Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-18/2015 - Útreikningur námslána - einingafjöldi sem lánað er fyrir á sumarönn

Úrskurður

 

Ár 2015, miðvikudaginn 16. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-18/2015:

 

Kæruefni

 

Með kæru, dagsettri 11. júní 2015, kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 4. júní 2015 þar sem hafnað var beiðni kæranda um endurskoðun á lánsáætlun vegna náms hans í Bandaríkjunum. Með ákvörðun sinni synjaði stjórn LÍN beiðni kæranda um að 31 ECTS eininga nám hans sumarið 2015 veitti honum rétt til námsláns sem samsvaraði 30 ECTS einingum. Þá var einnig synjað beiðni kæranda að lánað væri umfram viðmið LÍN um fjárhæðir skólagjaldalána, sem og beiðni hans um breytingu á tímabili tekjufrádráttar við útreikning námslána. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 18. júní 2015 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Stjórn LÍN sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 21. ágúst 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 26. ágúst 2015 og voru framsendar LÍN 31. ágúst 2015. Þar lýsti kærandi því yfir að hann féllist á sjónarmið LÍN um að hann ætti aðeins rétt á hámarksláni vegna skólagjalda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði tveggja anna nám í leiklist fyrir kvikmyndir við New York Film Academy. Hægt er að byrja námið í janúar, júní og september. Námið er skilgreint sem eins árs nám og hóf kærandi námið í janúar 2015 og lauk því í september 2015. Um er að ræða 31 U-M eininga nám sem er metið til 62 ECTS eininga, 31 ECTS einingar á hvorri önn um sig. Kærandi fékk yfirlit frá LÍN 28. nóvember 2014 þar sem komu fram áætlaðar fjárhæðir lána vegna náms við skólann. Sagði þar að framfærslulán vegna hvers skólaárs væru að hámarki 18.300 USD m.v. 60 eininga fullt nám. Skólagjaldalán vegna hvers skólaárs væri að hámarki 14.700 USD á skólaári og að hámarkslán vegna náms í Bandaríkjunum fyrir kæranda væri 44.100 USD. Einnig kom fram að lán væru veitt vegna bókakaupa og ferðalaga og að tekjur og námsframvinda hefðu áhrif á námslán. Kærandi byrjaði námið í janúar 2015 og sótti um námslán á vorönn og sumarönn samkvæmt úthlutunarreglum LÍN. Í lánsáætlun LÍN vegna umsóknar kæranda kom m.a. fram að hann fengi ekki fullt lán vegna sumarannar. Kærandi sendi sjóðnum erindi 27. apríl 2015 þar sem hann óskaði eftir breytingum á útreikningi láns. Fór kærandi þess á leit að nám á sumarönn yrði metið jafngilt og nám á vorönn eða haustönn, þ.e. til 30 ECTS eininga. Tók kærandi fram að hægt væri að hefja námið á ýmsum tímum ársins og að hefðbundnar skilgreiningar á haustönn og vorönn ættu því ekki við. Kærandi óskaði einnig eftir breytingum á útreikningi skerðingar vegna tekna og eftir láni vegna allra skólagjalda. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með ákvörðun sinni 4. júní 2015. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi fer þess á leit að fá fullt og óskert námslán. Hann bendir á að verið sé að mismuna aðilum sem velji lánshæft nám. Sá sem velji að hefja lán að hausti fái fullt lán á meðan sá sem velji að hefja lán í janúar fái skert lán. Kærandi kveðst hafa valið námið með hliðsjón af því að það væri lánshæft að fullu. Misvísandi upplýsingar hafi verið í upphafi um að kærandi ætti að sækja um lán á haustönn og vorönn. Kærandi telur að skilgreining LÍN á námi á sumarönn sem aukanám eigi ekki við í hans tilviki. Í rökstuðningi kæranda sem fram kemur í erindi hans til stjórnar LÍN kemur eftirfarandi m.a. fram: 

