Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2014 - Búsetuskilyrði - synjun um lán vegna náms erlendis

Úrskurður

Ár 2015, miðvikudaginn 2. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-30/2014:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 24. desember 2014 kærði kærandi ákvörðun Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. september 2014 um að synja henni um námslán skólaárið 2013-2014 vegna náms í Noregi. Í kærunni kvaðst kærandi senda frekari gögn síðar. Málskotsnefnd sendi kæranda bréf 8. janúar 2015 þar sem móttaka kærunnar var staðfest og þess farið á leit við kæranda að hann sendi umrædd gögn eigi síðar en 22. janúar 2015. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi 4. febrúar 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins þann sama dag. Kærandi sendi frekari rökstuðning fyrir kærunni með bréfi sem barst málskotsnefnd 6. febrúar 2015. Var afrit þess sent stjórn LÍN með bréfi dagsettu 16. febrúar 2015. Stjórn LÍN sendi málskotsnefnd athugasemdir við kæruna með bréfi dagsettu 17. mars 2015 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 18. mars 2015, en þar var kæranda jafnframt gefinn fjögurra vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 23. maí 2015 og var afrit þeirra sent stjórn LÍN 29. maí 2015. Ekki bárust frekari athugasemdir í málinu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er íslenskur ríkisborgari en hefur verið búsett í Noregi og Svíþjóð síðan um mitt ár 2012. Kærandi sótti um námslán hjá LÍN vegna náms í Noregi haustið 2013. Þann 8. nóvember 2013 sendi LÍN henni bréf þar sem henni var bent á að til þess að fullnægja kröfum úthlutunarreglna LÍN, sbr. ákvæði 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna, þyrfti hún að uppfylla ákvæði um búsetu á tilteknum tímabilum fyrir umsóknardag eða senda erindi til stjórnar LÍN þar sem lagðar væru fram upplýsingar er sýndu fram á sterk tengsl við Ísland. Meðfylgjandi bréfinu voru leiðbeiningar þar sem veittar voru nánari upplýsingar um efni slíks erindis til stjórnar LÍN, æskileg fylgiskjöl og þau sjónarmið sem stjórn sjóðsins byggir ákvarðanir sínar um tengsl umsækjenda við Ísland á. Þann 9. desember 2013 sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN þar sem hún gerði grein fyrir tengslum sínum við Ísland og sendi jafnframt nánari upplýsingar um nám sitt á Íslandi, fjölskyldutengsl, fyrri búsetu og störf og annað er hún taldi sýna fram á sterk tengsl við Ísland. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun þess efnis 13. janúar 2014. Sagði í ákvörðun stjórnarinnar að með vísan til fyrirliggjandi gagna væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði sem sett væru í úthlutunarreglum LÍN fyrir sterkum tengslum við Ísland þannig að leggja mætti að jöfnu við búsetuskilyrði er fram kæmu í reglugerð um LÍN. Kærandi kærði ákvörðun stjórnar LÍN til málskotsnefndar 9. apríl 2014. Málskotsnefnd felldi ákvörðun stjórnar LÍN úr gildi með úrskurði í máli nr. L-6/2014 þann 3. september 2014. Að mati málskotsnefndar hafði ákvörðun stjórnar LÍN í máli kæranda ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til rökstuðnings stjórnvaldsákvarðana skv. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt taldi málskotsnefnd að sá rökstuðningur er settur var fram í ákvörðun stjórnar LÍN hefði ekki falið í sér fullnægjandi einstaklingsbundið mat á högum kæranda. Stjórn LÍN tók mál kæranda aftur fyrir 24. september 2014. Ekki kemur fram í gögnum málsins hvort stjórnin hafi gefið kæranda kost á að gera frekari grein fyrir máli sínu áður en ný ákvörðun var tekin. Í nýrri ákvörðun stjórnar þann 24. september 2014 kemur fram sú niðurstaða heildarmats stjórnarinnar að kærandi hafi ekki sýnt fram á sterk tengsl við Ísland er leggja mætti að jöfnu við að hún uppfyllti búsetuskilyrði og synjaði stjórn LÍN því umsókn kæranda um námslán vegna náms í Noregi skólaárið 2013-2014.

