Kæruefni
Með kæru dagsettri 27. maí 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 21. apríl 2015 um að synja beiðni hans um undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar 2015. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. júní 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Bárust athugasemdir stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 8. júlí 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi fór þess á leit við LÍN að fá undanþágu frá greiðslu
fastrar afborgunar vorið 2015 vegna atvinnuleysis. Hafði kærandi þáð
atvinnuleysisbætur og var hann því talinn uppfylla skilyrði um atvinnuleysi
fjóra mánuði fyrir gjalddaga. Kærandi taldi sig vera innan tekjuviðmiðs
úthlutunarreglna LÍN og þyrfti hann af þeim sökum ekki að leggja fram frekari
gögn um aðstæður sínar. LÍN fór þess á leit við kæranda að hann sýndi fram á með
framlagningu viðeigandi gagna að atvinnuleysið hefði valdið honum verulegum
fjárhaglegum örðugleikum. Kærandi lagði ekki fram frekari gögn og var beiðni
hans synjað. Kærandi sendi erindi til stjórnar LÍN 19. mars 2015 þar sem hann
gerði athugasemdir við afgreiðslu sjóðsins. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda
með ákvörðun sinni 21. apríl 2015 þar sem stjórnin taldi fyrirliggjandi gögn um
sameiginlegar tekjur kæranda og sambýliskonu hans ekki gefa til kynna að um
verulega fjárhagsörðugleika hafi verið að ræða fyrir gjalddagann 1. mars 2015.
Vísaði stjórn LÍN til greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins 2014-2015.
Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar 27. maí 2015.
Sjónarmið kæranda.
Í kæru sinni til málskotsnefndar vísar
kærandi til þeirra röksemda sem fram komi í erindi hans til stjórnar LÍN. Þar
kemur fram að kærandi hafi haft rétt rúmar 2,5 milljónir króna í árstekjur 2014.
LÍN hafi kallað eftir upplýsingum um tekjur sambýliskonu hans frá
skattyfirvöldum og að þeim fengnum synjað um undanþágu þar sem samanlagðar
tekjur þeirra væru hærri en 6,6 milljónir króna. Kærandi lýsir því að hann og
sambýliskona hans séu með aðskilinn fjárhag. Hafi LÍN engar heimildir til að
kalla eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra um tekjur sambýliskonu án hennar
samþykkis. Telur kærandi að slíkt hljóti að teljast brot á lögum um
persónuvernd. Þá telur kærandi að það standist ekki skoðun að LÍN geti sett það
skilyrði í úthlutunarreglum að miðað skuli við tekjur sambúðaraðila. Ekki ríki
gagnkvæm framfærsluskylda milli sambúðaraðila og þeir beri ekki sameiginlega
skuldarábyrgð. Kærandi telur verulega gagnrýnivert að setja slíka íþyngjandi
reglu í úthlutunarreglur án skýrrar lagaheimildar. Vekur kærandi sérstaka
athygli á því að færi hann í greiðslumat hjá umboðsmanni skuldara þá yrði ekki
miðað við tekjur sambúðaraðila og að framfærslan yrði helminguð til að finna út
greiðslugetu.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Í athugasemdum
stjórnar LÍN vegna kærunnar er vísað til greinar 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN
fyrir 2015-2016 og þeirra fjárhæða er þar koma fram. Fyrir mistök hafi í
ákvörðun stjórnar LÍN verið vísað til eldri úthlutunarreglna fyrir árið
2014-2015. Stjórn LÍN hafi hins vegar tekið ákvörðun um að við vinnslu á
undanþágubeiðnum vegna gjalddaga 1. mars 2015 skyldi miðað við úthlutunarreglur
2015-2016. Umrædd mistök hafi þó ekki efnislega þýðingu að mati stjórnar LÍN. Í
tilvitnuðum úthlutunarreglum komi fram að undanþága verði almennt ekki veitt
þegar árstekjur lánþega séu yfir 3.330.000 krónum eða árstekjur
hjóna/sambúðarfólks séu yfir 6.660.000 krónum. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur
fram að samanlagðar tekjur kæranda og sambýliskonu hans hafi verið yfir
tekjuviðmiðinu. Hafi kæranda verið boðið að sýna fram á verulega
fjárhagsörðugleika með öðrum hætti, til dæmis um greiðsluerfiðleikaúrræði hjá
viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara. Engin slík gögn hafi borist frá kæranda
og hafi umsókn hans því verið synjað. Stjórn LÍN vísar til þess að þó ekki sé
lögbundin framfærsluskylda milli einstaklinga í skráðri sambúð verði almennt að
líta svo á að sambúðaraðilar sem séu samskattaðir séu að einhverju leyti með
sameiginlegan fjárhag. Ekkert hafi komið fram í erindi kæranda sem styðji þá
fullyrðingu hans að hann og sambýliskona hans séu með algerlega aðskilinn
fjárhag. Bendir stjórn LÍN á að endurgreiðslur séu miðaðar við tekjur kæranda
eingöngu en ekki miðaðar við heildartekjur heimilis. Hafi því verið tekið tillit
til þess að kærandi hafi lágar tekjur. Einnig vísar stjórn LÍN til 6. mgr. 8.
gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem komi fram að
heimilt sé að veita undanþágu frá ársgreiðslu ef tilteknar aðstæður valda
"verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans". Þannig
sé gert ráð fyrir því að þeir fjárhagsörðugleikar er veiti rétt til undanþágu
frá afborgun séu ekki aðeins bundnir við lánþega sjálfan. Reglan geti því virkað
ívilnandi þrátt fyrir að lántaki sé með tekjur yfir 3.330.000 krónur ef
sameiginlegar tekjur lántaka og maka hans eru undir 6.660.000 krónum. Sé það mat
stjórnar LÍN að rétt sé að líta til sameiginlegra tekna við mat á því hvort
einstaklingur í hjúskap eða skráðri sambúð teljist í verulegum
fjárhagsvandræðum. Þá er að mati stjórnar LÍN lagaheimild til að kalla eftir
tekjum maka frá ríkisskattstjóra í 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um
persónuvernd. Samkvæmt grein 8.5.1 í úthlutunarreglum LÍN sé undanþága almennt
ekki veitt ef árstekjur sambúðarfólks eru yfir 6.660.000 krónum. Stjórnar LÍN
telur að ekki sé mögulegt að afgreiða umsókn um undanþágu nema tekjur umsækjanda
og maka hans liggi fyrir. Ef LÍN kallaði ekki beint eftir þessum upplýsingum
væri nauðsynlegt að krefja umsækjanda sjálfan um þær við afgreiðslu
umsóknarinnar. Telur stjórn LÍN bæði rökrétt og eðlilegt að afla upplýsinganna
með þessum hætti til að auðvelda umsóknarferlið bæði fyrir umsækjanda og LÍN.
Ekki verði séð að vinnsla upplýsinganna hafi svo íþyngjandi áhrif fyrir
umsækjanda og maka hans að ólögmætt sé að afla þeirra með þessum hætti. Að mati
stjórnar LÍN er ákvörðunin í máli kæranda í samræmi við lög og reglur sem um
sjóðinn gilda og einnig í samræmi við sambærilegar ákvarðanir stjórnar LÍN og
málskotsnefndar. Fer stjórn LÍN fram á að málskotsnefnd staðfesti hina kærðu
ákvörðun.
Niðurstaða
Í 6. og 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 segir:
Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri
endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar
breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður
fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla
tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu
skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar
sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða
fjölskyldu hans. Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr. skal leggja
sjóðstjórn til þær upplýsingar sem stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal
berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.
Málskotsnefnd telur að stjórn LÍN sé heimilt að beita fjárhagsviðmiðum
úthlutunarreglna fyrir 2015-2016, sem birtar voru 19. mars 2015 og tóku gildi 1.
apríl 2015, enda er það ívilnandi gagnvart kæranda. Í úthlutunarreglunum segir
eftirfarandi um veitingu undanþágu vegna fjárhagsörðugleika:
7.5.1
Undanþága vegna verulegra fjárhagsörðugleika Sjóðsstjórn er heimilt að veita
undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef lánshæft nám,
atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar eða umönnunar
barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum
fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt er miðað við að ekki séu veittar
undanþágur ef árstekjur lánþega eru yfir 3.330.000 kr. og árstekjur hjóna /
sambúðarfólks eru yfir 6.660.000 kr. vegna tekna ársins á undan. Með lánshæfu
námi er átt við að lánþegi sé í lánshæfu námi og að hann sýni fram á
lágmarksnámsframvindu. Óvinnufær vegna örorku telst sá sem hefur rétt til
örorkulífeyris skv. skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að
ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir
gjalddaga afborgunar.
Fyrir liggur í málinu að kærandi hefur þegið
atvinnuleysisbætur ásamt því að vinna hlutastarf síðustu fjóra mánuði fyrir
gjalddagann 1. mars 2015. Kærandi telur það ekki standast skoðun að LÍN hafi
sett það skilyrði í úthlutunarreglunum að miða skuli við árstekjur sambúðaraðila
við mat á undanþágu frá afborgun. Það ríki ekki gagnkvæm framfærsluskylda milli
sambúðaraðila og beri þeir ekki sameiginlega ábyrgð á skuldum. Kærandi telur
slíka reglu ekki standast án skýrrar lagaheimildar. Málskotsnefnd bendir á að
síðari afborgun námsláns kæranda 2015 er reiknuð sem hlutfall af tekjum hans.
