Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-08/2015 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 2. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L- 8/2015:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 12. mars 2015 kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 18. febrúar 2015 þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns á árinu 2014. Krefst kærandi þess aðallega að ákvörðun stjórnar LÍN verði breytt þannig að undanþágubeiðni hennar verði samþykkt, en til vara að ákvörðunin verði felld úr gildi. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 12. mars 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi til málskotsnefndar dagsettu 15. apríl 2015 og var afrit þess sent kæranda til athugasemda. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi dagsettu 4. júní 2015 óskaði málskostnefnd eftir því að kærandi sendi nefndinni gögn um aðstæður sínar, sem LÍN hafði að sögn kæranda hafnað að taka við. Með bréfi kæranda dagsettu 24. júlí 2015 fylgdu upplýsingar um útgjöld og tekjur hennar.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu til LÍN frá tekjutengdri afborgun námsláns á gjalddaga 1. september 2014. Um málsatvik segir kærandi að hún sé öryrki með 75% örorkumat og hafi hún áður vegna fjárhagserfiðleika fengið undanþágu hjá LÍN frá tekjutengdri afborgun námslána sinna. Kærandi hafi óskað eftir undanþágu haustið 2014 en þá með bréfi frá LÍN verið krafin frekari gagna vegna beiðninnar. Í því bréfi hafi komið fram að undanþága frá afborgun námsláns væri bundin því að um verulega fjárhagsörðugleika væri að ræða hjá lánþega og að möguleikar til að afla tekna væru skertir að sérstökum ástæðum þ.á m. vegna örorku. Þá hafi LÍN vísað til tekjuviðmiðana í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins og tekið fram að tekjur kæranda væri yfir tekjuviðmiðum og teldist hún því almennt ekki vera í verulegum fjárhagsörðugleikum. Þar sem LÍN hafi ekki talið sig hafa nægilegar upplýsingar um fjárhagsaðstæður kæranda hafi verið óskað eftir því að hún legði fram eftirfarandi upplýsingar: a) staðfestingu frá fjármálafyrirtæki um að önnur lán hennar hafi verið í frystingu í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga, b) staðfestingu á því að hafa verið með samning um sértæka skuldaaðlögun á sama tímabili og c) tillögu frá umboðsmanni skuldara um að þörf væri að veita henni undanþágu vegna verulegra fjárhagsörðugleika. Þar sem engin af ofangreindum atvikum eigi við um kæranda hafi hún talið að umrædd gögn skiptu ekki máli fyrir úrlausn í máli hennar og hafi hún því ekki aflað þeirra. Með bréfi LÍN dagsettu 7. október 2014 var beiðni kæranda synjað þar sem framangreind gögn höfðu ekki borist með umsókn hennar. Kærandi telur þá synjun hafa verið ólögmæta þar sem umbeðnar upplýsingar hafi ekki átt við í tilviki hennar. Kærandi aflaði engu að síður staðfestingar hlutaðeigandi aðila á því að upplýsingarnar ættu ekki við um hana og bar síðan synjun LÍN undir stjórn sjóðsins. Í kjölfarið tók stjórn LÍN þá ákvörðun að synja beiðni kæranda um undanþágu.

Sjónarmið kæranda

Um kröfu sína, að málskotsnefnd felli úr gildi úrskurð LÍN um að synja henni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun námsláns sem var á gjalddaga 1. september 2014, vísar kærandi til 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Ákvæðið hafi að geyma heimild til að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins, að hluta eða öllu leyti, ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Um sé að ræða matskennda heimild til töku stjórnvaldsákvörðunar. Af henni og meginreglunni um skyldubundið mat leiði að LÍN beri að meta það hverju sinni, með hliðsjón af atvikum öllum, hvort skilyrði eru til að verða við beiðni um undanþágu. Telur kærandi að framkvæma beri einstaklingsbundið mat hverju sinn og að óheimilt sé að setja almenna vinnureglu sem í raun afnemi matið og leiði til þess að öll tilvik séu meðhöndluð eins. Kærandi bendir á að stjórn LÍN hafi sett sér úthlutunarreglur á grundvelli 3. mgr. 3. gr. laga um LÍN. Samkvæmt grein 7.5.1 í úthlutunarreglunum fyrir 2014-2015 sé almennt miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþegar séu yfir 3,3 milljónum króna. Það skilyrði gangi lengra