Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2015 - Útreikningur námslána - beiðni um að viðbótarlífeyrissparnaður teljist ekki með tekjum

Úrskurður

 

Ár 2015, miðvikudaginn 1. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-5/2015:

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 18. janúar 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. október 2014 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að viðbótarlífeyrissparnaður sem hún fékk útgreiddan á árinu 2013 yrði undanþeginn við útreikning á námsláni námsárið 2013-2014 og að ofgreiðslubréf sem myndaðist á skólaárinu 2013-2014 yrði í kjölfarið dregið til baka. Þá var einnig hafnað beiðni kæranda um fá afgreitt lán á sumarönn 2014. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. janúar 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 25. febrúar 2015 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 23. mars 2015.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán á námsárinu 2013-2014, nánar tiltekið á haustönn 2013 og sumarönn 2014. Tekjur kæranda á árinu 2013 voru krónur 4.134.469 samkvæmt álagningu RSK. Vegna þess hve háar tekjur kæranda voru á árinu 2013 voru námslán hennar á námsárinu 2013-2014 skert í samræmi við grein 3.3.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi sendi stjórn LÍN erindi þann 19. september 2014 þar sem hún óskaði eftir því að viðbótarlífeyrissparnaður sem hún fékk útgreiddan á árinu 2013 yrði undanþeginn við útreikning á námsláni námsárið 2013-2014. Einnig að ofgreiðslubréf sem myndaðist á skólaárinu 2013-2014 yrði í kjölfarið dregið til baka og að hún fengi lán á sumarönn 2014 þrátt fyrir að hafa sótt um eftir að umsóknarfrestur var liðinn. Með hinni kærðu ákvörðun LÍN frá 24. október 2014 var beiðni kæranda hafnað. Meðan á meðferð málsins stóð fyrir málskotsnefnd samþykkti LÍN umsókn kæranda um sumarlán og verður því ekki fjallað frekar um þá kröfu kæranda í úrskurðinum. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi mótmælir því að viðbótarlífeyrissparnaður sem greiddur hafi verið út 2013 eigi að hafa áhrif á námslán hennar. Kærandi vísar til þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi fengið á sínum tíma hjá ríkisskattstjóra séu greiðslur af þessu tagi ekki launatekjur þó að greiddur sé af þeim tekjuskattur. Einnig að það líti út fyrir að LÍN sé sömu skoðunar úr því að boðið sé upp á að sækja um undanþágu frá því að viðbótarlífeyrissparnaður hafi áhrif á námslán. Þá bendir kærandi á að svo virðist sem það sitji ekki allir við sama borð hjá LÍN þegar áhrif viðbótarlífeyrissparnaðar á námslán séu metin. Hún hafi frétt af fólki sem hafi nýtt sér útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðar án þess að það hafi haft áhrif á námslán þess. Hafi viðkomandi aðilar ekki sótt um undanþágu enda hafi þeim ekki verið kunnugt um að það úrræði væri í boði frekar en henni. Bendir kærandi á að það hafi ekki komið fram í svari stjórnar LÍN af hvaða ástæðu viðbótarlífeyrissparnaður sumra lánþega LÍN sé metinn sem tekjur en ekki annarra. Kærandi bendir á að í ljósi upplýsingaskyldu LÍN velti kærandi fyrir sér hvers vegna lánþegar séu ekki upplýstir sérstaklega, t.d. með fjöldapósti,að hægt sé að sækja um að útgreiðsla viðbótarlífeyrissparnaðar hafi ekki áhrif á námslán. Bendir kærandi á að hefði hún haft minnsta grun um að viðbótarlífeyrissparnaður væri metinn sem hverjar aðrar launatekjur þá hefði hún sótt um slíka undanþágu. Telur kærandi að það sé óeðlilegt að gera ráð fyrir að lánþegum sé ljóst að tekjur, sem séu sannanlega ekki launatekjur, hafi þessi áhrif og eðlilegt sé að upplýsa lánþega sérstaklega um að nauðsynlegt sé að sækja um undanþágu frá því að "ekki launatekjur" af þessu tagi hafi áhrif á námslán. Kærandi telur að það geti engan veginn verið alfarið hennar mistök að hafa ekki sótt um undanþágu á að úttekt séreignarlífeyrissparnaðar á árinu 2013 teldist til tekna við útreikning námsláns hennar. Vísar hún til þess að hún hafi ekki vitað að það væri valkvætt af hálfu lánþega hvort úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar teldist með sem tekjur eða ekki og hún hafi ekki vitað að sækja þyrfti sérstaklega um undanþágu til að úttekin teldist ekki til tekna á árinu. Hún telur LÍN ekki hafa uppfyllt upplýsingaskyldu sína varðandi þetta atriði. Þá bendir hún á að greiðslur úr viðbótarlífeyrissjóði voru sérstakar ráðstafanir sem voru í boði tímabundið, en hafa ekki alltaf verið í boði. LÍN hefði því verið í lófa lagið að benda sérstaklega á þetta, t.d. á svæðinu "skilaboð til námsmanna" á forsíðunni eða senda fjöldatölvupóst til allra lánþega. Í þessu sambandi vísar kærandi til þess að samkvæmt 1. gr. reglugerðar um LÍN skal sjóðurinn auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um lán og fleira sem skiptir máli. Kærandi telur að LÍN hafi einnig þurft að auglýsa það með tryggilegum hætti að unnt væri að sækja um undanþágu frá því að séreignarlífeyrissparnaður hefði áhrif á námslán. Vísar hún til þess að þetta skiptir óumdeilanlega miklu máli bæði fyrir hana og aðra námsmenn í svipaðri stöðu. 

