍN ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda sérstaklega um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera og svo reglum fjármunaréttarins eftir því sem við á. Með lögum nr. 78/2009 var gerð sú breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN, að í stað þess að lántaki yrði að leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns, varð meginreglan sú að námsmaður ber einn ábyrgð á endurgreiðslu námsláns, að uppfylltum skilyrðum stjórnar LÍN. Í ákvæði til bráðabirgða í breytingalögunum kemur fram að ákvæði laganna gilda ekki um lánsloforð sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna. Um þau fara eftir þágildandi lagaákvæðum, reglugerðum og úthlutunarreglum sjóðsins. Í bráðabirgðaákvæðinu kemur einnig fram að LÍN skuli við innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum námslána vera bundin af þeim reglum sem fram komi í III. kafla laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, eftir því sem við á. Markmið laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn er að setja reglur um ábyrgðir einstaklinga, draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar að greiðslugetu lántaka og hans eigin trygginga. Sjálfskuldarábyrgð er kröfuréttarlegs eðlis og er notuð í lánastarfsemi almennt. Með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð skuldbindur einstaklingur sig til að tryggja efndir kröfu gagnvart lánveitanda ef lántaki reynist ekki borgunarmaður fyrir greiðslu skuldarinnar. Efni kröfunnar ræðst af þeim löggerningi sem liggur henni til grundvallar, s.s. samningi eða skuldabréfi, og eftir lögum sem gilda hverju sinni. Skuldabréfin sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir voru gefin út á árunum 1988 til 1992 og eru 14 talsins. Endurgreiðslutími, og þar með líftími skuldabréfanna og ábyrgðarinnar, er 40 ár. Við útgáfu skuldabréfanna voru í gildi lög nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki. Samkvæmt þeim var gerð krafa um að námsmaður, sem fengi lán úr lánasjóðnum, legði fram yfirlýsingu eins ábyrgðarmanns, um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Skilmálar ábyrgðaryfirlýsinga kæranda á skuldabréfunum eru samhljóða og hljóða svo: "Til tryggingar skilvísri greiðslu á láni þessu, höfuðstól að viðbættum verðtryggingum svo og þeim kostnaði er vanskil lántakanda kunna að valda, hefur ofanritaður ábyrgðarmaður lýst yfir því, að hann ábyrgist in solidum lán þetta sem sjálfskuldarábyrgðarmaður." Skilmálar ábyrgðarinnar samkvæmt skuldabréfunum eru hefðbundnir og skýrir. Samkvæmt 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdómara um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta og gildir það um námslán sem aðrar kröfur gjaldþrota aðila. Við það að lántakandi var úrskurðaður gjaldþrota varð ábyrgð kæranda á láninu virk. Kærandi hefur óskað eftir því að fallist verði á að krafa LÍN á hendur honum verði afskrifuð að verulegu leyti gegn því að eftirstöðvar kröfunnar verði greiddar með eingreiðslu. Ef ekki verði fallist á það gerir kærandi kröfu um að honum verði heimilað að taka við námsláni lántaka með óbreyttum skilmálum, þ.e. að ljúka greiðslu ábyrgðarskuldbindinga sinna með sama hætti og með sömu kjörum og lántaki hafði. Þá hefur kærandi sérstaklega vísað til þess að hann hefur ekki greiðslugetu til að greiða af skuldbindingu sinni með þeim hætti sem LÍN hafi boðið upp á. LÍN hefur hafnað kröfum kæranda með vísan til skorts á lagaheimild. Á almennum lánamarkaði ríkir samningsfrelsi og ábyrgðarmenn sem taka þurfa við skuldbindingu lántakanda geta almennt leitað samninga við lánveitendur um efndir skuldbindinga sinna, fyrirkomulag