Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2015 - Námslok - synjun um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2015, fimmtudaginn 24. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-12/2015.

Kæruefni

Með kæru dagsettri 4. maí 2015, sem barst málskotsnefnd þann 6. maí 2015, kærði kærandi ákvörðun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. mars 2015 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 11. júní 2015 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 30. júní 2015.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi tók lán hjá LÍN vegna náms til BA prófs í lögfræði fram til vorannar 2013. Eftir það sótti kærandi ekki um frekari lán. LÍN sendi kæranda tilkynningu um frágang skuldabréfs þann 20. janúar 2015. Kærandi hafði þá samband við LÍN og óskaði eftir frestun á lokun skuldabréfsins. Sjóðurinn hafnaði beiðni kæranda og bar hann þá málið undir stjórn LÍN þann 19. febrúar 2015. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með ákvörðun sinni 20. mars 2015.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að í bréfi LÍN frá 20. janúar 2015 hafi ekki komið fram að frestur til að sækja um frestun á lokun skuldabréfsins hafi verið liðinn. Stjórn LÍN hafi einungis borið því við að frestur til að sækja um frestun á lokun skuldabréfsins væri liðinn og að kæranda hafi tvívegis verið send tilkynning með tölvupósti á netfang hans @internet.is um að til stæði að loka skuldabréfinu. Þær tilkynningar hafi hins vegar ekki borist honum þar sem hann hafi ekki notað netfangið í nokkur ár. Núverandi netfang hans sé @gmail.com. Kærandi fer þess á leit að beiðni hans um frestun á lokun skuldabréfs verði tekin til efnislegrar meðferðar þar sem honum hafi ekki borist tilkynning um lokun fyrr en eftir að frestur til að sækja um frestun lokunar hafi verið liðinn. Kærandi segist ekki draga í efa að LÍN hafi sent tilkynninguna á umrætt netfang hans þ.e. @internet.is en það sé hins vegar ekki lengur í notkun. Það sé alþekkt að fólk skipti um netfang og verði að telja að tilkynning er varði jafn mikla hagsmuni og í máli þessu þurfi að senda móttakanda með sannanlegum hætti. Sú aðferð að notast við netfang sem gefið hafi verið upp fyrir mörgum árum og að bíða fram yfir frestlok með að senda tilkynningu bréfleiðis á lögheimili verði að telja óvandaða stjórnsýsluhætti og ekki samrýmast tilkynningaskyldu stjórnvalda. Ekkert í orðalagi bréfsins sem LÍN hafi sent kæranda 20. janúar 2015 hafi gefið til kynna að frestur til að sækja um lokun skuldabréfs væri liðinn. Þvert á móti hafi orðalag þess gefið til kynna að mögulegt væri að sækja um umræddan frest. Þess vegna hafi kærandi verið í góðri trú að sú leið væri tæk án þess að formlegir annmarkar hafi verið fyrir hendi. Fer kærandi þess á leit að synjun stjórnar LÍN á beiðni hans um frestun á lokun skuldabréfsins verði felld úr gildi og að stjórn LÍN verði gert að taka beiðni hans til efnislegrar meðferðar. Í andmælabréfi sínu tekur kærandi fram að þegar stjórnvald taki ákvörðun um skyldur borgarans beri að tilkynna borgaranum það tímanlega svo honum sé unnt að bera upp andmæli, eða í þessu tilviki að sækja um frest. Tilkynning stjórnvalds til borgarans verði að vera með sannanlegum hætti. Þá gerir kærandi athugasemd við fullyrðingu stjórnar LÍN um kostnað vegna bréfpósts. Bendir hann í því samhengi á að LÍN hafi þrisvar sent honum bréfpóst vegna skuldabréfsins og jafnframt veki það athygli að LÍN hafi ekki byrjað að senda honum bréfpóst á lögheimili hans fyrr en frestur til að sækja um frestun lokunar hafi verið liðinn. Verði ekki dregin önnur ályktun en að fullyrðing LÍN um kostnað sé fyrirsláttur. Kærandi gerir einnig athugasemdir við þá staðhæfingu stjórnar LÍN um að bréfpóstur komist síður til skila en tölvupóstur. Í samræmi við lög um lögheimili nr. 21/1990 beri þeim sem dvelja á Íslandi að hafa skráð lögheimili þar sem föst búseta er. Engin skylda hvíli á borgurunum að hafa skráð eða virkt netfang. Verði því að telja að stjórnvald uppfylli ekki skyldu sína um tilkynningu með tölvupósti einum heldur þurfi að koma til bréfpóstur á skráð lögheimili, enda í allmörgum tilvikum gerð krafa um skráningu netfangs þegar umsóknarferli eru staðfest hvort sem viðkomandi noti tölvupósti til samskipta eður ei. Þá sé einnig algengt að fólk skipti um netfang og þess vegna alltaf óvíst hvort tölvupóstur komist til skila þegar notast er við gamlar upplýsingar um tölvupóstfang. Að mati kæranda er mun áreiðanlegra að notast við bréfpóstsendingu á skráð lögheimili þar sem sú skráning sé opinber. Stjórnvald kunni að uppfylla tilkynningaskyldu sína með sendingu tölvupósts þegar staðfest er að hann komist til skila, t.d. með staðfestingu á móttöku, en um slíkt hafi ekki verið að ræða í máli kæranda.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að samkvæmt grein 2.5.2 í úthlutunarreglum LÍN sé heimilt að fresta lokun skuldabréfs haldi námsmaður áfram í námi eftir að hann hættir að þiggja námslán. Geri námsmaður lengra en árs hlé á námi sínu sé þó ekki heimilt að fresta lokun skuldabréfs. Í grein 2.5.2 segi ennfremur að umsókn um frestun á lokun skuldbréfs í þeim tilvikum sem lánþegi var síðast á lánum á námsárinu 2012/2013 skuli berast eigi síðar en 30. nóvember 2014. LÍN bendir á að kærandi hafi síðast tekið lán á vorönn 2013. Eftir það hafi hann ekki sótt um lán. Hann hafi svo fyrst haft samband við sjóðinn 2. febrúar 2015 og óskað eftir frestun á lokun skuldabréfs en þá hafi umsóknarfrestur vegna þess verið liðinn. LÍN bendir á að sjóðnum beri engin skylda til að senda lánþegum tölvupóst og minna á umsóknarfresti sem tilgreindir séu í úthlutunarreglum sjóðsins. Það verklag hafi eigi að síður verið viðhaft sem hluti af þjónustu við námsmenn. LÍN kveður netfang það sem notað hafi verið vera það netfang sem kærandi hafi gefið upp í umsóknarferli sínum um námslán. Ekki sé unnt að sannreyna hvort netföng séu enn í notkun og þess vegna alfarið á ábyrgð námsmanna að upplýsa um breytingar. LÍN bendir á að sending með bréfpósti sé kostnaðarsöm og að upplýsingar um umsóknarfresti vegna frestunar á lokun skuldabréfa eigi aðeins við um lítinn hluta námsmanna. LÍN hafi einnig orðið þess vart að bréfpóstur komist síður til skila en tölvupóstur. Því sé aðeins notast við bréfpóst þar sem slíkt sé talið nauðsynlegt. Umsókn kæranda hafi borist eftir tilskilinn frest og aðstæður hans hafi ekki gefið tilefni til að ætla að hann hafi verið ófær um að sækja um fyrir frest. Hafi erindi hans þess vegna verið synjað.