en lagaheimildin að mati kæranda. Þá feli úthlutunarreglan það í sér að LÍN þrengi það skyldubundna mat sem sjóðnum sé skylt að beita samkvæmt fyrrgreindri lagareglu. Auk þess hafi LÍN þrengt matið enn frekar með því að krefjast staðfestingar á því að umsækjandi njóti ákveðinna úrræða hjá fjármálastofnunum eða umboðsmanni skuldara. Kærandi eigi rétt á því að LÍN framkvæmi undanþáguheimildina þannig að litið sé til aðstæðna hennar í heild og vísar hún um það til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2134/1997. Loks telur kærandi að LÍN hafi ekki sýnt fram á að þau tekjuviðmið, sem úthlutunarreglurnar byggi á, séu fundin út með forsvaranlegum og málefnalegum hætti. Í því sambandi vísar kærandi til þess að hún sé talvert undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Hún bendir sérstaklega á að LÍN hafi lækkað viðmiðunarfjárhæð sína frá fyrri árum. Fram komi á umsóknareyðublaði vegna undanþágu frá afborgun 2009 að tekjur þyrftu að vera undir 4 milljónum króna, sem svari til tæplega 5,5 milljón króna í dag. Kærandi telur að hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN sé ólögmæt þar sem hún hafi ekki verið í samræmi við lagaákvæðið sem var grundvöllur hennar. Túlkun stjórnar LÍN sé röng bæði miðað við orðalag ákvæðisins og einnig orðskýringar samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN bendir á að í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN komi fram þau skilyrði sem lántaki þurfi að uppfylla til að fá undanþágu frá endurgreiðslu námsláns. Í fyrsta lagi þurfi lánþegi að eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum. Í öðru lagi þurfi eftirfarandi atvik að eiga við um lánþega; að hann stundi lánshæft nám, sé atvinnulaus, glími við veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar aðstæður. Í þriðja lagi þurfi að vera orsakasamband á milli tveggja fyrstu atriðinna, þ.e. ástæða fjárhagsörðugleika þurfi að vera einhver þau atvik sem að framan greinir. Í ljósi kröfunnar um orsakasamband sé ekki tekið tillit til almennra útgjalda lánþega nema sérstakar ástæður mæli með því. Þar sem kærandi sé örorkulífeyrisþegi uppfyllti hún að mati LÍN skilyrðið um að tiltekið ástand hafi verið fyrir hendi samkvæmt áðurnefndri lagagrein. Þá þurfi sjálfstætt að meta hvort um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða og hvort þá megi rekja til örorku kæranda. Hugtakið verulegir fjárhagsörðugleikar í 6. mgr. 8. gr. laganna um LÍN sé matskennt og eins og kærandi bendi réttilega á sé sjóðnum óheimilt að afnema það að öllu leyti með verklagsreglum. Engu að síður sé það rökrétt og eðlilegt að notast við verklagsreglur í ákveðnu mæli til samræmingar þegar beita þarf skyldubundnu mati. Í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN sé svo dæmi sé tekið kveðið á um að ástæður sem valdi fjárhagsörðugleikum hafi að jafnað varað í fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar og einnig sé tilgreint að almennt séu undanþágur ekki veittar ef árstekjur lánþegar eru yfir 3,3 milljónum hjá einstaklingum, en 6,6 milljónum hjá hjónum eða sambúðarfólki. Þessar verklagsreglur séu báðar ætlaðar til fyllingar þeim skilyrðum sem greinir í 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Uppfylli lánþegi þau fái hann sjálfskrafa veitta undanþágu og þarf þá ekki að framkvæma nánara mat á aðstæðum hans. Geri hann það ekki sé honum gefinn kostur á að sýna fram á verulega fjárhagsörðugleika með öðrum hætti, einkum með gögnum frá fjármálafyrirtækjum eða umboðsmanni skuldara um að lánþegi njóti úrræða vegna greiðsluerfileika. Geri lántaki það ekki en tiltekur þess í stað eitthvað annað atriði sem LÍN telur að geti skipt máli um mat á verulegum fjárhagsörðugleikum sé óskað staðfestingar þess. Fram kemur hjá stjórn LÍN að fyrir hafi legið að kærandi nyti ekki úrræða hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara vegna greiðsluerfiðleika og því hafi undanþága á þeim forsendum ekki komið til álita. Á hinn bóginn hafi kærandi óskað eftir að fá að framvísa greiðsluþjónustuseðlum frá Íslandsbanka og einnig nefnt að hún hafi þurft að selja bifreið sína og væri upp á aðra komin með matarinnkaup. Það hafi hins vegar verið mat stjórnar LÍN að þessi atriði gæfu ekki tilefni til að ætla að tekjur kæranda