1. Kærandi óskar eftir því að sumarönn verði metin til jafns á við vor og haustönn, enda nái önnin 30 ECTS einingum. 

2. Kærandi óskar eftir breytingum á tekjutímabili sem miðað er við til skerðingar á fjárhæð láns. Samkvæmt reglum LÍN skerða tekjur ársins 2014 námslán vegna náms á skólaárinu 2014-2015. Kærandi byrjaði nám sitt í janúar 2015 og komu því tekjur alls ársins 2014 til skerðingar námsláns. Hann sé því yfir 4 milljón króna tekjuhámarkinu. Til samanburðar bendir kærandi á að ef hann hefði byrjað nám sitt að hausti 2014 hefðu aðeins tekjur síðustu 8 mánaða komið til skerðingar námsláni hans. Leggur kærandi til að skerðing miðist við 8 mánuði af 12 vegna ársins 2014. 

Í andmælabréfi kæranda tekur kærandi fram að ranglega sé farið með að hann stundi nám á námsárinu 2014-2015. Hann stundi nám á árinu 2015. Þá nefnir kærandi einnig að í gögnum LÍN komi fram að skerðing vegna tekna hans nái yfir 13 mánuði, þ.e. frá janúar 2014 til janúar 2015. Að mati kæranda er þetta óréttlátt þar sem minni skerðing reiknist þeim er byrji nám sitt í september. Kærandi spyr hvernig tekjuskerðing sé reiknuð vegna náms sem byrji á sumarönn og hvort þá sé miðað við tekjur í 16 eða 17 mánuði í því tilviki sem viðkomandi er að koma úr vinnu. Kærandi gerir athugasemdir við að ekki sé tekið tillit til þess að sumarönn sé full námsönn en ekki aukaönn. Kærandi áréttar einnig að hann fór þess á leit að við tekjuútreikning yrði miðað við 8 mánuði en ekki 8 fyrstu mánuði ársins 2014. Kærandi áréttar jafnframt að nám hans snertir ekki árið 2014 heldur aðeins árið 2015. Þá bendir kærandi á að hann sjái hvergi í reglum LÍN fyrirvara um að ekki sé heimilt að miða við annað en tekjur ársins 2014 „jafnvel þótt námsmaður hefji ekki nám fyrr en á vorönn“. Kærandi tekur fram að hann fallist á skýringar LÍN um að miða hámark skólagjaldalána við 14.700 USD. Kærandi bendir á að þó LÍN vísi ávallt í eigin lög og reglur þá sé eigi að síður mismunað við lánveitingar. LÍN hafi fullyrt að námið væri lánshæft að fullu en síðan hafi annað komið í ljós. Í fyrsta lagi takmarkist lán við 50 ECTS einingar þó svo að kærandi hafi lokið 62 ECTS einingum. Í öðru lagi sé miðað við 13 mánaða tekjutímabil kæranda sem sé í miklu ósamræmi við þá skerðingu sem hefði verið miðað við ef hann hefði hafið nám í september, þ.e. 8 mánuði. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til þess að kærandi stundi tveggja anna nám. Nemendur eigi þess kost að hefja námið á vor- haust- eða sumarönn og stunda síðan námið í tvær samfelldar annir. Kærandi hafi valið að hefja nám sitt í janúar. Hafi hann því stundað nám á vorönn og sumarönn. Samkvæmt grein 2.1.1 í úthlutunarreglum LÍN sé aðeins veitt framfærslulán fyrir 20 ECTS einingum á sumarönn og því hafi kærandi aðeins fengið framfærslulán fyrir samanlagt 50 ECTS einingum í námi sínu á önnunum tveim. Engar heimildir séu til að veita undanþágu frá ákvæðum greinar 2.1 um hámarkslán á sumarönn og því hafi erindi kæranda verið synjað. Þá tekur stjórn LÍN fram að engar heimildir séu í úthlutunarreglunum til að miða við annað tekjutímabil en árið 2014 jafnvel þó námsmaður hefji ekki nám fyrr en á vorönn. Stjórn LÍN kveður ákvörðun í máli kæranda vera í samræmi við lög og reglur er um sjóðinn gilda og fer þess á leit að málskotsnefnd staðfesti hina kærðu ákvörðun.