Sjónarmið kæranda

Kærandi lýsir því í kærunni að hún hafi unnið á Landsspítalanum fram á vor 2012 er hún hafi flutt til Noregs og unnið þar sumarvinnu á hjúkrunarheimili en á sama tíma reynt að komast í nám í Noregi skólaárið 2012-2013. Eftir að hún hafi fengið svar frá "Samordna opptek" um að hún kæmist ekki í nám í Noregi það haustið hafi hún haldið til Svíþjóðar til að safna fyrir væntanlegum skólagjöldum. Hún hafi sótt um skólavist í Noregi á ný og komist inn í þann skóla er hún hafði valið. Kærandi sé nú á öðru ári í náminu og sjái sjálf um fjármögnun en foreldrar og vinir hafi einnig hlaupið undir bagga. Í sambandi við kröfur um tengsl við Ísland bendir kærandi á að hún hafi aldrei átt maka eða verið í sambúð, aldrei verið trúlofuð, ekki eignast barn og aldrei átt fasteign. Framtíð hennar sé óráðin og ómögulegt fyrir stjórn LÍN að meta hvort hún muni hafa búsetu hér á landi eftir að hafa lokið námi. Í upphaflegu erindi sínu til stjórnar LÍN 9. desember 2013 sendi kærandi eftirfarandi gögn til marks um tengsl sín við Ísland:

• Staðfestingu á sjálfboðaliðastarfi í Eþíópíu á vegum Sambands íslenskra kristniboða frá 18. ágúst 2008 til 3. júní 2009.

• Staðfestingu á vinnu á Heilbrigðisstofnun Austurlands sumarið 2008 og 2009.

• Staðfestingu á vinnu á veitingahúsi á Íslandi á árinu 2010.

• Staðfestingu frá Háskóla Íslands um að hún hafi lokið 24 ECTS einingum haustið 2010.

• Staðfestingu á vinnu í fatahreinsun á Íslandi frá janúar til loka júlí 2011.

• Staðfestingu á vinnu á Landspítalanum frá 24. september 2011 til 31. maí 2012.

• Skattframtöl og álagningarseðil vegna tekna og eigna á Íslandi árið 2008 til og með 2012.

• Staðfestingu á vinnu kæranda á heimili fyrir ungt fólk í Svíþjóð frá september 2012 til haustsins 2013.

• Vottorð frá Þjóðskrá um búsetu foreldra hennar á Íslandi.

• Afrit af leigusamningi um húsnæði á Íslandi frá árinu 2010.

• Afrit af niðurstöðu sænskra yfirvalda í máli kæranda þar sem henni er synjað um námslán vegna náms í Noregi.