gæfu ekki rétta mynd af fjárhag hennar og því hafi ekki verið óskað eftir staðfestingar á þeim. Hvað varðar athugasemdir kæranda við tekjuviðmiðið í grein 7.5.1 í úthlutunarreglunum bendir stjórn LÍN á að lagaákvæðið um undanþágu frá endurgreiðslu námslána sé undantekning frá þeirri meginreglu að lán beri að endurgreiða. Jafnframt bendi orðalag lagaákvæðisins um „verulega fjárhagsörðugleika“ ótvírætt til þess að undanþágu skuli ekki veita nema í undantekningartilvikum. Stjórn LÍN bendir á að þegar tekjuviðmið greinar 7.5.1 var ákvarðað í úthlutunarreglum sjóðsins hafi meðal annars verið litið til lægstu launataxta innan vébanda Bandalags háskólamanna og gangi það jafnt yfir alla umsækjendur. Vegna tilvísunar kæranda til eldra tekjuviðmiðs bendir LÍN á að vart sé hægt að halda því fram að eitt tekjuviðmið sé réttara en annað. Þá verði að hafa í huga að umsækjandi eigi alltaf möguleika á að sýna fram á fjárhagsörðugleika með öðrum hætti ef tekjur hans eru yfir viðmiðunarfjárhæð. Telur stjórn LÍN að ákvörðun sín í máli kæranda sé í samræmi við lög og reglur sjóðsins og fyrri ákvarðanir sínar og úrskurði málskotsnefndar.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, að hluta eða að öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, til dæmis ef alvarleg veikindi eða slys skerða til muna ráðstöfunarfé hans eða tekjuöflunarmöguleika. Ennfremur er heimilt að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í 7. mgr. 8. gr. segir að skuldari, sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr., skuli leggja sjóðsstjórn til þær upplýsingar sem stjórnin telur skipta máli. Samkvæmt þessu hefur stjórn LÍN víðtækar heimildir til þess að leggja fyrir umsækjendur um undanþágur að afhenda gögn um fjárhagsaðstæður sínar og er stjórn sjóðsins rétt að synja um undanþágu ef umsækjandi verður ekki við því. Í 13. gr. reglugerð um LÍN nr. 478/2011 er einnig fjallað um heimild sjóðsstjórnar til að veita undanþágu frá afborgun námslána. Þar segir meðal annars að sjóðsstjórn skuli setja almennar reglur um framkvæmd þess heimildarákvæðis. Það hefur síðan verið gert í úthlutunarreglum LÍN fyrir einstök skólaár. Í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN 2014-2015 er að finna útlistun á heimild stjórnar LÍN til að veita undanþágu frá endurgreiðslu afborgunar námsláns. Þar segir að heimilt sé að veita undanþágu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar, umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt sé miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega séu yfir 3,3 milljónum og árstekjur hjóna eða sambúðarfólks séu yfir 6,6 milljónum króna. Þá er tekið fram að ástæður þær sem valdi örðugleikunum skuli að jafnaði hafa varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Kærandi óskar undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns, sem var á gjalddaga 1. september 2014, en fjárhæð hennar reiknast sem hlutfall af tekjustofni hennar, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um LÍN. Með tekjuviðmiðinu er því tekið tillit til lágra tekna án tillits til þess hvort greiðandi eigi í fjárhagsörðugleikum. Eins og áður greinir þarf kærandi samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN að sýna fram á að aðstæður hennar valdi verulegum fjárhagserfiðleikum hjá henni. Í máli þessu er óumdeilt að kærandi uppfyllir það skilyrði úthlutunarreglna að eiga rétt til undanþágu vegna óvinnufærni sökum örorku. Það atriði eitt út af fyrir sig gefur sjóðsstjórn ekki heimild til undanþágu, heldur þarf einnig að vera til staðar skilyrði um að viðkomandi eigi vegna óvinnufærninnar í verulegum fjárhagserfileikum, sem að jafnaði hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddagann. Að mati stjórnar LÍN hefur kærandi ekki sýnt fram á að óvinnufærni hennar hafi valdið henni verulegum fjárhagsörðugleikum og vísar til þess að árstekjur hennar hafi numið 3.486.000 krónur, sem sé yfir fyrrgreindri viðmiðunarfjárhæðinni í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015. Þá njóti hún ekki greiðsluerfiðleikaúrræða hjá viðskiptabanka eða umboðsmanni skuldara og hafi ekki tilgreint önnur atriði sem staðfesti fjárhagsörðugleika. Kærandi telur að með því að synja umsókn hennar um undanþágu hafi verið brotið á