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. laga um LÍN er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. veitir sjóðurinn lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis og samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna lánar sjóðurinn einnig til sérnáms. Í grein 1.3.5 í úthlutunareglum sjóðsins fyrir 2014-2015 kemur fram að hjá sjóðnum liggi upplýsingar um skóla og námsbrautir sem lánað hafi verið til. Fyrir liggur að LÍN hefur viðurkennt það nám sem kærandi stundar í New York Film Academy. Samkvæmt 3. gr. laga um LÍN skal miða við að námslán nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur og skal stjórn sjóðsins setja nánari ákvæði um úthlutun námslána. Einnig segir í 3. mgr. 6. gr. að námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju missiri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað. Samkvæmt grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN telst námsmaður vera í fullu námi ljúki hann 60 ECTS einingum eða ígildi þeirra á skólaári í einum námsferli. Þar kemur fram að námsframvinda er metin á þeim námsárum sem námsmaður nýtur aðstoðar og að hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Samkvæmt ECTS einingakerfinu (European Credit Transfer and Accumulation System) sem LÍN miðar við er hvert skólaár metið til 60 ECTS eininga. Skólaári er almennt skipt í tvö tímabil (e. semester), annir eða misseri sem hvert um sig er metið til 30 ECTS eininga, sbr. grein 2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Ef skólaári er skipt upp í þrjú tímabil (e. tremester/term) haust/vetur/vor er hvert tímabil/ársfjórðungur metið til 20 ECTS eininga, sbr. grein 2.1. Hámarkslán hjá LÍN sbr. 2. mgr. greinar 2.1 í úthlutunarreglum LÍN tekur mið af framangreindu og miðast við 30 ECTS einingar á hverju misseri eða 20 einingar á hverjum fjórðungi. Sumarnám er að jafnaði styttra en hefðbundnar tvískiptar annir, telst vera fjórðungur og af þeim sökum einungis metið til 20 ECTS eininga, sbr. grein 2.1. Málskotsnefnd bendir á að skilyrði úthlutunarreglna LÍN um skipulag anna og námsárangur á önn tekur mið af hefðbundnu skipulagi náms í evrópskum háskólum. Eins og áður greinir lánar sjóðurinn vegna náms við alþjóðlega viðurkennda háskóla erlendis og einnig til sérnáms erlendis, sbr. grein 3.1 í úthlutunarreglunum. Er þar um að ræða menntastofnanir þar sem nám kann að vera byggt upp á annan hátt en hérlendis, m.a. þar sem námsferlar eða skólaárið byrja á öðrum árstíma en almennt tíðkast hér á landi. Samkvæmt grein 1.2 fjallar stjórn sjóðsins sérstaklega um og metur lánshæfi náms í erlendum háskólum á grundvelli upplýsinga um eðli og uppbyggingu námsins. Þessi meginregla að líta skuli til innhalds náms við mat á lánsrétti kemur fram í 3. mgr. 6. gr. laga um LÍN þar sem segir að námsmaður skuli að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju missiri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað. Óumdeilt er að nám það sem kærandi stundaði er lánshæft og það hefur verið samþykkt af stjórn LÍN. Á heimasíðu skólans á www.nyfa.edu koma fram upplýsingar um skipulag námsins og segir þar að um sé að ræða nám sem skipt sé í tvær 16 vikna annir „two sixteen-week semesters“. Þá kemur fram í gögnum málsins að LÍN hefur metið að einingafjöldi námsins samsvari samtals 62 ECTS einingum, eða 31 ECTS einingum á hvora önn sem er sambærilegt við þann einingafjölda (60 ECTS) sem nemendur hér á landi ljúka í hefðbundnu tveggja anna námi. Að sama skapi er ljóst að nám kæranda er ekki sambærilegt við nám á sumarönn sem lýst er í úthlutunarreglum LÍN, en það nám tekur yfir fjórðungsönn, sem er 20 ECTS einingar. Það er einnig óumdeilt í