Sjónarmið LÍN 

LÍN vísar til þess að í grein 3.4.1 í úthlutunarreglum sjóðsins segi að allar tekjur sem mynda skattstofn á árinu 2013 teljist til tekna við útreikning á láni. Tekjur sem greiddar séu í lífeyrissjóð, hvort heldur sé um að ræða séreignarsparnað eða almennan lífeyrissjóð séu ekki skattskyldar þegar greiðsla í lífeyrissjóð eigi sér stað heldur séu þær skattskyldar þegar greitt sé úr sjóðnum til viðkomandi lífeyrisþega. Úttekinn séreignarsparnaður teljist því til tekna samkvæmt grein 3.4.1 og komi þar af leiðandi til skerðingar á námsláni sbr. grein 3.3.1, enda sé hann skattskyldur á því ári sem hann sé tekinn út. Í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum sjóðsins sé að finna undanþágu frá meginreglunni sem kveðið sé á um í grein 3.4.1 um að allar skattskyldar tekjur komi til skerðingar á námslánum. Þannig sé lánþegum heimilt að sækja um að úttekinn séreignarsparnaður verði undanþeginn við útreikning á námsláni. Umsóknarfrestur um að úttekinn séreignarsparnaður á árinu 2013 verði undanþeginn við útreikning á námsláni hafi verið til 1. maí 2014, sbr. grein 3.4.5 í úthlutunarreglum námsársins 2013-2014. LÍN bendir á að engin samskipti séu skráð milli LÍN og kæranda á námsárinu 2013-2014 fyrr en 1. júní 2014 en þá hafi lokafrestur til að sækja um að úttekinn séreignarlífeyrissparnaður 2013 væri undanþeginn við útreikning á námslánum þegar verið liðinn. Kærandi óskaði ekki formlega eftir því að úttekinn lífeyrissparnaður á árinu 2013 væri undanþeginn útreikningi á námsláni fyrr en með erindi sínu til stjórnar mótteknu 19. september 2014. LÍN byggir á því að sjóðnum sé ekki heimilt að taka tillit til úttekins séreignarsparnaðar kæranda á árinu 2013 í ljósi þess að umsókn hennar barst ekki fyrir þann frest sem tilgreindur sé í grein 3.4.5. LÍN vísar til þess að við skoðun málsins hafi ekki verið að finna neinar ástæður sem gefi tilefni til þess að víkja frá umræddum umsóknarfresti eins og til dæmis að LÍN hafi brugðist leiðbeiningar- eða upplýsingaskyldu sinni. Ekki sé heldur að finna neitt sem bendir til þess að kæranda hafi verið ómögulegt að sækja um innan umsóknarfrest. Var erindi kæranda því synjað af stjórn LÍN. LÍN bendir á að niðurstaða stjórnar í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilega ákvarðanir stjórnar LÍN og málskotsnefndar. Farið sé fram á að málskotsnefnd staðfesti ákvörðun stjórnar.