Í kæru sinni til málskotsnefndar fer kærandi þess sérstaklega á leit að skoðað verði hvort hún uppfylli skilyrði til námsláns er fram komi í tölulið 2 í grein 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN "eða starfað í skemmri tíma en 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili." Verði hún ekki talin uppfylla þessi skilyrði verði það ítarlega rökstutt. Kærandi kveðst einnig gera athugasemdir við að umsækjanda sé ekki ætlaður aðgangur að einhverjum hjá sjóðnum til að rökstyðja og skýra svör og niðurstöður ef spurningar vakna vegna synjunar LÍN á námsláni. Telur kærandi reglurnar það óljósar að það sé helst á færi þjálfaðra lögfræðinga að skilja þær. Í viðbótarathugasemdum kæranda er ítrekað að hún hafi flutt til Noregs á árinu 2012 í því skyni að komast í hjúkrunarnám þar. Sökum mistaka við mat á umsóknum hafi hún ekki komist inn í námið, en verið hleypt að ári síðar. Kærandi ítrekar einnig að viðmið LÍN um tengsl, s.s. hvort hún eigi barn eða maka á Íslandi eða eigi fasteign eigi ekki við hennar tilfelli. Þá geti hún ekki svarað því til hvort hún hyggist flytja til Íslands að námi loknu. Að mati kæranda eru reglur LÍN óljósar og vísar kærandi til þess að orðið síðustu sé ýmist úti eða inni í skilyrðum 1-3 í grein 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2013-2014. Þá vísar kærandi til þess að úthlutunarreglur fyrir 2013-2014 eigi að duga án slíkrar tilvísunar aftur í tímann til að afgreiða umsóknir um námslán vegna 2013-2014.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í ákvörðun stjórnar LÍN segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sé það mat hennar að flutningur kæranda til Svíþjóðar árið 2012 hafi ekki verið til að stunda nám. Þá sé það jafnframt mat stjórnar að aðstæður kæranda bendi ekki til þess að líklegra sé hún muni að loknu námi hafa búsetu á Íslandi en í öðru landi. Varðandi það hvort tengsl kæranda við Ísland hafi rofnað telur stjórn LÍN að þar sem hvorki sé um að ræða maka eða börn á framfæri kæranda séu skil á tekjuskatti það eina sem hægt sé að miða við. Í málinu liggi fyrir álagningaseðill 2013 vegna tekna ársins 2012. Þar sem kærandi hafi ekki stundað vinnu hér á landi og því ekki skilað tekjuskatti verði að telja að tengsl kæranda að þessu leyti hafi rofnað. Þá vísar stjórn LÍN til þess að kærandi stundi nám í Noregi og engin gögn eða upplýsingar liggi fyrir um skuldbindingar hennar á Íslandi. Fyrir liggi að kæranda hafi verið synjað um námslán í Svíþjóð og að hún eigi ekki rétt til námslána í Noregi. Með hliðsjóð af þessum atriðum var það heildarmat stjórnar LÍN að kærandi hefði ekki sýnt fram á slík tengsl að jafna mætti til þess að uppfyllt væru búsetuskilyrði reglugerðar um LÍN. Í greinargerð stjórnar LÍN frá 17. mars 2015 segir að legið hafi fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði um búsetu og því hafi þurft að meta hvort hún hefði það sterk tengsl að leggja mætti þau að jöfnu við að skilyrði um búsetu væri uppfyllt. Í slíkum tilvikum þurfi að meta aðstæður heildstætt. Í þessu sambandi sé m.a. litið til þess hvort umsækjandi hyggist flytja til landsins til að stunda nám sitt og hvort aðstæður umsækjanda bendi til þess að hún muni hafa búsetu hér á landi að námi loknu. Einnig er litið til ástæðna þess að umsækjandi uppfylli ekki búsetuskilyrði, t.a.m. hvort umsækjandi hafi sökum ákvæða laga eða reglugerða þurft að flytja lögheimili sitt til útlanda. Þá sé litið til þess að hve miklu leyti tengsl við Ísland hafi rofnað á meðan á dvöl erlendis hefur staðið og í því tilviki sé sérstaklega litið til skattskila umsækjanda, búsetu maka, einstaklinga á framfæri umsækjanda eða hann á framfæri hjá. Ýmsar skuldbindingar umsækjanda t.d. vegna barna o.s.frv. geti gefið vísbendingu um tengsl umsækjanda við Ísland og eftir atvikum annað land. Einnig sé litið til þess hvort umsækjandi hafi öðlast rétt til töku námslána hjá öðrum stjórnvöldum en íslenskum. Í greinargerð stjórnar LÍN segir einnig að kærandi hafi flutt til Svíþjóðar á árinu 2002 og dvalið þar til 2008. Á árunum 2008-2009 hafi hún starfað í Eþíópíu en síðan flutt til Íslands 2009 þar sem hún hafi búið. Kærandi hafi svo farið aftur til Svíþjóðar 2. október 2012 og verið þar við störf til haustins 2013 þegar hún hafi flutt til Noregs til að hefja þar nám. Einnig liggi fyrir að kæranda hafi verið synjað um námslán í Svíþjóð og að hún ætti ekki rétt á láni í Noregi. Bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi einungis verið búsett á Íslandi í 3,5 ár af síðustu 10 árum þegar hún sótti um lán haustið 2013 þar sem hún hafi fyrst verið við störf erlendis áður en hún hóf það nám sem hún sótti um námslán vegna. Ekki hafi verið um að ræða fjárhagsleg tengsl eða önnur atriði sem bent hafi sérstaklega til þess að kærandi hefði sterk tengsl við Ísland. Hefði það því verið heildarmat stjórnar LÍN að aðstæður í máli kæranda væru ekki þess efnis að leggja bæri sterk tengsl hennar að jöfnu við að skilyrði 1.-3. tl. greinar 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN væru uppfyllt. Hafi stjórn LÍN því synjað erindi kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er tekist á um hvort kærandi sem er íslenskur ríkisborgari eigi lánsrétt hjá LÍN vegna náms sem hún hóf rúmu ári eftir að hún flutti af landi brott. Meta þarf hvort hún teljist hafa nægjanleg tengsl við íslenskt samfélag eða vinnumarkað í skilningi 5. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna. Í lögum um LÍN eins og þau voru frá árinu 1997 til ársins 2004 var sérstaklega kveðið á um að íslenskir ríkisborgarar héldu lánsrétti sínum í tvö ár eftir flutning lögheimilis til annars ríkis. Með lögum nr. 12/2004 um breytingu á lögum um LÍN var ákvæðið fellt brott og í staðinn kveðið á um í 4. mgr. 13. gr. að skilyrði lánveitingar væri að umsækjandi "hafi haft fasta búsetu á Íslandi í tvö ár samfellt eða haft fasta búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán vegna.“ Sagði í athugasemdum við frumvarpið að "[á]kvæði um að íslenskir ríkisborgarar haldi að jafnaði námslánarétti sínum í tvö ár eftir að þeir flytja lögheimili sitt til annars lands er fellt brott, enda er nauðsyn ákvæðisins vandséð í ljósi breytingarinnar á 4. mgr." Þá sagði einnig í athugasemdum við frumvarpið að aukinheldur yrði „ekki talið að slík mismunun á stöðu Íslendinga og ríkisborgara annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu samræmist ákvæðum EES-samningsins." Ofangreint ákvæði 4. mgr. 13. gr., um að það nægði m.a. að hafa haft búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum, var fellt brott með lögum nr. 89/2008 um breytingu á lögum nr. 21/1992 og var ráðherra jafnframt heimilað að setja nánari reglur um rétt til námslána. Tilefni breytinganna var að Eftirlitsstofnun EFTA hafði gert athugasemdir við lögin og talið að íslenskir ríkisborgarar ættu auðveldara með að uppfylla búsetuskilyrðin en aðrir ríkisborgarar EEA ríkjanna. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 er nú kveðið á um rétt íslenskra ríkisborgara til námslána með eftirfarandi hætti: Rétt á námslánum samkvæmt lögum þessum eiga námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar og uppfylla skilyrði laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim.