málinu að kærandi skilaði tilskildum og fullnægjandi námsárangri á réttum tíma samkvæmt skipulagi skólans. Þegar kom að því að meta lánsrétt kæranda bar LÍN því að líta til skipulags og innihalds námsins á grundvelli úthlutunarreglna sjóðsins sem heimila námslán vegna þessa náms og taka tillit til þess að engin málefnaleg sjónarmið standa til þess að hindra veitingu námsláns á þeim grundvelli einum að námið eins og það er skipulagt af skólanum er með þeim hætti að önnur 30 eininga anna námsins er kennd yfir sumartíma. Þar sem kærandi lauk lánshæfu 30 ECTS eininga námi sumarið 2015 samkvæmt samþykktu skipulagi skólans hefur hann samkvæmt 1. gr., sbr. 6. gr. laga um LÍN, og að uppfylltum reglum sjóðsins að öðru leyti, rétt til námsláns miðað við 30 ECTS einingar á sama hátt og aðrir þeir námsmenn sem stunda sama eða sambærilegt 30 ECTS eininga nám sem fellur að skipulagi því sem úthlutunarreglur LÍN byggja á. Kærandi hefur einnig kært þá niðurstöðu stjórnar LÍN að draga heildartekjur ársins 2014 frá láni hans. Kærandi byrjaði ekki nám sitt fyrr en í janúar 2015 vísar til þess að allar tekjur ársins 2014 komi til frádráttar hjá honum meðan einungis tekjur fyrstu 8 mánaða komi til frádráttar hjá þeim sem hófu nám í september 2014. Í 2. gr. reglugerðar um LÍN eins og hún var fram til 17. október 2014 sagði að sækja þurfi sérstaklega um námslán fyrir hvert skólaár, sem miðast yfirleitt við 1. júní ár hvert. Ákvæðið eins og því var breytt með reglugerð nr. 908/2014 kveður nú á um að sækja þurfi um námslán fyrir hvert námsár sem hefst að hausti ár hvert. Samkvæmt þessu miðar sjóðurinn við að úthluta námslánum vegna hvers skólaárs um sig sem hefst að hausti og lýkur jafnaði að vori nema stundað sé nám á sumarönn. Tekjur sem aflað er á árinu 2014 koma til frádráttar lánum sem veitt eru á þessu tímabili sem er skólaárið. Í grein 3.3.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015 segir: "Tekjur námsmanns og maka á árinu 2014, eins og þær eru skilgreindar af stjórn sjóðsins, geta haft áhrif á veitta aðstoð á skólaárinu. Stundi námsmaður nám erlendis, eru tekjur hans yfirfærðar í mynt námslands miðað við gengi hinn 1. júní 2014." Í grein 3.4.1 segir síðan að allar tekjur sem mynda skattastofn á árinu 2014 teljast til tekna við útreikning á láni samkvæmt grein 3.3. Af framangreindu leiðir að námsmenn sem hefja nám á skólaárinu 2014-2015 eins og það er skilgreint í reglugerð um LÍN þurfa að sæta því að allar tekjur sem þeir afla sér á árinu 2014 komi til frádráttar við útreikning láns. Verður ekki séð að sú staðreynd að kærandi hefji nám síðar eða að skólaár í þeim skóla sem kærandi stundar nám í hefjist síðar, geti breytt þessu. Því er staðfest sú ákvörðun stjórnar LÍN að við útreikning á námsaðstoð kæranda beri að taka tillit til allra tekna hans á árinu 2014, en ekki einvörðungu fyrstu átta mánuðina, eins og kærandi gerir kröfu um. Vegna athugasemda kæranda um að LÍN dragi einnig frá tekjur hans vegna ársins 2015 tekur málskotsnefnd fram að hin kærða ákvörðun stjórnar LÍN tók eingöngu til ágreinings vegna tekna ársins 2014 og getur málskotsnefnd því ekki fjallað það atriði í úrskurði sínum.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun stjórnar LÍN frá 4. júní 2015 um að synja kæranda um 30 ECTS eininga lán vegna síðari námsannar hans við New York Film Academy sumarið 2015 er felld úr gildi. Staðfest er sú ákvörðun stjórnar LÍN að við útreikning á láni kæranda beri að líta til allra tekna hans á árinu 2014.

Til baka