 

Niðurstaða

 

Í 6. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 kemur fram að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita námslán að hámarksfjárhæð samkvæmt úthlutunarreglum LÍN. Í III. kafla úthlutunarreglna LÍN fyrir skólaárið 2013-2014 er fjallað um framfærslu og tekjur. Í kaflanum eru ákvæði um viðmið framfærslu á námstíma, sem ákvarðar upphæð námsláns, og áhrif tekna námsmanns og eftir atvikum maka, sem geta haft áhrif á fjárhæð námslána. Í grein 3.4.1 segir að allar tekjur sem mynda skattstofn á árinu 2013 teljist til tekna við útreikning á námsláni. Sá viðbótarlífeyrissparnaður sem kærandi fékk greiddan út á árinu 2013 myndaði því hluta af tekjum hennar og gat eftir atvikum haft áhrif á námsaðstoð hennar á árinu 2014. Í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014 segir: 

Þeir umsækjendur sem fengu greiddan út viðbótarlífeyrissparnað á árinu 2013 geta óskað eftir því að hann verði undanþeginn við útreikning á námsláni skólaárið 2013-2014. Sækja verður um leiðréttingu vegna skólaársins fyrir 1. maí 2014. 

Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að verða við beiðni um undanþágu við útreikning á námsláni vegna greiðslu viðbótarlífeyrissjóðsparnaðar eftir að frestur til að sækja um er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærandi byggir á því að LÍN hafi borið vegna fyrirmæla 1. gr. reglugerðar um LÍN að auglýsa með sérstökum hætti umræddan umsóknarfrest. Á það getur málskotsnefnd ekki fallist. Í reglugerðarákvæðinu sem kærandi vísar til segir: 

Lánasjóður íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán. Í auglýsingu skal taka fram um hvaða lán sé að ræða, hvar umsóknareyðublöð og önnur umsóknargögn séu fáanleg, hvenær umsóknarfrestur renni út, sem og annað sem máli skiptir. 

Af þessu ákvæði sem fjallar um með hvaða hætti beri að auglýsa eftir umsóknum um námslán verður ekki leidd sú víðtæka skylda að auglýsa sérstaklega eftir undanþágubeiðnum vegna viðbótarlífeyrisgreiðslna eins og kærandi heldur fram. Úthlutunarreglur LÍN, sem eru settar með heimild í lögum um LÍN, eru bæði gefnar út í prentriti og birtar á heimasíðu LÍN og eru því öllum námsmönnum jafnaðgengilegar. Kærandi hefur gefið þær skýringar á því að umsókn hennar um undanþágu hafi borist of seint til sjóðsins að hún hafi ekki vitað að útgreiðsla sparnaðarins teldist til tekna né hafi hún vitað að hægt væri að sækja um að hann yrði undanþeginn við útreikning á námsláni. Með vísan til þess sem segir hér fyrr, um efni úthlutunarreglnanna, birtingu þeirra og aðgengi, svo og þess að það er á ábyrgð hvers og eins lánþega að þekkja til umræddra reglna, verður ekki fallist á það með kæranda að vanþekking hennar á reglunum geti leitt til þess að taka beri kröfu hennar til greina. Fullyrðing kæranda um að fjölmargir lánþegar hafi fengið undanþágu samkvæmt grein 3.4.5 án þess að sækja sérstaklega um hana til LÍN er ekki studd neinum gögnum og fer gegn staðhæfingu stjórnar LÍN um að ákvörðun í máli kæranda sé í samræmi við framkvæmd sjóðsins. Niðurstaða málskotsnefndar verður því hvorki byggð á því að mistök hafi orðið hjá LÍN við leiðbeiningar gagnvart kæranda né að óviðráðleg atvik hafi valdið því að kærandi sótti ekki um í tíma. Það er niðurstaða málskotsnefndar með vísan til laga og reglugerðar LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins, svo og fyrri úrlausna málskotsnefndar við meðferð samskonar mála, að rétt hafi verið að synja beiðni kæranda um undanþágu frá tímafresti þeim sem gefinn er í grein 3.4.5 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2013-2014. Niðurstaða hinnar kærðu ákvörðunar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda frá 24. október 2014 er staðfest.

Til baka