greiðslunnar og samið um niðurfellingu skuldarinnar gegn hlutagreiðslu, allt eftir aðstæðum hverju sinni. Þegar lánveitendur meta slík tilboð er það m.a. gert út frá greiðslu- og eignastöðu skuldarans og sjónarmiðum lánveitanda um að hámarka innheimtu lánsins. Í lögum og reglum um LÍN er ekki að finna heimild til að fella niður útistandandi skuld vegna námslána, hvorki vegna aðstæðna lántakenda eða ábyrgðarmanna, hvort heldur sem lánið er ógjaldfellt en í vanskilum hjá lántakanda eða að lánið hafi verið gjaldfellt gagnvart lántakanda og ábyrgð sjálfskuldaraðila virkjuð. Málskotsnefndin telur ljóst að löggjöfin um LÍN setur sjóðnum skorður sem þrengir fyrrgreint samningsfrelsi gagnvart ábyrgðarmönnum námslána. Verður að fallast á það með LÍN að sjóðnum er óheimilt að fella niður eftirstöðvar námslánaskuldar með því að samþykkja hlutagreiðslu eins og kærandi hefur óskað eftir. Þá kemur til skoðunar beiðni kæranda um að honum verði heimilað að taka við námsláni lántaka með óbreyttum skilmálum þ.e. að ljúka greiðslu ábyrgðarskuldbindinga sinna með sama hætti og með sömu kjörum og lántaki hafði. Fyrir liggur að LÍN námslán eru veitt námsmönnum að uppfylltum skilyrðum samkvæmt lögum, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins hverju sinni. Námslán eru lán frá lánastofnun í eigu ríkisins sem veitt eru á félagslegum grunni og niðurgreiddum kjörum. Fallast verður á það með LÍN að þegar gengið er til samninga við ábyrgðarmann með nýju láni til greiðslu á skuld vegna gjaldfallins námsláns er ekki heimilt án sérstakrar lagaheimildar að miða við sömu kjör við lánveitinguna og námsmaður naut. Kærandi hefur vísað sérstaklega til aðstæðna sinna og þess að af hálfu LÍN hafi ekki farið fram einstaklingsbundið mat á máli hans og honum boðin úrræði í samræmi við aðstæður sínar. Í lögum um LÍN, reglugerð og úthlutunarreglum sjóðsins, er hvorki vikið að því með hvaða hætti sjóðurinn skuli standa að innheimtu gagnvart ábyrgðarmönnum né með hvaða hætti heimilt sé að semja við ábyrgðarmenn um frágang á ábyrgðarskuld við sjóðinn. Innheimta LÍN gagnvart ábyrgðarmönnum námslána er framkvæmd á grundvelli kröfuréttarlegra sjónarmiða en innan ramma laga um sjóðinn sem gerir svigrúm sjóðsins til samninga við ábyrgðarmenn þrengra en gerist almennt hjá lánastofnunum eins og áður hefur komið fram. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu, þ. á m. við ákvarðanir um innheimtu námslána, að fylgja þeim sérstöku lagareglum sem gilda um stjórnsýslu ríkisins, bæði settum og óskráðum grundvallarreglum, og vönduðum stjórnsýsluháttum. Málskotsnefnd telur að af sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti leiði að LÍN ber að gæta þess að við innheimtu krafna á hendur ábyrgðarmönnum sé farið að meginreglum íslensks kröfuréttar og að vandað sé til um innheimtu slíkra skulda. Einnig að höfð séu í huga þau sjónarmið og áherslur sem löggjafinn leggur áherslu á við meðferð mála þar sem einstaklingar eru krafðir um greiðslu skulda vegna sjálfskuldarábyrgða og fram koma í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Í þeim lögum er kveðið sérstaklega á um vernd ábyrgðarmanna við innheimtu á ábyrgðarkröfum. Samkvæmt 7. gr. má lánveitandi ekki gjaldfella lán nema gefa ábyrgðarmanni kost á að greiða gjaldfallnar afborganir. Þegar um gjaldþrot er að ræða nýtur þessarar verndar þó ekki við þar sem 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti kveður á um, eins og áður greinir, að allar skuldbindingar falli í gjalddaga við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Er það óháð vilja lánveitanda og því hvort umrætt lán hefur verið í skilum eða ekki. Á móti segir í 