Í 5. mgr. 13. gr. segir ennfremur: Ráðherra getur sett reglur um rétt íslenskra og erlendra ríkisborgara til námslána á Íslandi og erlendis, þar á meðal vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga. Ákveða má að réttur til námslána, sem leiddur er af 1. og 2. mgr., taki mið af tengslum við íslenskt samfélag eða vinnumarkað.

Í athugasemdum í frumvarpi er þetta ákvæði var lögfest, sbr. lög nr. 89/2008 sagði að "[m]eð tengslum við íslenskt samfélag er m.a. átt við búsetu hér á landi."

Þá segir jafnframt í 4. mgr. 13. gr. að námsmenn eigi ekki rétt á námslánum samkvæmt lögunum njóti þeir sambærilegrar aðstoðar frá öðru ríki. Reglur ráðherra um tengsl íslenskra ríkisborgara við íslenskt samfélag eða vinnumarkað til að eiga rétt á námsláni koma fram í 1.-3. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN þar sem gerðar eru kröfur um búsetu á Íslandi og vinnu á íslenskum vinnumarkaði. Hafi umsækjandi ekki verið við störf á vinnumarkaði er gerð krafa um lengri búsetu. Segir eftirfarandi í 3. gr. reglugerðarinnar:

Námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar eiga rétt á námslánum samkvæmt 13. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Umsækjandi um námslán hafi verið við launuð störf hér á landi: a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta og haft samfellda búsetu hér á landi á sama tíma eða b. í skemmri tíma en 12 mánuði og haft búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili.