Hvort sem aðilar eru í hjónabandi eða sambúð ber hvor aðili um sig ábyrgð á
skuldum sínum. Er þannig litið á kæranda sem sjálfstæðan einstakling við
endurgreiðslu þar sem ekki er tekið tillit til tekna maka hans við útreikning
afborgunar. Með tekjuviðmiði afborgana er einnig tekið tillit til lágra tekna án
tillits til þess hvort greiðandi eigi í verulegum fjárhagsörðugleikum. Kæranda
ber að standa skil á greiðslu afborgana námsláns nema sérstakar undanþágur eigi
við. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN þarf kærandi að sýna fram á að
atvinnuleysi hans hafi valið honum verulegum fjárhagsörðugleikum. Þrátt fyrir að
ekki sé gagnkvæm framfærsluskylda milli aðila í sambúð telur málskotsnefnd að
það geti átt við málefnaleg rök að styðjast að líta til heildartekna beggja
sambúðaraðila, m.a. þar sem telja verður að einstaklingur í hjúskap eða sambúð
þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn. Þá er getur einnig myndast
fjárhagsleg samstaða milli sambúðarfólks á sambærilegan hátt og milli aðila í
hjúskap. Umrædd fjárhæð 6.660.000 krónur er aðeins almennt viðmið um að þegar
tekjur kæranda og sambýliskonu hans eru yfir tilteknu viðmiði verði ekki litið
svo á að kærandi eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Þetta viðmið
girðir hins vegar ekki fyrir að kærandi geti lagt fram frekari gögn sem sýna að
hann eigi allt að einu við verulega fjárhagsörðugleika að stríða sökum
atvinnuleysis. Er grein 8.5.1 því ekki efnisákvæði sem er íþyngjandi á þann hátt
að girði endanlega fyrir rétt umsækjenda til að fá undanþágu frá afborgun. Með
vísan til þessa telur málskotsnefnd að umrætt viðmið í úthlutunarreglum LÍN eigi
sér fullnægjandi stoð í lögum og reglugerð sem um sjóðinn gilda. Samkvæmt 7.
mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 skal skuldari sem sækir um undanþágu leggja fyrir
stjórn sjóðsins "þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli." Að mati
málskotsnefndar hefur stjórn LÍN samkvæmt þessu víðtækar heimildir til að leggja
fyrir umsækjendur um undanþágur að leggja fram gögn um fjárhagsaðstæður sínar
sem skipta máli að mati stjórnarinnar, m.a. um tekjur maka/sambúðaraðila. Leggi
umsækjendur ekki fram nauðsynleg gögn er stjórn sjóðsins rétt að synja um
undanþágu. Ofangreint ákvæði segir þó ekki til um hvort stjórn LÍN sé heimilt að
kalla eftir gögnum beint frá skattyfirvöldum um tekjur maka/sambúðaraðila
umsækjenda án samþykkis þess er upplýsingarnar varða. Kærandi hefur byggt á því
að upplýsingaöflun án samþykkis sambúðaraðila síns feli í sér brot á lögum um
persónuvernd. Af þessu tilefni bendir málskotsnefnd á að samkvæmt 1. mgr. 37.
gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga annast sérstök
stofnun, Persónuvernd, eftirlit með framkvæmd laganna og reglna settra samkvæmt
þeim. Í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 segir að Persónuvernd úrskurði í
"ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga á
Íslandi" og að Persónuvernd geti "fjallað um einstök mál að eigin
frumkvæði eða samkvæmt erindi þess sem telur að ekki hafi verið unnið með
persónuupplýsingar um hann" í samræmi við lög um persónuvernd og reglur sem
settar eru samkvæmt þeim eða einstökum fyrirmælum. Brestur því málskotsnefnd
vald til að fjalla um þennan lið kærunnar. Fram kemur í gögnum málsins að tekjur
kæranda árið 2014 voru 2.498.913 krónur, tekjur maka hans 5.295.465 krónur og
samanlagðar tekjur þeirra 7.794.378 krónur. Tekjuviðmið LÍN er 3.330.000 krónur
og 6.660.000 krónur fyrir hjón/sambúðaraðila. Kærandi hafnaði því að leggja fram
frekari gögn um fjárhagsaðstæður sínar og fellst málskotsnefnd því á það mat
stjórnar LÍN að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi átt í verulegum
fjárhagsörðugleikum fyrir gjalddagann 1. mars 2015. Er það niðurstaða
málskotsnefndar að staðfesta beri niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda frá 21.
apríl 2015. Þeim lið kærunnar sem fjallar um brot á lögum nr. 77/2000 um
persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er vísað frá málskotsnefnd. Er kæranda
bent á að hann geti borið ágreining sinn við stjórn LÍN um meðferð
persónuupplýsinga undir Persónuvernd.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun frá 21. apríl 2015 í máli kæranda er staðfest. Þeim lið kærunnar sem fjallar um brot á lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er vísað frá málskotsnefnd.