8. gr. laga um ábyrgðarmenn að ekki sé heimilt að gera aðför í fasteign, sem ábyrgðarmaður býr í eða fjölskylda hans, ef krafa á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar. Þá er einnig mælt fyrir um að lánveitandi geti ekki krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns ef krafa hans á rót sína að rekja til persónulegrar ábyrgðar nema gert sé sennilegt að um sviksamlegt undanskot ábyrgðarmanns sé að ræða. Kærandi í máli þessu nýtur verndar 8. gr. laga um ábyrgðarmenn bæði gegn aðför í húsnæði sínu og gjaldþrotaskiptum vegna umræddrar ábyrgðarskuldbindingar. LÍN hefur sett sér viðmiðunarreglur varðandi þau úrræði sem í boði eru fyrir ábyrgðarmenn vegna námslánaskulda. Hefur sjóðurinn upplýst málskotsnefnd um þær við meðferð fyrri mála fyrir nefndinni. Slíkar viðmiðunarreglur stuðla að jafnræði og skilvirkni í meðferð mála er varða ábyrgðarmenn námslána. Málskotsnefnd tekur þó fram að um er að ræða viðmiðunarreglur sem ekki kunna að eiga við í öllum tilvikum, s.s. þegar líkindi eru fyrir því að ábyrgðarmaður hafi ekki greiðslugetu til að standa undir afborgunum þess láns sem LÍN býður samkvæmt viðmiðunarreglum sjóðsins. Þegar slíkt liggur fyrir þá hefur LÍN að mati málskotsnefndar svigrúm til að koma til móts við aðstæður ábyrgðarmanns t.d. með láni til lengri tíma en viðmiðunarreglur sjóðsins gera ráð fyrir. Með því aukast einnig líkur þess að sjóðurinn fái fullar efndir á viðkomandi ábyrgðarskuld. Því ber LÍN að skoða hvert tilvik fyrir sig og meta á grundvelli fyrirliggjandi gagna og innan þeirra heimilda sem sjóðurinn hefur með hvaða hætti hægt er að semja við ábyrgðarmann hverju sinni. Í þessu sambandi bendir málskotsnefnd sérstaklega á að innheimta stjórnvalds á skuld ábyrgðarmanns vegna námslána þriðja aðila er íþyngjandi athöfn í garð ábyrgðarmanns og að mjög mikilvægt er að staðið sé vel að innheimtu slíkra mála. Í þessu máli liggur fyrir að LÍN sendi kæranda tilkynningu um gjaldþrot lántakanda með bréfi dagsettu 22. apríl 2014. Kærandi sendi erindi til LÍN með bréfi dagsettu 14. maí 2014 þar sem fram kemur að hann hafi verið í sambandi við LÍN um frágang á ábyrgðarskuldinni og verið upplýstur um þau úrræði sem í boði væru. Í erindi kæranda koma fram hugmyndir til lausnar þar sem hann telur sig ekki geta gengið að tillögum LÍN um frágang vegna aðstæðna sinna og erfiðrar fjárhagsstöðu. LÍN óskaði eftir nánari upplýsingum um aðstæður hans með bréfi dagsettu 19. júní 2014 og í framhaldi skilaði kærandi gögnum til LÍN. Í kæru til málskotsnefndar kemur fram að kærandi telur að LÍN hafi ekki skoðað þau gögn sem hann hafi lagt fram við málsmeðferðina og að hans mál hafi ekki verið skoðað sérstaklega af hálfu LÍN áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin og honum boðið að leysa málið með skuldabréfi til 10 ára. Við málsmeðferðina fyrir málskotsnefnd hefur LÍN upplýst með hvaða hætti mál kæranda var tekið til einstaklingsbundinnar skoðunar og hvernig niðurstaða þeirrar skoðunar hafi leitt til þessa boðs um frágang á skuldinni. Telur málskotsnefnd að staðið hafi verið að því með fullnægjandi hætti. Málsskotsnefnd fellst á það með LÍN, sbr. hér fyrr, að án viðhlítandi lagaheimildar sé ekki unnt að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu á skuld hans við sjóðinn gegn greiðslu ákveðinnar fjárhæðar né heldur að veita honum lán með sömu skilmálum og lántaki fékk hjá sjóðnum við töku námslánsins. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd að staðfesta beri niðurstöðu LÍN í máli kæranda frá 24. september 2014.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. september 2014 í máli kæranda er staðfest. 

Til baka