Með launuðu starfi er átt við að umsækjandi hafi á grundvelli gilds atvinnuleyfis annað hvort haft reglulegt launað starf í vinnuréttarsambandi eða starf sem sjálfstæður atvinnu¬rekandi. Með starfi er ennfremur átt við starf sem er 30 vinnustundir á viku, að lágmarki. Starfsþjálfun á launum og sambærileg námstímabil á launum jafngilda ekki launuðu starfi. Skilyrði er að atvinnurekandinn sé skráður hjá fyrirtækjaskrá og skattyfirvöldum sem skilaskyldur greiðandi staðgreiðslu skatta af launum starfsmanna. Áskilið er að sjálfstætt starfandi umsækjendur námsaðstoðar séu skráðir greiðendur virðisaukaskatts eða staðgreiðslu skatta.

2. Umsækjandi, sem ekki starfar sem launþegi eða sjálfstæður atvinnurekandi, hafi haft fimm ára samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag þegar búseta hefur hafist í öðru augna¬miði en að stunda nám hér á landi.

3. Hafi launað starf skv. 1. tölul. 1. mgr. ekki verið samfellt eða því hefur ekki verið gegnt fram að upphafi náms, á umsækjandi þó rétt til námsláns ef umrædd tímabil hafa: a. varað að hámarki 3 mánuði samanlagt, b. tímabil án atvinnu hafa verið skráð á atvinnuleysisskrá, c. tímabil allt að 6 mánuðum hafa verið nýtt til starfsnáms, tungumálanáms eða sambærilegrar menntunar eða d. um veikindatímabil er að ræða. Jafngild launuðu starfi skv. 1. tölul. 1. mgr. eru tímabil sem umsækjandi hefur annast barn í allt að eitt ár eftir fæðingu eða ættleiðingu samkvæmt þeim reglum sem gilda á vinnumarkaði. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna er heimilt í sérstökum tilvikum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að uppfyllt séu skilyrði lánveitingar samkvæmt 1. mgr.


Framangreind skilyrði um búsetu og atvinnu koma einnig fram í grein 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN 2013-2014 en þar segir að umsækjendur þurfi m.a. að uppfylla eitt af eftirtöldum skilyrðum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011:

1. Umsækjandi hafi haft 5 ára samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag.

2. Umsækjandi hafi verið við launuð störf hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft samfellda búsetu á Íslandi á sama tíma eða starfað í skemmri tíma en 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft búsetu á Íslandi í tvö ár samanlagt á samfelldu 5 ára tímabili.

3. Hafi launað starf umsækjanda síðustu 12 mánuði fram að upphafi náms ekki verið samfellt, er þó heimilt að samþykkja umsókn í ákveðnum tilvikum sem tilgreind eru í 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Að auki er stjórn sjóðsins heimilt í serstökum tilvikum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að framangreind skilyrði séu uppfyllt.


Í leiðbeiningum þeim sem kærandi fékk sendar frá LÍN koma ofangreind skilyrði úthlutunarreglnanna fram. Að auki segir þar eftirfarandi um mat á tengslum við Ísland:

"Meðal þátta sem stjórn sjóðsins lítur til er hvort umsækjandi hyggst flytja til landsins til að stunda það nám sem sótt er um námslán vegna og hvort aðstæður umsækjanda bendi til þess að umsækjandi muni hafa búsetu hér á landi að námi loknu. Þá er litið til ástæðna þess að umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði gr. 1.1. í úthlutunarreglum LÍN og er til að mynda sérstaklega tekið tillit til þess ef umsækjandi hefur þurft sökum ákvæða laga eða reglugerða að flytja lögheimili sitt erlendis þrátt fyrir að um tímabundna dvöl hafi verið að ræða t.d. vegna náms. Stjórn sjóðsins lítur einnig til þess að hve miklu leyti tengsl umsækjanda við Ísland hafa rofnað á meðan á dvöl hans erlendis hefur staðið og er þá sérstaklega litið til þess hvernig skattskilum umsækjanda og búsetu maka, einstaklinga sem eru á framfæri umsækjanda og/eða einstaklinga sem umsækjandi er á framfæri hjá, hefur verið háttað. Ýmsar skuldbindingar umsækjanda og maka umsækjanda, til að mynda ráðningarsamningar, húsnæðislán, lengri leigusamningar um íbúðarhúsnæði, framfærsluskylda vegna barna og fleira þess háttar geta einnig gefið vísbendingu um tengsl umsækjanda við Ísland og eftir atvikum tengsl við annað land. Einnig er til þess litið hvort umsækjandi hafi öðlast rétt til töku námslána eða rétt til að þiggja styrki vegna náms frá stjórnvöldum annars lands en Íslands. Stjórn sjóðsins bendir sérstaklega á að mat á því hvort skilyrði 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um sterk tengsl íslensks ríkisborgara við Ísland sé uppfyllt er atviks- og aðstæðubundið og er stjórninni því nauðsynlegt að hafa undir höndum sem ítarlegastar upplýsingar um aðstæður umsækjanda við framkvæmd matsins. Stjórn sjóðsins óskar því eftir því að umsækjandi skili sjóðnum greinargerð um þau framangreindra atriða sem umsækjandi telur varpa sem skýrustu ljósi á tengsl hans við Ísland. Mælst er til þess að eftirfarandi gögn séu látin fylgja greinargerðinni eftir því sem við á: Staðfestar upplýsingar um nám sem umsækjandi og maki umsækjanda hafa stundað erlendis. Staðfestar upplýsingar um atvinnu umsækjanda og maka umsækjanda. Leigusamning eða staðfestingu á eignarhaldi á núverandi íbúðarhúsnæði. Leigusamning eða staðfestingu á eignarhaldi á íbúðarhúsnæði á íslandi. Skattframtöl á meðan á dvöl erlendis stóð. Staðfestingu á búsetu maka, einstaklinga sem eru á framfæri umsækjanda og/eða einstaklinga sem umsækjandi er á framfæri hjá. Þá getur það stutt umsókn ef fyrir liggur staðfesting þar til bærra stjórnvalda á því að umsækjandi eigi ekki rétt til töku námslána eða rétt til að þiggja styrki vegna náms í þeim löndum sem umsækjandi hefur helst dvalið síðustu ár."

Eins og fram kom í fyrri úrskurði málskotsnefndar í máli kæranda nr. L-6/2014 fellst málskotsnefnd ekki á þær röksemdir kæranda að það nægi samkvæmt úthlutunarreglunum að umsækjandi hafi búið hér á landi á 5 ára samfelldu tímabili og að ekki sé gerð krafa um að það tímabil sé fram að þeim degi er sótt er um lán. Í 1. tl. greinar 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN , sbr. 2. tl. 3. gr. reglugerðar um LÍN, er gerð krafa um "5 ára samfellda búsetu hér á landi fyrir umsóknardag." Er kærandi sótti um námslán hjá LÍN hafði hún verið búsett fyrst í Noregi, síðan í Svíþjóð í rúmt ár við störf og 2013 flutt til Noregs vegna fyrirhugaðs náms. Hún hafði því ekki stundað launað starf á Íslandi fram til þess tíma er hún sótti um lán og fellur því hvorki undir ofangreint ákvæði né þau tilvik sem lýst er í 2. og 3. tl. greinar 1.1.1 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. tl. og 3. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN. Er því lánsréttur kæranda samkvæmt lögum og reglum um LÍN bundinn við að hún sýni fram á sterk tengsl við íslenskt samfélag eða vinnumarkað, sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN. Stjórn LÍN hefur sett fram viðmið um hvernig mati á tengslum sé háttað. Þar segir m.a. að hver umsókn sé metin sérstaklega. Litið sé m.a. til eftirfarandi þátta:

- Hvort umsækjandi hyggist flytja til Íslands til að stunda hér nám.

- Hvort aðstæður umsækjanda bendi til þess að hann muni hafa búsetu hér á landi að námi loknu.