Niðurstaða

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN segir að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestast fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2014-2015 sem birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda segir í grein 2.5.1, sem fjallar almennt um lokun skuldabréfs, að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Þá segir í greininni að sá tímapunktur teljist námslok í skilningi laga nr. 21/1992 og reglugerðar um LÍN. Í grein 2.5.2 er síðan fjallað um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir: "Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina fyrir 30. nóvember 2014 og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli - Námsframvinda." LÍN kveðst hafa sent kæranda tölvupóst 17. október 2014 og ítrekun með tölvupósti 11. nóvember 2014 þar sem honum var tilkynnt um þá ákvörðun sjóðsins að loka skuldabréfi hans og að hann hefði frest til og með 30. nóvember 2014 til að sækja um frestun á því. Eins og áður greinir hefur kærandi bent á að tölvupósturinn hafi verið sendur á netfang sem hann noti ekki lengur. Eins og að ofan greinir sótti kærandi um og fékk síðast námslán hjá LÍN vegna náms á vorönn 2013. Samkvæmt skilmálum lánsins, sbr. og lög um LÍN, reglugerð og úthlutunarreglur, skal kærandi byrja endurgreiðslur lánsins tveimur árum eftir námslok, nema sérstök heimild sé til að fresta lokun skuldabréfsins. Í því tilviki þarf kærandi að "sækja sérstaklega um frestunina eigi síðar en 30. nóvember 2014." Á heimasíðu LÍN koma einnig fram upplýsingar um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir að ef námsmaðurinn er ennþá í fullu lánshæfu námi en er hættur að sækja um námslán geti hann sótt um frestun á lokun skuldabréfsins. Málskotsnefnd getur ekki fallist á það með kæranda að niðurstaða þessa máls eigi að ráðast af því að honum hafi ekki borist tilkynningar frá LÍN um frest til breytinga á lokun skuldabréfs. Gagnstætt því sem kærandi heldur fram hvílir engin tilkynningaskylda á LÍN heldur er samkvæmt þeim skilmálum sem kærandi gekkst undir við umsókn um námslán einungis heimild til að fresta lokun skuldabréfsins hjá þeim lánþegum sem sækja sérstaklega um frestun fyrir tilskilinn frest. Fyrir liggur í málinu að kærandi sótti ekki um frestun á lokun skuldabréfs til LÍN fyrr en 2. febrúar 2015 eða rúmum tveimur mánuðum eftir auglýstan umsóknarfrest. Það er viðurkennd meginregla að stjórnvöldum beri ekki skylda að taka til efnismeðferðar mál sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Að baki reglum LÍN búa málefnalegar ástæður er lúta að stjórn á fjárreiðum sjóðsins sem gera það mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir. Almennt beri því að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, svo sem þegar tekst að sanna að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að sótt væri um innan frests eða mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN. Hvorugt á við í þessu máli að áliti málskotsnefndar. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda og er hinn kærða ákvörðun þess vegna staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærða ákvörðun stjórnar LÍN frá 20. mars 2015 í máli kæranda er staðfest.

Til baka