henni með þrennum hætti. Í fyrsta lagi gangi sjóðurinn með 3,3 milljón króna árstekjuviðmiðun sinni lengra en lagastoð sé fyrir. Í öðru lagi leiði tekjuviðmiðunarreglan til þess að ekki sé framkvæmt skyldubundið mat á umsækjanda og í þriðja lagi hafi stjórn LÍN með ólögmætum hætti lækkað viðmiðunarfjárhæðina. Með úthlutunarreglum LÍN skólaárið 2014-2015 var gerð sú breyting á grein 7.5.1 að nú er tilgreint áðurnefnt árstekjuviðmið, sem að jafnaði skuli byggja á við mat á því hvort um fjárhagsörðugleika sé að ræða hjá greiðendum námslána. Úthlutunarreglurnar voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2014. Fyrir þann tíma var tekjuviðmið vegna undanþágu einungis birt á heimasíðu LÍN og var nokkuð hærra en nú er miðað við, eins og að framan greinir. Málskotsnefnd fellst á það með stjórn LÍN að viðurkenna verði sjóðnum heimild til þess að setja reglu um árslaunaviðmið til þess að einfalda úrlausn mála þar sem greiðendur námslána leita undanþága vegna endurgreiðslu og til þess að samræmis og jafnræðis sé gætt gagnvart þeim. Stjórn LÍN hefur upplýst að þegar tekjuviðmið greinar 7.5.1 var ákveðið 3,3 milljónir króna fyrir einstaklinga hafi meðal annars verið litið til lægstu launataxta innan vébanda Bandalags háskólamanna. Að mati málskotsnefndar verður það viðmið ekki talið ómálefnalegt enda ber LÍN alltaf að líta til heildaraðstæðna greiðanda hverju sinni við skyldubundið mat sitt á því hvort aðstæður séu með þeim hætti að verulegir fjárhagsörðugleikar teljist vera fyrir hendi. Málskotsnefnd fellst því ekki á það með kæranda að stjórn LÍN hafi skort lagaheimild til þess að festa umrætt tekjuviðmið í úthlutunarreglur sjóðsins eða að með ákvörðun þess hafi falist ólögmæt lækkun frá viðmiðun sem áður var litið til. Kærandi heldur því fram að fyrrgreind tekjuviðmiðunarregla leiði til þess að LÍN geri ekki mat á stöðu þeirra umsækjenda sem sækja um undanþágu og afnemi með því með ólögmætum hætti það skyldubundna mat sem stjórnvaldinu ber að framkvæma á aðstæðum umsækjenda. Við afgreiðslu LÍN á erindi kæranda óskaði sjóðurinn eftir því að hún legði fram gögn frá viðskiptabanka eða öðru fjármálafyrirtæki og umboðsmanni skuldara um greiðsluerfiðleikaúrræða, sem staðfest gætu verulega fjárhagsörðugleika hennar. Með því leitaðist sjóðurinn við að skoða aðstæður kæranda sérstakalega. Kærandi varð ekki við beiðninni enda hefur hún upplýst að hún njóti ekki umræddra úrræða og því hafi gögnin ekki átt við í hennar tilviki. Hún hafi hins vegar boðist til að leggja fram upplýsingar um tekjur sínar og útgjöld, en LÍN hafi ekki talið þau hafa þýðingu í málinu. Að beiðni málskotsnefndar lagði kærandi þessi gögn fram í málinu. Eins og áður er komið fram námu tekjur kæranda 3.486.000 krónum. Áðurnefnd 3,3 milljón króna árslaunareglna er aðeins viðmið um að ef tekjur umsækjanda eru yfir tiltekinni fjárhæð þá verði almennt ekki litið svo á að hann eigi við verulega fjárhagsörðugleika að stríða. Þetta viðmið er ekki endanlegur mælikvarði og girðir ekki fyrir það að kærandi geti lagt fram frekari gögn sem sýni að hún eigi allt að einu við verulega fjárhagsörðugleika að stríða sökum óvinnufærni. Í framlögðum gögnum kæranda kemur meðal annars fram að á árinu 2014 hafi heildarráðstöfunartekjur hennar eftir skatta numið 2.862.960 krónum, en húsnæðiskostnaður og önnur regluleg útgjöld verið á pari við tekjur og því lítill afgangur til að mæta öðrum útgjöldum eins og matarkostnaði. Þessi gögn bera það vissulega með sér að kærandi hafi ekki mikið fé til ráðstöfunar, en það á einnig við um marga þá aðra sem eru í sömu aðstæðum og hún. Þá er óumdeilt að kærandi nýtur ekki sérstakra greiðsluerfiðleikaúrræða og virðist í skilum við lánadrottna sína. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að kærandi hafi ekki lagt fram í málinu upplýsingar sem staðfesti að aðstæður hennar séu með þeim hætti að þær valdi henni verulegum fjárhagserfiðleikum, sem sé skilyrði undanþáguheimildar 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN, sbr. grein 7.5.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Var stjórn LÍN því rétt að hafna beiðni kæranda og er hin kærða ákvörðun í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 18. febrúar 2015 í máli kæranda er staðfest.

Til baka