- Hvort umsækjandi hafi sökum ákvæða laga og reglugerða þurft að flytja lögheimili sitt þrátt fyrir að um tímabundna dvöl hafi verið að ræða, t.d. vegna náms.

- Að hve miklu leyti tengsl umsækjanda hafi rofnað og þá sérstaklega hvernig hagað sé skattskilum umsækjanda og búsetu maka, einstaklinga á framfæri umsækjanda og/eða einstaklinga sem umsækjandi er á framfæri hjá.

- Skuldbindingar umsækjanda og maka hans, s.s. ráðningarsamninga, húsnæðislán, lengri leigusamninga um íbúðarhúsnæði, framfærsluskyldum vegna barna o.þ.h. sem gefi vísbendingu um tengsl umsækjanda við Ísland eða eftir atvikum við annað land.

- Réttur umsækjanda til námslána frá stjórnvöldum annars lands en Íslands.

Réttur til námslána er félagsleg réttindi og eru slík réttindi almennt bundin við búsetu og þá jafnframt bundin takmörkunum hvort eða að hve miklu leyti ríkisborgarar eða aðrir geti notið þeirra þrátt fyrir að vera ekki búsettir í viðkomandi ríki. Með lögum um LÍN fram til ársins 2004 var kveðið sérstaklega á um að lánsréttur Íslendinga sem flust höfðu búferlum til annars ríkis héldist í tvö ár frá flutningi lögheimilis. Frá 2004 til 2007 var miðað við að umsækjendur hefðu haft búsetu hér á landi í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem sótt var um lán vegna. Slík ákvæði er ekki lengur að finna í lögum um LÍN, heldur er gert ráð fyrir því að umsækjendur þurfi að sýna fram á tengsl við Ísland er felist m.a. í búsetu. Tilefni breytinganna voru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um að þrátt fyrir að lagatextinn hefði ekki mismunað samkvæmt orðanna hljóðan hefðu íslenskir ríkisborgarar átt auðveldar með að uppfylla skilyrði um búsetu. Væri því farin sú leið að setja opið ákvæði með heimild ráðherra til að setja reglur. Í reglugerðarákvæðum sem að framan er lýst er gerð krafa um búsetu fram að þeim tíma er sótt er um lán en að auki getur umsækjandi sýnt fram á sérstök tengsl með öðrum hætti. Í leiðbeiningum LÍN er tekið fram eins og áður greinir að hver umsókn sé metin sérstaklega og að við mat á tengslum sé litið til fjölmargra atriða sem talin eru upp í leiðbeiningunum, sem þar að auki séu ekki tæmandi talin. Í hinni kærðu ákvörðun stjórnar LÍN er byggt á því að kæranda skorti nægjanleg tengsl þar sem hún hafi aðeins verið búsett á Íslandi í þrjú og hálft ár af síðustu 10 árum. Flutningur hennar til Svíþjóðar árið 2012 hafi ekki verið til að stunda þar nám. Jafnframt er það mat stjórnar að aðstæður kæranda bendi ekki til þess að hún muni hafa búsetu hér á landi frekar en í öðru landi að loknu námi. Þá vísar stjórn LÍN til þess að kærandi hafi ekki greitt tekjuskatt hér á landi sem sé eina viðmiðið sem hægt sé að líta til þar sem hún hafi ekki börn eða maka á framfæri sínu. Í úrskurði í máli L-6/2014 vísaði málskotsnefnd til þess að við mat á aðstæðum umsækjenda fælist að skoða þyrfti m.a. lengd búsetutímabila hér á landi og hve langt er um liðið frá því umsækjandi flutti brott af landinu. Um væri að ræða einstaklingsbundið mat og í því sambandi gæti t.d. verið rétt að líta til þess að þegar ungt fólk ætti í hlut væri þess almennt ekki að vænta að það hefði miklar skuldbindingar hér á landi, s.s. vegna húsnæðis eða annars. Þó svo að slíkar skuldbindingar væru taldar til marks um sérstök tengsl þá yrði skortur á slíkum skuldbindingum einn og sér ekki talinn til marks um að umsækjanda skorti tengsl við íslenskt samfélag. Við mat á tengslum telur málskotsnefnd að stjórn LÍN hafi ekki mátt einskorða athugun sína við þau atriði sem talin eru upp í leiðbeiningum sjóðsins, enda ekki um tæmandi talningu að ræða. Bar stjórninni að skoða aðstæður kæranda sérstaklega og taka afstöðu til þeirra. Kærandi sem var 28 ára er hún sótti um námslán er alin upp á Íslandi, stundaði nám hérlendis og dvaldi hér á landi þar til hún fór til Svíþjóðar 2002 þar sem hún var í fimm og hálft ár. Eftir það vann hún hér á landi eitt sumar og síðan í eitt ár sem sjálfboðaliði í Eþíópíu á vegum Sambands íslenskra kristniboða. Greiddi hún skatt hér á landi vegna framfærslukostnaðar sem hún fékk greiddan vegna dvalarinnar í Eþíópíu. Hafði kærandi því greitt skatt hér á landi í fjögur ár áður en hún hélt utan til náms. Þrátt fyrir að kærandi eigi ekki maka og hafi ekki börn á framfæri má af gögnum málsins ráða að hennar nánustu ættingjar, foreldrar og fimm systkini, eru búsett hér á landi. Í gögnum málsins kemur einnig fram að kærandi hafi byrjað nám í hjúkrunarfræði hér á landi haustið 2010 og hafi lokið prófum en ekki átt kost á því að halda áfram sökum fjöldatakmarkana. Í kæru kemur einnig fram kærandi hafi sótt um að komast í hjúkrunarnám í Noregi haustið 2012 og að hún hafi flutt til Noregs sumarið 2012 vegna þess. Þessar upplýsingar lágu ekki fyrir þegar stjórn LÍN tók ákvörðun í máli kæranda. Þegar umsókn hennar um skólavist í Noregi hafi verið hafnað hafi hún haldið til Svíþjóðar til að vinna fyrir skólagjöldum og fyrst þá flutt lögheimili sitt. Ári síðar hafi umsókn hennar um hjúkrunarnám í Noregi verið samþykkt. Fram kemur í umsögn frá norska háskólanum að kærandi hafi ótvírætt uppfyllt kröfur um námsvist. Þrátt fyrir að ekki komi fram með þeim ótvíræða hætti sem kærandi heldur fram að henni hafi verið ranglega synjað um skólavist haustið 2012 telur nefndin ekki ástæðu til að draga í efa að fyrirætlanir kæranda um að hefja nám þegar haustið 2012 hafi ekki gengið eftir sökum atvika er henni verði ekki kennt um. Verði því að leggja til grundvallar við matið að kærandi hafi haldið utan til náms en ekki til að starfa á vinnumarkaði. Með vísan til framangreindra atvika og þegar litið er til þeirra tengsla sem kærandi hefur við íslenskt samfélag og íslenskan vinnumarkað verður ekki séð að það hlé sem varð á atvinnuþátttöku hennar hér á landi frá sumrinu 2012 fram til þess tíma er hún hóf nám í Noregi haustið 2013 eigi að leiða til þess að hún teljist ekki hafa sérstök tengsl við íslenskt samfélag eða vinnumarkað í skilningi 6. mgr. 12. gr. laga um LÍN. Við það mat bendir málskotsnefnd einnig á að kröfur reglugerðar um búsetu hér á landi gera ráð fyrir mun styttra vinnutímabili en kærandi hafði innt af hendi og hafði hún því fyrir margt löngu uppfyllt skilyrði um lánsrétt áður en hún hélt utan í því skyni að hefja nám. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málskotsnefndar að kærandi hafi nægjanlega sýnt fram á sterk tengsl við Ísland þó að fyrirætlanir hennar um nám hafi frestast. Af þessu sökum telur málskotsnefnd að fella beri úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. september 2014 og viðurkenna rétt kæranda til námsláns vegna náms í Noregi skólaárið 2013- 2014.

Úrskurðarorð

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 24. september 2014 í máli kæranda er felld úr gildi. Viðurkenndur er réttur kæranda til námsláns vegna náms í Noregi skólaárið 2013-2014

Til baka